• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jan

Forseti ASÍ sendi forsvarsmönnum HB Granda bréf í dag

Uppsagnir allra starfsmanna HB Granda í landvinnslu fyrirtækisins hér á Akranesi hafa verið mikið í fréttum undanfarna daga.  Verkalýðsfélag Akraness og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar telja að með uppsögnunum sé stjórn HB Granda í raun að semja lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.

Verkalýðsfélag Akrnaess hefur mótmælt áðurnefndum uppsögnum harðlega og telur jafnframt forsvarsmenn HB Granda hafi gróflega brotið lög um hópuppsagnir með því að viðhafa ekki það samráð sem getið er um í 5. gr. laganna.

Formaður félagsins hefur verið í sambandi við lögfræðideild ASÍ vegna þessa máls og eru lögfræðingar ASÍ sammála túlkun Verkalýðsfélags Akrnaess um að fyrirtækið hafi brotið lög um hópuppsagnir. 

Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, sendi forsvarsmönnum HB Granda bréf í dag þar sem skorað er á forsvarsmenn fyrirtækisins að hefja hið lögbundna samráðsferli og fresta öllum uppsögnum starfsmanna á meðan samráðsferlið stendur yfir við trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akrnaess.  Það kemur einnig fram í bréfi forseta ASÍ til HB Granda að réttur starfsmanna til upplýsinga og samráðs í tengslum við hópuppsagnir telst til mikilvægra lögbundinna réttinda launafólks og ASÍ líti það alvarlegum augum þegar þau eru sniðgengin með jafn skýrum hætti og hér virðist eiga við.

Málefni HB Granda voru einnig til umfjöllunar á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands í dag en á þeim fundi var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ályktun miðstjórnar ASÍ um hópuppsagnir hjá HB Granda á Akranesi

"Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir því harðlega að ekki skuli farið að leikreglum við framkvæmd hópuppsagna 59 starfsmanna HB Granda hf. á Akranesi en athygli ASÍ hefur verið vakin á því, að mjög alvarlega hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum laga um hópuppsagnir nr. 63/2000. 

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ASÍ hefur aflað sér, hefur fyrirtækið ekki viðhaft lögbundið samráð eða látið trúnaðarmönnum starfsmanna í té skriflegar upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir. Meðan svo er, er óheimilt að tilkynna starfsmönnum um uppsagnir á ráðningarsamningum.

 Miðstjórnin ASÍ leggur áherslu á að lögbundinn réttur starfsmanna til upplýsinga- og samráðs í tengslum við hópuppsagnir telst til mikilvægra réttinda launafólks og ASÍ lítur það alvarlegum augum þegar þau eru ekki virt. 
Miðstjórnin telur mikilvægt að samstaða náist í atvinnulífinu nú þegar mæta þarf erfiðleikum vegna niðurskurðar á aflaheimildum og þegar þeim erfiðleikum sé mætt verði í hvívetna farið að þeim samningum og lögum sem í gildi eru".

Á þessu sérst að ASÍ er algerlega sammála Verkalýðsfélagi Akraness um að HB Grandi hafi brotið lög um hópuppsagnir og nú er bara að sjá hvort stjórn fyrirtækisins fresti áðurnefndum uppsögunum starfsmanna á Akranesi og hefji og klári það upplýsinga- og samráðsferli sem lögin kveða skýrt á um.  Ef fyrirtækið frestar hins vegar ekki áðurnefndum uppsögnum, þá liggur það hvell skýrt fyrir að Verkalýðsfélag Akraness mun fara með málið fyrir dómstóla.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum sjónvarpsins og er hægt að horfa á fréttina með því að smella hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image