• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jan

Óþolinmæði farið að gæta hjá verkafólki

Starfsgreinasamband Íslands boðaði til formannafundar í gær í Reykjavík.  Á fundinum, var farið yfir stöðu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfur ASÍ gagnvart ríkinu.

Á fundinum var kynnt ný hugmynd að nýrri kröfugerð sem til stendur að leggja fram fyrir atvinnurekendur á morgun. 

Formaður félagsins gat ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þessar nýju hugmyndir, einfaldlega vegna þess að þær hugmyndir sem þarna voru kynntar voru ekki fullmótaðar og því erfitt að vita hvað þær þýddu í raun fyrir okkar fólk.

Á þeirri forsendu lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness áherslu á að Starfsgreinasambandið héldi sig við þá kröfu sem lögð hefur verið fram til Samtaka atvinnulífsins.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur félagið það vera höfuðkröfu í komandi kjarasamningum að kjör þeirra sem lægstu hafa launin hækki stórlega í komandi kjarasamningum.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hefur skorað á samninganefnd SGS að standa þétt saman að þeirri kröfu sambandsins að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 150.000 kr. á árinu 2008 og lágmarkslaunin verði orðin 165.000 kr. 1.janúar 2009.

Einnig hefur stjórn og trúnaðarráð skorað á samninganefnd SGS að hvika hvergi frá þessum kröfum.  Enda telur formaður að áðurnefndar kröfur séu forsenda fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Til að þessi krafa náist fram þurfa öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, án fullrar samstöðu er borin von að ná slíkri kröfu fram.

Vissulega mun skipta töluverðu máli hvernig aðkoma ríkisins verður að þessum samningum og þá sérstaklega hvað varðar skattalækkanir handa þeim tekjulægstu.  Rétt er að minna á að í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar er talað um að lækka skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk og því væri gott ef ríkisstjórnin efndi loforð sitt sem myndi klárlega liðka fyrir gerð nýs kjarasamnings.

Samninganefnd SGS mun koma saman til fundar á fimmtudaginn nk. kl. 13:00 þar sem farið verður yfir stöðuna eins og hún mun líta út þá.

Það er alveg orðið ljóst að farið er að gæta óþolinmæði hjá verkafólki hversu hægt þessar viðræður ganga, en nú eru liðnir 10 dagar frá því að kjarasamningar runnu út og ekki útlit fyrir að skrifað verði undir nýjan kjarasamning á næstu dögum.

08
Jan

VLFA/Landsmennt hækkar styrki vegna aukinna ökuréttinda

Fræðslusjóðurinn Landsmennt sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að fyrir hönd félagsmanna hefur samþykkt að hækka styrki vegna aukinna ökuréttinda úr kr. 81.000.- í kr. 100.000,-. Hækkunin tekur gildi nú um áramótin. Á nýju ári eiga því fullgildir félagsmenn í Verkalýðfélagi Akraness rétt á góðum styrk eða kr. 100.000,- vilji þeir ná sér í meirapróf. Félagsmenn, vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu félagsins ef frekari upplýsinga ef þörf.

04
Jan

Launahækkanir um áramótin

Laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem vinna eftir eftirfarandi kjarasamningum hækkuðu um eftirfarnandi prósentur um síðustu áramót.

Kjarasamningur starfsmanna sveitarfélag    3%
Kjarasamningur starfsmanna ríkisins    2%
Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls    3%
Kjarasamningur starfsmanna, Íslenska járnblendifélagsins, Sementsverksmiðjunnar og Klafa    2.25%

 

Kjarasamningar verkafólks og iðnaðarmanna á hinum almenna vinnumarkaði voru lausir nú um áramótin og standa viðræður um endurnýjun þeirra kjarasamninga nú að fullu yfir.

03
Jan

Aðalfundur sjómannadeildar var haldinn 29. desember

Aðalfundur sjómannadeildar var haldinn 29. desember sl.  Fundurinn var mjög góður og fór formaður sjómannadeildar yfir helstu málefni er lúta að deildinni.

Formaður fór yfir nýjan kjarasamning sem gerður var við landsamband smábátamanna.  Fram kom í máli fundarmanna að þeir fögnuðu nýjum kjarasamningi en eins og áður hefur komið fram hafa smábátasjómenn ekki haft kjarasamning áður.  Í þessum samningi er verið að tryggja smábátasjómönnum hin ýmsu réttindi sem þeir ekki hafa haft áður. 

Á fundinum var einnig kosið í stjórn deildarinnar og voru tveir nýir sjómenn kosnir í stjórn það voru þeir Ólafur Kristjánsson skipverji á skutttogaranum Sturlaugi H Böðvarssyni og Pétur Lárusson skipverji á smábátnum Keili.

Stjórn deildarinnar skipa þá eftirtaldir aðilar:

Jóhann Örn Matthíasson

Svavar S Guðmundsson

Sveinbjörn Rögnvaldsson

Elías Ólafsson

Ólafur Kristjánsson

Pétur Lárusson

02
Jan

Forsætisráðherra : Það eru fleiri en verkafólk sem þurfa að viðhalda stöðugleika í þessu samfélagi

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom inn á komandi kjarsamninga á hinum almenna vinnumarkaði í áramótaávarpinu sínu til þjóðarinnar á gamlásdag. 

Þar sagði forsætisráðherrann m.a.

"Framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og þar með mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum Íslendinga. Reynsla undanfarinna ára vekur sannarlega vonir um framhald farsællar stefnu. Í forystusveit launamanna og vinnuveitenda er ábyrgt fólk sem hefur lært það af reynslunni að hóflegir kjarasamningar sem byggja á traustu atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum leiða til mestra kjarabóta".

 

það fór ekki á milli mála að forsætisráðherra er að kalla eftir þjóðarsátt í komandi kjarasamningum og biður verkafólk um að gerðir verða hóflegir kjarasamningar í komandi samningum.

Starfsgreinasamband Íslands hefur lagt fram sýna kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins og í þeirri kröfugerð er gert ráð fyrir að lágmarkslaun hækki úr 125.000 1. janúar 2008 í 150.000 síðan er gerð krafa um að lágmarkslaunin verði orðin 165.000 1. janúar 2009. 

Það er mat formanns félagsins að þessi krafa sé hófstillt, kannski of hófstillt.  Samt sem áður eru Samtök atvinnulífsins nú þegar búin að hafna því að lágmarkslaunin hækki í 165.000 kr.  Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að grunnforsenda þess hægt verði að ganga frá kjarasamningum sé að lágmarkslaunin hækki úr 125.000 í 165.000 á samningstímanum sem yrði til tveggja ára.

Forsætisráðherra talar um að gerðir verði hóflegir kjarasamningar til að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi. Það skýtur skökku við að í fréttum fyrir örfáum dögum síðan kom fram að laun æðstu stjórnenda ríkisins hefðu hækkað um 18% á síðustu tveimur árum, en almennir starfsmenn hins opinbera hækkuðu einungis um 7-9%. Því spyr formaður sig, gilda hóflegir kjarasamningar einungis fyrir ófaglærða hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði?

Þessu til viðbótar hafa laun seðlabankastjóra hækkað um 200.000 kr. á mánuði eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður. Þess vegna er það óþolandi með öllu að í hvert sinn sem kemur að kjarasamningum hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði þá skuli úr öllum áttum heyrast varnaðarorð sem lúta að hóflega gerðum kjarasamningum.

Einnig er rétt að minna á það að ríki og sveitarfélög hafa á undanförnum dögum og mánuðum verið með sértækar aðgerðir vegna launamála starfsmanna sinna og nægir að nefna að dómsmálaráðherra hækkaði laun lögreglumanna um 30.000 kr. ekki alls fyrir löngu, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig verið með sértækar aðgerðir handa sínum starfsmönnum og sem dæmi þá hækkuðu laun grunnskólakennara í Kópavogi um 18.000 kr. Allar þessar launahækkanir og sértæku aðgerðir koma þrátt fyrir að kjarasamningar þessara hópa séu ekki lausir. Vissulega ber að fagna þessum sértæku aðgerðum en að sama skapi er það eins og áður sagði óþolandi að þegar kemur að kjarasamningum hjá almennu verkafólki þá skuli heyrast varnaðarorð úr öllum áttum um að nú skuli stigið varlega til jarðar ella sé stöðugleika í íslensku samfélagi ógnað.

31
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir Björgunarfélag Akraness

Í dag afhenti formaður Verkalýðsfélags Akraness Björgunarfélagi Akraness 100.000 kr. styrk úr styrktarsjóði félagsins.  Umrædd fjárhæð er eyrarmerkt unglingastarfi björgunarfélagsins.

Fréttir undanfarna daga sýna svo ekki verður um villst hversu fórnfúst og óeigingjarnt starf Björgunarfélag Akraness er vinna nánast dag hvern.  Því er stjórn Verkalýðsfélags Akraness stolt að geta styrkt björgunarsveitina um þessa fjárhæð.

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði Verkalýðsfélagi Akraness kr. 500.000 í sérstakan styrktarsjóð sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins útdeilir úr styrktarsjóðnum.  Þau félög og samtök sem fá styrki úr sjóðnum í ár eru:

  • Styrktar-og líknarsjóður Akraneskirkju 100.000 kr.
  • Björgunarfélag Akraness unglingastarf 100.000 kr.
  • Mæðrastyrksnefnd Akraness               100.000 kr.
  • Skátafélagið Akranesi unglingastarf     100.000 kr.
  • Sambýlið Akranesi Vesturgötu              50.000 kr.
  • Sambýlið Laugabraut                           50.000 kr

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image