• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Þingmenn eru að opna augun fyrir glórulausu fiskveiðistjórnunarkerfi

Bæjarstjórn Akraness boðaði til fundar í gær með formanni félagsins, þingmönnum Norðvestur-kjördæmis og stjórn HB Granda. Það er skemmst frá því að segja að stjórn HB Granda virti boð bæjarstjórnar að vettugi en sendi hins vegar forstjóra fyrirtækisins Eggert B Guðmundsson á fundinn.

Það er óhætt að fullyrða að þetta hafi verið átakafundur en formaður félagsins fór ítarlega yfir þær uppsagnir sem nýverið hafa verið kynntar og kom fram í máli formanns að félagið telur að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi brotið lög um hópuppsagnir með því að uppfylla ekki ákvæði um upplýsinga- og samráðferli eins og lögin kveða á um. Því til viðbótar kom fram hörð viðbrögð bæjarstjórnarmanna við því virðingarleysi sem forsvarsmenn HB Granda hafa sýnt bæjaryfirvöldum en þeir hafa ekki virt þá viðlits.

Það var afar athyglisvert að heyra bæði stjórnarþingmenn sem og þingmenn stjórnarandstöðunnar gefa sterklega í skyn að nú sé kominn tími til að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið vegna þeirra gríðarlegu uppsagna sem dunið hafa yfir fiskvinnslufólk vítt og breitt um landið. Það er algerlega ljóst að mati formanns að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði sé meginorsök þess mikla byggðavanda sem nú blasir við. Einnig benti formaður á að það væri með ólíkindum að sjávarútvegsráðherra skuli hafa afnumið 10% álag á gámafisk en á árinu 2006 voru flutt út yfir 50.000 tonn í gámum. Þess vegna hefði verið mjög gott að koma þessu hráefni til vinnslu hér á landi og hefði það dregið úr þeim vanda sem nú steðjar að vegna aflasamdrátts. Þess vegna skorar formaður á sjávarútvegsráðherra að endurskoða afnám þessa álag og nær væri að ívilna þeim útgerðum sem kjósa að landa öllum sínum afla hérlendis. Gæti slíkt verið partur af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Formaður greindi einnig frá því að það hefðu tapast yfir 150 störf á Akranesi frá sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda sem sýnir hversu illa við Skagamenn höfum farið út úr þessari sameiningu og munu bæjarbúar berjast af alefli við að fá þessari ákvörðun breytt enda eru allar rekstrarforsendur sem mæla með hagkvæmni þess að reka landvinnsluna hér á Akranesi.

Eftir fundinn skoraði bæjarstjórn á stjórn Faxaflóahafna og stjórn HB Granda hf. að taka upp þráðinn frá því sem frá var horfið í ágúst s.l. um flutning fyrirtækisins til Akraness.  Í stofnsamningi Faxaflóahafna er kveðið á um að efla Akranes sem fiskihöfn. Hefur bæjarstjórn Akraness krafist þess að við þetta verði staðið.

Fjallað var um fundinn á morgunvaktinni og er hægt að hlusta á viðtöl með því að smella hér.  Einnig var fjallað um málefni HB Granda í hádegisféttum á rás 1.  Hægt að hlusta hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image