• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Dec

Félagsleg undirboð hjá Hótel Glymi

Eins og fram kom hér á heimsíðunni í gær þá hefur félagið á undanförnum dögum verið að rannsaka málefni er lúta að félagslegum undirboðum gagnvart erlendum starfsmönnum sem starfa hér í nágrenni við Akraness.

Formaður félagsins ásamt pólskum túlki og starfsmanni VLFA voru búin að funda með þeim erlendu starfsmönnum sem um ræðir í tvígang og á þeim fundum kom í ljós að verið var að brjóta gróflega á þeirra réttindum.  Í kjölfarið veittu erlendu starfsmennirnir  Verkalýðsfélagi Akraness fullt og ótakmarkað umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart vinnuveitanda sínum.

Formaður félagsins var ekki tilbúinn í gær að upplýsa um hvaða fyrirtæki væri að ræða þar sem félagið var enn að rannsaka málið og reyna að fá fyrirtækið til að afhenda gögn t.d. launaseðla og tímaskýrslur.  Hins vegar var viðtal við Hansínu B. Einarsdóttur á fréttastofu Ruv í gær þar sem hún staðfesti að það væri Hótel Glymur sem Verkalýðsfélag Akraness væri að rannsaka, en Hansína er hótelstjóri hjá Glymi.

Hægt er að lesa meira með því að smella á meira.

Hansína B Einarsdóttir sagði í áðurnefndu viðtali við fréttastofu að ásakanir um félagsleg undirboð væru fleipur. Hún sagði ráðningarsamninga staðfesta af Vinnumálastofnun og ef Vilhjálmur héldi því fram að verið væri að svindla á starfsfólki væri hann í raun að draga um hæfni starfsmanna Vinnumálastofnunar í efa.

Þessum ummælum er fljótsvarað. Rétt er það að Vinnumálastofnun staðfestir að ráðningarsamningar uppfylli kjarasamninga. Í þessu tilfelli er það hins vegar svo að þeir ráðningarsamningar sem Glymur skilaði inn til Vinnumálastofnunar eru alls ekki þeir sömu og starfsfólkið er að vinna eftir, enda hefur lögfræðingur Samtaka Atvinnulífsins staðfest við formann að ráðningarkjör starfsmanna Glyms séu of lág.

Í viðtalinu sagði hótelstýran einnig að formaður VLFA hafi ítrekað ónáðað starfsmenn sína, m.a. bankað upp á í þeirra bústað. Átaldi hún vinnubrögð formanns og sagði þau algjörlega ólíðandi.

Hið sanna er að Verkalýðsfélag Akraness fékk í síðustu viku alvarlega ábendingu um að verið væri að brjóta gróflega á þessu fólki og af þeim sökum setti formaður sig í samband við starfsmennina. Átti formaður og starfsmaður félagsins mjög góða fundi með starfsmönnum og á þeim fundum fékk formaður fjölmargar spurningar er lúta að réttindum starfsfólksins. Formaður fékk afhent þau gögn sem þau höfðu og veittu þau einnig félaginu, eins og áður hefur komið fram, fullt umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart atvinnurekanda sínum.

Rétt er að geta þess að upphaf þessa máls má rekja til 24. ágúst sl. en þá barst tölvupóstur frá Póllandi þar sem óskað var eftir því að skoðað væri hvort verið væri að brjóta á starfsmönnum Hótelsins. Hægt er að skoða þennan tölvupóst með því að smella hér. Verkalýðsfélag Akraness lét þá þegar Stéttarfélag Vesturlands vita af þessu máli þar sem Glymur er á félagssvæði þess félags. Stóð formaður í þeirri trú að málefni starfsmannanna væru í réttum farvegi þar. Formanni er kunnugt um að Stéttarfélag Vesturlands hefur einnig verið að skoða málið á undanförnum vikum. Það var svo eftir þá alvarlegu ábendingu sem barst í liðinni viku að formaður fór sjálfur og hitti fólkið og eftir það fór boltinn fyrst að rúlla.

Ummæli Hansínu B Einarsdóttur um fleipur formanns dæma sig algerlega sjálf. Til að sýna fram á það ætlar VLFA að birta ráðningarsamning sem starfsmönnum VLFA var afhentur á þessum fundum.  Í þeim ráðningarsamningi sem gerður er 16. nóvember 2007 kemur fram að dagvinnulaun eru 635 kr. á tímann, hins vegar fái starfsmaðurinn einungis 50% af þeirri upphæð fyrsta mánuðinn, sem sagt 317 kr. á tímann. Hægt er að skoða ráðningarsamninginn með því að smella hér.

Formaður VLFA vill áætla að afbrotafræðingurinn og hótelhaldarinn Hansína B Einarsdóttir eigi að vita að tímakaup upp á 317 kr. stenst hvorki íslenska kjarasamninga né 7. gr. laga  um stéttarfélög og vinnudeilur.  Einnig á afbrotafræðingurinn og hótelhaldarinn að vita að það stenst ekki lög að láta starfsmann vinna 180 tíma á mánuði og það í þrjá og  hálfan mánuð án þess að fá nein laun, einungis fæði og húsnæði.  Þessu til viðbótar eiga forsvarsmenn Glyms að vita að fyrirtækjum ber að greiða yfirvinnukaup eftir að starfsmenn hafa uppfyllt dagvinnuskyldu sína.  Að sögn starfsmanna Glyms þá fengu þeir ekki greidda yfirvinnu þegar þeir voru búnir að uppfylla dagvinnuskylduna, fyrr en í nóvember á þessu ári.  Að sögn starfmanna voru þeir að vinna þetta á bilinu 250 og uppí 320 tíma á mánuði og því ljóst að hér sé um gróft brot á kjarasamningum að ræða.

Í morgun, þegar starfsmenn VLFA mættu til vinnu, beið þeirra fax frá Hótel Glymi þar sem kom fram að starfsmenn væru búnir að afturkalla það umboð sem Verkalýðsfélag Akraness hafði. Það er alveg ljóst í huga formanns félagsins að hér hafa starfsmenn verið beittir þvingunum til að afturkalla umboð félagsins. Telur afbrotafræðingurinn og hótelhaldarinn að með því að afturkalla umboð félagsins að þessu máli þá komi brotin ekki í ljós? Nei, slíkt mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta gerast og mun því afhenda Stéttarfélagi Vesturlands öll þau gögn sem félagið hefur aflað sér og sýna fram á þau grófu brot sem átt hafa sér stað á undanförnum mánuðum. Félagið hefur undir höndum undirritaðan vitnisburð starfsmanna þar sem fram kemur hvaða kjaraatriði það eru sem fyrirtækið hefur verið að brjóta gegn. Hægt er að skoða íslenska þýðingu þess vitnisburðar með því að smella hér.

Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgjast grannt með því að þeir starfsmenn sem brotið hefur verið á muni fá leiðréttingu sinna launa

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image