• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jan

Bæjarstjórn Akraness boðar til áríðandi fundar vegna málefna HB Granda

Bæjarstjórn Akraness hefur boðað til fundar í dag í bæjarþingsalnum. Þeir sem eru boðaðir eru stjórn HB Granda, þingmenn Norðvestur kjördæmis og formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Til fundarins er boðað vegna áforma stjórnar HB Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar á Akranesi upp störfum og í fundarboðinu kemur fram að óskað er eftir því að stjórn fyrirtækisins geri grein fyrir ákvörðunum sínum og geri grein fyrir framtíðarrekstri fyrirtækisins á Akranesi.

Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir afleiðingar þess að Haraldur Böðvarsson hf sameinaðist Granda árið 2004. Eftir þá sameiningu hafa tapast upp undir 150 störf hjá HB Granda hér á Akranesi. Er það mat Verkalýðsfélags Akraness að megnið af hagræðingu fyrirtækisins hafi verið látin bitna á okkur Skagamönnum. Það voru t.a.m. rétt tæplega 150 manns starfandi í landvinnslunni rétt fyrir sameiningu þessara áðurnefndra fyrirtækja, en þegar þessar uppsagnir hafa tekið gildi verða einungis 20 manns eftir. Einnig hefur skrifstofufólki fækkað umtalsvert, smíðaverkstæðið lagt niður, vélaverkstæðið einnig, starfsmönnum Síldarbræðslunnar fækkað úr 15 í 4, aflaskipinu Víkingi AK lagt og skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK hefur verið seldur. Þessu til viðbótar hafa stjórnendur HB Granda látið frystiskip fyrirtækisins og skuttogara hætta löndunum hér á Akranesi, sem hefur haft það í för með sér að mörg afleidd störf hafa tapast.

Haraldur Böðvarsson hf. var stofnað árið 1906 og hefur þ.a.l. staðið af sér tvær heimsstyrjaldir. Það er því kaldhæðnislegt að það skuli vera fiskveiðistjórnunarkerfið sem við sjálf höfum komið okkur upp sem virðist ætla að leggja þetta fyrirtæki að velli hér á Akranesi. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem fara með eignarhald á auðlindum hafsins að þeir sýni samfélagslega ábyrgð í þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski á undanförnum árum. Það er algerlega óásættanlegt að það skuli vera þeir sem síst skyldi sem þurfa að taka skellinn, þ.e.a.s. verkafólk sem starfar í landvinnslu og sjómenn. Þess má geta að starfsfólk HB Granda nýtur greinilega víðtæks stuðnings annarra sem gengið hafa í gegnum sambærilegar hremmingar og barst starfsfólkinu í liðinni viku skeyti sem hægt er að skoða hér.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hyggst félagið stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir. Félagið telur að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki uppfyllt ákvæði um upplýsinga- og samráðsferlis sem kveðið er á um í lögunum. Það er algert lágmark að stjórnendur fyrirtækisins fari eftir lögum um hópuppsagnir og einnig að starfsmönnum, sem sumir hverjir hafa starfað hjá fyrirtækinu í 50 ár, sé sýnd sú virðing að þeir fái tækifæri til að koma með athugasemdir og tillögur til að milda þær fyrirhuguðu uppsagnir eins og kostur er.

Mikið hefur verið fjallað um þetta mál í fjölmiðlum á undanförnum dögum, m.a. í Ísland í bítið í morgun. Hægt er að hlusta á það með því að smella hér, viðtal við formann spilast þegar 1:16 mínútur eru liðnar af þættinum.

Einnig var fjallað um málið í kvöldfréttum útvarps í gær, hægt er að hlusta á það með því að smella hér.

Að auki var fjallað um málið í kvöldfréttum RUV í gær, hægt er að horfa á þá frétt með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image