• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Er smábátaútgerð að leggjast af á Akranesi? Akraneshöfn
29
Mar

Er smábátaútgerð að leggjast af á Akranesi?

Formaður félagsins hefur að undanförnu verið að skoða hversu mörg þorskígildistonn tengd smábátaútgerð hafa verið seld héðan úr byggðarlaginu á undanförnum árum.  Í þeirri skoðun, sem byggð er á gögnum frá Fiskistofu, hefur komið í ljós að um 1000 þorskígildistonn hafa horfið frá Akranesi á síðustu fjórum árum.

Sé hins vegar horft tíu ár aftur í tímann er ekki óvarlegt að segja að um 1500 þorskígildistonn hafi horfið héðan af Akranesi.  Formaður veltir því fyrir sér hvort smábátaútgerð sé yfir höfuð að leggjast af hér á Akranesi og er það alls ekki að ástæðalausu þegar þessar bláköldu staðreyndir liggja fyrir.

Það er alveg ljóst að æði mörg vel launuð störf hafa hafa tapast hér á Akranesi vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur á smábátaútgerð á liðnum árum og það bæði til lands og sjós.

Á Akranesi var gríðarlega öflug smábátaútgerð fyrir örfáum árum og reiknast formanni félagsins til að nálægt tuttugu smábátar hafi hætt starfsemi á síðustu tíu árum eða svo.

Það liggur fyrir að margir sjómenn og beitningarmenn sem eru félagsmenn í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sitja eftir með sárt ennið þegar útgerðamaður tekur þá ákvörðun um að selja sínar aflaheimildir og hætta allri starfsemi.  Á þessu sést að atvinnuöryggi þeirra sem stunda sjómennsku á smábátum er vægast sagt afar ótryggt.

Það er löngu orðið ljóst að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér er við lýði á stóran þátt í þessari slæmu þróun sem orðið hefur á liðnum árum og þá sérstaklega framsalsþátturinn.  Er það eðlilegt að útgerðamaður geti gengið út úr greininni með tugi ef ekki hundruðir milljóna króna á meðan sjómaðurinn sem jafnvel hefur verið starfandi hjá viðkomandi útgerðamanni í tugi ára er réttindalaus og í raun allslaus? Auðlindir hafsins eru jú eign þjóðarinnar, ekki satt?

Þessu til viðbótar er nýliðun í greininni nánast útilokuð sökum hversu hátt verð er á aflaheimildum. Sem dæmi má nefna að kílóverðið á þorski í aflamarkskerfinu er að nálgast 3000 kr. Það er því greinilegt að ekki verður mikið um nýliðun í greininni á meðan slík verð eru fyrir aflaheimildir á þorski.

Það er algjört grundvallaratriði að sátt náist í sjávarútvegsstefnu okkar Íslendinga í komandi kosningum og atvinnuöryggi sjómanna verði tryggt með einhverjum hætti.  Það verður að tryggja að smábátaútgerð verði áfram starfrækt hér af fullum krafti því hér er um afar atvinnuskapandi útgerðarmynstur að ræða. Þessu til viðbótar er vert að benda á að hráefnið sem smábátar koma með að landi er fyrsta flokks og einnig er útgerðamynstur smábáta afar vistvænt.

Það er algjörlega óviðunandi að sjómenn þessa lands og reyndar heilu byggðarlögin búi við slíkt atvinnuóöryggi öllu lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image