• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Mar

Formaður félagsins og framkvæmdastjóri SGS fóru á fund sérnefndar Alþingis í morgun

Formaður félagsins fór í morgun ásamt framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins á fund sérnefndar Alþingis sem hefur það verkefni að fjalla um frumvarp um auðlindaákvæði í stjórnarskrá (þjóðareign á náttúruauðlindum).

Hafði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar óskað eftir áliti SGS á umræddu frumvarpi. 

Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS fór yfir afstöðu SGS í þessu máli og kom fram í hans máli að SGS vill að náttúruauðlindir Íslands séu í þjóðareign og þær nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina.  

Formaður félagsins telur það afar brýnt að auðlindir hafsins sem og aðrar auðlindir séu eign þjóðarinnar.  Hins vegar verður að tryggja að frumvarpið skapi ekki réttarfarslega óvissu. 

Það er með öllu óþolandi að horfa uppá hvernig kvótakerfið hefur leikið margar byggðir þessa lands.  

Það getur vart verið eðlilegt að útgerðamaður sem hefur umráðarétt yfir aflaheimildum geti ákveðið uppá sitt einsdæmi að hætta útgerð og selt allar aflaheimildir frá sér og skilið heilt byggðarlag í sárum.  Gengið í burtu með tugi ef ekki hundruði milljóna króna í vasanum og skilið sjómenn og fiskivinnslufólk eftir atvinnulaust og nánast allslaust. 

Þetta atvinnuóöryggi sem sjómenn og fiskvinnslufólk þarf að búa við er ekki nokkrum bjóðandi.  Við Skagamenn höfum að undanförnum misserum þurft að horfa eftir umtalsverðum aflaheimildum sem seldar hafa verið burt úr bænum.  Nægir þar að nefna að smábátaútgerð hér á Akranesi hefur dregist stórlega saman á síðustu mánuðum.  Einnig hefur starfsfólki Haraldar Böðvarssonar fækkað umtalsvert við sameiningu við Granda.  Starfsöryggi sjómanna og fiskivinnslufólks er verulega ótryggt í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Það er gríðarlega mikilvægt að sátt náist í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmál okkar Íslendinga.  Það sjávarútvegskerfi sem við búum við núna er eins ósanngjarnt og hugsast getur og því þarf að breyta, þjóðinni allri til hagsbóta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image