• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Oct

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst á morgun

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst á morgun og stendur fundurinn yfir í tvo daga, fundurinn verður haldinn á hótel Nordica.  Verkalýðsfélag Akraness á fimm fulltrúa á fundinum í ár þeir eru, Vilhjálmur Birgisson, Guðmundur Rúnar Davíðsson, Bryndís Guðjónsdóttir, Þórarinn Helgason og Jón Jónsson.  Eflaust munu kjaramál vera það mál sem eina mest verður til umræðu á ársfundinum.  Einnig er ekki ólíklegt að mikið verði rædd um forsendur kjarasamninga, en eins og flestir vita eru aðilar vinnumarkaðarins sammála um forsendur kjarasamninga séu kolbrostnar.  Síðan hlýtur ársfundurinn að fjalla ítarlega um þau undirboð sem nú tröllríða íslenskum vinnumarkaði.  Þessi undirboð tengjast nær eingöngu erlendum starfsmönnum sem hingað koma til starfa í gegnum erlendar og innlendar starfsmannaleigur. 

18
Oct

Enn og aftur ber eftirlit Verkalýðsfélags Akraness árangur með fyrirtækjum sem hafa erlent vinnuafl að störfum !

Enn og aftur bar eftirlit með erlendu vinnuafli árangur hjá Verkalýðsfélagi Akraness.  Fyrir nokkrum vikum fékk félagið ábendingu um að þýskir smiðir væru að störfum við byggingu á fjölbýlishúsi hér á Akranesi og grunur væri um að þeir væru ekki að fá greitt eftir réttum kjarasamningi.  Verkalýðsfélag Akraness fór á vinnustaðinn og kom þá í ljós að ábendingin átti við rök að styðjast.  Í framhaldinu óskaði félagið eftir launaseðlum og ráðningarsamningum af erlendu starfsmönnunum.  Fyrirtækið varð við ósk félagsins og afhenti umrædd gögn.  Kom þá í ljós þegar launaseðlar og ráðningarsamningar höfðu verið yfirfarnir, að ekki var verið að greiða eftir launataxta sem gildir fyrir smiði og vantaði þó nokkuð uppá.  Þýsku smiðirnir fengu greiddar 734 kr. í dagvinnu auk 208 kr. í fastan bónus á hvern dagvinnutíma.  Yfirvinnutímakaup þýsku smiðanna var einungis 1.332 kr. en átti að vera samkvæmt kjarasamningi 1.779 kr.  Það  vantaði  því 34% uppá að farið væri eftir þeim launatöxtum sem gilda fyrir umrædd störf.  Málið leystist í dag með samkomulagi og fá þýsku smiðirnir nú 988 kr. í dagvinnulaun og 1.779 kr. í yfirvinnu eins og kjarasamningur segir til um.  Þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvægt það er fyrir verkalýðshreyfinguna að vera á varðbergi gegn þeim undirboðum  sem nú tröllríður íslenskum vinnumarkaði.  Þessi undirboð snúa nær eingöngu að erlendu vinnuafli.  Þetta fjórða tilfellið á stuttum tíma  sem Verkalýðsfélag Akraness kemst að því að íslensk fyrirtæki eru að reyna að komast hjá því að greiða eftir þeim kjarasamningum sem um hefur verið samið í þessu landi.  Sem er algerlega óviðunandi.

17
Oct

Fundað með forstjóra og aðstoðarforstjóra Íslenska járnblendifélagsins um hið nýja bónuskerfi starfsmanna ÍJ

Formaður félagsins og aðaltrúnarmaður Íslenska járnblendifélagsins funduðu á skrifstofu félagsins með forstjóra og aðstoðarforstjóra Íslenska járnblendifélagsins í dag.  Tilefni fundarins var að fara yfir hið nýja bónuskerfi sem tekið var upp samhliða nýjum kjarasamningi.  Nokkrir þættir bónussins hafa ekki verið að gefa það sem samningsaðilar vonuðust eftir.  Einnig var rædd á fundinum um hvernig túlka beri  umhverfisbónusinn en í síðustu úttekt voru atriði sem komu til lækkunar á bónusnum sem starfsmenn voru ekki á eitt sáttir um.  Formaður félagsins minnti á að samningsaðilar hafi verið sammála um þegar gengið var frá hinu nýja bónuskerfi,  að ryk og önnur óhreinindi skyldu ekki hafa áhrif á bónus starfsmanna.  Þessi fundur var afar gagnlegur og voru fundarmenn sammála um að gera allt til að hið nýja bónuskerfi virki sem allra best fyrir báða aðila.  Verkalýðsfélag Akraness mun ásamt aðaltrúnaðarmanni ÍJ funda með starfsmönnum fyrirtækisins fljótlega þar sem farið verður yfir hið nýja bónuskerfi og skoðað hvað hægt er að gera til að bónusinn gefi starfsmönnum sem mest.

14
Oct

Skrifað verður undir nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs eftir helgi !

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði með framkvæmdastjóra Fangs í gær útaf nýjum fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn Fangs.  Framkvæmdastjóri  Fangs tilkynnti að eigendur fyrirtækisins hafa gengið að þeim kröfum sem ágreiningur hafi staðið um, ef það yrði til þess að hægt væri að ganga frá nýjum samningi.  Skrifað verður undir nýjan fyrirtækjasamning strax eftir helgi.  Í nýjum fyrirtækjasamningi verða atriði eins og launatafla,vinnutími,matar og kaffitímar,fæði og fatnaður,launalaus leyfi,ferðapeningar,og orlofs og desemberuppbætur sem verða hvor um sig 96.704.   Þessi samningur er á mjög svipuðum nótum og kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins og Klafa hvað varðar kostnaðaráhrifin á samningstímanum sem er um 21% á samningstímanum. Einnig mun koma eingreiðsla til starfsmanna sem eru í fullu starfi.  Formaður félagsins mun funda með starfsmönnum á þriðjudaginn 18. október og kynna nýja fyrirtækjasamninginn.  Verkalýðsfélag Akraness er nokkuð sátt við þennan nýja fyrirtækjasamning og telur að báðir samningsaðilar geti verið vel sáttir. 

12
Oct

Trúnaðarmenn Þorgeirs og Ellerts óttast um starfsöryggi sitt vegna undirboða sem fylgja erlendum starfsmönnum sem hingað koma til starfa í gegnum erlendar starfsmannaleigur !

Trúnaðarmenn Þorgeirs og Ellerts óskuðu eftir því að funda með Verkalýðsfélagi Akraness og Félag iðn- og tæknigreina í dag.  Vildu trúnaðarmennirnir upplýsa stéttarfélögin um þær áhyggjur sem þeir og starfsmenn fyrirtækisins hafa vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað að undanförnu og lítur að erlendu vinnuafli.  Þeir telja að starfsöryggi sínu sé illilega ógnað vegna þeirra undirboða sem fylgt hafa starfsmönnum sem koma hingað koma  til starfa,  í gegnum erlendar starfsmannaleigur.  Trúnaðarmennirnir segja réttilega, að þeirra fyrirtæki sé ekki samkeppnishæft við þau fyrirtæki sem eru með erlent vinnuafl og hafi þeirra fyrirtæki því orðið undir í útboðum að undanförnu.  Trúnaðarmennirnir  krefjast þess að stéttarfélögin kanni ítarlega hver launin séu hjá þeim erlendu starfsmönnum sem eru að störfum hér á okkar félagssvæði og hvort þeir séu með þá iðnmenntun sem til þarf.  Fram kom í máli trúnaðarmannanna að ef ekki verður hægt að fá upplýsingar um kaup og kjör þessara erlendu starfsmanna, þá verði stéttarfélögin að grípa til einhverja róttækra aðgerða. Verklýðsfélag Akraness mun klárlega fylgja þessu máli eftir af fullum þunga því starfsöryggi íslensks verkafólks og íslenskra iðnaðarmanna er í húfi.

10
Oct

Fundað um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs

Samningafundur var haldinn í morgun um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs.  Þetta var þriðji samningafundurinn sem haldinn er um nýjan fyrirtækjasamning.  Það eru örfá kjaraatriði sem útaf standa og ekki ólíklegt að gengið verði frá nýjum samningi í þessari viku.  Þau kjaraatriði sem liggja nú þegar fyrir í hinum væntanlega fyrirtækjasamningi eru atriði eins og launatafla, vinnutími, matar og kaffitímar,ferðapeningar,orlofs og desemberuppbætur.  Það sem stendur einna helst fyrir því að ekki sé hægt að ganga frá nýjum fyrirtækjasamningi er krafa starfsmanna um að sá bónus sem nú er í greiddur starfsmönnum haldi sér í nýjum samningi.  En það er skýlaus krafa stéttarfélagsins og starfsmanna að bónusinn verði tryggður með einum eða öðrum hætti í hinum nýja fyrirtækjasamningi. 

08
Oct

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kjörinn varaformaður Matvælasviðs sambandsins

Vilhjálmur Birgisson formaður Verklýðsfélags Akraness var kjörinn varaformaður Matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands á ársfundi sambandsins sem haldinn var á Akureyri 6. og 7. október.  Formaður Matvælasviðs var kjörinn Aðalsteinn Baldursson. 

07
Oct

Ársfundi Starfsgreinasambands Íslands lauk í dag

Fimmta ársfundi Starfsgreinasambands Íslands er lokið. Í ávarpi sínu við slit fundarins sagði Kristján Gunnarsson, formaður, þetta hafa verið góðan fund. Kristján sagði m.a.: „

Okkar bíða mörg og mikilvæg verkefni. Stærst er auðvitað að ná fram leiðréttingu á kjörum okkar fólks. Það er alveg sama hvernig menn stilla þeim málum upp – og við skulum vera viðbúin alls konar mótbárum og fortölum  - forsendur kjarasamninganna hafa ekki gengið eftir og það ber að leiðrétta. Með það verkefni í farteskinu förum við af þessum fundi. “

Ræða Kristjáns er hér í heild.

Góðir félagar

Þetta er búinn að vera góður ársfundur. Hér hefur verið mikil eindrægni og góður andi. Kannski að fagurt og friðsælt umhverfi hér á Akureyri hafi haft þessi góðu áhrif á okkur, eins og Kristján bæjarstjóri fullyrti í gærmorgun.

Fyrir mér hefur þessi ársfundur verið eins og eitt samfellt sjálfsstyrkingarnámskeið. Auðvitað kemur það fyrir okkur öll, að okkur finnst lítið ganga og okkur finnst að árangur erfiðisins sé lítill. Síðan er því stundum haldið fram, að við höfum náð öllum helstu markmiðum okkar – það sé ekkert eftir til að berjast fyrir.

Ég held að Stefán Ólafsson prófessor hafi sýnt okkur fram á hið gagnstæða hér í gær, þegar hann lýsti þróun kjara í Bandaríkjunum, hjá almennu verkafólki annars vegar og hátekjufólki hins vegar. Þar kom berlega í ljós, að allur ávinningur af miklum hagvexti hefur engu skilað til láglaunafólksins, kaupmáttur þess hefur beinlínis rýrnað – á meðan hátekjufólkið og forstjórarnir hafa margfaldað sinn kaupmátt.

Hafi einhver okkar haft einhverjar efasemdir um mikilvægi starfa okkar og hlutverk, þá hljótum við að hafa læknast af þeim. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur hér inni vilji stefna í þessa átt.  Þess vegna var þetta þörf áminning og nauðsynleg. Það er nefnilega ákveðið ástand í þjóðfélaginu núna. Ég tek heilshugar undir það sem Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambandsins sagði í ávarpi sínu í gærmorgun. Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp.

Og sænsku félagarnir settu hlutverk okkar í alþjóðlegt samhengi. Okkar starf skiptir ekki bara máli á heimavellinum, heldur berum við ábyrgð gagnvart félögum okkar í útlöndum – og það munar um þátttöku okkar í alþjóðlegu starfi.

Í máli sænsku félaganna kom meðal annars fram að baráttu sumra félaga okkar í útlöndum er ekki síður hægt að lýsa sem mannréttindabaráttu en verkalýðsbaráttu. Það sýnir ef til vill betur en margt annað hversu tengd þessi viðfangsefni eru – barátta launafólks og mannréttindabarátta. Það er meðal annars þess vegna sem við gripum inn í þegar ríkisstjórnin ætlaði að svelta mannréttindaskrifstofuna með því að svipta hana rekstrarfé. Við getum ekki talað digurbarkalega í útlöndum og sofið á verðinum heima fyrir.

 

Ágætu félagar.

Sjálfsstyrkingin var góður undirbúningur undir umfjöllunina um atvinnu- og kjaramálin. Ég held að ég taki ekki of mikið upp í mig þó ég haldi því fram að við höfum náð að stilla saman kraftana betur en nokkru sinni. Hafi einhvern tíma verið um að ræða sundurlyndi í okkar röðum – þá er það á hröðu undanhaldi. Við finnum styrk hvert frá öðru og málin eru afgreidd í bróðerni.

Það skiptir líka miklu máli. Það hefur trúlega ekki verið jafn mikilvægt um langan tíma, þegar við höfum í huga þær aðstæður sem við búum við í dag og þau verkefni sem framundan eru. Þar má enginn skorast undan. Það sem við eigum sameiginlegt er miklu mikilvægara en smávægilegur skoðanaágreiningur.

Þegar ég sleit ársfundi Starfsgreinasambandsins fyrir ári síðan, sagðist ég vera bjartsýnn. Það var ekkert ofsagt í því. Þetta ár sem síðan er liðið gerir það að verkum að ég kom enn bjartsýnni til þessa fundar – þannig hefur starfið hjá okkur verið og sá andi sem ríkir í Starfsgreinasambandinu. Og vinnan á þessum fundi og samheldnin draga síst úr. Ég veit ekki hvar þetta endar.

Góðir félagar

Ég þakka fundarstjórunum okkar, Guðmundi Þ Jónssyni, og Ásgerði Pálsdóttur, riturum fundarins og starfsfólki góð störf. Hér hefur allt gengið vel fyrir sig.

Þá vil ég líka nota tækifærið og þakka Birni Snæbjörnssyni og hans fólki á Einingu-Iðju fyrir alla þá vinnu sem þau hafa lagt af mörkum – í undirbúningi fundarins og á honum sjálfum. Og kvöldskemmtunin í gærkvöldi var hreint frábær. Sömuleiðis vil ég þakka Aðalsteini á Húsavík og hans fólki fyrir góðar góðar gjafir. Þessa ársfundar verður líklega minnst sem gjafafundarins mikla.

Kærar þakkir Norðlendingar fyrir frábærar mótttökur.

Ég vil jafnframt óska framkvæmdastjórninni til hamingju með endurnýjað umboð og vænti áfram góðs af samstarfinu í henni.

Ágætu félagar.

Okkar bíða mörg og mikilvæg verkefni. Stærst er auðvitað að ná fram leiðréttingu á kjörum okkar fólks. Það er alveg sama hvernig menn stilla þeim málum upp – og við skulum vera viðbúin alls konar mótbárum og fortölum  - forsendur kjarasamninganna hafa ekki gengið eftir og það ber að leiðrétta. Með það verkefni í farteskinu förum við af þessum fundi.

Um leið og ég þakka fyrir samstarfið á fundinum vil ég óska ykkur góðrar og farsællar heimferðar og heimkomu.

Fimmta ársfundi Starfsgreinasambands Íslands er slitið.

Heimild SGS

05
Oct

Ársfundur Starfsgreinasambands Íslands hefst á morgun

Ársfundur Starfsgreinasambands Íslands verður haldinn 6. og 7. október og verður ársfundurinn haldinn á Akureyri að þessu sinni.  Verkalýðsfélag Akraness á fjóra fulltrúa á ársfundinum og þeir eru Vilhjálmur Birgisson, Þórarinn Helgason, Tómas Rúnar Andrésson og Guðrún Linda Helgadóttir.  Það eru nokkur mjög stór mál sem verða til umræðu á þessum ársfundi.   Nú liggur orðið fyrir að Samtök atvinnulífsins telja að forsendur kjarasamninga séu brostnar og allt útlit er því fyrir að kjarasamningum verði sagt upp í haust.  Eflaust verður mikið rætt um þetta mál á ársfundinum.   Ársfundurinn mun klárlega fjalla ítarlega um þá þróun sem átt hefur sér stað á síðustu misserum og lítur að erlendu vinnuafli.  En stór hópur erlendra starfsmanna sem  vinnur hér á landi kemur í gegnum erlendar starfsmannaleigur.  Oft á tíðum er ekki verið að greiða þessum starfsmönnum eftir íslenskum kjarasamningum, það eru blákaldar staðreyndir.  Það er eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki að láta viðgangast á sínu félagsvæði !

04
Oct

Fundað var um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs í gær

Samningafundur var haldinn í gær um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækisins  fram drög að fyrirtækjasamningi á fundi sem haldinn var í síðustu viku.  Á fundinum í gær lagði Verkalýðsfélag Akraness fram þær breytingar á þeim drögum sem forsvarsmenn Fangs höfðu lagt fram.  Það eru ein fjögur atriði sem starfsmenn og félagið telja að þurfi að koma inn í fyrirtækjasamning til að hægt verði að ganga frá nýjum fyrirtækjasamningi.  Eru þessi atriði nú til skoðunar hjá forsvarsmönnum Fangs.   Næsti fundur verður 10. október 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image