• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Nov

Stjórn VLFA fundar í kvöld

Í kvöld mun stjórn félagsins koma saman. Þar mun formaður kynna fyrir stjórninni kröfugerðina sem Starfsgreinasamband Íslands lagði fram í gær til Samtaka atvinnulífsins.

Það liggur fyrir að gríðarleg vinna er framundan við kjarasamningsgerð og sem dæmi mun formaður eiga þrjá fundi á morgun vegna kjarasamninga á okkar félagssvæði. Það eru kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, kjarasamningur starfsmanna Síldarbræðslunnar á Akranesi og einnig verður lögð fram kröfugerð vegna starfsmanna Spalar ehf. í gjaldskýli Hvalfjarðarganga.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það algerlega morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness verður ekki tilbúið að slá af þeim kröfum sem fram hafa verið lagðar til Samtaka atvinnulífsins og vonandi næst víðtæk sátt innan SGS um að standa fast á þeirri kröfugerð sem aðildarfélögin hafa lagt fram. Ef árangur á að nást í komandi kjarasamningum verða öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, ef það verður ekki verður árangurinn mun rýrari fyrir íslenskt verkafólk.

28
Nov

Krafa SGS lögð fram- lágmarkslaun verði 165.000 í samningslok

Viðræðunefnd SGS lagði fram kröfur sínar á fundi með Samtökum atvinnulífsins nú áðan. Gert er ráð fyrir að laun hækki almennt um 4% þann 1. janúar n.k. og svo aftur um 4%  1. janúar 2009.

Þá er þess krafist að allir launataxtar SGS hækki þann 1. janúar n.k. um kr. 20.000 og aftur um kr. 15.000 1. janúar 2009.

Lagt er til að lágmarks tekjutrygging í dagvinnu hækki úr kr. 125.000 í kr. 150.000 þann 1. janúar n.k. og verði kr.  165.000,- 1. janúar 2009.

Þá segir í kröfugerð SGS að sérstaklega verði hugað að þeim sem setið hafa eftir í launaþróun frá endurskoðun kjarasamninga 2006 og einnig er gert er ráð fyrir aðkomu ríkisvaldsins að kjarasamningunum með aðgerðum í velferðar- og skattamálum í þágu þeirra sem hafa lág laun og miðlungslaun.

Samkvæmt kröfugerðinni er gert ráð fyrir að samið verði til tveggja ára með skýrum forsenduákvæðum, þannig að mögulegt verði að segja upp launaliðum samningsins eftir eitt ár.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur bæði sagt það í viðræðunefndinni og á formannafundi SGS að þessi kröfugerð sé með þeim hætti að ekki sé hægt að gefa neitt eftir af þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram. 

Eins og áður sagði þá telur formaður VLFA ekki vera svigrúm til að gefa eftir af þeirri kröfugerð sem sambandið lagði fram í dag og því mun félagið standa fast á þeim kröfum er lúta að launaliðum kröfugerðarinnar. 

27
Nov

Gangsetningu stækkunar álvers Norðuráls í 260.000 tonn lokið

Stækkað álver Norðuráls á Grundartanga er nú komið í full afköst eftir að síðustu 28 kerin voru tekin í notkun um miðja síðustu viku. Verksmiðjan kemur nú til með að framleiða 260 þúsund tonn á ári. Til samanburðar má geta þess að framleiðslugeta verksmiðjunnar var 180 þúsund tonn áður en ráðist var í stækkun í ársbyrjun 2005.

Aukning framleiðslugetu álversins upp í 260.000 tonn hefur gert það að verkum að störfum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár og er heildarfjöldi starfsmanna Norðuráls í kringum 500 manns. Langflestir starfsmenn Norðuráls tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eða sem nemur rétt tæplega 400 starfsmönnum.

Það er ekkert ofsögum sagt að Norðurál hafi átt veigamikinn þátt í að treysta búsetu og atvinnufæri hér á Akranesi enn frekar, enda kemur stór hluti starfsmanna frá Akranesi eins og áður sagði.

Þessi mikla uppbygging sem orðið hefur hjá Norðuráli á Grundartanga hefur skipt okkur Skagamenn og nærsveitir gríðarlegu máli.  Það eina sem skyggir á gleðina við þessa miklu uppbyggingu Norðuráls á Grundartanga er að launakjör starfsmanna NA eru þó nokkuð lakari en kjör starfsfélaga þeirra hjá Alcan.

Stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi NA munu einbeita sér að því að eyða þessum launamun þegar núverandi samningur rennur út.  Enda er það óeðlilegt með öllu að kjör starfsmanna NA séu lakari en hjá starfsmönnum Alcan enda um sambærileg störf að ræða.

27
Nov

Þrjú stéttarfélög ætla að standa saman að nýjum bræðslusamningi

Verkalýðsfélag Akraness, AFL- Starfsgreinafélag og stéttarfélagið Drífandi frá Vestmannaeyjum hafa ákveðið að standa sameiginlega að gerð nýs sérkjarasamnings fyrir starfsmann sem starfa í fiskimjölsverksmiðjum.  Í dag er málum þannig háttað að hvert stéttarfélag er með sérkjarasamning fyrir þá félagsmenn sína sem starfa í fiskimjölsverksmiðjum og með þessari ákvörðun er verið að fækka þremur sérkjarasamningum í einn.

Áðurnefnd félög eru búin að móta endanlega kröfugerð fyrir komandi samning bræðslumanna og verður kröfugerðin lögð fram á morgun, en viðræður um kröfugerðina munu að öllum líkindum hefjast næsta föstudag.

Formaður félagsins bindur miklar vonir við samstarf þessara þriggja stéttarfélaga vegna nýs sérkjarasamnings og telur jafnframt að mun meiri slagkraftur sé í kjarasamningsgerðinni þar sem þrjú félög koma að, í staðinn fyrir að hvert félag sé að ganga frá samningi eitt og sér.

Formaður hefur fundað með starfsmönnum bræðslunnar undanfarna tvo daga og líst starfmönnum síldarbræðslunnar hér á Akranesi vel á kröfugerðina sem félögin hafa mótað í sameiningu.  

26
Nov

Desemberuppbót - færð þú það sem þér ber?

Desemberuppbót - færð þú það sem þér ber?  Verkalýðsfélag Akraness hvetur sína félagsmenn til að fylgjast vel með hvort desemberuppbót sé rétt greidd.  Endilega hafið samband við skrifstofu félagsins og fáið upplýsingar séu þið ekki viss hver réttur ykkar er.   

Almenni markaðurinn: 41.800  Kr.
Samiðn: 41.800  Kr.
Ríkissamningurinn: 41.800  Kr.
Akraneskaupstaður: 61.520  Kr.
Norðurál: 103.241 Kr.
Íslenska járnblendið 103.241 Kr.
Klafi: 103.241 Kr.
Fang: 103.241 Kr.
Sementsverksmiðjan: 82.871   Kr.

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi:

Starfsfólk með skemmri starfstíma skal fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn. Þá á starfsmaður sem lætur af starfi á árinu vegna aldurs eða eftir 12 vikna samfellt starf hjá sama vinnuveitanda á árinu rétt á að fá, við starfslok, greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu.

23
Nov

Formaður óskar eftir fundi með bæjarráði Akraneskaupstaðar

Starfmenn vilja sambærilegar hækkanir og hjá HafnarfjarðabæStarfsmenn vilja sambærilegar hækkanir og hjá HafnarfjarðabæFormaður félagsins hefur ákveðið að óska eftir fundi með bæjarráði vegna þeirra launahækkana sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að tilkynna sínum starfsmönnum um á undanförnum dögum. 

Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá að forystumenn sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi áttað sig á mikilvægi þeirra starfa sem ófaglærðir eru að inna af hendi bæði á leikskólum, grunnskólum, sem og í öðrum umönnunarstörfum.

Bæjarstjórinn í Kópavogi tilkynnti t.d. um mánaðarlegar eingreiðslur frá kr. 6.000 upp í 16.000 fyrir starfsmenn sem starfa á leikskólum og grunnskólum og munu þessar greiðslur gilda frá 1. desember. Einnig hafa bæjaryfirvöld í Reykjavík og Hafnarfirði tilkynnt um álíkar hækkanir til handa sínum starfsmönnum.  Einnig hafa þessi sveitarfélög boðið sýnum starfsmönnum ýmis önnur hlunnindi.  Þessar hækkanir koma þrátt fyrir að kjarasamningar við sveitarfélögin séu ekki lausir fyrr en í maí á næsta ári, því ber að fagna þessum hækkunum sérstaklega.  En því miður ná þessar lagfæringar á launum ófaglærðra einungis til starfsmanna sveitarfélaga á stór-Reykjavíkursvæðinu en ekki til bæjarstarfsmanna á landsbyggðinni.

Þess vegna hefur formaður óskað eftir fundi með bæjarráði til að kanna hvort ekki standi til hjá Akraneskaupstað að koma með álíka greiðslur til handa starfsmönnum bæjarins í íþróttamiðstöðum, leikskólum, grunnskólum og í öðrum umönnunarstörfum hér á Akranesi. Það er ekki hægt fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar að una því að launakjör á höfuðborgarsvæðinu séu með allt öðrum hætti fyrir nákvæmlega sambærileg störf.

Formaður félagsins veltir því sérstaklega fyrir sér hvort tilvist launanefndar sveitarfélaga sé að líða undir lok þegar ljóst er orðið að lunginn af sveitarfélögunum á stór-höfuðborgarsvæðinu fer ekki lengur eftir þeim kjörum sem samningur launanefndarinnar segir til um. Formaður vill þó ítreka að hann fagnar þessum hækkunum sveitarfélaganna innilega sérstaklega í ljósi þess að lægstu laun í Hafnarfjarðarbæ eftir þessa hækkun þar eru 156.000 kr.

Þessar hækkanir sveitarfélaganna munu svo sannarlega gefa tilefni til gríðarlegrar bjartsýni vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði sem verða lausir um áramótin. En lægsti taxti á hinum almenna vinnumarkaði í dag eru rúmar 119.000 krónur. Þannig að það eru frábær tíðindi að lægstu laun fyrir dagvinnu séu orðin 156.000 kr. hjá Hafnarfjarðarbæ, sem er 37.000 kr. meira heldur en gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image