• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Oct

Fundað með Atvinnufjelaginu

Fulltrúar frá Atvinnufjelaginu óskuðu eftir fundi með formanni og varaformanni Starfsgreinasambands Íslands og var sá fundur haldinn á skrifstofu VLFA mánudaginn 26. september. En Atvinnufjelagið er undir forystu Sigmars Vilhjálmssonar veitingamanns og kom hann ásamt öðrum stjórnarmönnum á þennan fund. Fundurinn var svosem ágætur þar sem þau fóru yfir áherslur félagsins en þeir sem eru aðilar að þessu félagi eru lítil og meðalstór fyrirtæki. Kom meðal annars fram að þau vilja fá breytingu á svokölluðu dagvinnutímabili ásamt vaktaálögum en það kom skýrt fram frá SGS að slíkar breytingar væru ekki fyrirhugaðar í þessum samningum og samningsaðili SGS væru Samtök atvinnulífsins.

Vissulega er það stefna SGS að hlusta á raddir allra atvinnurekenda og meðtaka áherslur þeirra og einnig að nýta tækifærið og koma áherslum SGS á framfæri er lúta að hagsmunum launafólks hér á landi. Það eru reyndar fleiri baráttumál sem þetta umrædda félag stendur fyrir en þau mál lúta meira að stjórnvöldum og má þar nefna þrepaskipt tryggingagjald og að einyrkjar greiði ekki tryggingagjald. Eins og áður sagði var fundurinn ágætur en formenn SGS komu því skýrt á framfæri hver stefna SGS væri í þessum málum og því var algjörlega hafnað að breyta dagvinnutímabili og lækka hér álagsgreiðslur hjá þeim sem vinna um kvöld, helgar og á nóttunni.

09
Sep

Frábær ferð með eldri félagsmenn VLFA farin í gær

Í gær var loks komið að því að fara í ferðalag með eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en þessi ferð sem venjulega er árlegur viðburður hefur fallið niður síðustu tvö ár vegna samkomutakmarkana. Um 60 félagsmenn tóku þátt í ferðinni í ár auk nokkurra fulltrúa félagsins bæði úr stjórn og af skrifstofu. Þess má geta að elsti félagsmaðurinn sem var með í ferðinni að þessu sinni var kona sem fædd er árið 1927 og gekk í félagið 7. mars 1944. Hún hefur því verið félagsmaður í 78 ár.

Að þessu sinni var ferðinni heitið til Reykjavíkur og Bessastaða en áður en lagt var í hann var tekinn hringur innanbæjar á Akranesi til að sjá þau vegglistaverk sem hafa nýlega verið gerð víða um bæinn. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sá hann um að fræða fólk um hina ýmsu staði og viðburði auk þess að taka reglulega lagið enda var hann með nikkuna góðu meðferðis.

Fyrsti viðkomustaður var hið sögufræga hús Höfði í Borgartúni þar sem leiðtogafundur Reagan og Gorbatsjov átti sér stað árið 1986. Þar fékk hópurinn frábæra leiðsögn og fékk að skoða sig um á þessum merka stað. Að því loknu lá leiðin í Mosfellsbæ á veitingastaðinn Blik Bistro þar sem snæddur var hádegisverður í rúmgóðum sal með glæsilegu útsýni.

Eftir matinn var komið að því að heimsækja Bessastaði og byrjaði hópurinn á að fá fræðslu í kirkjunni á staðnum. Kl. 14 hófst svo móttaka á Bessastöðum og tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vel á móti gestunum ásamt starfsfólki Bessastaða. Guðni heilsaði öllum með handabandi og bauð fólki að skoða sig um. Hann spjallaði á léttum nótum við hópinn og boðið var upp á kaffi, pönnukökur og kleinur. Mikil ánægja var með þessar móttökur.

Að lokinni Bessastaðaheimsókn var haldið í Perluna þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti á efstu hæðinni. Hópurinn endaði á að skoða þær náttúrusýningar sem staðsettar eru í Perlunni og má þar nefna íshelli og norðurljósasýningu.

Eftir góða stund í Perlunni var komið að heimferð og rúturnar renndu inn í bæinn um kl. 18 eftir skemmtilega ferð. Það var sérstaklega ánægjulegt að ná aftur að fara í slíka dagsferð eftir hlé undanfarinna ára enda er þetta alltaf einn af hápunktum starfs félagsins.

 

Hér má sjá myndir úr ferðinni

06
Sep

Fyrsti samningafundur með Samtökum atvinnulífsins

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands fundaði með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í höfuðstöðvum SA í morgun og var þetta fyrsti formlegi samningafundurinn. Rétt er þó að geta þess að SGS afhenti SA kröfugerð sína 22. júní eða fyrir rúmum 2 mánuðum síðan.

 

Á fundinum var gengið frá viðræðuáætlun og voru samningsaðilar sammála því að reyna eftir fremsta megni að láta þessar kjaraviðræður ganga eins hratt og vel fyrir sig og kostur er. Fram kom í máli formanns SGS að æði margt hafi breyst til verri vegar frá því að kröfugerðin var lögð fram 22. júní þar sem hinir ýmsu kostnaðarliðir hafa hækkað umtalsvert og því ljóst að alvarleg staða er komin upp. Það verður sameiginlegt verkefni að ná að ganga frá kjarasamningum þannig að okkur takist að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna þar sem markmiðið er að allir geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

06
Sep

Formannafundur SGS var haldinn í gær

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands var haldinn í gær á Hótel Natura þar sem farið var yfir hin ýmsu mál. Að sjálfsögðu voru komandi kjarasamningar þar efst á baugi. Það kom skýrt fram hjá formönnum að staðan í komandi kjaraviðræðum er snúin enda liggur fyrir að þær gríðarlegu kostnaðarhækkanir sem orðið hafa á öllum sviðum hafa áhrif á lífskjör félagsmanna. Það má segja að þessi misserin sé að skapast sannkölluð lífskjarakrísa. Leigurverð hefur hækkað mikið, vextir sömuleiðis sem og allar nauðsynjavörur og það er samróma álit formanna SGS að bæta þurfi stöðu félagsmanna eins og kostur er í komandi kjaraviðræðum.

 

Einnig kom nýráðinn framkvæmdastjóri, Björg Bjarnadóttir, á fundinn og kynnti sig. Óskuðu formenn henni til hamingju með starfið með ósk um gott samstarf.

11
Aug

Forsætisráðherra fundaði með formanni í gær

Í gær kom Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Henný Hinz aðstoðarmanni ríkistjórnarinnar á sviði vinnumarkaðsmála í heimsókn á skrifstofu félagsins.

Með formanni VLFA og SGS á fundinum sat nýráðinn framkvæmdastjóri SGS Björg Bjarnadóttir. Eðli málsins samkvæmt voru komandi kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði aðalumræðuefnið og kom formaður SGS því vel á framfæri hverjar áherslur SGS eru í komandi kjarasamningum.

Það kom fram í máli formanns að hann hefur verulegar áhyggjur af komandi kjaraviðræðum í ljósi þess að enn og aftur hefur grátkór auðvaldsins hafið upp raust sína að ekkert sé til skiptanna og svigrúm til launabreytinga sé ekkert.

Formaður sýndi forsætisráðherra fyrirsagnir sem birst hafa í fjölmiðlum í aðdraganda kjarasamninga á liðum árum og áratugum og þar sést að aldrei hefur við svigrúm til launahækkana þegar kemur að því að semja fyrir verkafólk, aldrei!

Formaður vék einnig að stöðu útflutningsgreina þar sem allar hagtölur sýna að blússandi gangur er hjá þeim öllum.   Álverin skiluðu um 50 milljörðum í hagnað í fyrra, kísilverin skiluðu einnig frábæri afkomu, þrjú stærstu sjávarútvegsfyrirtækin skiluðu yfir 40 milljörðum í hagnað og einnig liggur fyrir að ferðaþjónustan er á blússandi uppleið, enda landið nánast uppselt.

Spáð er að arðgreiðslur til fyrirtækja muni nema um 200 milljörðum á þessu ári og samt voga hagsmunaaðilar auðvaldsins sér að halda því fram að ekkert sé til skiptanna.

Formaður vék einnig að því að í lífskjarasamningum hafi verkalýðshreyfingin lagt grunn að því að skapa stöðugleika í formi lágrar verðbólgu og hagstæðra vaxtakjara fyrir launafólk en ytri aðstæður eins framboðskortur á húsnæði, Covid og stríðið í Úkraníu hafi valdið því að verðbólgan hefur farið á flug að nýju.

Allt atriði sem launafólk ber ekki nokkra ábyrgð á og því fráleitt að ætlast til þess að launafólk leggi til fórnir enn og aftur enda hefur nánast allur ávinningur af síðasta kjarasamningi sogast í burtu yfir til fjármálakerfisins, einnig hafa leigjendur þurft að þola miklar hækkanir að ógleymdum aukum útgjöldum vegna hækkunar á matar og bensínverði sem og aðrar hækkanir sem dunið hafa á neytendum.

Formaður vék einnig að því hvernig munurinn er á milli íslensku vístölunnar og Samræmdri vísitölu neysluverðs sem mæld er eins í 27 ríkjum ESB og EES. En vegna þess að við erum með eigið húsnæði inní íslensku vísitölunni þá hefur hún ætíð mælst mun hærri en samræmda vísitalan sem leiðir til þess að verðtryggðar skuldir heimilanna og leiguverð hefur hækkað mun meira fyrir vikið.

Það var gott að fá tækifæri til að koma þessum áherslum milliliðalaust til forsætisráðherra og ber formaður þá von að hún hafi meðtekið þá alvarlegu stöðu sem blasir við launafólki og heimilum og var m.a. staðfest í könnun sem Fréttablaðið lét gera þar sem fram kom að 33,3% eiga í erfiðleikum að ná endum saman um hver mánaðarmót!

08
Aug

Ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu VLFA

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kom í heimsókn á skrifstofu félagsins í morgun og átti tæplega tveggja tíma samtal við formann VLFA sem jafnframt er formaður SGS.

Eðli málsins samkvæmt voru komandi kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði aðalumræðuefnið. En ljóst er að komandi kjarasamningar verða afar snúnar og erfiðar, enda ljóst að nánast allur ávinningur af síðasta kjarasamningi er búin að sogast í burtu vegna vaxandi verðbólgu og hækkandi vaxta og leiguverðs.

Það verður mikil áskorun að ná saman nýjum kjarasamningi sem tryggir og varðveitir kaupmátt launafólks, enda liggur fyrir að lífskjarasamningurinn átti að tryggja lága verðbólgu og hagstæðari vaxtakjör. Þau markmið náðust á fyrra hluta samningstímabilsins en á síðustu 12 mánuðum eða svo hefur svo sannarlega hallað undan fæti með hækkandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.

Eitt er víst að lífskjarasamningurinn var skynsamur og launafólk gerði allt rétt enda voru allir sammála um að hann myndi tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi. Hins vegar er utanaðkomandi atriði eins og framboðsskortur af íbúðarhúsnæði og áhrif af Covid og stríðinu í Úkraníu sem hafa keyrt verðbólguna upp hér á landi sem og víðar um heimsbyggðina.

Eitt er víst að verkalýðshreyfingin verður að verja lífskjör sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum og muni komandi kjarasamningar ráðast af því að eyða og draga úr óréttlæti, misskiptingu og ójöfnuði í íslensku samfélagi.

Þetta var gott spjall við Aðalstein, enda er ríkissáttasemjara umhugað að þjónusta samningsaðila eins vel og kostur þegar kjaraviðræður eru í gangi milli samningsaðila.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image