• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Jan

Stjórn HB-Granda varð ekki við áskorun forseta Alþýðusambands Íslands

Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍHalldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍStarfsmenn landvinnslu HB Granda á Akranesi fengu seint í gærkveldi send heim til sín uppsagnarbréf. Hefur stjórn fyrirtækisins því hafnað þeirri beiðni Verkalýðsfélags Akraness, trúnaðarmanna, forseta ASÍ og miðstjórnar Alþýðusambands Íslands að fresta áðurnefndum uppsögnum á meðan það upplýsinga- og samráðsferli sem lög um hópuppsagnir kveða skýrt á um verði klárað.

Það verður að teljast ótrúleg framkoma og virðingarleysi af hálfu forsvarsmanna HB Granda að hunsa lög um hópuppsagnir með jafn skýrum hætti og nú hefur gerst.  Það liggur fyrir að málið mun enda fyrir dómstólum.  Rætt var við Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins í gær um málefni HB Granda.  Hægt að horfa með því að smella á HÉR

Alþýðusamband Íslands lítur þetta mál mjög alvarlegum augum sérstaklega í ljósi þess að upplýsinga- og samráðsferli í tengslum við hópuppsagnir telst til mikilvægra lögbundinna réttinda launafólks.  Formaður hefur verið í sambandi við ASÍ í morgun og væntanlega mun sambandið sjá um að reka málið fyrir dómstólum fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness.

30
Jan

Forseti ASÍ sendi forsvarsmönnum HB Granda bréf í dag

Uppsagnir allra starfsmanna HB Granda í landvinnslu fyrirtækisins hér á Akranesi hafa verið mikið í fréttum undanfarna daga.  Verkalýðsfélag Akraness og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar telja að með uppsögnunum sé stjórn HB Granda í raun að semja lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.

Verkalýðsfélag Akrnaess hefur mótmælt áðurnefndum uppsögnum harðlega og telur jafnframt forsvarsmenn HB Granda hafi gróflega brotið lög um hópuppsagnir með því að viðhafa ekki það samráð sem getið er um í 5. gr. laganna.

Formaður félagsins hefur verið í sambandi við lögfræðideild ASÍ vegna þessa máls og eru lögfræðingar ASÍ sammála túlkun Verkalýðsfélags Akrnaess um að fyrirtækið hafi brotið lög um hópuppsagnir. 

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sendi forsvarsmönnum HB Granda bréf í dag þar sem skorað er á forsvarsmenn fyrirtækisins að hefja hið lögbundna samráðsferli og fresta öllum uppsögnum starfsmanna á meðan samráðsferlið stendur yfir við trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akrnaess.  Það kemur einnig fram í bréfi forseta ASÍ til HB Granda að réttur starfsmanna til upplýsinga og samráðs í tengslum við hópuppsagnir telst til mikilvægra lögbundinna réttinda launafólks og ASÍ líti það alvarlegum augum þegar þau eru sniðgengin með jafn skýrum hætti og hér virðist eiga við.

Málefni HB Granda voru einnig til umfjöllunar á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands í dag en á þeim fundi var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ályktun miðstjórnar ASÍ um hópuppsagnir hjá HB Granda á Akranesi

"Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir því harðlega að ekki skuli farið að leikreglum við framkvæmd hópuppsagna 59 starfsmanna HB Granda hf. á Akranesi en athygli ASÍ hefur verið vakin á því, að mjög alvarlega hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum laga um hópuppsagnir nr. 63/2000. 

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ASÍ hefur aflað sér, hefur fyrirtækið ekki viðhaft lögbundið samráð eða látið trúnaðarmönnum starfsmanna í té skriflegar upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir. Meðan svo er, er óheimilt að tilkynna starfsmönnum um uppsagnir á ráðningarsamningum.

 Miðstjórnin ASÍ leggur áherslu á að lögbundinn réttur starfsmanna til upplýsinga- og samráðs í tengslum við hópuppsagnir telst til mikilvægra réttinda launafólks og ASÍ lítur það alvarlegum augum þegar þau eru ekki virt. 
Miðstjórnin telur mikilvægt að samstaða náist í atvinnulífinu nú þegar mæta þarf erfiðleikum vegna niðurskurðar á aflaheimildum og þegar þeim erfiðleikum sé mætt verði í hvívetna farið að þeim samningum og lögum sem í gildi eru".

Á þessu sérst að ASÍ er algerlega sammála Verkalýðsfélagi Akraness um að HB Grandi hafi brotið lög um hópuppsagnir og nú er bara að sjá hvort stjórn fyrirtækisins fresti áðurnefndum uppsögunum starfsmanna á Akranesi og hefji og klári það upplýsinga- og samráðsferli sem lögin kveða skýrt á um.  Ef fyrirtækið frestar hins vegar ekki áðurnefndum uppsögnum, þá liggur það hvell skýrt fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun fara með málið fyrir dómstóla.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum sjónvarpsins og er hægt að horfa á fréttina með því að smella hér

29
Jan

Þingmenn eru að opna augun fyrir glórulausu fiskveiðistjórnunarkerfi

Bæjarstjórn Akraness boðaði til fundar í gær með formanni félagsins, þingmönnum Norðvestur-kjördæmis og stjórn HB Granda. Það er skemmst frá því að segja að stjórn HB Granda virti boð bæjarstjórnar að vettugi en sendi hins vegar forstjóra fyrirtækisins Eggert B Guðmundsson á fundinn.

Það er óhætt að fullyrða að þetta hafi verið átakafundur en formaður félagsins fór ítarlega yfir þær uppsagnir sem nýverið hafa verið kynntar og kom fram í máli formanns að félagið telur að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi brotið lög um hópuppsagnir með því að uppfylla ekki ákvæði um upplýsinga- og samráðferli eins og lögin kveða á um. Því til viðbótar kom fram hörð viðbrögð bæjarstjórnarmanna við því virðingarleysi sem forsvarsmenn HB Granda hafa sýnt bæjaryfirvöldum en þeir hafa ekki virt þá viðlits.

Það var afar athyglisvert að heyra bæði stjórnarþingmenn sem og þingmenn stjórnarandstöðunnar gefa sterklega í skyn að nú sé kominn tími til að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið vegna þeirra gríðarlegu uppsagna sem dunið hafa yfir fiskvinnslufólk vítt og breitt um landið. Það er algerlega ljóst að mati formanns að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði sé meginorsök þess mikla byggðavanda sem nú blasir við. Einnig benti formaður á að það væri með ólíkindum að sjávarútvegsráðherra skuli hafa afnumið 10% álag á gámafisk en á árinu 2006 voru flutt út yfir 50.000 tonn í gámum. Þess vegna hefði verið mjög gott að koma þessu hráefni til vinnslu hér á landi og hefði það dregið úr þeim vanda sem nú steðjar að vegna aflasamdrátts. Þess vegna skorar formaður á sjávarútvegsráðherra að endurskoða afnám þessa álag og nær væri að ívilna þeim útgerðum sem kjósa að landa öllum sínum afla hérlendis. Gæti slíkt verið partur af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Formaður greindi einnig frá því að það hefðu tapast yfir 150 störf á Akranesi frá sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda sem sýnir hversu illa við Skagamenn höfum farið út úr þessari sameiningu og munu bæjarbúar berjast af alefli við að fá þessari ákvörðun breytt enda eru allar rekstrarforsendur sem mæla með hagkvæmni þess að reka landvinnsluna hér á Akranesi.

Eftir fundinn skoraði bæjarstjórn á stjórn Faxaflóahafna og stjórn HB Granda hf. að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið í ágúst s.l. um flutning fyrirtækisins til Akraness.  Í stofnsamningi Faxaflóahafna er kveðið á um að efla Akranes sem fiskihöfn. Hefur bæjarstjórn Akraness krafist þess að við þetta verði staðið.

Fjallað var um fundinn á morgunvaktinni og er hægt að hlusta á viðtöl með því að smella hér.  Einnig var fjallað um málefni HB Granda í hádegisféttum á rás 1.  Hægt að hlusta hér

28
Jan

Bæjarstjórn Akraness boðar til áríðandi fundar vegna málefna HB Granda

Bæjarstjórn Akraness hefur boðað til fundar í dag í bæjarþingsalnum. Þeir sem eru boðaðir eru stjórn HB Granda, þingmenn Norðvestur kjördæmis og formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Til fundarins er boðað vegna áforma stjórnar HB Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar á Akranesi upp störfum og í fundarboðinu kemur fram að óskað er eftir því að stjórn fyrirtækisins geri grein fyrir ákvörðunum sínum og geri grein fyrir framtíðarrekstri fyrirtækisins á Akranesi.

Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir afleiðingar þess að Haraldur Böðvarsson hf sameinaðist Granda árið 2004. Eftir þá sameiningu hafa tapast upp undir 150 störf hjá HB Granda hér á Akranesi. Er það mat Verkalýðsfélags Akraness að megnið af hagræðingu fyrirtækisins hafi verið látin bitna á okkur Skagamönnum. Það voru t.a.m. rétt tæplega 150 manns starfandi í landvinnslunni rétt fyrir sameiningu þessara áðurnefndra fyrirtækja, en þegar þessar uppsagnir hafa tekið gildi verða einungis 20 manns eftir. Einnig hefur skrifstofufólki fækkað umtalsvert, smíðaverkstæðið lagt niður, vélaverkstæðið einnig, starfsmönnum Síldarbræðslunnar fækkað úr 15 í 4, aflaskipinu Víkingi AK lagt og skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK hefur verið seldur. Þessu til viðbótar hafa stjórnendur HB Granda látið frystiskip fyrirtækisins og skuttogara hætta löndunum hér á Akranesi, sem hefur haft það í för með sér að mörg afleidd störf hafa tapast.

Haraldur Böðvarsson hf. var stofnað árið 1906 og hefur þ.a.l. staðið af sér tvær heimsstyrjaldir. Það er því kaldhæðnislegt að það skuli vera fiskveiðistjórnunarkerfið sem við sjálf höfum komið okkur upp sem virðist ætla að leggja þetta fyrirtæki að velli hér á Akranesi. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem fara með eignarhald á auðlindum hafsins að þeir sýni samfélagslega ábyrgð í þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski á undanförnum árum. Það er algerlega óásættanlegt að það skuli vera þeir sem síst skyldi sem þurfa að taka skellinn, þ.e.a.s. verkafólk sem starfar í landvinnslu og sjómenn. Þess má geta að starfsfólk HB Granda nýtur greinilega víðtæks stuðnings annarra sem gengið hafa í gegnum sambærilegar hremmingar og barst starfsfólkinu í liðinni viku skeyti sem hægt er að skoða hér.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hyggst félagið stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir. Félagið telur að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki uppfyllt ákvæði um upplýsinga- og samráðsferlis sem kveðið er á um í lögunum. Það er algert lágmark að stjórnendur fyrirtækisins fari eftir lögum um hópuppsagnir og einnig að starfsmönnum, sem sumir hverjir hafa starfað hjá fyrirtækinu í 50 ár, sé sýnd sú virðing að þeir fái tækifæri til að koma með athugasemdir og tillögur til að milda þær fyrirhuguðu uppsagnir eins og kostur er.

Mikið hefur verið fjallað um þetta mál í fjölmiðlum á undanförnum dögum, m.a. í Ísland í bítið í morgun. Hægt er að hlusta á það með því að smella hér, viðtal við formann spilast þegar 1:16 mínútur eru liðnar af þættinum.

Einnig var fjallað um málið í kvöldfréttum útvarps í gær, hægt er að hlusta á það með því að smella hér.

Að auki var fjallað um málið í kvöldfréttum RUV í gær, hægt er að horfa á þá frétt með því að smella hér.

28
Jan

Stjórn HB Granda staðfestir uppsagnir allra starfsmanna í landvinnslunni á Akranesi

Rétt í þessu var að ljúka fundi með forsvarsmönnum HB Granda þar sem tilkynnt var að stjórn fyrirtækisins hefði á fundi í morgun staðfest fyrri áform sín um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar hér á Akranesi upp störfum frá og með 1. febrúar að telja. Eins og fram hefur komið þá er um að ræða 66 starfsmenn en áformað er að endurráða 20.

Með þessari ákvörðun telur Verkalýðsfélag Akraness að HB Grandi hafi brotið lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir. Það er alveg hvellskýrt af hálfu félagsins og trúnaðarmanna að fyrirtækið hafi ekki uppfyllt ákvæði um upplýsinga- og samráðferli eins og lögin kveða á um.

Formaður mun eiga fund með lögmanni Alþýðusambands Íslands á morgun þar sem undirbúningur að stefnu á hendur fyrirtækinu vegna brota á áðurnefndum lögum mun eiga sér stað.

Það er algjört virðingarleysi gagnvart því fólki sem starfað hefur hjá þessu fyrirtæki í áraraðir og jafnvel áratugi að gefa því ekki færi á að koma með athugasemdir og tillögur með það að markmiði að milda áðurnefndar uppsagnir.

Með þessari ákvörðun er þessi dagur orðinn einn sá dekksti sem við Akurnesingar höfum upplifað í áraraðir ef ekki áratugi.

25
Jan

Verkalýðsfélag Akraness hyggst stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir

Eins og  fram hefur komið hér á heimasíðunni þá áformar HB-Grandi stórbreytingar í rekstri fyrirtækisins á Akranesi til að bregðast við skerðingu aflamarks þorsks á fiskveiðiárinu 2007-2008.  Áformin byggjast á því að öllum starfsmönnum landvinnslu HB Granda á Akranesi verði sagt upp störfum 1. febrúar næstkomandi og síðan yrðu endurráðnir 20 starfsmenn í flakavinnslu og til vinnslu loðnuhrogna. Um er ræða um 66 starfsmenn samkvæmt félagatali VLFA.

Þessi áform kynntu stjórnendur HB Granda á fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmönnum starfsfólks á mánudaginn var og síðan á almennum starfsmannafundi sem haldinn var á Akranesi sama dag. 

Fram kom hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að stjórn HB Granda myndi taka endanlega ákvörðun um breytingar á Akranesi á mánudaginn kemur, þann 28. janúar. 

Á fundinum á mánudaginn sl. þar sem trúnaðarmönnum HB Granda og formanni félagsins voru kynnt þessi áform var ákveðið að trúnaðarmenn gætu komið með athugasemdir vegna þessara uppsagna. Var því ákveðið að fundað yrði aftur föstudaginn 25. janúar þar sem þessar athugasemdir yrðu lagðar fram.

Eftir fundinn á mánudaginn þá fór formaður Verkalýðsfélags Akraness að kanna hver réttur starfsmanna væri.  Sérstaklega í ljósi þess að VLFA telur að þessi áform séu röng með hagsmuni HB-Granda í huga og hægt væri að ná fram mun betri hagræðingu í landvinnslu fyrirtækisins án þessara uppsagna hér á Akranesi.  Í þessari könnun formanns kom fram að um þessar uppsagnir gilda að sjálfsögðu lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 sem atvinnurekendum ber að fara eftir í hvívetna. 

Í lögunum kemur skýrt fram að vinna skuli eftir ákveðnu upplýsinga- og samráðsferli með trúnaðarmönnum séu uppi áform um hópuppsagnir.  Í 5. gr. laganna er kveðið á um að í samráðinu felist skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Einnig er kveðið á um í 6. gr. laganna að atvinnurekandi skuli vegna samráðs aðila skv. 5. gr. láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir. (sjá nánar í lögunum með því að smella hér)

Á fundinum í morgun gerði formaður VLFA alvarlegar athugasemdir við að ekki hafii verið farið eftir því samráðsferli sem lögin kveða skýrt á um.  Á fundinum á mánudaginn sl. var okkur tilkynnt um þessi áform án þess að nein skrifleg rök fyrir þessari ákvörðun væru lögð fram.  Á þeirri forsendu lögðu trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness á fundinum í dag fram athugasemdir vegna áforma stjórnar HB Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar upp störfum 1. febrúar 2008.  Hægt er að skoða athugasemdirnar með því að smella hér.

Á þessum athugasemdum sést að VLFA og trúnaðarmenn hafa óskað eftir skriflegum upplýsingum frá stjórn HB Granda um hvaða fjárhags- og rekstrarforsendur eru fyrir því að hagkvæmt sé fyrir félagið að segja upp öllum starfsmönnum fiskvinnslunnar á Akranesi og færa stærstan hluta starfsemi hennar á annað starfssvæði. Einnig kemur fram að VLFA og trúnaðarmenn telja að hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri fyrirtækisins með öðrum hætti en kynnt hefur verið.  Þá niðurstöðu ætluðu trúnaðarmenn og VLFA að kynna að fengnu svari frá stjórn HBGranda. 

Rétt er að minna á að stjórn HB Granda tilkynnti í ágúst í fyrra að fyrirtækið ætlaði að reisa nýtt fiskiðjuver hér á Akranesi og flytja alla landvinnsluna hingað og stjórnarformaðurinn Árni Vilhjálmsson rakti í bréfi til Faxaflóahafna hagkvæmnina sem af því hlytist.  Því spyrja starfsmenn hér á Akranesi sig, hvað hefur breyst? 

Gert er ráð fyrir að samráðsferli taki alla jafna um 30 daga en þetta "samráð" er keyrt í gegn á einungis 7 dögum. Þetta gerir trúnaðarmönnum ókleyft að koma sínum athugasemdum á framfæri eins og lögin kveða skýrt á um.  Þessi framkoma verður að teljast með ólíkindum í ljósi alvarleika málsins og er forsvarsmönnum HB Granda til skammar. 

Það er skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness og lögmanna félagsins að HB Grandi hafi brotið lög um hópuppsagnir. Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið stefna HB Granda fyrir dómstóla vegna þess máls.

Það er sorglegt að sjá hvernig farið hefur verið með okkur Skagamenn í þessari sameiningu við Granda. Sem dæmi þá höfum við tapað yfir 150 störfum frá sameiningunni 2004 og með þessari ákvörðun er verið að skrifa lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.  

Hægt að lesa ítarlega um hópuppsagnir í umfjöllun Ingvars Sverrissonar hdl. og lögfræðings ASÍ með því smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image