• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Mar

Fundað með mannauðsstjóra Century Aluminum

Formaður félagsins fundaði í morgun með starfsmannastjóra Norðuráls og yfirmannauðsstjóra Century Aluminum. Mannauðsstjórinn var í kynnisferð hér á landi og óskaði hann eftir því að fá að hitta formenn þeirra félaga á Vesturlandi sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.

Þetta var fínn fundur og vildi mannauðsstjórinn fá upplýsingar um hvernig stéttarfélög hér á landi starfa og gafst formanni tækifæri til að koma með ábendingar sem lúta að réttindum starfsmanna Norðuráls.

Formaður hefur áður bent á að það er launamunur á milli Alcan og Norðuráls og er afar brýnt að þeim launamun verði eytt þegar samningar fyrirtækisins verða næst lausir. Einnig benti formaður VLFA mannauðsstjóranum á að hugsanlega væri 8 tíma vaktakerfi mun betra en það 12 tíma kerfi sem nú er við lýði hjá Norðuráli.

Margt jákvætt hefur verið að gerast hjá Norðuráli síðustu vikurnar og sem dæmi þá er fyrirtækið að vinna að nýju hæfnismati fyrir starfsmenn sem mun væntanlega skila starfsmönnum þó nokkrum ávinningi þegar það tekur gildi.  Reiknað er með að nýtt hæfnismat fyrir starfsmenn verði klárt á næsta ári.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image