• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkalýðsfélag Akraness hyggst stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir Fara ekki eftir lögum um hópuppsagnir
25
Jan

Verkalýðsfélag Akraness hyggst stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir

Eins og  fram hefur komið hér á heimasíðunni þá áformar HB-Grandi stórbreytingar í rekstri fyrirtækisins á Akranesi til að bregðast við skerðingu aflamarks þorsks á fiskveiðiárinu 2007-2008.  Áformin byggjast á því að öllum starfsmönnum landvinnslu HB Granda á Akranesi verði sagt upp störfum 1. febrúar næstkomandi og síðan yrðu endurráðnir 20 starfsmenn í flakavinnslu og til vinnslu loðnuhrogna. Um er ræða um 66 starfsmenn samkvæmt félagatali VLFA.

Þessi áform kynntu stjórnendur HB Granda á fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmönnum starfsfólks á mánudaginn var og síðan á almennum starfsmannafundi sem haldinn var á Akranesi sama dag. 

Fram kom hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að stjórn HB Granda myndi taka endanlega ákvörðun um breytingar á Akranesi á mánudaginn kemur, þann 28. janúar. 

Á fundinum á mánudaginn sl. þar sem trúnaðarmönnum HB Granda og formanni félagsins voru kynnt þessi áform var ákveðið að trúnaðarmenn gætu komið með athugasemdir vegna þessara uppsagna. Var því ákveðið að fundað yrði aftur föstudaginn 25. janúar þar sem þessar athugasemdir yrðu lagðar fram.

Eftir fundinn á mánudaginn þá fór formaður Verkalýðsfélags Akraness að kanna hver réttur starfsmanna væri.  Sérstaklega í ljósi þess að VLFA telur að þessi áform séu röng með hagsmuni HB-Granda í huga og hægt væri að ná fram mun betri hagræðingu í landvinnslu fyrirtækisins án þessara uppsagna hér á Akranesi.  Í þessari könnun formanns kom fram að um þessar uppsagnir gilda að sjálfsögðu lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 sem atvinnurekendum ber að fara eftir í hvívetna. 

Í lögunum kemur skýrt fram að vinna skuli eftir ákveðnu upplýsinga- og samráðsferli með trúnaðarmönnum séu uppi áform um hópuppsagnir.  Í 5. gr. laganna er kveðið á um að í samráðinu felist skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Einnig er kveðið á um í 6. gr. laganna að atvinnurekandi skuli vegna samráðs aðila skv. 5. gr. láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir. (sjá nánar í lögunum með því að smella hér)

Á fundinum í morgun gerði formaður VLFA alvarlegar athugasemdir við að ekki hafii verið farið eftir því samráðsferli sem lögin kveða skýrt á um.  Á fundinum á mánudaginn sl. var okkur tilkynnt um þessi áform án þess að nein skrifleg rök fyrir þessari ákvörðun væru lögð fram.  Á þeirri forsendu lögðu trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness á fundinum í dag fram athugasemdir vegna áforma stjórnar HB Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar upp störfum 1. febrúar 2008.  Hægt er að skoða athugasemdirnar með því að smella hér.

Á þessum athugasemdum sést að VLFA og trúnaðarmenn hafa óskað eftir skriflegum upplýsingum frá stjórn HB Granda um hvaða fjárhags- og rekstrarforsendur eru fyrir því að hagkvæmt sé fyrir félagið að segja upp öllum starfsmönnum fiskvinnslunnar á Akranesi og færa stærstan hluta starfsemi hennar á annað starfssvæði. Einnig kemur fram að VLFA og trúnaðarmenn telja að hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri fyrirtækisins með öðrum hætti en kynnt hefur verið.  Þá niðurstöðu ætluðu trúnaðarmenn og VLFA að kynna að fengnu svari frá stjórn HBGranda. 

Rétt er að minna á að stjórn HB Granda tilkynnti í ágúst í fyrra að fyrirtækið ætlaði að reisa nýtt fiskiðjuver hér á Akranesi og flytja alla landvinnsluna hingað og stjórnarformaðurinn Árni Vilhjálmsson rakti í bréfi til Faxaflóahafna hagkvæmnina sem af því hlytist.  Því spyrja starfsmenn hér á Akranesi sig, hvað hefur breyst? 

Gert er ráð fyrir að samráðsferli taki alla jafna um 30 daga en þetta "samráð" er keyrt í gegn á einungis 7 dögum. Þetta gerir trúnaðarmönnum ókleyft að koma sínum athugasemdum á framfæri eins og lögin kveða skýrt á um.  Þessi framkoma verður að teljast með ólíkindum í ljósi alvarleika málsins og er forsvarsmönnum HB Granda til skammar. 

Það er skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness og lögmanna félagsins að HB Grandi hafi brotið lög um hópuppsagnir. Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið stefna HB Granda fyrir dómstóla vegna þess máls.

Það er sorglegt að sjá hvernig farið hefur verið með okkur Skagamenn í þessari sameiningu við Granda. Sem dæmi þá höfum við tapað yfir 150 störfum frá sameiningunni 2004 og með þessari ákvörðun er verið að skrifa lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.  

Hægt að lesa ítarlega um hópuppsagnir í umfjöllun Ingvars Sverrissonar hdl. og lögfræðings ASÍ með því smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image