• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Feb

Búið að greiða vangreidd laun skipverjana á Castor Star

Samkomulag hefur náðst við gríska útgerðarmanninn sem á og rekur flutningaskipið Castor Star.  En eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafði áhöfnin ekki fengið laun í um 5 mánuði og matarkostur um borð var af skornum skammti.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér frá eftirlitsmanni Alþjóðaflutningasambandsins þá náðist samkomulag við gríska útgerðamanninn í gærkveldi. Samkomulagið gengur út á það að skipverjunum var greitt allt það sem þeir áttu inni hjá útgerðinni og kjör þeirra voru látin taka eftir samningum sem gilda hjá Alþjóðaflutningasambandinu, sem er 50% hærra heldur skipverjarnir höfðu samið um.

 Skipverjarnir, sem eru frá Georgíu og Úkraínu, hafa hins vegar tekið þá ákvörðun að hætta á umræddu skipi og er þessa stundina verið að koma hluta af áhöfninni út á flugvöll þar sem þeir munu halda til síns heima seinna í kvöld.  Uppskipun á súrálinu er nú þegar hafin úr Castor Star og er reiknað með að uppskipun taki einn til tvo daga.

Það er ánægjulegt að skipverjarnir skuli hafa náð öllum sínum kröfum fram.  Hins vegar er það dapurlegt að þeir skyldu ekki treysta sér til að vinna fyrir gríska útgerðamanninn lengur, en lái þeim hver sem vill.

11
Feb

Byrjað að bræða loðnu í kvöld

Fyrsta loðnan sem landað hefur verið hér á Akranesi á þessari loðnuvertíð barst í gærkveldi, en þá landaði Faxi RE um 1.100 tonnum.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins aflaði sér þá er búið að manna á vaktir í síldarbræðslunni og er reiknað með að bræðsla hefjist í kvöld.

Það er mikið fagnaðarefni að sjá að tannhjól síldarbræðslunnar séu byrjuð að snúast aftur eftir gríðarlegan samdrátt á liðnu ári, en nú er liðið rúmt ár síðan bræðsla átti sér stað síðast í verksmiðjunni.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var flest öllum starfsmönnum verksmiðjunnar sagt upp störfum í janúar í fyrra vegna samdráttar á uppsjáfarafla.  Hins vegar hefur einhver hluti af þeim starfsmönnum sem sagt var upp störfum í fyrra verið endurráðnir, því ber að fagna. 

09
Feb

Stál í stál í deilu skipverja Castor Star við gríska útgerðamanninn

Grískur útgerðarmaður flutningaskipsins Castor Star kom í morgun um borð í skipið í Grundartangahöfn ásamt lögmanni sínum. Áhöfnin hefur ekki fengið laun í um 5 mánuði og kostur um borð mun vera af skornum skammti.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér í morgun um málið þá er stál í stál í þessari deilu og þessa stundina er útlitið ekki bjart hvað varðar lausn á deilunni.  Samkvæmt upplýsingum frá eftirlitsmanni Alþjóðaflutningasambandsins sem gætir hagsmuna skipverjanna þá er útlitið ekki gott.  Krafan er skýr frá skipverjum, það er að þeir fái laun sín greidd og það eftir samningum sem fari að reglum Alþjóðaflutningasambandsins.

Skipið kom með súrál til Grundartanga í fyrradag. Eftirlitsmaður Alþjóðaflutningasambandsins kannaði aðbúnað og formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur kynnt sér málið eins vel og kostur er. Hefur formaðurinn lýst yfir vanþóknun sinni á meðferðinni á skipshöfn Castor Star. Skipverjar, sem eru frá Georgíu og Úkraínu, sögðust ekki hafa fengið laun greidd frá því í september og auk þess hefðu þeir ekki fengið almennilegan mat í þrjár vikur. Athugun mun hafa leitt í ljós að matur var af skornum skammti og illa farinn og því stöðvuðu skipverjarnir sjálfir uppskipun í hádeginu í gær að höfðu samráði við eftirlitsmann Alþjóðaflutningasambandsins.

 

Fulltrúi Siglingastofnunar kom síðan um borð í morgun til að kanna skipið og pappíra því tengdu.  Eins og áður sagði þá finnur formaður félagsins til með áhöfn skipsins og vonar að þessar aðgerðir skipverjanna beri tilætlaðan árangur.

08
Feb

Skipverjar fá ekki laun og eru nánast matarlausir

Formaður félagsins fór og kynnti sér ástandið um borð í flutningaskipinu sem er að losa súrál fyrir Norðurál í Grundartangahöfn, en skipverjarnir sjálfir stöðvuðu uppskipun úr skipinu nú í hádeginu.  Grundartangasvæðið þ.m.t, höfnin tilheyrir félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Eftirlitsmenn á vegum Alþjóðaflutningasambandsins (IFT) hafa einnig verið á svæðinu til að gæta hagsmuna þeirra sem eru í áhöfn skipsins.

Skipið siglir undir fána Panama en er í eigu grísks útgerðarmanns og telur áhöfnin 17 Úkraínumenn og Georgíumenn. 

Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins fékk þá hafa skipverjarnir ekki fengið laun síðan í september og því til viðbótar er matur um borð í skipinu af afar skornum skammti.  Einnig fékk formaður félagsins þær upplýsingar að skipverjar séu verulega uggandi um sinn hag.

Útgerðarmaður skipsins er á leið hingað til lands frá Grikklandi vegna málsins. Vonandi leysist þessi deila sem allra fyrst.

Hins vegar er það með öllu óþolandi og ólíðandi ef rétt reynist að skipverjar hafi ekki fengið laun sín greidd frá því í september í fyrra, og ekki bætir úr skák að skipverjar séu nánast matarlausir. Það þarf að taka á þeim útgerðarmönnum sem haga sér með þessum hætti af fullri hörku, sama hvar næst til þeirra. 

07
Feb

Lágmarkslaun eru 125.000 fyrir fullt starf

Af gefnu tilefni vill formaður félagsins vekja athygli félagsmanna á því að lágmarkstekjur fyrir fullt starf (173,33 tímar) eru frá áramótum 125.000 kr á hinum almenn vinnumarkaði. að teknu tilliti til þess að starfsmaðurinn hafi náð 18 ára aldri og hafi starfað samfellt í fjóra mánuði. 

Til félagsins leitaði félagsmaður sem taldi að verið væri að brjóta á sér og reyndist það vera rétt hjá honum. 

Umræddur félagsmaður var að fá greitt sem almennur verkamaður eftir launataxta SGS við SA nánar tiltekið eftir launaflokki II þar sem byrjunarlaun eru kr. 121.317. Þessi umræddi starfsmaður er að vinna fullt starf og á þar af leiðandi að vera með að lágmarki 125.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf. Þessu til viðbótar var umræddur starfsmaður orðinn 22 ára og skv. kjarasamningum er það ígildi eins árs starfsreynslu.

Formaður félagsins hafði samband við umrætt fyrirtæki og greinilegt var að fyrirtækið áttaði sig ekki á því að lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu er 125.000 kr. Fyrirtækið taldi sig vera algerlega að standa við kjarasamninga þar sem það var að greiða eftir þeim lágmarkstöxtum sem getið er um í þeim.  Það er alveg ljóst að mati formanns félagsins að það þarf sannarlega að kynna þetta betur fyrir atvinnurekendum því þótt þeir séu að greiða lágmarkslaun skv. launatöxtum þ.e. kr. 121.317 þá verða þeir að  greiða uppbót á laun þeirra starfsmanna sem ekki ná lágmarkstekjutryggingu sem er kr. 125.000,-

06
Feb

Félagsmenn VLFA fá dagbók

Þessa stundina ættu allflestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness að vera búnir að fá senda heim til sín dagbók.  Í dagbókinni eru hinar ýmsu upplýsingar er lúta að starfsemi félagsins og einnig eru upplýsingar um hin ýmsu réttindamál sem tengjast okkar félagsmönnum. Dagbókin gildir einnig sem félagsskírteini.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image