• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Dec

Starfsfólk Glyms beitt grófum þvingunum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness að undanförnu haft til rannsóknar málefni starfsmanna Hótels Glyms.

Aðalatriðið í málflutningi forsvarsmanna Glyms virðist vera fólgið í því að Verkalýðsfélag Akraness eigi ekki aðild að þessu máli heldur sé það Stéttarfélag Vesturlands. Það er algjört aukaatriði hvaða stéttarfélag vinnur að þessum grófu félagslegu undirboðum sem þarna eiga sér stað. Ástæða þess að Verkalýðsfélag Akraness kom að þessu máli var sú að starfsmenn hótelsins óskuðu sjálfir eftir því og Verkalýðsfélagi Akraness ber siðferðisleg skylda til að koma til hjálpar fólki sem óprúttnir atvinnurekendur níðast á. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna félagslegra undirboða 6,2 milljónir á síðastliðnum þremur árum.

Í þessu tiltekna máli, sem er eitt það versta sem formaður hefur séð, hefur komið í ljós að verið er að borga starfsfólki langt undir lágmarkslaunum, allt niður í 317 kr. á tímann. Engin yfirvinna er greidd þótt unnið sé allt að 300 tíma á mánuði. Hvíldarákvæði eru virt að vettugi. Engar desember- eða orlofsuppbætur hafa verið greiddar fyrr en nú. Launaseðlar hafa ekki borist starfsfólki fyrr en nú. Dæmi eru um að unnið sé mánuðum saman án nokkurrar greiðslu, aðeins gegn fæði og húsnæði. Starfsfólk þarf að greiða allt að 70.000 kr á mánuði fyrir fæði og húsnæði þrátt fyrir að frítt fæði á vinnutíma sé tiltekið í kjarasamningum og húsnæðið sé herbergi á hótelinu sé það laust. Sé það ekki laust þarf starfsfólkið að flytja sig um herbergi, jafnvel oft á viku.

Þessi atriði, og fleiri til, bað starfsfólk hótelsins Verkalýðsfélag Akraness um að fara yfir fyrir sig og sækja leiðréttingu fyrir sína hönd. Í þeim tilgangi veitti það félaginu skriflegt umboð sitt.

Hægt er að lesa meira með því að smella á meira.

Í málum sem þessum er kallað eftir upplýsingum frá vinnuveitendum s.s. tímaskriftum, vinnuseðlum og öðrum gögnum sem nauðsynleg þykja. Það er ekki flókið reikningsdæmi að taka saman unna tíma og finna það út hvað starfsfólk á inni hjá vinnuveitanda en öflun þessara ganga er þó nauðsynleg forsenda þess.

Í þessu máli gekk Verkalýðsfélagi Akraness vægast sagt illa að afla þessara gagna. Launaseðlar og tímaskriftir fengust ekki frá hótelinu og ástæðan sem gefin var upp fyrir því var sú að starfsmenn hótelsins væru ekki félagar í Verkalýðsfélagi Akraness þrátt fyrir að það kæmi fram á þeim launaseðlum sem félagið hefur undir höndum. Formaður komst síðan að því að stéttarfélagsgjöldum hafði aldrei verið skilað af starfsmönnunum, hvorki til Verkalýðsfélags Akraness né í önnur félög og hefur það nú verið staðfest af endurskoðanda Hótels Glyms í pósti sem barst formanni í dag. Hægt er að skoða tölvupóstinn hér.

Maður spyr sig, fyrst bókarinn segir í póstinum að í september hafi verið ákveðið að skila stéttarfélagsgjöldum fyrst þá, hvað með þessi gjöld fyrir alla hina mánuðina og árin? Þessi játning bókarans um að ekki hafi verið greidd stéttarfélagsgjöld fyrr en nú í september sýnir hvers lags starfssemi þarna er rekin.

Í fjölmiðlum hafa hótelhaldarar sagst ekkert hafa að fela í þessu máli, en grunsemdir um annað hljóta að vakna þegar fyrirspurnir félagsins valda þvílíku fjaðrafoki að starfsmenn verkalýðsfélagsins hafa vart komist í annað eins. Kallar hótelhaldarinn þetta ekkert að fela?

Viðbrögð hótelhaldara hafa verið með ólíkindum. Gögnunum sem Verkalýðsfélag Akraness hafði krafist af hótelinu var aldrei skilað. Hins vegar voru starfsmenn kallaðir saman til starfsmannafundar á sunnudaginn síðastliðinn þar sem þeir voru krafðir afsökunarbeiðnar fyrir að hafa haft samband við Verkalýðsfélag Akraness! Þeir sem ekki báðust afsökunar þurftu að hætta strax og taka saman föggur sínar og yfirgefa svæðið. Þeir aðilar hafa nú þegar yfirgefið landið og eru án efa ólíklegir til að minnast veru sinnar hér á landi á jákvæðan hátt. Á fundinum var starfsfólk einnig þvingað til að skrifa undir afturköllun á umboði til Verkalýðsfélags Akraness, umboði sem félagið hafði þegar fengið undirritað hjá starfsmönnum, og starfsfólki Verkalýðsfélags Akraness gerð grein fyrir því að hafa ekki frekari afskipti af málinu. Málinu er síðan, að sögn hótelhaldara, beint til Stéttarfélags Vesturlands í Borgarnesi til frekari málsmeðferðar. Er það trúverðugt að hinir erlendu starfsmenn Glyms hafi upp á sitt eigið einsdæmi krafist að Verkalýðsfélag Akraness að hætti afskiptum af málinu? Þessir sömu starfsmenn sem grátbáðu félagið um hjálp? Svar formanns er skýrt: Nei. Þarna var starfsfólkið beitt grófum þvingunum.

Það er auðséð af viðbrögðum hótelhaldara að þau hafa heldur betur ýmislegt að fela. Auk þess er klárt mál að afskipti hótelhaldara af starfsfólki þeirra stangast á við lög. T.a.m. er í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur skýrt kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að hafa áhrif á afskipti starfsmanna sinna af stéttarfélögum eða vinnudeilum. Það er ekki af ástæðulausu að þetta sé sérstaklega tiltekið í lögunum og augljóst er að þessi grein laganna ekki síður við í dag en hún gerði árið 1938 þegar lögin voru sett.

Það skiptir Verkalýðsfélag Akraness engu máli þó Stéttarfélag Vesturlands hafi fengið málið til meðferðar. Aðalmálið er að þessum grófu félagslegu undirboðum sem hafa verið við lýði á Hótel Glymi linni sem allra, allra fyrst og starfsmenn fái leiðréttingu sinna launa. Um það snýst þetta mál. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image