• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Feb

Rétt skal vera rétt

Það var nú undarleg sögufölsun sem kom fram í pistli frá Gunnari Karli starfsmanni stéttarfélags Bárunnar á Selfossi á Vísi í fyrir stuttu þar sem hann fjallaði að stærstum hluta um formannskosningarnar í Eflingu.

En í þessum pistli er því haldið ranglega fram að kjarasamningurinn frá 2015 hafi skilað verkafólki meiri ávinningi en lífskjarasamningurinn sem undirritaður var 2019.

Það er grátbroslegt að sjá skuggastjórnendur verkalýðshreyfingarinnar sem félagi Ragnar Þór talaði um í pistli sínum í gær væla eins og stungnir grísir yfir því að nokkuð vel hafi tekist til við gerð lífskjarasamningsins sem leiddur var undir forystu Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness.

Svona sögufölsun eins og sést hjá Gunnari Karli er til þess eins að reyna að telja launafólki trú um að kjarasamningurinn frá 2015 hafi skilað meiri ávinningi fyrir verkafólk en lífskjarasamningurinn. Öll svona afbökun á sannleikanum er til þess fallin að reyna að hafa áhrif á formannskosningar í Eflingu.

Það er ekki bara að lífskjarasamningurinn hafi skilað umtalsvert fleiri krónum í launaumslag verkafólks heldur fylgdi með aðgerðapakki frá stjórnvöldum sem var kostnaðarmetinn af stjórnvöldum upp á 80 milljarða til að styðja við lífskjarasamninginn.

Okkur tókst í lífskjarasamningum að til dæmis lækka skattbyrði lágtekjufólks með samkomulagi við stjórnvöld og skilaði sú skattalækkun ein og sér tæplega 12.000 krónum til lágtekjufólks. Þetta er hægt að sjá með nákvæmum hætti á reiknivél um staðgreiðslu hjá ríkisskattstjóra.

Samhliða lífskjarasamningum funduðum við líka með Seðlabankanum þar sem lögð var ofuráhersla á að skapa forsendur fyrir Seðlabankann til að lækka stýrivexti bankans, og það tókst. Það var meira að segja skrifað í forsendur lífskjarasamningsins að ef stýrivextir Seðlabankans myndu ekki lækka um 2% yrði lífskjarasamningurinn uppsegjanlegur.

En skoðum þessa ótrúlega röngu staðhæfingu um að kjarasamningurinn frá 2015 hafi skilað meiri ávinningi fyrir verkafólk en lífskjarasamningurinn. Algengasti launaflokkur verkafólks er lfl. 7 en hann hækkaði úr 211.211 kr. árið 2014 í 272.261 kr. á samningstímanum eða sem nemur 61.050 kr. nánar tiltekið 29%.

Þessi sami launaflokkur nr. 7 hækkaði hinsvegar í lífskjarasamningum úr 272.261. í 362.261 kr. og stendur í þeirri upphæð í dag. Semsagt hækkaði um 90.000 kr. á samningstímanum eða sem nemur 33%.

Þessu til viðbótar liggur fyrir að við sömdum líka um svokallaðan hagvaxtarauka og mun hagvaxtaraukinn sem samið var um í lífskjarasamningnum virkjast á þessu ári. Afar líklegt er að hann muni skila launafólki 13.000 kr. sem koma þá til hækkunar 1. maí á þessu ári. Ef það raungerist sem afar miklar líkur eru á miðað við stöðuna eins og hún er í dag þá hafa launataxtar verkafólks hækkað um 103.000 kr.

Að halda því fram að samningurinn 2015 hafi skilað verkafólki meiru er ótrúlegt þegar liggur fyrir að launataxtar hækkuðu um 61.050 kr. á samningstímanum 2015 en að öllum líkindum 103.000 í lífskjarasamningnum. Þetta þýðir að lífskjarasamningurinn skilar 38% launahækkun en samningurinn 2015 29%. Því til viðbótar er 80 milljarða aðgerðapakki sem fylgdi með lífskjarasamningnum þar sem skattalækkun upp á 12.000 kr. er m.a. hluti af.

Vaxtalækkun

En aðalkjarabótin fyrir verkafólk og íslensk heimili liggur í lækkun vaxta eins og var eitt af stóru markmiðum lífskjarasamningsins og það tókst en fyrir lífskjarasamninginn voru stýrivextir 4,25% og fóru lægst niður í 0,75% þótt vissulega hafi þeir hækkað að nýju og standi núna í 2,75%

En skoðum vextina sem heimilunum var boðið upp á árið 2015 en óverðtryggðir vextir voru þá 7,25% en eru í dag 4,20%. Verðtryggðir vextir voru 3,65% en eru í dag 1,9%.

Þessi vaxtamunur á 35 milljóna húsnæðisláni þýðir að greiðslubyrði hefur lækkað miðað við vextina 2015 um 90.000 á mánuði eða 1,1 milljón á ársgrundvelli. Af verðtryggðu láni að sömu fjárhæð er lækkun á greiðslubyrði 50.000 kr. á mánuði eða 600.000 á ársgrundvelli.

Það er sorglegt þegar aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar vilja ekki viðurkenna að lífskjarasamningurinn undir forystu Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur ,Eflingar  VR og Framsýnar hafi ekki skilað afar góðum árangri þótt alltaf megi gera betur enda lýkur kjarabaráttu launafólks aldrei.

Það er rétt hjá félaga Ragnari Þór að hatrið og níðið í garð þeirra sem hafa gagnrýnt stefnur og markmið ASÍ á liðnum árum og áratugum er grímulaust.

Allir sem þekkja til innan verkalýðshreyfingarinnar vita hvernig fulltrúalýðræðið virkar inni á þingum ASÍ og innan landssambanda ASÍ. Því má klárlega segja að það sé ekkert verið að kjósa eingöngu um forystu í Eflingu heldur hefur sú kosning áhrif á fulltrúalýðræðið inni á þingum ASÍ og SGS.

Það má segja að kosningar í Eflingu, sem er næststærsta stéttarfélag landsins, muni hafa áhrif á stefnu og markmið verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni og nú sé kannski að renna upp sá dagur að loksins verði lokauppgjör innan verkalýðshreyfingarinnar.

En rétt skal vera rétt og ég vísa svona sögufölsun á bug sérstaklega þegar verið er að reyna að hafa áhrif á formannskjör í Eflingu með slíku bulli!

01
Feb

Búið að greiða úr félagsmannasjóðnum

Í dag fengu 582 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðasveit og Hjúkrunar-og dvalarheimilinu Höfða greitt út úr Félagsmannasjóði sem samið var um í síðustu samningum. Heildarupphæðin sem greidd var úr sjóðunum nam 24.064.323

Rétt er að vekja athygli að allir félagsmenn fengu bréf sent heim fyrir nokkrum dögum þar sem upphæð greiðslu hvers og eins var getið.

25
Jan

Nýtt bónuskerfi starfsmanna Elkem svínvirkar

Í nýjum kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness /Elkem sem undirritaður var þann 18. maí í fyrra var m.a. samið um að gera breytingar á bónuskerfi starfsmanna en bónuskerfið nýja á að geta skilað mest 13%.

Það er sameiginlegur skilningur samningsaðila að bónuskerfið eigi að skila að jafnaði í kringum 80% af hámarkinu sem eru 10,4%

Núna hefur komið í ljós að kerfið er að virka gríðarlega vel en að meðaltali hefur bónusinn skilað eftir að hann tók alveg gildi 11,70% sem er um 90% af hámarkinu. Þetta getur haft veruleg áhrif á kjör starfsmanna enda leggst bónusinn ofan á öll föst laun starfsmanna sem þýðir að bónusinn er að skila á milli 80.000 - 90.000 kr. á mánuði.

 

Hér er  hægt að nálgast kjarasamninginn, en liðurinn um bónusgreiðslurnar er á bls 16.

17
Jan

24 milljónir greiddar út úr Félagsmannasjóði til starfsmanna Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðasveitar og Hjúkrunar-og dvalarheimilsins Höfða

Í síðasta kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga var samið um svokallaðan félagsmannasjóð. Sá sjóður byggist á því að samningsaðilar sem eru í þessu tilfelli Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og hjúkrunar- og dvalarheimlið Höfði greiða sem nemur 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í þennan sérstaka sjóð. Í samningnum var síðan kveðið á um að útgreiðsla úr sjóðnum skyldi eiga sér stað einu sinni á ári eða í febrúar ár hvert og núna er komið að því að greiða úr sjóðnum til félagsmanna í annað sinn.

Núna eru það rétt tæplega 600 félagsmenn sem starfa eftir umræddum kjarasamningi sem fá bréf sent til sín í vikunni og mun greiðsla til þeirra berast á í byrjun febrúar.

Heildarupphæð sem greidd verður út úr félagssjóði er um 24 milljón króna en aðili sem hefur verið í 100% starfi getur verið að fá á bilinu 70.000 til 100.000 kr. og hlutfallslega eftir starfshlutfalli, en hæsta einstaka greiðslan nemur 153 þúsundum en flestir eru að fá á bilinu 50-60.000 kr.

Verkalýðsfélag Akraness fer aðra leið heldur en önnur stéttarfélög hafa gert en eftir upplýsingum VLFA framkvæma önnur félög þetta með þeim hætti að félagsmaðurinn þarf að sækja um umrædda greiðslu og ef hann ekki gerir það á hann á hættu að greiðslan detti niður dauð. VLFA hinsvegar fer allt aðra leið sem er fólgin í því að félagið greiðir öllum greiðsluna og enginn þarf að sækja um enda var það megintilgangur með þessu 1,5% framlagi að það kæmi að fullu til skila til starfsmanna. Félagið greiðir út eftir iðgjaldaskilum sveitarfélaganna og ítrekar að enginn þarf að sækja um heldur sér félagið alfarið um að koma greiðslunum til þeirra sem eiga rétt á þeim samkvæmt gildandi kjarasamningi félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga

04
Jan

Fæðingarstyrkur VLFA gríðarlega vinsæll hjá félagsmönnum!

Verkalýðsfélag Akraness býr yfir öflugum sjúkrasjóði þar sem félagsmönnum okkar er boðið uppá margvíslega styrki úr sjóðnum. Á árinu 2021 greiddi sjúkrasjóður upp undir 100 milljónir í formi sjúkradagpeninga og styrkja til félagsmanna en tæplega 1300 félagsmenn notfærðu sér þá styrki sem VLFA býður sínum félagsmönnum uppá, sem er 43% félagsmanna.

Eins og alltaf þá eru hæðstu greiðslurnar úr sjúkrasjóðnum vegna sjúkradagpeninga og námu þær greiðslur um 50 milljónum í fyrra, en rétt til greiðslu sjúkradagpeninga eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa veikindarétti hjá sínum atvinnurekanda og eru áfram veikir.

Það er ánægjulegt að segja frá því að hæsti einstaki styrkurinn sem VLFA greiddi út er fæðingarstyrkurinn. Félagsmaður í VLFA sem eignast barn á rétt á slíkum styrk sem nemur 150.000 kr. og ef báðir foreldrar eru í félaginu þá nemur styrkurinn samtals 300.000 kr.   En 90 foreldrar eignuðust barn á árinu 2021 og nam heildarupphæð fæðingarstyrks rétt tæpum 13 milljónum í fyrra.

377 félagsmenn nýttu sér heilsufarskoðunarstyrkinn en hann nemur 50% af reikningi að hámarki 30 þúsund og nam heildarupphæðin tæpri 7,5 milljón á árinu 2021. Fyrir nokkrum árum var þessi styrkur útvíkkaður þannig að félagsmenn gátu komið með reikning vegna tannlæknakostnaðar og eru um 65% af öllum endurgreiðslum vegna þessa styrks vegna tannlæknakostnaðar.

Einnig er rétt að upplýsa að heilsueflingarstyrkurinn er alltaf mjög vinsæll hjá félagsmönnum VLFA en um 300 félagsmenn þáðu þann styrk og nam heildarupphæð heilsueflingarstyrksins rúmum 7 milljónum.

Sem betur fer er sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness öflugur og stendur vel fjárhagslega og það er stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins með því að bæta við styrkjum eða hækka fjárhæðir einstakra styrkja og verður engin undantekning þar á í ár.

En slíkar breytingar eru alltaf tilkynntar á aðalfundi félagsins og taka gildi næstu mánaðarmót eftir aðalfund.

30
Dec

Dagbækur og dagatöl 2022 í boði fyrir félagsmenn VLFA

Verkalýðsfélag Akraness býður félagsmönnum sínum skipulagsdagbók og dagatöl 2022 merkt félaginu á meðan birgðar endast en um takmarkað magn er að ræða.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum sínum og launafólki öllu gleðilegs nýtt ár og þökk fyrir árið sem senn er á enda.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image