• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Oct

Formaður með erindi hjá Lionsfélögum á Akranesi í gær

Í gærkvöldi var formanni boðið að flytja erindi á Lionsfundi á Akranesi. Á fundinum fór formaður ítarlega yfir sögu félagsins og hin ýmsu mál sem lúta að félaginu með einum eða öðrum hætti.

Hann fór yfir atvinnulífið og þær hremmingar sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í þeim efnum eins og með lokun Sementsverksmiðjunar á sínum tíma sem og þegar allar aflaheimildir frá Akranesi voru fluttar hér í burtu með skelfilegum afleiðingum efnahagslega fyrir samfélagið hér á Akranesi.

Einnig fór hann yfir mikilvægi stóriðjunnar á Grundartanga og öll þau gríðarlegu efnahagsáhrif sem þær hafa á samfélagið.

Einnig bar lífeyriskerfið á góma og sú mikla sjóðasöfnun sem á sér stað innan lífeyrissjóðakerfisins og benti formaður m.a. á að lífeyrissjóðirnir ættu um eða yfir 50% af öllum skráðum hlutabréfum í kauphöllinni. Þetta gerir það að verkum að samkeppni á matvælum, olíu, og tryggingarmarkaði verður eðli málsins samkvæmt afar takmarkað þegar sjóðirnir eiga yfir 50% í öllum þessum aðilum.

Þetta var góður fundur og alltaf gott fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni að fá tækifæri til að tala milliliðalaust við hin ýmsu félagasamtök.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness 97 ára í dag

Formaður vill fyrir hönd stjórnar óska öllum félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness innilega til hamingju með daginn því í dag er félagið 97 ára en það var stofnað 14. október 1924.

Í sögunni um stofnun félagsins segir orðrétt:

„Það var fimmtudaginn 9. okt. 1924, að allmargir sjómenn og verkamenn og ein kona, komu saman til fundar í Báruhúsinu á Akranesi, í þeim tilgangi að vinna að undirbúningi að stofnun verkalýðsfélags á Akranesi.

Það fólk sem hér var samankomið, var hert í miskunnarlausri baráttu fyrir lífshagsmunum sínum og heimila sinna. Þetta voru menn, sem sóttu sjóinn á litlum vélbátum og sumir á opnum árabátum, af miklu kappi, - verkamenn sem báru daginn út og daginn inn, og kona sú, sem getið er í fundargerðinni, vann við fiskþvott, en slíkt starf var að mestu unnið í óupphituðu húsnæði, og stundum undir beru lofti, og kom fyrir að brjóta þurfti ís af þvottakörunum áður en fiskþvottur gæti hafist.

Fundarstjóri á þessum fundi var kjörinn Sveinbjörn Oddsson, og fundarritari Sæmundur Friðriksson. Frummælandi á þessum undirbúningsfundi var Oddur Sveinsson á Akri.

Hann flutti snjallt erindi um alþýðuhreyfinguna í Evrópu, og lýsti starfi hennar og stefnu, og hversu miklu hún gæti komið til leiðar með starfsemi sinni. Hvatti Oddur eindregið til stofnunar verkalýðsfélags hér á Akranesi.

Þá ræddi Sæmundur Friðriksson, um stofnun verkalýðsfélags, og lýsti því hversu mikla þýðingu slíkur félagsskapur gæti haft fyrir verkalýðinn á sjó og landi, bæði í kaupgjalds- og atvinnumálum.

Sveinbjörn Oddsson kvað ekki hægt á einu kvöldi, að sýna fram á hvernig best væri ráðin bót á öllu því sem umbóta þurfti með, og lýsti á hvern hátt hann hyggði, að verkalýðsfélag gæti náð árangri ef stofnað yrði.

Auk þess töluðu þeir Þorsteinn Benediktsson og Sigurður Jörundsson, og mæltu þeir báðir með stofnun verkalýðsfélags. Þess ber að geta, að bræðurnir frá Teig, Ásgrímur, Sigurjón og Stefán, stuðluðu mjög að stofnun félagsins.

Á fundi þessum var kosin 5 manna nefnd, til þess að vinna að frekari undirbúningi. Kosningu hlutu eftirtaldir menn: Sveinbjörn Oddsson, Sæmundur Friðriksson, Jörgen Hansson, Indriði Jónsson og Oddur Sveinsson.

Þá var kosin 9 manna nefnd til þess að gera tillögur um stjórn fyrir væntanlegt félag og hlutu kosningu eftirtaldir: Indriði Jónsson, Sigurjón Sigurðsson, Sigurður Björnsson, Eiríkur Guðmundsson, Jónas Guðmundsson, Ólafur Kristjánsson, Gísli Einarsson, Halldór Sigurðsson og frú Sveinsína Sveinsdóttir. Síðan var fundi frestað og framhaldsfundur boðaður hinn 14. okt. 1924.

Framhaldsfundur var haldinn boðaðan fundardag, og þá lagt fram frumvarp að lögum fyrir félagið og það samþykkt samhljóða á fundinum. Stofndagur Verkalýðsfélags Akraness er því 14. október 1924. Stofnendur munu hafa verið alls 108 að tölu.

  1. 1. grein laganna hljóðaði svo:

           Félagið heitir: Verkalýðsfélag Akraness. Starfssvið: Ytri-Akraneshreppur.

  1. 2. grein.

           Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald, og með sjálfstæðri þátttöku alþýðunnar í stjórnmálum lands og sveitarfélags, allt í samræmi við önnur verkalýðsfélög og Alþýðusambandið.

Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirtöldum mönnum: Formaður: Sæmundur Friðriksson; ritari: Oddur Sveinsson og féhirðir Eiríkur Guðmundsson, Tungu. Meðstjórnendur: Jörgen Hansson og Ágúst Ásbjörnsson; varaformaður: Sveinbjörn Oddsson; vararitari: Gísli Gíslason og varaféhirðir: Jónas Guðmundsson.

08
Oct

Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans eru eignartilfærsla frá skuldsettum heimilum til fjármálaelítunnar

Nú hefur þriðja stýrivaxtahækkun Seðlabankans litið dagsins ljós en á nokkrum mánuðum hafa stýrivextir bankans hækkað úr 0,75 prósentum í 1,5 prósent.

Það liggur fyrir að svona vaxtahækkun þegar hún hefur skilað sér út að fullu hefur mikil áhrif á hag og ráðstöfunartekjur heimilanna. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á því sem fram kemur í Tíund blaði frá ríkisskattstjóra að íslensk heimili og einstaklingar skulduðu 2.266 milljarða króna árið 2019. Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur átti sig á því að vaxtahækkanir eru ekkert annað en eignarfærsla frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins og 0,75% vaxtahækkun þýðir eignartilfærslu sem nemur tæpum 17 milljörðum á ári þegar og ef öll stýrivaxtahækkunin skilar sér í formi hækkunar á vöxtum fjármálakerfisins.

Ástæðan fyrir þessari vaxtahækkun er vegna aukinnar verðbólgu en 12 mánaða verðbólgan í dag er 4,4% en takið eftir að verðbólgan án húsnæðisliðar í vísitölunni er einungis 2,9%. Það liggur fyrir að ástæða fyrir mikilli hækkun húsnæðisverðs sem rekja má til trega sveitarfélaganna til að úthluta lóðum sem hefur leitt til framboðsskorts. Það undarlega í þessu er að við hækkun á fasteignaverði skapast sjálfkrafa hækkun á fasteignagjöldum sem sveitarfélögin fá. Með öðrum orðum lóðaskortur sem leiðir til hækkunar á fasteignaverði skilar sveitafélögunum umtalsvert auknum tekjum og því má segja að sveitarfélögin hafi nánast hvata til að viðhalda lóðaskorti til að ýta undir hækkun á fasteignaverði enda skilar það þeim hærri fasteignagjöldum eins og áður sagði.

Tímabundin hækkun í séreignarsjóði betri lausn?

Nú segir Seðlabankastjóri að stýrivaxtahækkun sé stýritæki sem þeir beita m.a til að draga úr einkaneyslu til að ná niður verðbólgu. Það má vera rétt, en er nauðsynlegt að gera það með því að ástunda miskunnarlausa eignatilfærslu frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins. Getum við tekið upp nýtt fyrirkomulag sem Seðlabankinn hefði til að draga úr einkaneyslu almennings til að ná verðbólgu niður. Mitt mat er, já það er svo sannarlega hægt að gera án þess að fjármagn renni ekki í milljarða vís í hvert sinn sem stýrivextir eru hækkaðir til fjármagnseigenda.

 

Ég tel að það eigi að breyta þessu þannig að ekki sé verið að draga úr einkaneyslu almennings með þeim hætti að flytja jafnvel 16 milljarða frá heimilunum eins og þessar vaxtahækkanir munu leiða af sér. Það væri miklu skynsamlegra að breyta þessu þannig að Seðlabankinn hefði heimild til að hækka framlag í séreignasjóði af launatekjum til að draga tímabundið úr einkaneyslu.

 

Það er ljóst að mun meiri sátt myndi ríkja um það ef Seðlabankinn hefði heimild til að gefa það út að allt launafólk myndi t.d auka framlag sitt tímabundið í séreignasjóð um 0,75% af sínum heildarlaunum til að slá tímabundið á einkaneysluna. Upphæðin færi inn á séreignareikning viðkomandi launamanns, en með því væri ekki verið að færa milljarða frá almenningi yfir til fjármálakerfisins heldur inn á reikning hjá einstaklingum sem myndi draga úr einkaneyslu. Fjármunirnir væru eftir sem áður eign fólksins.

 

Hvaða sanngirni er í því að það séu bara skuldsett heimili og fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á vaxtahækkunum sem á að draga úr einkaneyslu en þeir sem skuldlausir eru leggja ekkert til málanna við að ná verðbólgunni niður.

 

Ég tel það í það minnsta fráleitt að verið sé að færa milljarða til fjármálakerfisins þegar það liggur fyrir að hægt væri að finna önnur stýritæki til að draga úr einkaneyslu almennings án þess að verið sé að færa milljarða frá þeim yfir til fjármálaelítunnar.

 

Það er morgunljóst að þessi leið myndi tryggja að ekki sé ástunduð grimmileg eignartilfærsla frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins í skjóli þess að draga þurfi tímabundið úr einkaneyslu almenningsins til að kveða niður verðbólguna.

 

Eina sem þarf til að breyta þessu er kjarkur, vilji og þor, en að sjálfsögðu mun fjármálaelítan leggjast gegn svona hugmyndum þar sem komið yrði í veg fyrir að fjármálakerfið myndi fá að vaða ofan í vasa vinnandi fólks og skuldsettra heimila með skítugum krumlum sínum í hvert sinn og Seðlabankinn ákveður að hækka stýrivextina.

 

Finnum nýja leið til þess þar sem hagsmunir launafólks og heimilanna verða hafðir í forgrunni en ekki enn og aftur hagsmunir fjármálaelítunnar eins og núverandi fyrirkomulag kveður á um.

 

Munum að þetta fyrirkomulag Seðlabankans um að draga úr einkaneyslu launafólks til að ná niður verðbólgu er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem auðveldlega er hægt að breyta.

17
Sep

Kynningarfundur með starfsmönnum í búsetuþjónustu á Beykiskógum

Í gær var formaður Verkalýðsfélag Akraness með kynningu á réttindum fyrir starfsmenn í búsetuþjónustu fyrir fatlaða á Beykiskógum en um 20 starfsmenn sinna þeirri mikilvægu þjónustu.

Laut kynningin að stórum hluta um þær breytingar sem urðu við svokallaða vinnutímastyttingu enda nokkuð flókið fyrir almennt starfsfólk að átta sig á þeim breytingum sem áttu sér stað.

En eins og flestir vita var verið að stytta vinnuvikuna úr 40 vinnustundum niður í 36 vinnustundir og ýmsar nýjungar teknar inn eins og breyting á vaktarálagi, vaktahvata, breytingargjaldi og yfirvinnu 1 og 2.

Þetta var mjög góður kynningarfundur og fjölmargar spurningar komu til formanns VLFA en hann fór einnig yfir þá þjónustu og styrki sem VLFA býður sínum félagsmönnum uppá.

15
Sep

Formaður Miðflokksins og frambjóðendur í norðvesturkjördæmi í heimsókn

Á skrifstofuna komu í dag Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi en núna hafa fulltrúar frá Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokknum, Vinstri grænum og Miðflokknum komið og hlustað á brýnustu hagsmunamál sem Verkalýðsfélag Akraness leggur áherslu á.

Þetta var fín heimsókn þar sem formaður kom áherslum verkafólks og hagsmunum okkar Akurnesinga vel á framfæri.

Formaður fór yfir starfsemina á Grundartanga og þá miklu þýðingu sem sú starfsemi hefur fyrir okkur Akurnesinga sem og þjóðina í heild sinni.

En Elkem Ísland og Norðurál skapa uppundir eitt þúsund fjölskyldum lífsviðurværi en með afleiddum störfum eru uppundir 3 þúsund fjölskyldur sem byggja lífsafkomu sína á starfsemi þessara fyrirtækja með einum eða öðrum hætti.

Það er mat formanns að tækifærin á Grundartanga eru gríðarlega mikil enda liggur fyrir að Norðurál er núna að fara að ráðast í 15 milljarða framkvæmd við stækkun á steypuskála fyrirtækisins. Þessi fjárfesting mun skapa uppundir 200 störf á byggingartímanum og 40 varanleg.

Það er mat formanns að það verður „nóg til“ ef okkur ber gæfa til að skapa fleiri öflugar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar því það er með öflugum útflutningsatvinnugreinum sem við þurfum til að standa undir því velferðasamfélagi sem við viljum búa í.

Það er t.d. fyrirtæki sem hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við Faxaflóahafnir um land á Grundartanga sem hefur í hyggju að reisa vetnisverksmiðju á Grundartangasvæðinu. Svona byltingarkennd verksmiðja sem gengur út á að framleiða nýja byltingarkenndan orkugjafa til að skipta út mengandi orkugjöfum eins og kolum og öðrum mengandi orkugjöfum. Ef tekst að láta þetta verkefni verða að veruleika þá myndi þetta leiða til þess að framleiðsla þess yrði að öllum líkindum seld út til lands í Evrópu sem myndi spara losun gróðurhúsalofttegunda eins og nemur allri losun Íslands í því landi sem myndi kaupa umrætt vetni.

Þessi umhverfisvæna vetnisverksmiðja þarf um 900 MW og hafa þeir sem standa að þessum hugmyndum í hyggju að nota vindorkuna til að knýja verksmiðjuna áfram. Til að framleiða slíka orku með vindi þyrfti rétt rúmlega 200 vindmyllur. Ávallt yrði um nokkra smærri vindmyllugarða að ræða sem rúmuðust á stöðum þar sem náttúru yrði ekki ógnað og ásýnd væri ásættanleg í samanburði við ábatann sem af slíkum görðum stafar.

Þessi vetnisverksmiðja myndi skapa uppundir 300 manns atvinnu og skila tugum milljarða í útflutningstekjur og því ljóst að þjóðhagslegur ávinningur er gríðarlegur fyrir Ísland. En aðal ávinningur er þessi vistvæna og byltingarkenndu orkuskipti sem þessi verksmiðja framleiðir sem er vetnið og nemur sparnaðurinn hennar eins og losun Íslands af CO2 eins og áður hefur komið fram.

Hvaða umhverfissinni getur verið á móti því að nota vindorkuna til að spara losun á gróðurhúsaáhrifum sem nemur 4 milljónum tonna á ári og um leið skapa 300 varanleg störf og milljarða tekjur fyrir íslenskt samfélag?

Ef þessi vetnisverksmiðja yrði að veruleika þá er þetta langstærsta framlag okkar Íslendinga til umhverfismála til þessa, svo mikið er víst og það eru svona brýn þjóðhags- og umhverfisvæn atriði sem komandi kosningar eiga að snúast um.

Því við þurfum að tryggja öflug umhverfisvæn og gjaldeyrisskapandi atvinnutækifæri íslensku samfélagi til hagsbóta og það er þannig sem nóg verður til fyrir okkur öll.

Þetta voru allt mál sem formaður átti samtal við formann Miðflokksins og frambjóðendur flokksins í kjördæminu.

03
Sep

Félagsmenn VLFA hafa eignast 61 barn fyrstu 7 mánuði ársins

Einn af vinsælustu styrkjum sem Verkalýðsfélag Akraness býður sínum félagsmönnum er uppá er svokallaður fæðingarstyrkur sem foreldrar sem eru félagsmenn VLFA eiga rétt á. Styrkur félagsmannsins nemur 150.000 kr. með barni og ef báðir foreldrar eru félagsmenn VLFA nemur styrkurinn 300.000 kr.

Það er ljóst að þessi styrkur kemur foreldrum vel enda ýmsir nýir kostnaðarliðir sem koma til þegar foreldrar eignast barn.

Fyrstu 7 mánuði þessa árs hafa félagsmenn VLFA eignast 61 barn og nemur fæðingarstyrkurinn rétt tæpum 10 milljónum til þeirra foreldra sem eru félagsmenn VLFA.

Einnig er heilsueflingarstyrkurinn afar vinsæl meðal okkar félagsmanna en um 250 félagsmenn hafa nýtt sér þann styrk fyrstu 7 mánuði þessa árs en styrkurinn nemur 50% af reikningi að hámarki 40 þúsund á ári.

Félagið hefur greitt fyrstu 7 mánuði þessa árs yfir 40 milljónir í sjúkradagpeninga til félagsmanna en sjúkradagpeningar eru góð trygging fyrir félagsmenn eftir að veikindarétti félagsmanna er lokið hjá atvinnurekenda.

Rétt er að geta þess að sjúkrasjóður VLFA býður sínum félagsmönnum uppá 13 styrki og hvetur félagið félagsmenn sína til að kynna sér vel styrkina og þjónustu sem félagið býður sínum félagsmönnum uppá.

Rétt er að geta þess að orlofssjóður VLFA kom með nýjan styrk inn í sumar sem laut að því að styðja félagsmenn að ferðast innanlands með því að niðurgreiða fyrir félagsmenn hótelgistingu og dvöl á tjaldsvæðum. Hámarksstyrkur er 10.000 kr en aldrei meira en 50% af hverjum greiddum reikningi.

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn VLFA sem voru á faraldsfæti vítt og breitt um landið í sumarfríum að þeir eiga rétt á endurgreiðslu vegna hótelgistingar og dvalar á tjaldsvæðum og nemur endurgreiðslan 50% af reikningi að hámarki 10.000 kr. eins og áður hefur komið fram.

Afar mikilvægt er að félagsmenn passi uppá kvittanir og komi með þær þegar sótt er um umrædda niðurgreiðslu. VLFA hvetur félagsmenn sína að nýta sér þessa niðurgreiðslu sem félagið bíður uppá.

Til þessa hafa rúmlega 50 félagsmenn nýtt þennan nýja styrk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image