• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Feb

Greiðslur úr starfsmenntasjóðum til félagsmanna námu vel á fimmtu milljón

Verkalýðsfélag Akraness, sem er aðili að starfsmenntsjóðum Landsmenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar, greiddi vel á fimmtu milljón í styrki á síðastliðnu ári og er um að ræða umtalsverða aukningu frá árinu áður.

Þeir styrkir sem Verkalýðsfélag Akraness greiddi til sinna félagsmanna voru m.a. vegna íslenskukennslu, tölvunámskeiða, aukinna ökuréttinda, framhaldsnáms, háskólanáms, starfsnáms og tungumálanáms.

Stjórn félagsins er afar ánægð að sjá hversu duglegir félagsmenn eru að nýta sér styrki úr áðurnefndum sjóðum. Markmiðið er að félagsmenn verði ennþá duglegri við að sækja námskeið á árinu sem nú er nýhafið.

06
Feb

Það sem Samtök atvinnulífsins hafa verið að bjóða er allt of rýrt

Stjórn félagsins kom saman til fundar í gærkveldi og voru kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins og uppsagnir starfsmanna HB Granda helstu málin sem voru til umræðu.

Farið var ítarlega yfir málefni HB Granda og harmaði stjórn félagsins að til þessara uppsagna hafi þurft að koma. Er það mat stjórnar að þessi ákvörðun sé afar undarleg sérstaklega í ljósi þess að öll hagræðissjónarmið segja að hagkvæmara sé fyrir fyrirtækið að reka landvinnsluna hér á Akranesi.  Fram kom í máli stjórnarmanna að það sé með öllu óþolandi að þeir sem hafa tímabundinn umráðrétt yfir auðlindum hafsins skuli ekki sýna þá samfélagslegu ábyrð sem slíku valdi fylgir. 

Það getur ekki verið eðlilegt að verkafólk í fiskvinnslu sé eitt og sér látið axla ábyrgð á þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski á undanförnum árum eins hefur gerst vítt og breitt um hinar dreifðu byggðir þessa lands að undanförnu.  Það ábyrgðarleysi sem kvótagreifar þessa lands hafa sýnt íslensku þjóðinni á undanförnum mánuðum kallar á algjöra uppstokkun á úthlutun á aflaheimildum.  Enda hefur það fiskveiðistjórnunarkerfi og framsalskerfi sem hér hefur verið við lýði í 24 ár nánast lagt heilu byggðarlögin í rúst. 

Kjaramálin voru einnig mikið til umræðu og kom fram í máli stjórnarmanna að þolinmæðin er gjörsamlega á þrotum komin.  Farið var yfir tillögur sem SA hefur verið að kynna að undanförnu og féllu þær tillögur í grýttan jarðveg hjá stjórn félagsins.  Það var mat stjórnar að tölurnar í launaliðnum sem SA hafa boðið séu einfaldlega of lágar.  Einnig kom fram skýr krafa um að nýr kjarasamningur þyrfti að gilda frá þeim tíma sem sá eldri hafi runnið út, sem var eins flestir vita 1. janúar sl.  Einnig kom fram að mönnum hugnast það alls ekki að þeir félagsmenn sem hafa náð kauphækkunum á sínum eigin verðleikum á tímabilinu 1. mars 2007 til 1. mars 2008 ættu lítinn sem eigan rétt til kauphækkana í komandi kjarasamningum.

Það er því niðurstaða stjórnar VLFA að það sem SA hefur verið að bjóða sé einfaldlega alltof rýrt til að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi. 

06
Feb

Öskudagur 2008

Eins og venja er á öskudaginn er mikið líf og fjör í bænum í dag. Meðal annarra má sjá síamstvíbura, grímuklædda riddara og skrímsli af ýmsum stærðum og gerðum þræða götur bæjarins og syngja hástöfum fyrir sælgæti eða smádóti í pokann sinn.

Hingað á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness hafa ýmsar furðuverur lagt leið sína síðan snemma í morgun og að sjálfsögðu verið vel tekið af starfsfólki skrifstofunnar. Gaman hefur verið að sjá hversu mikla vinnu krakkarnir hafa greinilega lagt í búningargerð og söngþjálfun og eru krökkunum færðar hinar bestu þakkir fyrir sönginn og skemmtunina.

04
Feb

Fundað með atvinnumálanefnd Akraneskaupstaðar

Formaður félagsins var boðaður á fund hjá atvinnumálanefnd Akraneskaupstaðar í dag.  Atvinnumálanefndin vildi fá upplýsingar vegna þeirra uppsagna sem tilkynntar hafa verið hjá starfsmönnum HB Granda sem starfa í landvinnslu fyrirtækisins.

Formaður gerði atvinnumálanefndinni grein fyrir stöðunni og þeim ágreiningi sem uppi hefur verið varðandi hvort fyrirtækið hafi staðið rétt að uppsögnunum.  Eftir að VLFA og ASÍ gagnrýndu fyrirtækið harðlega fyrir að standa ekki rétt að áðurnefndum uppsögnum þá hefur orðið alger viðsnúningur hjá forsvarsmönnum HB Granda og hafa þeir til að mynda kynnt áform um hvernig þeir ætla að hjálpa því fólki sem sagt verður upp störfum. 

Fram kom í máli formanns að aðalmálið nú sé að koma því fólki sem missir atvinnuna hjá HB Granda til hjálpar.  Það liggur fyrir að forsvarsmenn HB Granda eru núna tilbúnir til að aðstoða starfsmenn sem missa vinnuna t.d. verður starfsmönnum veitt aðstoð við atvinnuleit, aðgengi að viðeigandi námskeiðum, gerð ferilsskrár og greiningu áhugasviðs síns.  

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að kynna sér hvar hugsanlega séu laus störf handa þeim starfsmönnum sem missa vinnuna og er formaður félagsins þó nokkuð bjartsýnn að það geti skilað góðum árangri.  Sem dæmi þá liggur fyrir að eitt fyrirtæki hefur upplýst við formann að það þurfi að fjölga hjá sér um 10 til 12 starfsmenn í maí eða júní. 

Það kom fram á fundinum að atvinnuástand á Akranesi er feyki gott um þessar mundir og lítið atvinnuleysi.  En eins og áður sagði þá er aðalmálið núna að útvega því góða starfsfólki sem missir vinnuna hjá HB Granda vinnu eins fljótt og kostur er.

03
Feb

Betra er seint en aldrei

Það hefur orðið ótrúlegur viðsnúningur hjá forsvarsmönnum HB-Granda vegna uppsagna allra starfsmanna fyrirtækisins á landvinnslunni á Akranesi, eftir að Verkalýðsfélag Akraness og Alþýðusamband Íslands bentu á að fyrirtækið væri að brjóta lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir.

Í lögum um hópuppsagnir kemur skýrt fram að unnið skuli eftir ákveðnu upplýsinga- og samráðsferli með trúnaðarmönnum, séu uppi áform um hópuppsagnir.  Í 5. gr. laganna er kveðið á um að í samráðinu felist skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Einnig er kveðið á um í 6. gr. laganna að atvinnurekandi skuli vegna samráðs aðila skv. 5. gr. láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir. (sjá nánar í lögunum með því að smella hér)

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda sagði í samtali við Vísi í gær að fyrirtækið hefði í einu og öllu farið að lögum við þessar uppsagnir. Haft hafi verið samráð við trúnaðarmenn og uppsagnirnar tilkynntar til Svæðisvinnumiðlunar.

Forstjóri HB Granda veit betur, hið rétta er að "samráðið" var keyrt í gegn á 5 dögum og trúnaðarmönnum og stéttarfélaginu gafst ekki færi til að gera athugasemdir við uppsagnirnar og því til viðbótar gafst trúnaðarmönnum og VLFA ekki tækifæri til að koma með tillögur til að milda uppsagnirnar eins og lögin kveða á um.  Einnig höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins því að láta trúnaðarmönnum skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir eins og kveðið er skýrt á um í 5 gr. laganna.

Fram kom í máli Eggerts í viðtali við visi.is í gær að HB Grandi og Vinnumálastofnun ætli að gera sameiginlega áætlun um endurmenntun og ráðgjöf gagnvart þeim sem missa vinnuna þegar uppsagnir starfsfólks koma til framkvæmda. Viðkomandi starfsmönnum verði veitt aðstoð við atvinnuleit, aðgengi að viðeigandi námskeiðum, gerð ferilsskrár og greiningu áhugasviðs síns. HB Grandi greiði kostnað við verkefnið og leitað verður eftir samstarfi við þá sem annast fræðslu og námskeiðahald, við verkalýðsfélög og aðra eftir atvikum. 

Ekkert af þessu buðu forsvarsmenn HB Granda þegar Verkalýðsfélag Akraness og trúnaðarmenn funduðu með þeim í svokölluðu "samráði".  Það var akkúrat þetta sem trúnaðarmenn og stéttarfélagið vildi að yrði gert áður en endanleg ákvörðun um uppsagnir starfsmanna yrðu staðfestar.  Enda kemur skýrt fram í lögunum að það eigi að gefa trúnaðarmönnum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Af hverju skyldu forsvarsmenn HB Granda hafa ákveðið að fara í þessa vinnu nú, vinnu sem átti að fara fram í upplýsinga- og samráðsferlinu eins og lögin kveða á um.  Það er einföld skýring á því, yfir fyrirtækinu vofir stefna vegna brota á lögunum og þeir vita mæta vel að þeir fóru ekki eftir lögunum um hópuppsagnir.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að forsvarsmenn HB Granda skuli kúvenda sinni afstöðu og séu loksins tilbúnir að aðstoða þá starfsmenn sem nú eru að missa sitt lífsviðurværi og hefja það samráðsferli eins og lög um hópuppsagnir kveða skýrt á um, samráðsferli sem átti að hefjast strax í byrjun.

Það er morgunljóst að sú gagnrýni sem Verkalýðsfélag Akraness og Alþýðusamband Íslands hafa haldið hátt á lofti í þessu máli hefur skilað umtalsverðum árangri.  Eins og segir í orðatiltækinu, betra er seint en aldrei.

Á morgun munu forsetar ASÍ taka endanlega ákvörðun um næstu skref í þessu máli, en það hefur komið fram í máli forseta ASÍ að hér sé um mikilvæga lögbundna hagsmuni að ræða fyrir íslenska launþega.

Fjallað var um málið á STÖÐ 2 í gær hægt að horfa HÉR

Einnig var fjallað um málið á RÁS 1 hægt að hlusta HÉR

01
Feb

Atvinnurekendur spara sér hundruðir milljóna vegna tafar á nýjum samningi

Nú er liðinn einn mánuður frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og þolinmæði íslensks verkafólks gersamlega að þrotum komin. Þó nokkur fjöldi félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness er uggandi vegna þess hversu hægt þessar viðræður ganga. Verkafólk minnist þess að þegar síðast var samið þá tók það rúma tvo mánuði, án þess að samningarnir hefðu neina afturvirkni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur að slíkt komi ekki til greina í komandi kjarasamningum og það verður að gera þá skýlausu kröfu að sá kjarasamningur sem nú er verið að móta gildi frá 1. janúar, eða nánar frá þeim tíma sem síðasti kjarasamningur rann út.

Það er ljóst að atvinnurekendur spara sér hundruðir milljóna ef kjarasamningur gildir ekki frá því að eldri samningur rann út og er óvarlegt að áætla að sú upphæð geti numið a.m.k. hálfum milljarði fyrir hvern mánuð sem samningar dragast á langinn. En að sjálfsögðu er erfitt að nefna nákvæmlega hversu háa upphæð atvinnulífið sparar sér með töfinni.

Á þessari forsendu verður að gera þessa skýlaust kröfu sem áður hefur komið fram.

Í næstu viku verður væntanlega reynt til þrautar hvort samningar takist eða ekki og er það mat formanns að það sé skylda okkar að nota næstu viku í þá vinnu. Það er ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki upp á það lengur hversu hægfara þessar viðræður hafa gengið. Nú verða Samtök atvinnulífsins að sýna fullan samningsvilja. Ef ekki, þá er fátt annað í stöðunni en að undirbúa aðgerðir til að knýja fram nýjan samning.

Rétt er að það komi fram að það eru þættir sem hafa þokast síðustu daga eins og t.d. forsenduákvæði og tímalengd samningsins. En aðalmálið er eftir, sem er að sjálfsögðu launaliðir samningsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image