• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Oct

Svívirðilegt okur ríkisins á stimpilgjöldum

Svívirðilegt okurSvívirðilegt okurÍ dag hefur formaður félagsins verið að skoða hvernig stimpilgjald af skuldabréfum og kaupsamningum koma út fyrir íslenska neytendur þegar keyptar eru fasteignir.

Það er óhætt að segja að þegar þetta er skoðað þá sést að hér er um svívirðilegan skatt að ræða á íslenska neytendur. Formaður hefur lagt upp tvö dæmi til að sýna fram á hversu gríðarlegar upphæðir hér getur verið um að ræða.

Fyrra dæmið er íbúð í fjölbýlishúsi 107 fm að stærð. Kaupverð er kr. 22.500.000. Ef tekið er 80% lán að upphæð kr. 18.000.000 þá þarf að greiða af þeirri upphæð 1,5% í stimpilgjald sem gerir kr. 270.000. Að auki þarf að greiða 0,4% stimpilgjald af fasteignamati sem er í þessu tilfelli kr. 16.390.000. Stimpilgjald af fasteignamati er því kr. 65.560 í þessu tilfelli. Samtals þarf kaupandi þessarar eignar að greiða til ríkisins kr. 335.560 í stimpilgjöld.

Í seinna dæminu er um einbýlishús að ræða. Kaupverðið er kr. 31.500.000. Ef tekið er 80% lán að upphæð kr. 25.200.000 þarf að greiða 378.000 í stimpilgjöld. Einnig þarf að greiða 0,4% stimpilgjald af fasteignamati sem í þessu tilfelli er kr. 24.570.000 sem gerir 98.280. Samtals þarf kaupandi þessarar eignar að greiða í stimpilgjöld til ríkisins kr. 476.280.

Formaður kynnti sér í dag hversu langan tíma það tekur fyrir starfsmenn sýslumanna að afgreiða skuldabréf og kaupsamninga og samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum sem formaður aflaði sér þá tekur ferlið allt frá 15 mínútur upp í eina klukkustund í vinnslu.

Því spyr formaður, hvernig má það vera að hægt er að innheimta stimpilgjöld upp á tæpa hálfa milljón, eins og fram kemur í seinna dæminu, þegar það tekur einungis 15 mínútur fyrir starfsmenn sýslumanna að ganga frá stimpilgjöldum tengdum skuldabréfum og kaupsamningum. Fróðlegt væri að ríkisvaldið útskýrði á hvaða forsendu þessi geigvænlegu stimpilgjöld eru til komin.

Eins og áður sagði er hér um svívirðilegt okur að ræða af hálfu ríkisins. Þess vegna mun Verkalýðsfélag Akraness leggja það til í komandi kjarasamningum að ríkisvaldið lækki áðurnefnt stimpilgjald til samræmis við það vinnuframlag sem starfsmenn sýslumanna þurfa að inna af hendi vegna skjalavinnslu tengdri stimpilgjöldum. Það væri alls ekki óeðlilegt að föst raunhæf upphæð væri greidd í stimpilgjöld, sem myndi dekka áðurnefnt vinnuframlag starfsmanna sýslumanna.

Hér er um mikið hagsmunamál fyrir ungt verkafólk sem er að kaupa sína fyrstu fasteign, og ekki síður fyrir aðra landsmenn. Að það skuli þurfa að taka verkamann á lágmarkslaunum tæpa 4 mánuði að vinna sér inn fyrir stimpilgjaldinu af eign sem kostar 31 milljón er með öllu óásættanlegt.

09
Oct

Kynningarfundur hjá Íslenska járnblendifélaginu

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa að undanförnu verið haldnir kynningarfundir á vegum félagsins um réttindi og skyldur starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins. Í dag voru það ofngæslumenn á A-vakt sem fengu kynningu og var þetta fimmta kynningin sem formaður hefur haldið með starfsmönnum á síðastliðnum mánuði. Tvær kynningar til viðbótar eru á dagskrá á næstunni.

Kynningarfundurinn í dag var afar skemmtilegur og fjölmargar spurningar vöknuðu hjá starfsmönnum um réttindi og skyldur sína gagnvart Íj.

Kjarasamningur starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins rennur út í lok nóvember á næsta ári og mun undirbúningur að mótun kröfugerðar hefjast fljótlega á næsta ári. Fram kom í máli starfsmanna að miklar væntingar eru gerðar til næsta samnings.

Hjá Íslenska járnblendifélaginu hefur starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt á undanförnum mánuðum en mjög fljótlega mun hefjast framleiðsla á svokölluðu FSM en með tilkomu þess mun rekstrargrundvöllur Íslenska járnblendifélagsins styrkjast til mikilla muna. Mun hærra verð fæst fyrir þessa sérframleiðslu en þá standard framleiðslu sem hingað til hefur verið meginuppistaða framleiðslu verksmiðjunnar.

08
Oct

Fundað með framkvæmdastjóra Norðuráls

David Kjos framkvæmdastjóri Norðuráls óskaði eftir að funda með þeim formönnum sem eiga aðild að kjarasmningi Norðuráls.

Það eru um þrír mánuðir frá því David tók við sem framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga en hann stýrir daglegum rekstri álversins, en David Kjos tók við starfinu af Nelson Dube sem gengt hafði starfinu tímabundið.

Framkvæmdastjórinn vildi með þessum fundi kynna sig fyrir formönnum stéttarfélaganna og fara yfir framtíðarsýn fyrirtækisins.  Fram kom hjá Dave að hann starfaði áður sem forstjóri hjá Cygnus, Inc, sem er leiðandi fyrirtæki í framleiðslu á íhlutum fyrir flugvélar.  Þar á undan starfaði hann fyrir The United Development Company þar sem hann stýrði m.a. uppbygginu álvers Í Quatar og varð síðar forstjóri þess til ársins 2005.  Frá 1983 til 2002 var Dave í stjórnunarstöðum hjá Kaiser Aluminum & Chemical Corporation, í efna-, ál- og alþjóðadeildum fyrirtækisins. 

Dave lærði efnaverkfræði við University of Idaho.  Hann er kvæntur og á tvo syni.

Fram kom hjá framkvæmdastjóranum að eigendur Norðuráls líða ekki að þeir verktakar sem eru að störfum fyrir Norðurál fari ekki eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.  Var framkvæmdastjórinn að ræða hér um verktaka fyrirtækið Dapster sem var með pólska iðnaðarmenn í vinnu fyrir Norðurál en fór ekki eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi.  En eins og flestir muna rifti Norðurál samningi við áðurnefnt fyrirtæki vegna vanefnda á skráningu og öðru því tengdu.  Fram kom í máli framkvæmdastjórans að Norðurál vilji fækka verktökum eins og kostur er og ráða starfsmenn frekar í beina ráðningu.

Einnig kom fram hjá framkvæmdastjóranum að hlutfall kvenna í starfi hjá Norðuráli sé í kringum 21% og hlutfall erlendra starfsmanna sé um 9%.

05
Oct

Stórhækka þarf kjör þeirra lægst launuðu í komandi kjarasamningum

Frá þingi SGS 2007Frá þingi SGS 2007Í dag lauk þingi Starfsgreinasambands Íslands og heppnaðist þingið mjög vel. Aðalmál þingsins voru að sjálfsögðu komandi kjarasamningar og sköpuðust fjölmargar umræður þeim tengdum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni um alllanga hríð að tími verkafólks sé nú runninn upp hvað lýtur að hækkun launa til handa verkafólki. Í ræðu sem formaður félagsins hélt á þinginu kom skýrt fram að stefnt skuli að því í komandi kjarasamningum að lágmarkslaun skuli ekki verða undir 170.000 krónur á mánuði í lok samningstímabilsins.

Það er íslensku samfélagi til skammar að vera með lágmarkslaun upp á 125.000 krónur sem vart duga fyrir lágmarksframfærslu og eru reyndar 5.000 krónum undir fátæktarmörkum. Við, forystumenn í Starfsgreinasambandi Íslands, getum á engan hátt skotið okkur undan þeirri ábyrgð sem við berum á þessum lágmarkslaunum.

Sú græðgisvæðing og misskipting sem nú tröllríður þessu þjóðfélagi birtist okkur í hinum ýmsu myndum. Nægir þar að nefna einkaþotuflota auðkýfinga Íslands og nú síðast eru auðkýfingar farnir að kaupa þyrlur til að geta komist á milli staða, hvort sem er til Vestmannaeyja, eða í sumarbústað sinn. Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst að það eru nægir peningar til í þessu þjóðfélagi til að lagfæra þau skammarlegu lágmarkslaun sem íslensku verkafólki er nú boðið upp á.

Á þinginu var samþykkt ályktun um kjaramál þar sem samþykkt var að stórbæta kjör þeirra sem lægstu hafa launin. Í ályktuninni kom einnig fram að lækka þurfi skattbyrði lágtekjufólks og stórefla velferðarkerfið m.a. með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur sem klárlega mun koma okkar fólki til góða.

Það er alls ekki hægt að ætlast til þess að íslenskt verkafólk þurfi eitt og sér að viðhalda stöðugleikanum í þessu landi og nú er komið að fleirum að axla þá ábyrgð. Formaður sagði á þinginu að til að árangur náist um stórkostlega hækkun lágmarkslauna þurfi að ríkja þjóðarsátt um að slíkt verði gert og einnig að alger samstaða ríki á meðal aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjarasamningum.

Þess má að lokum geta að formaður félagsins var kjörinn í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands og er formaður tilbúinn að taka þátt í stefnumörkun sambandsins enda eru ærin verkefni framundan hvað það varðar.

02
Oct

Þing SGS verður haldið 3.- 5. október

Þing Starfsgreinasambands Íslands verður haldið dagana 3.- 5. október 2007.

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness á þinginu verða:

Vilhjálmur Birgisson

Guðrún Linda Helgadóttir

Jón Jónsson

Bryndís Guðjónsdóttir

Tómas Rúnar Andrésson

Telja má fullvíst að kjaramál verði í brennidepli á þinginu en eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það álit formanns VLFA að hækkun lágmarkslauna eigi að vera eitt af forgangsverkefnum komandi kjarasamninga.

29
Sep

29. september 1937 - 70 ára minning

Ásbjörn AK 90 og Sveinn Guðmundsson AK 70Ásbjörn AK 90 og Sveinn Guðmundsson AK 70Í dag eru liðin 70 ár frá minnisverðum degi í sögu Skagamanna allra og ekki síður í sögu Verkalýðsfélags Akraness.

Árið 1937 var félagið viðurkennt sem lögformlegur samningsaðili fyrir verkafólk á Akranesi eftir hatramma baráttu. Það haust voru samningar félagsins lausir og lagði félagið fram kröfur um 40% hækkun í dag-, eftir-, og helgarvinnu. Með þessum kauphækkunum ætlaði félagið að ná sama kaupi og tíðkaðist í Reykjavík. Samningaviðræður báru engan árangur og skall verkfall á í september. Liðu svo dagarnir að ekkert gerðist í deilunni utan það að atvinnurekendur buðu heila 5 aura hækkun á tímakaup í dagvinnu!

Þann 29. september dró til tíðinda en þá spurðist út að Haraldur Böðvarsson hefði sótt um leyfi til félagsins til að fá að skipa beitu á land en þeirri ósk hans var hafnað. Hafði Haraldur þá orð á því að ætla að skipa henni sjálfur á land með skipstjórum sínum. Mun Sveinbjörn Oddsson, þáverandi formaður félagsins því hafa fylgst vel með ferðum Haraldar ef hann skyldi taka upp á því að gera alvöru úr orðum sínum. Um hádegisbil þennan sama dag lagðist vélbáturinn Árni Árnason frá Keflavík upp að hafnargarðinum í Krossvík en hann var þá aðeins smá spotti miðað við það sem hann nú er. Skömmu síðar komu tveir rauðir vörubílar, litur Haraldarbíla, akandi niður hafnargarðinn með nokkra menn á pallinum og gerðu þeir sig líklega til að hefja uppskipun á beitunni.

Verkfallsmenn, með Sveinbjörn í fararbroddi, fjölmenntu nú á hafnargarðinn ásamt stórum hópi unglinga sem ætluðu sér ekki að missa af því ef beituuppskipun Haraldar Böðvarssonar yrði stöðvuð með valdi. Veður hafði verið þokkalegt um morguninn, vestanátt eða útsunnan með tilheyrandi brimi á stönd og skerjum og gekk á með nokkrum skúrahryðjum yfir síaukinn mannfjöldann á bryggjunni. Þegar Sveinbjörn og menn hans komu að Haraldi, þar sem hann stóð á vörubílspallinum og tók á móti frosnum beitupönnum, urðu nokkur orðaskipti á milli fornvinanna Sveinbjörns og Haraldar og síðan tóku verkfallsmenn að kasta beitupökkunum í sjóinn að fyrirskipan Sveinbjörns.

Þó nokkur átök áttu sér stað þarna við bílana þegar skyndilega virtist sem máttarvöldin hefðu gripið í taumanna og fengið þessum tveimur andstæðu fylkingum annað að hugsa um en yfirstandandi deilur.

Brotsjór reið fyir hafnargarðinn og sópaði öllu sem þar var, lifandi og dauðu í burtu. Þegar bryggjan varð aftur sjólaus var þar ekkert að sjá, enginn bíll, enginn maður, ekki neitt. Betur fór þó en á horfðist. Flestir höfðu fallið ofan í bátinn, sumir héngu í einu og öðru á bryggjubrúninni og meðal þeirra báðir Haraldur og Sveinbjörn og hafði hvorugan sakað. Margir féllu í sjóinn og komust af eigin rammleik eða með hjálp annarra upp í bát eða bryggju.

Þrjú ungmenni höfðu borist lengst frá bryggjunni. Þórður Jónsson frá Reynisstað, 17 ára gamall, og bræðurnir Ólafur og Sigurður Elíassynir, Suðurgötu 19, sem voru 11-12 ára gamlir. Ólafur bjargaðist naumlega um borð í bát sem komið var á flot en þrátt fyrir björgunartilraunir vaskra sundmanna drukknuðu hinir drengirnir báðir. Lík Þórðar fannst fljótlega þá um daginn en þrátt fyrir ítarlega leit með fjörum og klettum fannst lík Sigurðar litla aldrei.

Það var dimmt yfir Akranesi á þessum degi fyrir 70 árum síðan og féllu þung orð á báða bóga um tildrög slyssins. Allir skildu þó að engum var um að kenna þótt aldan brotnaði í þetta sinn á viðkvæmu augnabliki í vinnudeilu.

Þess má geta að þann 10. október barst gott tilboð frá atvinnurekendum þar sem boðin var 27-30% kauphækkun og um það náðust samningar. Eftir þá hækkun varð kaup verkamanna á Akranesi kr. 1,27 á tímann og kaup verkakvenna 1,05 á tímann. Var þá þessu eftirminnilega verkfalli lokið en það var mál manna að eftir það hafi orðið betri og skilningsríkari samskipti milli Verkalýðsfélags Akraness og atvinnurekenda á staðnum.

 

Hægt er að lesa meira um þennan atburð í 50 ára afmælisriti Verkalýðsfélags Akraness sem kom út í október 1974.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image