• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Nov

Fundað með starfsmönnum síldarbræðslunnar

Í dag fór formaður félagsins í vinnustaðaheimsókn til þeirra starfsmanna HB Granda sem starfa í síldarbræðslunni.  Átti formaður gott samtal við starfsmennina, en sérkjarasamningur starfsmanna síldarbræðslunnar rennur út um áramótin. 

Fóru starfsmenn yfir þau atriði sem þeir vilja leggja mesta áherslu á í komandi kjarasamningum.  Einnig var rædd sú hugmynd að gera einn kjarasamning fyrir allar síldarbræðslurnar á landinu. 

Síldarbræðslum á landinu hefur verið að fækka jafn og þétt undanfarin ár og í dag eru ekki nema þrjár til fjórar sem eru í einhverjum rekstri sem heitið getur. 

Starfsmenn bræðslunnar hér á Akranesi tóku svosem ekkert fálega í þá hugmynd að gera einn kjarasamning fyrir allar bræðslurnar en þó var ekki tekin endanleg ákvörðun hvað það varðar.

 Það er alveg ljóst að lagfæra þarf kjör starfsmanna síldarbræðslunnar hér á Akranesi umtalsvert í komandi kjarasamningum einfaldlega vegna þess að bræðsla á uppsjávarafla hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.  En samdráttur á bræðslu uppsjávarafla bitnar illilega á kjörum starfsmanna þar sem kjörin byggjast að verulegu leyti á vaktarálögum og öðru slíku. 

09
Nov

Nýir trúnaðarmenn kosnir hjá Smellinn

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hélt formaður nýverið kynningarfund fyrir starfsmenn Smellinn. Á þeim fundi kom fram að enginn trúnaðarmaður var hjá fyrirtækinu eftir að sá sem áður hafði gegnt því starfi lét af störfum.

Því var ákveðið að ganga til kosninga um nýja trúnaðarmenn sem fyrst. Samkvæmt kjarasamningum er starfsmönnum heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 til 50 manns en tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn yfir 50. Sú er einmitt raunin hjá Smellinn og voru starfsmenn ekkert að tvínóna við hlutina og hafa nú þegar kosið sér nýja trúnaðarmenn.

Atkvæði voru talin hér á skrifstofu félagsins í gærdag og féllu þannig að flest atkvæði hlutu þeir Stefán Magnússon og Rafal Bohdan. Eru þessir nýju trúnaðarmenn starfsmanna Smellinn boðnir hjartanlega velkomnir til starfa.

Trúnaðarmenn eru fulltrúar stéttarfélaganna á vinnustöðum.  Hlutverk trúnaðarmanna á vinnustöðum er margþætt.  Hlutverk trúnaðarmanna er m.a. að vinna að bættum kjörum vinnufélaga sinna, jafnframt því sem þeir eru talsmenn atvinnuöryggis, félagslegs öryggis, skynsamlegra stjórnarhátta á vinnustöðum og eru samráðsaðilar vegna breytinga á vinnustöðum.

Þeir eiga að reyna að leysa úr fyrirspurnum félaga sinna og rannsaka umkvartanir þeirra ef þær varða félagslegan eða lagalegan rétt starfsmanna. Í framhaldi á því eiga þeir að krefjast lagfæringa ef kröfurnar reynast réttmætar og að sjálfsögðu aðstoða starfsmenn félagsins trúnaðarmennina þegar ágreiningur kemur upp á vinnustað.  En mjög gott samstarf hefur verið á milli trúnaðarmanna félagsins við starfsmenn félagsins í gegnum árin.

07
Nov

Greiðslur úr sjúkrasjóði hafa stóraukist á milli ára

Eins og flestir félagsmenn vita þá hefur núverandi stjórn sjúkrasjóðs stóraukið réttindi félagsmanna í sjúkrasjóði félagsins. Samtals hefur 5 nýjum bótaflokkum verið bætt við síðan í maí í fyrra. Var það gert vegna góðrar afkomu sjóðsins á undanförnum árum og er einn liður í því að bæta réttindi okkar félagsmanna.

Greiðslur úr sjóðnum hafa aukist um 55,2% á milli áranna 2006-2007 en heildargreiðslur frá janúar til október 2006 voru 12.340.268 kr. en á sama tíma í ár námu greiðslur 19.164.002 kr.

Skýringarinnar á þessari aukningu má rekja til hækkunar á sjúkradagpeningum og þeirra 5 nýju styrkja sem teknir voru inn á síðasta aðalfundi. Síðast en ekki síst hefur verið unnið markvisst að því að kynna fyrir félagsmönnum þau réttindi sem þeir eiga á greiðslum úr sjóðnum.

Þó svo að greiðslur úr sjúkrasjóði hafi aukist um 55,2% þá stendur sjóðurinn mjög vel og er ein aðalástæða þess mikil fjölgun félagsmanna á undanförnum 3 árum.

05
Nov

Framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn

Frestur til að skila inn framboðslistum til stjórnarkjörs rann út á hádegi í dag. Þar sem ekki bárust aðrir listar en sá sem stjórn og trúnaðarráð lagði fram telst sá listi sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Nokkrar breytingar hafa orðið á stjórn félagsins frá því síðast. Úr stjórn gengu Auður Ásgeirsdóttir og Hjörtur Júlíusson og vill stjórn félagsins færa þeim kærar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og þátttöku þeirra í þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur á starfsemi félagsins á undanförnum árum.

Í stað Auðar tekur Bryndís Ó. Guðjónsdóttir nú sæti varaformanns félagsins en Bryndís var áður ritari. Guðmundur Rúnar Davíðsson er nú ritari stjórnarinnar, Þórarinn Helgason vararitari og þau Júlíus Pétur Ingólfsson og Skúlína Guðmundsdóttir meðstjórnendur.

Nýr formaður stóriðjudeildar er Oddur Kristinn Guðmundsson. Nýr formaður sjómannadeildar er Jóhann Örn Matthíasson og nýr varaformaður þeirrar deildar er Svavar S. Guðmundsson. Nýr varaformaður almennrar deildar er Tómas Rúnar Andrésson.

Að öðru leyti hafa ekki orðið fleiri mannabreytingar í stjórn. Vill formaður bjóða stjórnarmenn hjartanlega velkomna til starfa með von um að samstarfið verði félaginu áfram jafn farsælt og það hefur verið hingað til.

Hægt er að sjá lista nýrrar stjórnar með því að smella á meira.

Aðalstjórn    

Formaður           

Vilhjálmur Birgisson     

Varaformaður

Bryndís Ó. Guðjónsdóttir      

Ritari

Guðmundur R. Davíðsson

Vararitari

Þórarinn Helgason               

Meðstjórnandi

Júlíus Pétur Ingólfsson               

Varameðstjórnandi          

Skúlína Guðmundsdóttir     

                          

Formenn deilda

Stóriðjudeild          

Oddur Kristinn Guðmundsson

Almenn deild

Elí Halldórsson

Opinber deild

Sigríður Sigurðardóttir

Matvæladeild

Guðrún Linda Helgadóttir

Iðnsveinadeild

Sigurður Guðjónsson

Sjómanna- og vélstjórad.

Jóhann Örn Matthíasson

Varaformenn deilda

Stóriðjudeild

Jón Jónsson

Almenn deild

Tómas Rúnar Andrésson

Opinber deild

Guðrún Guðbjartsdóttir

Matvæladeild

Alma M. Jóhannsdóttir

Iðnsveinadeild           

Þórólfur Guðmundsson

Sjómanna og vélstjórad.  

Svavar S. Guðmundsson

02
Nov

Formaður í vinnustaðaheimsókn hjá HB Granda

Sá mikli niðurskurður á aflaheimildum í þorski hefur ekki bitnað á landvinnslunni hér á Akranesi, alla vega ekki enn sem komið.  er.  Formaður félagsins fer reglulega í vinnustaðaheimsókn í frystihúss HB Granda hér á Akranesi til að taka púlsinn á starfseminni.

Það hefur verið hægt að halda úti nánast fullri vinnslu síðustu vikur en megin uppstaða hráefnisins hefur verið ufsi og ýsa.  Aflaskipið Ebbi Ak 37 sem er á línuveiðum hefur landað ýsu til vinnslu til frystihússins og er hér um tilraunaverkefni að ræða.  Ef vel tekst til þá er hugsanlegt að fleiri smábátar landi ýsu til vinnslu í frystihúsið hér á Akranesi sem yrði gríðarlega mikið fagnaðarefni.  Til að hægt sé að vinna línu ýsuna þá má hún ekki vera undir 1,2kg að þyngd annars er nýtingin ekki nógu hagkvæm, best að hún sé í kringum 1,5kg.

Það yrði ánægjulegt ef hægt væri að nýta sem mest þann afla sem berst af smábátum til landvinnslunnar hér á Akranesi.

Formanni hefur ávalt fundist það grátlegt að horfa á eftir öllum þeim afla sem smábátar veiða seldan burtu úr byggðarlaginu til vinnslu annarstaðar á landinu, en hér getur verið um að ræða töluvert magn á ársgrundvelli

Það er því ánægjulegt að HB Grandi sé að gera tilraun með vinnslu á línuýsu sem veitt er af smábát sem gerður eru út héðan frá Akranesi.  

Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir samfélagið hér á Akranesi að ekki verði samdráttur í landvinnslu HB Granda, enda hefur HB og nú HB Grandi hefur verið fjöregg okkar skagamanna í rúm hundrað ár og átt stóran þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur hér á Akranesi á liðnum áratugum. 

01
Nov

Ótrúlegt viðhorf fjármálaráðherra til hækkunar lægstu launa

Í blaðinu 24 stundir í dag er viðtal við Árna Mathiesen fjármálaráherra þar sem fjallað er um komandi kjarasamninga.  Fjármálaráðherra segir m.a. í viðtalinu orðrétt,  "Kröfur um þrjátíu prósenta hækkun lægstu launa hafa oft heyrst í aðdraganda kjarasamninga, en svo róast hlutirnir og færast nær raunveruleikanum".  Einnig sagði fjármálaráðherra að ríkið hefði ekki svigrúm til 30% launahækkunar.

Það er afar athyglisvert að fjármálaráðherra geri lítið úr þeim kröfum sem aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hafa verið að móta að undanförnu og nánast hlær að þeirri kröfu stéttarfélaga að lágmarkslaun hækki úr 125 þúsundum í 170 þúsund.  Fjármálaráðherra talar um að algengt sé að háar kröfur heyrist í upphafi kjarasamninga en róist síðan og færist nær raunveruleikanum.

Verkalýðsfélag Akraness mun standa fast á þeirri kröfu að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr. á tveggja ára samningstímabili og telur formaður að víðtæk samstaða sé innan Starfsgreinasambands Íslands um slíka hækkun. Nú þarf SGS að sýna fulla samstöðu til að slík hækkun verði að veruleika fyrir íslenskt verkafólk og sýna fjármálaráðherra um leið að krafa um 40% hækkun í upphafi kjarasamningaviðræðna haldi alla leið.

Fjármálaráðherra telur að kröfur stéttarfélaganna séu óraunhæfar ef marka má viðtalið við hann í 24 stundum í dag. Í því sambandi er rétt að minna ráðherra á að lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað úr 63.000 kr í 125.000 kr. frá árinu 1997, eða sem nemur 105%. Á sama tíma hefur þingfararkaup ráðherrans hækkað um 145% eða 40% meira en lágmarkslaunin. Ef lágmarkslaun hefðu hækkað með sambærilegum hætti og þingfararkaupið þá væru lágmarkslaunin í dag 160.000 kr. Svo talar ráðherrann um að menn eigi að færast nær raunveruleikanum? Hvað skyldi ráðherranum finnast um þær greiðslur sem handhafar forsetavaldsins fá þegar forseti Íslands er erlendis, en samkvæmt fréttum þá voru handhöfum forsetavalds greiddar 8 milljónir vegna utanferða forseta.  Það væri nær að fjármálaráðherra liti í eigin barm hvað varðar launahækkanir og nægir að nefna lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra í því samhengi, þau eru ekki í neinu samræmi við það sem almennt launafólk hefur.

Það er eins og áður sagði með ólíkindum að í hvert sinn sem talað er um hækkun lægstu launa þá skuli heyrast harmakvein frá hinum ýmsu ráðamönnum þessarar Þjóðar. Það er gríðarlega mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands standi þétt saman í komandi samningum og standi fast á kröfunni um að lágmarkslaunin hækki úr  125.000 kr í 170.000 kr á samningstímanum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image