• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Feb

Aflaskipið Víkingur Ak 100 heldur til loðnuveiða á morgun

Líf er að færast yfir aflaskipið Víking Ak 100, en til stendur að skipið haldi til loðnuveiða á morgun eftir um eins árs stopp. Eins og fram hefur komið á heimasíðu félagsins þá var öllum skipverjum sagt upp störfum í janúar í fyrra vegna samdráttar á uppsjávarafla.

Formaður félagsins fór og hitti nokkra skipverja í morgun sem voru að gera klárt svo hægt væri að halda til veiða.  Það leyndi sér ekki að skipverjar voru nokkuð kampakátir með þá ákvörðun að skipið skuli halda til loðnuveiða á ný.

Af síldarbræðslunni er það að frétta að búið er að ráða nokkra starfsmenn þar til vinnu og eru þeir að yfirfara tæki og tól svo allt verði nú klárt ef hráefni skyldi fara að berast til verksmiðjunnar, sem vonandi gerist von bráðar.

01
Feb

Aðalfundum deilda er lokið

Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur Stóriðjudeildar Verkalýðsfélags Akraness og hafa aðalfundir allra deilda þá verið haldnir. Engar mannabreytingar urðu í stjórn Stóriðjudeildar.

Á aðalfundi Opinberrar deildar VLFA sem haldinn var í fyrrakvöld var Ragnhildur Bjarnadóttir kosin ný inn í stjórn deildarinnar í stað Sigurlaugar Guðmundsdóttur. Sigurlaugu eru færðar bestu þakkir fyrir störf sín í félaginu.

Engar mannabreytingar urðu í stjórnum Almennrar deildar og Matvæladeildar.

30
Jan

Vinnumálastofnun kallar eftir gögnum frá fyrirtæki

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur Verkalýðsfélag Akraness haldið úti nokkuð öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem starfa á félagssvæði VLFA og eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Eftirlitið gengur út á það að tryggja að ekki sé verið að brjóta á réttindum þeirra erlendu starfsmanna sem starfa á okkar félagssvæði. 

Einnig gengur eftirlitið út á að kanna hvort þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn séu að uppfylla þau lagaskilyrði sem til þarf til að hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  T.d. hvort búið sé að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunnar eins og lög kveða á um og einnig hvort fyrirtæki séu að reka starfsmannaleigu án þess að hafa heimildir til slíks.

Nú þegar hefur Verkalýðsfélag Akraness bent Vinnumálastofnun á eitt fyrirtæki sem var að starfa á félagssvæði VLFA án tilskilinna leyfa.  Vinnumálastofnun fór í það mál af fullri einurð og hörku og kom í ljós að grunsemdir Verkalýðsfélags Akraness voru á rökum reistar þar sem viðkomandi fyrirtækið hafði ekki heimild til að starfa sem starfsmannaleiga.

Formaður félagsins hefur nokkuð sterkar grunsemdir um að annað fyrirtæki sé að starfa sem starfsmannaleiga án þess að hafa heimildir til slíks.  Hefur félagið nú þegar gert Vinnumálastofnun viðvart hvað varðar þessar grunsemdir. 

Fulltrúi frá Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins heimsóttu viðkomandi fyrirtæki í síðustu viku og mun Vinnumálastofnun í framhaldinu kalla eftir gögnum frá umræddu fyrirtæki til að kanna hvort verið sé að brjóta lög um starfsmannaleigur.

Formaður félagsins er afar ánægður með hvernig Vinnumálastofnun tekur á þeim málum sem komið hafa upp á félagssvæði VLFA, en vinnubrögð Vinnumálastofnunar hafa einkennst af fagmennsku og ákveðni. 

Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að félagsleg undirboð og brot á réttindum erlendra starfsmanna verður ekki látið átölulaust á félagssvæði Verklýðsfélags Akraness.  Ef ekki er tekið hart á slíkum brotum mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alla íslenska verkamenn.

29
Jan

Lagalegar heimildir verða að liggja fyrir varðandi lyfjaskimun á starfsmönnum Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa þau stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls verið í viðræðum við forsvarsmenn Norðuráls um fíkniefnapróf á starfsmönnum fyrirtækisins.  Forsvarsmenn Norðuráls vilja framkvæma þessa lyfjaskimun í góðu samráði við stéttarfélögin. 

Stéttarfélögin fengu lögmann ASÍ til sjá um málið fyrir hönd stéttarfélaganna m.a. til að kanna hvort lyfjaskimun á starfsmönnum stangaðist nokkuð við lög sem gilda um slíka lyfjaskimun.  Lögmaður ASÍ hefur einnig  kynnt sér fyrirtækið Impro sem mun koma til með að sjá um umrædda lyfjaskimun.  Lögmaður ASÍ kynnti sér t.d. fyrirliggjandi verklagsreglur Impro um skimun eftir vímuefnum þ.m.t. varðveislu og meðhöndlun gangna.

Afstaða formanns félagsins liggur fyrir hvað varðar lyfjaskimun almennt.  Formaður telur það mjög eðlilegt að fyrirtæki leiti allra leiða til að tryggja öryggi sinna starfsmanna hvað best.  En það er samt algert grunvallaratriði ef fyrirtæki ætlar að hefja lyfjaskimun á sínum starfsmönnum að fyrir liggi lagalegar heimildir til slíkra prófana.  Þess vegna vill formaður félagsins að fyrir liggi skriflegt álit frá lögfræðideild ASÍ og einnig frá Persónuvernd um að Norðuráli sé almennt heimilt að framkvæma slík lyfjapróf, sama hvernig slík próf verða framkvæmd.

Stéttarfélögin munu væntanlega funda von bráðar með forsvarsmönnum Norðuráls aftur um lyfjaskimun á starfsmönnum Norðuráls.

26
Jan

Bæjarráð samþykkti frjálsa félagaaðild starfsmanna Akraneskaupstaðar

Formaður félagsins fundaði með bæjarráði í gær og var tilefni fundarins félagsaðild starfsmanna Akraneskaupstaðar.  En eins og fram hefur komið þá hefur Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkur og varð sá samruni að veruleika nú um áramótin.

Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því við bæjarráð skriflega í desember sl. að starfsmenn bæjarins hefðu val um að ganga í Verkalýðsfélag Akraness ef þeir óskuðu þess.  Þessi ósk VLFA til bæjarráðsins er byggð á því að í gildi er félagafrelsi og á þeirri forsendu er ekki hægt að meina þeim sem vilja skipta um stéttarfélag að gera slíkt. 

Þessu til viðbótar er nauðsynlegt að minnast á algert grundvallaratriði í þessu máli: kjarasamningar Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar og Verkalýðsfélags Akraness við launanefnd sveitarfélaga (Akraneskaupstað) er í öllum grundvallaratriðum eins bæði hvað varðar launatöflu sem og önnur kjaratengd atriði.  

Nú hefur STAK sameinast Starfsmannafélagi Reykjavíkur eins áður hefur komið fram. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvort þeir starfsmenn sem voru í STAK og hafa nú verið fluttir yfir í Starfsmannafélag Reykjavíkur um áramótin muni strax byrja að taka laun eftir kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkur við Reykjavíkurborg eða vinna eftir þeim kjarasamningi sem STAK er með við launanefnd sveitarfélaga.  Væntanlega mun bæjaráð taka afstöðu til þess von bráðar.

Formaður félagsins hefur ítrekað bent á að ef kjarasamningur Starfsmannafélags Reykjavíkur myndi strax taka gildi um kaup og kjör fyrir fyrrverandi félagsmenn STAK þá myndu þeir sem hvað lægstu launin hafa lækka í launum og aðrir ófaglærðir myndu standa í stað hvað breytingar á launum varðar. Þessi staðreynd lá fyrir eftir að formaður félagsins hafði borið samninga STAK saman við kjarasamning Starfsmannafélags Reykjavíkur.  Hins vegar kom í ljós í þessum samanburði að stjórnendur, millistjórnendur og forstöðumenn myndu hækka jafnvel um tugi þúsunda ef þeir tækju laun eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar.  Formanni félagsins fannst nauðsynlegt að upplýsa ófaglærða starfsmenn Akraneskaupstaður um þessa ósanngirni.  Samanburður á þessum tveimur kjarasamningum sem unninn var af formanni félagsins hefur ekki enn verið hrakinn af forsvarsmönnum STAK.

Á bæjarráðsfundinum í gær var samþykkt að þeir starfsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað og voru í STAK hafa heimild til að ganga yfir í Verkalýðsfélag Akraness vegna þess að í gildi er félagafrelsi og einnig að Verkalýðsfélag Akraness er með í gildi kjarasamning við Akraneskaupstað.  Orðrétt segir í bókun bæjarráðs:

"Í gildi er samningur St.Ak og VLFA við Akraneskaupstað.  Er það skilningur bæjarráðs að einstakir félagar geti valið sér félagsaðild" 

Þetta þýðir að þeir starfsmenn Akraneskaupstaðar sem vilja skipta um stéttarfélag geta gengið í VLFA og greitt til Verkalýðsfélags Akraness og notið alls þess sem félagið hefur uppá að bjóða sem er æði margt t.d. mjög öflugur sjúkrasjóður, góð orlofshús, góðir starfsmenntasjóðir og svona mætti lengi telja.  Félagið rekur mjög öfluga skrifstofu sem saman stendur af þremur starfsmönnum í fullu starfi hefur góðan lögmann á sínum snærum og aðgang að hagfræðingi og annarri sérfræðilegri aðstoð sem tengist starfsemi stéttarfélaga.  Í dag er Verkalýðsfélag Akraness eitt af virkustu stéttarfélögum á landinu og lætur til sín taka í öllum hagsmunamálum er lúta að réttindum okkar félagsmanna.

Rétt er að nefna það í lokin að í gengum tíðina hefur það verið þannig að þegar auglýst hafa verið störf á vegum bæjarins þá hefur einungis verið nefnt að laun taki eftir kjarasamningi STAK við Akraneskaupstað en ekki getið þess að Verkalýðsfélag Akraness hefur einnig verið með kjarasamning við Akraneskaupstað.  Það er því alveg ljóst að ekki hefur verið gætt jafnræðis gagnvart VLFA þegar störf hafa verið auglýst á vegum bæjarins.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari ákvörðun bæjarráðs innilega og vonast til að starfsmenn Akraneskaupstaðar kynni sér ítarlega hvað þjónustu félagið er að veita sínum félagsmönnum.  Vonandi verður þessi ákvörðun bæjarráðs til þess að VLFA verði enn öflugra stéttarfélag heldur en það er nú þegar orðið.

25
Jan

Aðalfundur Matvæladeildar haldinn í kvöld

Félagsmenn sem tilheyra Matvæladeild Verkalýðsfélags Akraness eru hvattir til að mæta á aðalfund deildarinnar í kvöld kl. 18:00 að Sunnubraut 13.

Á dagskrá fundarins eru venjubundin aðalfundastörf og önnur mál.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image