• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Dec

Formaður boðaður til fundar hjá bæjarráði

Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir fundi með bæjarráði vegna þeirra sértæku aðgerða í launamálum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að grípa til á undanförnum dögum og vikum. Formaður hefur verið boðaður til fundar með bæjarráði á föstudaginn nk. kl. 16:30 vegna þessara mála.

Það liggur fyrir að Kópavogur, Hafnarfjörður og Reykjavíkurborg hafa verið að grípa til launahækkana til þeirra sem eru með hvað lægstu launin og nægir þar að nefna störf við umönnun, á leikskólum sem og í grunnskólum.

Það liggur einnig fyrir að Hafnarfjarðarbær hefur hækkað laun leiðbeinenda á leikskólum og skólaliða og nema þær hækkanir frá 6.000 upp í 16.000 krónur á mánuði.

Einnig liggur fyrir að Hafnarfjarðarbær ætlar að láta alla sína starfsmenn fá 30.000 króna jólauppbót, 16.000 kr. styrki til líkamsræktar og hálfsárs sundkort á einungis 1.000 krónur. Í Fréttablaðinu ekki alls fyrir löngu sagði Ellý Erlingsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Hafnafjörð vilja vera til fyrirmyndar í launamálum sinna starfsmanna.

Á þeirri forsendu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness spyrja bæjarráð Akraness hvort þeir ætli að fylgja fordæmi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar þær sértæku aðgerðir sem sveitarfélögin hafa veri að grípa til vegna launamála sinna starfsmanna. Formaður er ekki í neinum vafa um að bæjarstjórn Akraness vill vera til fyrirmyndar í þessum málum eins og t.a.m. Hafnarfjarðarbær hefur verið.

Það er með öllu óþolandi að launakjör á höfuðborgarsvæðinu séu með allt öðrum hætti en gengur og gerist fyrir sömu störf á landsbyggðinni. Það er skoðun formanns að slíkt eigi ekki að viðgangast og mun hann beita sér af fullum þunga fyrir því að laun starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni verði samræmd launakjörum á höfuðborgarsvæðinu, enda eru allir starfsmenn þessara sveitarfélaga að vinna eftir sama kjarasamningi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image