• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Jan

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness styrkir kaup á sneiðmyndatæki

Stjórn Sjúkrasjóðs Verkalýðsfélag Akraness ákvað á fundi í gær að styrkja myndalega kaup á sneiðmyndatæki fyrir Sjúkrahús og heilsugæslustöð Akraness. Styrkurinn nemur 1 milljón króna.

Að sögn Guðjóns Brjánssonar framkvæmdastjóra SHA er áætlað að taka sneiðmyndatækið í notkun seinni partinn í janúar og er áætlað að í það minnsta muni á milli 400 og 500 sjúklingar fara í rannsókn í umræddu sneiðmyndatæki ár hvert.  

Sjúkrahúsið á Akranesi hefur til þessa flutt sína sjúklinga til Reykjavíkur þegar sjúklingur hefur þurft að fara í rannsókn í sneiðmyndatæki.  Það mun brátt heyra sögunni til og það til mikillar hagræðingar fyrir sjúklinga hér á Akranesi sem og á öllu Vesturlandi.

11
Jan

Atvinnuhorfur á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness feiki góðar um þessar mundir

Óhætt er að segja að það sé bjart yfir atvinnuhorfum hjá okkur Skagamönnum á næstu misserum.  Formanni Verkalýðsfélags Akraness reiknast til að það séu að skapast allt að 100 ný störf bæði hér á Akranesi og störf tengd stóriðjunni á Grundartangasvæðinu. 

Í desember byrjaði Norðurál að ráða starfsmenn vegna loka stækkunarinnar, en í lokaáfangann þurfti Norðurál að ráða á milli 50 til 60 nýja starfsmenn.  Í dag á Norðurál eftir að ráða í kringum 30 starfsmenn og munu þær ráðningar fara fram í janúar og febrúar.  Þegar stækkuninni er lokið er áætlað að starfsmenn Norðuráls verði í kringum 430.

Síðan er rétt að nefna það að Íslenska járnblendifélagið hefur ákveðið að hefja framleiðslu á sérefni sem nefnist FSM og er áætlað að sú framleiðsla hefjist í febrúar 2008.  Reiknað er með að starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins fjölgi um allt að 35 við þessa nýju framleiðslu.

Einnig hafa forsvarsmenn HB Granda gefið það út að þeir hafi í hyggju að hefja beinabræðslu hér á Akranesi í það minnsta tímabundið, en sú starfsemi hefur verið í Reykjavík undanfarin ár.  Við þessa tilfærslu munu einhver ný störf skapast í verksmiðjunni að nýju.  Einnig hefur verið haft eftir forsvarsmönnum HB Granda að hugsanlegt sé að landvinnslan verði aukin í kjölfar þess að fjölveiðiskipið Engey hefur verið sett í ný verkefni útí heimi.  Vonandi mun það skapa einhver ný störf, en það er alls óvíst.

Í fréttum í gær kom fram hjá forstjóra Sementsverksmiðjunnar að þeir hafi áhuga á að auka framleiðsluna um allt að 50% sem þýðir að 6 ný störf myndu skapast við þá aukningu. 

Ef við listum þetta nánar upp þá eru eftirfarandi störf í boði á næstu 12 mánuðum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness:

  • Norðurál 30 ný störf.
  • Íslenska járnblendið 35 ný störf.
  • HB Grandi í það minnsta 6 ný störf (tímabundið)
  • Sementsverksmiðjan 6 ný störf (ekki öruggt)
  • Gámaþjónustan auglýsir eftir starfsmönnum (ekki vitað hversu mörgum)
  • Trésmiðjan Akur auglýsir eftir smiðum (ekki vitað hversu mörgum)

Á þessu sést að atvinnuhorfur á Akranesi eru feiki góðar um þessar mundir.

10
Jan

Vinnumálastofnun hefur í hyggju að stöðva starfsemi Geymis ehf

Vinnumálastofnun hefur í hyggju að láta lögregluna stöðva starfsemi hjá fyrirtækinu Geymir ehf.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur umrætt fyrirtæki leigt pólska verkamenn til verka hér á Akranesi án þess að hafa tilskilin leyfi til að starfa sem starfsmannaleiga.  Formaður félagsins upplýsti Vinnumálastofnun um grunsemdir sínar um umrætt fyrirtæki fyrir áramót og afhenti stofnuninni einnig gögn sem staðfestu að fyrirtækið var að leigja erlenda starfsmenn án tilskilinna leyfa.

Formaður félagsins er afar ánægður með hvernig Vinnumálastofnun hefur tekið á þessu máli.  Hafa vinnubrögð Vinnumálastofnunar einkennst af mikilli einurð og ákveðni og lét Gissur Pétursson forstjóri stofnunarinnar t.d hafa það eftir sér í Blaðinu að þetta mál hefði algeran forgang hjá Vinnumálastofnun.

Verkalýðsfélag Akraness hefur annað fyrirtæki grunað um að leigja út erlenda starfsmenn hér á Akranesi, án þess að hafa tilskilin leyfi til að starfa sem starfsmannaleiga.  Hefur formaður félagsins einnig gert Vinnumálastofnun grein fyrir því máli.

08
Jan

Launahækkanir sem tóku gildi 1. janúar 2007

Laun á almenna vinnumarkaðnum samkvæmt kjarasamningi SGS og SA hækka um 2,9%. 1. janúar 2007 og einnig laun þeirra sem starfa samkvæmt kjarasamningi SGS við ríkið, 2,9% .

Laun þeirra sem starfa samkvæmt kjarasamningi SGS og Launanefndar sveitarfélaga hækka hins vegar um 3% 1. janúar 2007.  Hjá Íslenska járnblendifélaginu, Fangi og Klafa hækka laun um 3,15%   Hjá Norðuráli hækka laun um 3,65%

 Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna hækkar úr 7% í 8% um áramótin samkvæmt kjarasamningi SA og SGS.  Einnig hækkar framlag atvinnurekanda í starfsmenntasjóð úr 0,05% í 0,15%

Lágmarkslaun fyrir dagvinnu hækka í 125.000 krónur á mánuði 1. janúar 2007, samkvæmt kjarasamningi SGS og SA en þau voru 123.000  frá 1. júlí s.l.

Persónuafsláttur einstaklinga hækkar úr 29.029 krónum í 32.150 samkvæmt samkomulagi ASÍ við ríkisstjórnina 22. júní s.l.

05
Jan

Tryggja verður að lyfjaskimun á starfsmönnum sé innan gildandi laga

Eins og fram hefur komið á heimasíðu Norðuráls þá hefur Norðurál til athugunar að taka upp lyfjaskimun sem lið í heildaráætlun um öryggi starfsmanna sinna. Í þessu skyni hefur Norðurál fengið til liðs við sig innlent sérfræðifyrirtæki sem hefur áralanga reynslu af framkvæmd lyfjaskimunar fyrir fyrirtæki á Íslandi. Komi til lyfjaprófana á vegum Norðuráls verða þau útfærð að höfðu samráði við verkalýðsfélög, innan ramma viðeigandi laga og í samræmi við reglur þeirra opinberu stofnana sem í hlut eiga.

Á miðvikudaginn var áttu stéttarfélögin mjög góðan fund með forsvarsmönnum Norðuráls þar sem þessi mál voru rædd.  Á fundinum var ákveðið að setja málið í ákveðinn farveg til skoðunar í fullri samvinnu við stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að fyrirtækið leiti allra leiða til að tryggja öryggi starfsmanna sem best.  En það er skoðun formanns félagsins að það þurfi að liggja algerlega fyrir að þegar tekið er fíkniefnapróf á starfsmönnum þá sé það innan ramma þeirra laga sem gilda um slík próf. 

Það verður að kanna það mjög vel hvort verið sé að brjóta á réttindum starfsmanna þegar slík próf fara fram eins og t.d. lög um persónuvernd einstaklinga sem og önnur þau lög sem kunna að gilda um lyfjaskimun af því tagi sem Norðurál hefur í hyggju að taka upp í fyrirtækinu.

Þá má nefna það að maður að nafni Ólafur Skorrdal sendi fyrirspurn til Dómsmálaráðuneytisins, 8. janúar 2004 varðandi fíkniefnaprófanir á lögregluþjónum, bæði almennum og öðrum innan rannsóknardeilda lögreglunnar.  Í svari frá Dómsmálaráðuneytinu sem barst 13. janúar 2004 kom eftirfarandi fram.

"Vísað er til fyrirspurnar þinnar til dómsmálaráðuneytisins varðandi fíkniefnaprófanir á lögreglumönnum, bæði almennum og öðrum innan rannsóknardeilda lögreglunnar.

Lögreglumenn eru ekki látnir gangast undir líkamsrannsókn vegna leitar að fíkniefnum. Til að lögreglan framkvæmi slíka rannsókn þarf að vera fyrir hendi rökstuddur grunur um lögbrot og gildir þá einu hvort sá einstaklingur er lögreglumaður eða ekki. Heimild til líkamsrannsóknar (líkamsskoðunar) grundvallast á 92., 93. og 96. gr. laga um meðferð opinbera mála nr. 19/1991. Ekki er tilefni til að leggja þær kvaðir á lögreglumenn sem þú nefnir í fyrirspurn þinni. Fyrrnefnd lög er unnt að nálgast á vef Alþingis".

Undir þetta ritaði
Guðmundur Guðjónsson
yfirlögregluþjónn
hjá ríkislögreglustjóranum

Á þessi svari sést að vanda þarf vel til verka þegar ákveðið er að taka upp lyfjaskimun í fyrirtækjum.  Formaður VLFA vill samt að það komi skýrt fram að hann er hlynntur öllum þeim aðgerðum sem stuðla að bættu öryggi starfsmanna, en það verður að vera eins og áður sagði gulltryggt að þær aðgerðir séu innan ramma þeirra laga sem gilda um slík lyfjapróf.

04
Jan

Starfsmenn Laugafisks fá kaupauka sem nemur 125.000 þúsundum

Starfsfólki Laugafisks, sem er í eigu Brims, var tilkynnt á fundi í gær að vegna góðrar afkomu fyrirtækisins (Brims) hefði stjórn þess ákveðið að veita hverjum og einum starfsmanni kaupauka að upphæð kr. 125.000 miðað við 100% starfshlutfall. Tæplega 30 manns vinna hjá fyrirtækinu og njóta þeir allir góðs af þessum góða kaupauka.  Allir núverandi starfsmenn Laugafisks fá fullan kaupauka að upphæð 125.000.

Aðspurð sagði Inga Jóna Friðgerisdóttir, framkvæmdastjóri Laugafisks að stjórn Brims hefði ákveðið að greiða þennan kaupauka vegna þess að afkoma og framlegð Brims hefði verið góð á síðasta ári og því hefði stjórn félagsins tekið þá ákvörðun að leyfa starfsfólkinu að njóta þess. Án góðra starfsmanna væri ekki hægt að ná slíkum árangri og að þetta væri góð leið til að sýna í verki að stjórn fyrirtækisins kynni vel að meta framlag starfsmanna sinna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur ofan fyrir stjórn Brims fyrir að verðlauna starfsmenn með slíkum myndarskap og mættu önnur fyrirtæki taka þetta framlag stjórnar Brims sér til fyrirmyndar.  Í dag eru lágmarkslaun 125.000 á mánuði fyrir fulla dagvinnu, og er þessi kaupauki því ígildi eins mánaðar dagvinnulauna. 

Að lokum vill formaður Verkalýðsfélags að það komi fram að samstarf við forsvarsmenn Laugafisks hér á Akranesi hefur verið með eindæmum gott og álítur formaður að hér sé um að ræða eitt af þeim fyrirmyndarfyrirtækjum sem starfa á okkar félagssvæði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image