• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Dec

Gróf félagsleg undirboð

Félagsleg undirboð verða ekki liðinFélagsleg undirboð verða ekki liðinVerkalýðsfélag Akraness hefur nú til rannsóknar mál nokkurra erlendra félagsmanna sinna. Þeir hafa veitt félaginu fullt og ótakmarkað umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart vinnuveitanda sínum.

Starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa fundað með erlendu starfsmönnunum að undanförnu og aflað gagna í þessu máli. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum og fyrirliggjandi gögnum þá liggur fyrir að hér er um mjög alvarleg brot að ræða.

Verkalýðsfélag Akraness hefur t.d. nýlegan ráðningarsamning undir höndum, þar sem fram kemur að dagvinnukaup starfsmannsins er 635 kr. á tímann. Hins vegar kemur fram í ráðningarsamningnum að starfsmanninum sé skylt að vinna fyrsta mánuðinn til reynslu á 50% launanna, sem gerir 317 kr. á tímann. Á þessu sést að hér er um gróft brot að ræða.

Einn starfsmaður fyrirtækisins tjáði starfsmönnum VLFA að á síðasta ári hefði hann unnið í þrjá og hálfan mánuð, án þess að fá nein laun fyrir. Hann fékk einungis frítt fæði og húsnæði á þessu tímabili. Starfsmaðurinn stóð í þeirri trú að þetta væri eðlilegt þar sem hann væri að læra í faginu. Í dag er hann með 659 kr. á tímann, sem er klárlega undir lágmarkslaunum.

Fram kom hjá starfsmönnunum að þó svo að þau ynnu meira en 173 tíma í mánuði og jafnvel upp í 300 tíma á mánuði þá fengu þau einungis greidd dagvinnulaun og vaktarálag, en ekki yfirvinnu eins og ber að gera eftir að starfsmaðurinn hefur uppfyllt dagvinnuskyldu sína.

Einnig kom fram hjá starfsmönnunum að þeir telji að rauðir dagar sem falla á virka daga hafi ekki verið greiddir eins og kjarasamningar kveða á um. 

Starfsmenn komu líka með fyrirspurnir varðandi hvíldarákvæði og orlofs- og desemberuppbætur, en starfsmenn tóku fyrst eftir slíkum greiðslum í síðasta mánuði. 

Formaður hefur undir höndum samning sem segir að starfsmenn skuli greiða fyrir fæði og húsnæði 25.000 kr. á mánuði. Hins vegar segja starfsmenn að fyrirkomulag sé með þeim hætti að starfsmenn greiði 25.000 á mánuði plús það að 35 tímar eru dregnir af þeim í hverjum mánuði til viðbótar. Þannig að starfsmaður getur verið að greiða yfir 70.000 krónur fyrir fæði og húsnæði á mánuði. Samt er þess getið í kjarasamningi að starfsmenn skuli hafa frítt fæði á meðan þeir eru að störfum.

Starfsmenn hafa ítrekað óskað eftir því að fá launaseðla sína afhenta, en þrátt fyrir ítrekaðar óskir þá hefur það ekki gengið eftir hingað til. Starfsmenn hafa einungis fengið október og nóvember launaseðla.  Þegar starfsmenn fá ekki launaseðla eins og kjarasamnmingar kveða á um, þá gerir það þeim mjög erfitt að fylgjast með hvort verið sé að greiða eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru.

Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness nú kallað eftir launaseðlum, tímaskriftum og öðrum hugsanlegum samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn. Þegar þetta er skrifað hefur fyrirtækið ekki orðið við þeirri ósk. Lögmaður félagsins hefur haft málið til skoðunar og einnig hefur Verkalýðsfélag Akraness gert Vinnumálastofnun grein fyrir þessu máli og mun félagið upplýsa Vinnumálastofnun um framvindu þess.

Við rannsókn málsins kom ennfremur í ljós að engir starfsmannanna eru með dvalarleyfi hér á landi, og eru þar af leiðandi að greiða sína skatta og sín gjöld án þess að njóta þeirra réttinda sem þeim annars bæri.

Krafa Verkalýðsfélags er hvellskýr í þessu máli, það er að launaseðlar og tímaskýrslur verði skoðaðar aftur í tímann og starfsmenn fái leiðréttingu á sínum launum samkvæmt þeirri úttekt sem gerð verður. Það er algjörlega ljóst í huga formanns félagsins að þar getur verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu.

Félagið mun fylgja þessu máli eftir af fullum þunga því það er með öllu ólíðandi að félagsleg undirboð af þessum toga séu látin viðgangast á íslenskum vinnumarkaði.  Háttsemi af þessum toga er að grafa undan íslenskum vinnumarkaði og ógnar því markaðslaunakerfi sem hér er í gildi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image