• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jan

Stjórn HB Granda staðfestir uppsagnir allra starfsmanna í landvinnslunni á Akranesi

Rétt í þessu var að ljúka fundi með forsvarsmönnum HB Granda þar sem tilkynnt var að stjórn fyrirtækisins hefði á fundi í morgun staðfest fyrri áform sín um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar hér á Akranesi upp störfum frá og með 1. febrúar að telja. Eins og fram hefur komið þá er um að ræða 66 starfsmenn en áformað er að endurráða 20.

Með þessari ákvörðun telur Verkalýðsfélag Akraness að HB Grandi hafi brotið lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir. Það er alveg hvellskýrt af hálfu félagsins og trúnaðarmanna að fyrirtækið hafi ekki uppfyllt ákvæði um upplýsinga- og samráðferli eins og lögin kveða á um.

Formaður mun eiga fund með lögmanni Alþýðusambands Íslands á morgun þar sem undirbúningur að stefnu á hendur fyrirtækinu vegna brota á áðurnefndum lögum mun eiga sér stað.

Það er algjört virðingarleysi gagnvart því fólki sem starfað hefur hjá þessu fyrirtæki í áraraðir og jafnvel áratugi að gefa því ekki færi á að koma með athugasemdir og tillögur með það að markmiði að milda áðurnefndar uppsagnir.

Með þessari ákvörðun er þessi dagur orðinn einn sá dekksti sem við Akurnesingar höfum upplifað í áraraðir ef ekki áratugi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image