• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Mar

Búið að opna fyrir umsóknir í orlofshús

Nú höfum við opnað fyrir umsóknir í sumarúthlutun orlofshúsa félagsins.  Umsóknartímabilið er alveg extra langt eða frá 1.-31. mars og úthlutun fer fram þann 4. apríl.

Félagið er með bústaði í Húsafelli, við Hótel Gym,  í Svínadal, Kambshólslandi, Kjósinni, Ölfusborgum, Hraunborgum, Vestmannaeyjum, Akureyri og einnig erum við með eina íbúð á  Torrevieja svæðinu á Spáni.  Alls 14 orlofs-hús/íbúðir.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá eldri úthlutað. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Fyrir endurúthlutun er heimilt að breyta umsóknum og leggja inn nýjar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að bóka þær á Félagavefnum og á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Hér eru helstu dagssetningarnar varðandi  umsóknir og úthlutanir: 

31. mars - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

04.apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum)

12. apríl  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

13.apríl  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

 - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

25.apríl - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

 

Hér er svo hægt að nálgast bækling  og umsóknareyðublöð fyrir þá sem ekki vilja nýta sér rafrænar umsóknir.

Einnig liggur þetta frammi á skrifstofunni hjá okkur á Þjóðbraut 1. 

24
Feb

Tómas Rúnar stjórnarmaður í VLFA látinn

Í gær barst mér sem formanni Verkalýðsfélags Akraness tilkynning um að Tómas Rúnar Andrésson stjórnarmaður í Verkalýðsfélagi Akraness hefði orðið bráðkvaddur í gær. Tómas var fæddur árið 1959 og hefði því orðið 63 ára þann 5. maí nk.

Tommi Rúnar eins hann var ætíð kallaður hafði gengt stöðu stjórnarmanns í Verkalýðsfélags Akraness um langt skeið, enda mikill áhugamaður um verkalýðsbaráttu. Tommi starfaði hér á árum áður lengi vel til sjós einnig var hann nokkur á hjá Norðurál. En á síðustu árum hefur hann starfað sem hópferðabílstjóri og hjá Akraneskaupstað.

Ég vil fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness þakka Tomma kærlega fyrir sitt framlag í þágu félagsins og sendi um leið ættingjum og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

16
Feb

Sólveig Anna Jónsdóttir kjörinn formaður Eflingar!

Formaður vil byrja á því að óska Sólveigu Önnu Jónsdóttur og hennar fólki á Baráttulistanum innilega til hamingju með glæsilegan sigur og það þrátt fyrir að þessi kosningabarátta hafi verið ein sú hatramasta og ógeðfelldasta sem sést hefur í kosningum á Íslandi fyrr og síðar.

Það er ljóst í huga formanns að þessar kosningar munu klárlega hafa einnig áhrif á framtíðarstefnu ASÍ og Starfsgreinasamband Íslands enda byggist valdahlutföll inná þingum ASÍ og SGS á svokölluðu fulltrúalýðræði.

Allir sem hafa fylgst með verkalýðsbaráttunni á liðnum vikum sjá og heyra að það er klofningur í verkalýðshreyfingunni og þessi sigur Sólveigar mun að mínum dómi gera það að verkum að umtalsverðar breytingar munu eiga sér stað á æðstu forystu bæði innan Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambands Íslands.

Það liggur fyrir að Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness, Grindavíkur og Framsýn unnu þétt saman við gerð lífskjarasamningsins árið 2019 og er það óumdeilt skv. öllum kjararannsóknum að sá kjarasamningur skilaði launafólki góðri niðurstöðu. Vissulega má alltaf gera betur enda lýkur réttindabaráttu launafólks aldrei.

Það er einnig ljóst að þessi félög og ugglaust fleiri munu þétta raðir sínar enda mynda þau meirihluta innan ASÍ og SGS. Þessar kosningar í Eflingu munu að mínu mati leiða til þess að það verður ekki látið átölulaust að áhrif þessa meirihlutahóps endurspegli ekki að einhverju leyti stefnu og markmið og æðstu forystu ASÍ og SGS. 

15
Feb

Rétt skal vera rétt

Það var nú undarleg sögufölsun sem kom fram í pistli frá Gunnari Karli starfsmanni stéttarfélags Bárunnar á Selfossi á Vísi í fyrir stuttu þar sem hann fjallaði að stærstum hluta um formannskosningarnar í Eflingu.

En í þessum pistli er því haldið ranglega fram að kjarasamningurinn frá 2015 hafi skilað verkafólki meiri ávinningi en lífskjarasamningurinn sem undirritaður var 2019.

Það er grátbroslegt að sjá skuggastjórnendur verkalýðshreyfingarinnar sem félagi Ragnar Þór talaði um í pistli sínum í gær væla eins og stungnir grísir yfir því að nokkuð vel hafi tekist til við gerð lífskjarasamningsins sem leiddur var undir forystu Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness.

Svona sögufölsun eins og sést hjá Gunnari Karli er til þess eins að reyna að telja launafólki trú um að kjarasamningurinn frá 2015 hafi skilað meiri ávinningi fyrir verkafólk en lífskjarasamningurinn. Öll svona afbökun á sannleikanum er til þess fallin að reyna að hafa áhrif á formannskosningar í Eflingu.

Það er ekki bara að lífskjarasamningurinn hafi skilað umtalsvert fleiri krónum í launaumslag verkafólks heldur fylgdi með aðgerðapakki frá stjórnvöldum sem var kostnaðarmetinn af stjórnvöldum upp á 80 milljarða til að styðja við lífskjarasamninginn.

Okkur tókst í lífskjarasamningum að til dæmis lækka skattbyrði lágtekjufólks með samkomulagi við stjórnvöld og skilaði sú skattalækkun ein og sér tæplega 12.000 krónum til lágtekjufólks. Þetta er hægt að sjá með nákvæmum hætti á reiknivél um staðgreiðslu hjá ríkisskattstjóra.

Samhliða lífskjarasamningum funduðum við líka með Seðlabankanum þar sem lögð var ofuráhersla á að skapa forsendur fyrir Seðlabankann til að lækka stýrivexti bankans, og það tókst. Það var meira að segja skrifað í forsendur lífskjarasamningsins að ef stýrivextir Seðlabankans myndu ekki lækka um 2% yrði lífskjarasamningurinn uppsegjanlegur.

En skoðum þessa ótrúlega röngu staðhæfingu um að kjarasamningurinn frá 2015 hafi skilað meiri ávinningi fyrir verkafólk en lífskjarasamningurinn. Algengasti launaflokkur verkafólks er lfl. 7 en hann hækkaði úr 211.211 kr. árið 2014 í 272.261 kr. á samningstímanum eða sem nemur 61.050 kr. nánar tiltekið 29%.

Þessi sami launaflokkur nr. 7 hækkaði hinsvegar í lífskjarasamningum úr 272.261. í 362.261 kr. og stendur í þeirri upphæð í dag. Semsagt hækkaði um 90.000 kr. á samningstímanum eða sem nemur 33%.

Þessu til viðbótar liggur fyrir að við sömdum líka um svokallaðan hagvaxtarauka og mun hagvaxtaraukinn sem samið var um í lífskjarasamningnum virkjast á þessu ári. Afar líklegt er að hann muni skila launafólki 13.000 kr. sem koma þá til hækkunar 1. maí á þessu ári. Ef það raungerist sem afar miklar líkur eru á miðað við stöðuna eins og hún er í dag þá hafa launataxtar verkafólks hækkað um 103.000 kr.

Að halda því fram að samningurinn 2015 hafi skilað verkafólki meiru er ótrúlegt þegar liggur fyrir að launataxtar hækkuðu um 61.050 kr. á samningstímanum 2015 en að öllum líkindum 103.000 í lífskjarasamningnum. Þetta þýðir að lífskjarasamningurinn skilar 38% launahækkun en samningurinn 2015 29%. Því til viðbótar er 80 milljarða aðgerðapakki sem fylgdi með lífskjarasamningnum þar sem skattalækkun upp á 12.000 kr. er m.a. hluti af.

Vaxtalækkun

En aðalkjarabótin fyrir verkafólk og íslensk heimili liggur í lækkun vaxta eins og var eitt af stóru markmiðum lífskjarasamningsins og það tókst en fyrir lífskjarasamninginn voru stýrivextir 4,25% og fóru lægst niður í 0,75% þótt vissulega hafi þeir hækkað að nýju og standi núna í 2,75%

En skoðum vextina sem heimilunum var boðið upp á árið 2015 en óverðtryggðir vextir voru þá 7,25% en eru í dag 4,20%. Verðtryggðir vextir voru 3,65% en eru í dag 1,9%.

Þessi vaxtamunur á 35 milljóna húsnæðisláni þýðir að greiðslubyrði hefur lækkað miðað við vextina 2015 um 90.000 á mánuði eða 1,1 milljón á ársgrundvelli. Af verðtryggðu láni að sömu fjárhæð er lækkun á greiðslubyrði 50.000 kr. á mánuði eða 600.000 á ársgrundvelli.

Það er sorglegt þegar aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar vilja ekki viðurkenna að lífskjarasamningurinn undir forystu Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur ,Eflingar  VR og Framsýnar hafi ekki skilað afar góðum árangri þótt alltaf megi gera betur enda lýkur kjarabaráttu launafólks aldrei.

Það er rétt hjá félaga Ragnari Þór að hatrið og níðið í garð þeirra sem hafa gagnrýnt stefnur og markmið ASÍ á liðnum árum og áratugum er grímulaust.

Allir sem þekkja til innan verkalýðshreyfingarinnar vita hvernig fulltrúalýðræðið virkar inni á þingum ASÍ og innan landssambanda ASÍ. Því má klárlega segja að það sé ekkert verið að kjósa eingöngu um forystu í Eflingu heldur hefur sú kosning áhrif á fulltrúalýðræðið inni á þingum ASÍ og SGS.

Það má segja að kosningar í Eflingu, sem er næststærsta stéttarfélag landsins, muni hafa áhrif á stefnu og markmið verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni og nú sé kannski að renna upp sá dagur að loksins verði lokauppgjör innan verkalýðshreyfingarinnar.

En rétt skal vera rétt og ég vísa svona sögufölsun á bug sérstaklega þegar verið er að reyna að hafa áhrif á formannskjör í Eflingu með slíku bulli!

01
Feb

Búið að greiða úr félagsmannasjóðnum

Í dag fengu 582 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðasveit og Hjúkrunar-og dvalarheimilinu Höfða greitt út úr Félagsmannasjóði sem samið var um í síðustu samningum. Heildarupphæðin sem greidd var úr sjóðunum nam 24.064.323

Rétt er að vekja athygli að allir félagsmenn fengu bréf sent heim fyrir nokkrum dögum þar sem upphæð greiðslu hvers og eins var getið.

25
Jan

Nýtt bónuskerfi starfsmanna Elkem svínvirkar

Í nýjum kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness /Elkem sem undirritaður var þann 18. maí í fyrra var m.a. samið um að gera breytingar á bónuskerfi starfsmanna en bónuskerfið nýja á að geta skilað mest 13%.

Það er sameiginlegur skilningur samningsaðila að bónuskerfið eigi að skila að jafnaði í kringum 80% af hámarkinu sem eru 10,4%

Núna hefur komið í ljós að kerfið er að virka gríðarlega vel en að meðaltali hefur bónusinn skilað eftir að hann tók alveg gildi 11,70% sem er um 90% af hámarkinu. Þetta getur haft veruleg áhrif á kjör starfsmanna enda leggst bónusinn ofan á öll föst laun starfsmanna sem þýðir að bónusinn er að skila á milli 80.000 - 90.000 kr. á mánuði.

 

Hér er  hægt að nálgast kjarasamninginn, en liðurinn um bónusgreiðslurnar er á bls 16.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image