• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Nov

Starfgreinasamband Íslands, VR og LÍV vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara

Íslenskt atvinnulíf stendur styrkum fótum og staða fyrirtækja hefur sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru skilaði methagnaði á síðasta ári og allt bendir til þess að árið í ár verði ekki síðra. Útflutningsgreinarnar – undirstöður atvinnulífsins – standa afar vel. Sjávarútvegurinn skilaði tugmilljarða króna hagnaði í fyrra og ferðaþjónustan hefur náð flugi á nýjan leik eftir Covid.

 

Vinnuframlag launafólks, þekking þess og kunnátta liggja að baki þessum gríðarlega góða árangri og launafólk á kröfu á umbun í samræmi við það. Um það snúast kjarasamningar – réttláta skiptingu.

 

Lífskjarasamningurinn, sem undirritaður var árið 2019, rann út um síðustu mánaðamót. VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands hafa staðið þétt saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu vikur og freistað þess að ná nýjum samningi. Fundað hefur verið stíft en nú blasir við að of mikið ber í milli. Samningur er ekki í sjónmáli og engar forsendur til að halda viðræðum áfram að óbreyttu.

 

Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld svo fátt eitt sé nefnt. Stéttarfélögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess.

 

 Stéttarfélögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa. Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki.

 

VR/LÍV og SGS eru í forsvari fyrir stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði og gera kröfu um sanngirni. Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða. Því hafa stéttarfélögin tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum VR/LÍV og SGS við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjar

 

14. nóvember 2022

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands ísl. verzlunarmanna

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands

28
Oct

Fyrsti fundur LÍV og SGS með Samtöku atvinnulífsins

Eins fram hefur komið ákváðu stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og Starfsgreinsamband Íslands (SGS), að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning.

Forystufólk úr þessum samböndum áttu fyrsta fund um nýjan kjarasamning með Samtökum atvinnulífsins, fimmtudaginn 27. október 2022. Fundurinn gekk vel og voru aðilar sammála að funda þétt næstu vikurnar með það að markmið að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Á myndinni sem tekin var við þetta tækifæri eru frá vinstri:

Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis
Hjördís Þóra Sigþórsdóttir, formaður AFLs – starfsgreinafélags
Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður LÍV og VR
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness

28
Oct

Frá aldamótum hafa launahækkanir ekki haft áhrif á verðbólgu

Ásgeir Daníelsson, fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands, var með vægt til orða tekið afar fróðlega kynningu á málstofu í Seðlabanka Íslands 13. september sl.
Þessi kynning var m.a. um áhrif launahækkana á þróun verðlags á Íslandi og niðurstöðurnar eru sláandi. En fram kom í þessu erindi frá Ásgeiri að frá árinu 2000 hefur ekki verið hægt að greina tölfræðilegt samband milli launahækkana sem samið hefur verið um á íslenskum vinnumarkaði og verðlags.
Takið eftir að frá aldamótum hefur ekki verið hægt að sýna fram á samband milli verðlags og launahækkana. Það kemur einnig fram í þessu erindi að ekki sé lengur tekið tillit til launabreytinga í þjóðhagslíkani Seðlabankans. Ekki hægt að skilja annað en að ástæðan sé sú að ekki sé hægt að byggja á tölfræðilegu sambandi milli launahækkana og verðlags og er því sleppt.
Það er algjörlega magnað að fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands skuli upplýsa að á síðustu 22 árum hafi alls ekki verið hægt að sýna fram á að launahækkanir leiði til hækkunar á verðlagi.
Hugsið ykkur að á verkalýðshreyfingunni hefur dunið ár eftir ár að ef við semjum ekki um afar hóflegar hækkanir þá muni það leiða til óðaverðbólgu og ógna stöðugleikanum og þessum óhróðri hafa Seðlabankinn, stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins haldið úti linnulaust í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir.
Núna afhjúpast ósannindin þar sem fram kemur að ekkert tölfræðilegt samband sé á milli launahækkana og verðlags frá árinu 2000 en samt er þessum óhróðri ætíð haldið hátt á lofti.
Þessi niðurstaða frá Ásgeiri Daníelssyni, fyrrverandi forstöðumanni á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands ætti að vera fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum, enda stórmerkileg tíðindi.
Eins og allir vita er búið að hræða þjóðina með víxlverkun verðlags og launa stanslaust þegar kjarasamningar eru lausir en sannleikurinn er sá að Seðlabankinn hefur ekki fundið tölfræðilegt samband milli launahækkana og verðlags frá árinu 2000!
Eru stjórnvöld, Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins vísvitandi búin að ljúga að þjóðinni um samband á milli launahækkana og verðlags á liðnum áratugum? Miðað við þessi tíðindi er ekki annað að sjá en að svo sé!
14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 98 ára í dag

Í dag fagnar Verkalýðsfélag Akraness 98 ára afmæli en félagið var formlega stofnað í Báruhúsinu á Akranesi þann 14. október 1924. Þar var lagður mikilvægur grunnur að sterku félagi sem hefur vaxið og dafnað í gegnum miklar samfélagslegar breytingar í næstum heila öld og ber aldurinn vel. 

Þrátt fyrir allar þær breytingar sem hafa orðið á lífskjörum fólks og atvinnuháttum eru meginverkefni Verkalýðsfélags Akraness að mestu leyti þau sömu og í upphafi - að bæta hag félagsmanna sinna og vinna þannig gegn óréttlæti og misskiptingu. Til að ná árangri í kjarabaráttu skiptir samstaða öllu máli og það eru félagsmennirnir sem mynda þá mikilvægu heild sem skapar slíka samstöðu á hverjum tíma fyrir sig.

Til hamingju með daginn!

 

 

 

12
Oct

Átök á 45. þingi ASÍ

Á mánudaginn hófst 45. þing Alþýðusambands Íslands og er skemmst frá því að segja að formaður VLFA bar gríðarlega miklar vonir til þess að þetta þing yrði upphafið að mikilli samstöðu og sátt innan hreyfingarinnar. En eins og allir vita hafa hatrammar deilur, persónulegt níð og hatur einkennt starfsemina á liðnum árum.

Það er ljóst að fyrir þingið lá fyrir tillaga um að stilla upp öflugri forystusveit innan Alþýðusambands Íslands skipaða reynslumiklu forystufólki sem hefur látið mikið til sín taka í íslenskri verkalýðsbaráttu. Til forseta ASÍ bauð Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sig fram og í embætti 1. varaforseta Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, til 2. varaforseta Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og til 3. varaforseta Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og Starfsgreinasambands Íslands.

Þessi hópur var tilbúinn til að taka þetta erfiða verkefni að sér ef það myndi ríkja full samstaða um að snúa bökum saman og tryggja að þingið yrði notað til að lægja þær miklu öldur sem hafa einkennt starf ASÍ. Vonin var að takast myndi að ljúka þinginu þannig að allir kæmu út sem ein risastór heild með mikinn slagkraft, íslensku launafólki til hagsbóta.

Það var hinsvegar ömurlegt og dapurlegt að verða vitni að því strax á fyrsta degi þingsins að þar voru aðilar sem voru svo sannarlega ekki komnir þangað með það að markmiði að sætta ólík sjónarmið og stilla upp öflugri forystusveit Alþýðusambands Íslands. Þvert á móti var persónulega níðið og hatrið allsráðandi frá fyrstu mínútu. Nægir að nefna í því samhengi þá fordæmalausu tillögu sem Ólöf Adolfsdóttir, ritari Eflingar, ásamt 16 þingfulltrúum frá 11 aðildarfélögum lagði fram um að kjörbréf Eflingar, samtals 54 talsins, yrðu dæmd ólögleg. Það hefði þá þýtt að öllum fulltrúum Eflingar hefði verið vísað út af þinginu. Eins og áður sagði var þetta fordæmalaus tillaga og stóðst ekki eina einustu skoðun, hvorki lagalega né siðferðislega. En tónninn sem var sleginn með tillögunni var algjörlega kristalskýr, tilgangurinn var að valda frekari úlfúð og leiðindum. Það sorglega í þessu var að það voru formenn sumra aðildarfélaga ASÍ sem voguðu sér að skrifa undir þessa tillögu sem staðfesti þær áhyggjur að þarna væri fólk ekki mætt til að hafa hagsmuni launafólks að leiðarljósi og ná sáttum.

Síðan gerist það til viðbótar að formaður stéttarfélagsins Bárunnar skrifar stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún lýsir því að formenn SGS, VR og Eflingar hafi ástundað ofbeldismenningu innan hreyfingarinnar og hafi í hyggju að hreinsa út af skrifstofu Alþýðusambands Íslands. Þessum fræjum var sáð um þingsalinn eins og enginn væri morgundagurinn og á þessum tímapunkti var orðið ljóst að tilgangur þessa ágæta fólks var að viðhalda þessu hatri, persónulega níði og rógburði. Því var það niðurstaða formanna VLFA og VR að sætta sig ekki við að sitja undir svo alvarlegum ávirðingum dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Niðurstaðan eftir allt þetta var að þeir tóku ákvörðun um að afturkalla framboð sín í ljósi þess að engan vilja var að sjá til sátta og samstöðu. Tilkynntu þeir formanni Eflingar þessa niðurstöðu sem sagðist vera sammála greiningu þeirra og ákvað hún í kjölfarið að gera slíkt hið sama.

Í framhaldi af þessari ákvörðun var öllum þingfulltrúum VR og VLFA hóað saman þar sem formenn félaganna gerðu grein fyrir henni. Á þessum fundi voru miklar tilfinningar enda gríðarleg vonbrigði að sjá að sátt og samstaða voru ekki til staðar á þinginu. Það var 100% eining og samstaða á þessum fundi og skildu þingfulltrúarnir fullkomlega afstöðu Vilhjálms og Ragnars þó vissulega hafi fjölmargir biðlað til þeirra um að endurskoða þessa ákvörðun og reyna að ná sátt innan hreyfingarinnar. Þeir fóru ítarlega yfir þessa baráttu sem hefur verið háð, ekki bara í núinu heldur er þetta áralöng barátta og von þeirra var að hægt yrði að labba út af þinginu sem risastórt afl þar sem farið yrði í kjarasamningana með breiðri samstöðu allra aðildarfélaga ASÍ. Sú tilraun mistókst illilega vegna þess persónulega haturs sem ríkir í garð einstakra forystumanna. Var niðurstaðan sú að fulltrúar þessara félaga myndu víkja af þinginu og það gerði stór hluti þeirra. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort hægt verði að laga ástandið en eins og staðan er í dag eru áðurnefndir formenn ekki bjartsýnir á að vilji sé til slíks.

06
Oct

Komandi kjarasamningar

Starfsgreinasamband Íslands er búið að halda fjóra fundi með Samtökum atvinnulífsins þar sem hin ýmsu mál hafa verið rædd en það skal alveg segjast eins og er að það mun ekki fara fullur kraftur í þessar viðræður að mati formanns SGS fyrr en að afloknu þingi Alþýðusambands Íslands sem hefst þann 10. október og stendur til 13. október. Starfsgreinasambandið lagði fram kröfugerð 11. júní þannig að okkar viðsemjendur hafa haft góðan tíma til að meðtaka hana og fara yfir hana. En það er ljóst miðað við þær gríðarlegu kostnaðarhækkanir sem launafólk hefur þurft að þola að undanförnu í formi vaxtahækkana, hækkunar á matarverði, bensínverði og öðrum kostnaði sem sérhvert heimli þarf að standa straum af að það mun verða erfitt að ná saman.

 

Það liggur fyrir að greiðslubyrði þúsunda heimila hefur aukist um tugi þúsunda um hver mánaðarmót vegna vaxtahækkana Seðlabankans og það liggur fyrir samkvæmt úttekt sem Alþýðusambandið gerði á útgjöldum heimilanna að nánast allur ávinningurinn af því sem náðist í lífskjarasamningnum er horfinn vegna þessara kostnaðarhækkana. Það er og verður hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að verja stöðu launafólks og það verður gert með krafti í komandi kjarasamningum ef þurfa þykir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image