• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

28
Jul

Eigendur Fangs hafa óskað eftir því við Verkalýðsfélag Akraness að hefja viðræður um nýjan fyrirtækjasamning

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var Verkalýðsfélag Akraness búið að ákveða að vísa ágreiningi við eigendur Fangs fyrir félagsdóm.  Ágreiningurinn byggðist á því að starfsmenn Fangs hafa unnið eftir sérkjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins, en sá samningur rann út 30. nóvember 2004.  Eigendur Fangs halda því fram að kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaður var 7. mars 2004 gildi fyrir starfsmenn Fangs eftir að sérkjarasamningurinn rann út.   Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness alfarið hafnað og talið fráleitt.  Því ákvað félagið í samráði við starfsmenn að fara með málið fyrir félagsdóm þar sem eigendur fyrirtækisins höfnuðu að ræða við stéttarfélagið um nýjan kjarasamning.  Nú hafa forsvarsmenn Fangs óskað eftir því við Verkalýðsfélag Akraness að ágreiningurinn fari ekki fyrir félagsdóm. Heldur vilja forsvarmenn fyrirtækisins að deiluaðilar setjist niður og reynt verði að ná niðurstöðu sem stéttarfélagið og starfsmenn geta sætt sig við.

27
Jul

Pólverjarnir sem starfa hjá Spútnik bátum hækka um 196.2% í launum !

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að aðstoða eigendur Spútnik báta við að sækja um dvalar og atvinnuleyfi fyrir Pólverjana fimm.  Félagið gekk frá ráðningarkjörum fyrir Pólverjana í gær og verður tímakaupið í dagvinnu 948 krónur og tímakaupið í yfirvinnunni verður 1.587.  Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var haft eftir Pólverjunum sjálfum að þeir væru með 320 kr. á tímann að jafnaði.  Með þessum nýja ráðningarsamningi við eigendur Spútnik báta hækka Pólverjarnir um 196.2% í launum.  Er Verkalýðsfélag Akraness afar stolt af því hvernig mál þetta endaði.  Einnig vill félagið þakka Ingólfi Árnasyni stjórnarmanni Spútnik báta fyrir að hafa viljað leysa málið jafn vel og raunin varð.   Það er og verður stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja hagsmuni okkar félagsmanna eins og kostur er, ekki mun verða horft í tíma né aura í þeirri hagsmunagæslu.

25
Jul

Verkalýðsfélag Akraness gerði samkomulag við Spútnik báta ehf vegna Pólsku verkamannanna

Samkomulag náðist í dag á milli eigenda Spútnik báta og Verkalýðsfélags Akraness um erlendu starfsmennina sem hafa starfað hér á landi að undanförnu án atvinnuleyfis.  Samkomulagið gengur út á það að sótt verður um atvinnuleyfi fyrir Pólverjanna fimm og þeim greitt eftir íslenskum kjarasamningum.  Einnig eru samningsaðilar sammála um að þetta sé eina leiðin til að tryggja að Pólverjarnir fái greitt lögbundinn starfskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum.   Með þessu samkomulagi munu Pólverjarnir greiða skatta og aðrar skyldur til okkar samfélags.  Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með samkomulagið og er ekki í nokkrum vafa að hagsmunum Pólverjana eru vel tryggðir með þessu samkomulagi.  Hægt er að lesa samkomulagið með því að smella á meira. 

Fréttatilkynning frá Verkalýðsfélagi Akraness og Spútnik bátum ehf.

Verkalýðsfélag Akraness og Sputnik bátar ehf. hafa að undanförnu deilt um heimild Sputnik báta ehf. til að fá til starfa erlenda verkamenn á grundvelli þjónustusamnings við erlenda starfsmannaleigu. 

Sputnik bátar ehf. hafa borið fyrir sig að sá langi tími sem almennt tekur að fá atvinnuleyfi neyði fyrirtæki til að nýta sér þessa þjónustu. Verkalýðsfélag Akraness hefur hins vegar talið að umræddir verkamenn séu í þessu tilviki launþegar Sputnik báta ehf. og lúti því alfarið íslenskum lögum. 

Málsaðilar hafa unnið að lausn málsins  með hagsmuni hinna erlendu starfsmanna að leiðarljósi og samkomulag er nú um að Sputnik bátar ehf. sæki um tímabundið atvinnuleyfi fyrir starfsmennina og þeim verði tryggð lágmarkskjör á grundvelli viðkomandi kjarasamninga með skriflegum ráðningarsamningi. Eru aðilar sammála um að  þetta sé eina leiðina til að tryggja hinum erlendu starfsmönnum  lögbundinn starfskjör samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Verkalýðsfélag Akraness hefur á grundvelli  þessa dregið til baka kæru vegna málsins 

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Ingólfur Árnason stjórnarformaður Sputnik báta.

25
Jul

Verkalýðsfélag Akraness kynnir fyrir 16 ára unglingum hver séu réttindi og skyldur þeirra á hinum almenna vinnumarkaði

Verkalýðsfélag Akraness hélt kynningarfund í samráði við vinnuskólann fyrir 16 ára unglinga um réttindi og skyldur á vinnumarkaðinum.  Formaður félagsins fór yfir hin ýmsu réttindi sem eru í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Þá gerði formaðurinn unglingunum grein fyrir þeim skyldum sem launþeginn hefur gagnvart sínum atvinnurekanda.   Einnig fór formaðurinn yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness og hvað félagsmönnum stæði til  boða ef þeir væru  fullgildir félagsmenn.  Verkalýðsfélag Akraness er ekki í nokkrum vafa um mikilvægi þess að kynna fyrir unglingum réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.  Þegar kynningunni var lokið bauð félagið uppá grillaðar pylsur og gos með.  Hægt er að skoða myndir frá kynningunni með því að smella á myndir og síðan á kynning fyrir 16 ára unglinga.   

23
Jul

Sveinn Andri lögmaður segir að Verkalýðsfélag Akraness hafi fengið rangan samning í hendur !

Í fréttablaðinu í dag er haft eftir Ingólfi Árnasyni sem er einn af eigendum Spútnik báta að aðför Verkalýðsfélags Akraness sé í raun hlægileg.  Einnig segir Ingólfur að Pólverjarnir uni sínum hag vel hjá fyrirtækinu og framganga Verkalýðsfélags Akraness sé ekki Pólverjunum til framdráttar.  Eitt er víst að Verkalýðfélagi Akraness er ekki hlátur í huga að vita til þess að blessaðir Pólverjarnir séu með einungis 320 krónur á tímann.  Það er haft eftir Pólverjunum sjálfum að þeir séu með 77 þúsund fyrir 240 klukkustundir á mánuði.  Hvernig í himninum fá eigendur fyrirtækisins það út að framganga félagsins sé ekki til framdráttar fyrir starfsmennina, þegar öll gögn í málinu benda til þess að verið sé að brjóta gróflega á þeim. 

Eitt liggur alveg ljóst fyrir í þessu máli, forsvarsmenn Spútnik báta afhentu formanni félagsins samninginn  á milli fyrirtækisins og starfsmannaleigunnar.  Í samningum kemur skýrt fram að heildarupphæðin fyrir Pólverjanna fimm er 2.1 milljón fyrir þriggja mánaða tímabil.  Ekki 3.5 milljónir eins og Sveinn Andri lögmaður  Spútnik báta heldur fram í Morgunblaðinu í dag.  Núna eru eigendur fyrirtækisins með Svein Andra Sveinsson lögmann í broddi fylkingar byrjaðir að halda því fram að Verkalýðsfélag Akraness hafi fengið rangan samning í hendurnar.  Væntanlega eru þeir búnir að átta sig illilega á því að samningurinn við starfsmannaleiguna uppfyllir á engan hátt  kjarasamninga á hinum Íslenska vinnumarkaði.  Sveinn Andri segir í Morgunblaðinu í dag að formaður félagsins hafi fengið rangar upplýsingar og samningurinn sem Verkalýðsfélag Akraness hafi fengið hafi einungis verið drög að samningi og miðaðist við færri starfsmenn heldur en fimm.  Þessi málflutningur Sveins Andra er hlægilegur og greinilegt að nú á að klóra í bakkann eins og hægt er.   Í samningum sem forsvarsmenn Spútnik báta létu formann félagsins hafa stendur að samið sé um  fimm pólverja til þriggja mánaða.  Einnig var fróðlegt að Sveinn Andri lögmaður og einnig Gunnar Leifur Stefánsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins  höfðu ekki tök á að láta blaðamann Morgunblaðsins hafa eintak að samningum sem fram kemur að Spútnik bátar greiði 3.5 milljónir fyrir Pólverjana fimm, en ekki 2.1 milljón eins og samningurinn sem Verklýðsfélag Akraness hefur undir höndum.  Getur verið að það sé verið að búa til nýjan samning ? spyr sá sem ekki veit.

22
Jul

Formaður félagsins fór í eftirlitsferð á byggingarsvæði Norðuráls í dag

Formaður félagsins fór inná byggingarsvæði Norðuráls í dag til að kanna hvernig starfsmannamálum þeirra fyrirtækja sem vinna við stækkun Norðuráls er háttað.  Ljóst er að töluvert er af erlendu vinnuafli að störfum við stækkun Norðuráls.  Í þessari eftirlitsferð í dag kom ekkert fram sem bendir til þess að verið sé að fara á mis við Íslenska kjarasamninga.  Reyndar náðist ekki í öll þau verktakafyrirtæki sem eru að störfum á svæðinu.  Strax eftir helgi mun Verkalýðsfélag Akraness halda áfram eftirliti sínu á því hvort verið sé að brjóta á atvinnuréttindum útlendinga með því að gera samninga við erlendar starfsmannaleigur með það eitt að markmiði að komast hjá því að greiða eftir kjarasamningum á hinum Íslenska vinnumarkaði .  Verkalýðsfélag Akraness skorar á alla að hafa samband við skrifstofu félagsins sem hafa einhverja vitneskju um  fyrirtæki sem eru að ráða erlenda starfsmenn í gegnum erlendar starfsmannaleigur. Töluverðar líkur eru á því að verið sé að brjóta á réttindum þessara starfsmanna sem koma frá erlendum starfsmannaleigum. 

21
Jul

Heilbrigðisfulltrúi Vesturlands mun á morgun taka út húsnæðið þar sem Pólverjarnir eru látnir gista

Verkalýðsfélag Akraness hefur sett sig í samband við heilbrigðisfulltrúa Vesturlands og óskað eftir að heilbrigðisfulltrúinn taki út það húsnæði þar sem erlendu starfsmennirnir eru látnir gista.  Það kom fram í máli heilbrigðisfulltrúans í dag að forsvarsmenn Spútnik báta hafa ekki látið heilbrigðisnefnd Vesturlands  taka út það húsnæði sem Pólverjarnir eru látnir gista í, á meðan þeir eru að störfum hjá fyrirtækinu.  Húsnæðið sem eigendur fyrirtækisins hafa skaffað handa erlendu stafsmönnunum er gamalt og hrörlegt iðnaðarhúsnæði.  Eins og áður sagði mun heilbrigðisfulltrúi Vesturlands taka húsnæðið út á morgun og kemur þá í ljós hvort húsnæðið uppfylli þau skilyrði sem eru gerðar til íbúðarhúsnæðis.

21
Jul

Pólverjarnir segjast vera með 77 þúsund krónur fyrir 240 vinnustundir á mánuði

Í kvöld fréttum Ríkissjónvarpsins var fjallað um málefni Pólverjanna sem starfa hjá fyrirtækinu Spútnik bátum.  Fréttamaðurinn hafði eftir  lögmanni fyrirtækisins  Sveini Andra Sveinssyni að samningurinn á milli Spútnik og starfsmannaleigunnar hljóðaði upp á 3.5 milljónir króna og að Pólverjarnir ynnu eftir lágmarkstaxta Eflingar.  Ekki veit Verkalýðsfélag Akraness hvaða samning Sveinn Andri hefur undir höndum.  En samningurinn á milli Spútnik og starfsmannaleigunnar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins afhenti formanni félagsins í gær hljóðar upp á 2.1 milljón fyrir fimm Pólverja og samningstíminn er þrír mánuðir.  Þetta stendur hvell skýrt í samningunum og hefur félagið afhent Sýslumanninum á Akranesi eintak af samningum.  Einnig var afar undarlegt að heyra haft eftir framkvæmdastjóra Spútnik báta að hann hefði ekki hugmynd um hver kjör Pólverjanna væru.  Hinsvegar var haft eftir Sveini Andra lögmanni framkvæmdastjórans að Pólverjarnir ynnu eftir kjarasamningi Eflingar.  Verður það að teljast afar undarlegt að lögmaðurinn viti eftir hvaða kjarasamningum Pólverjarnir fá greitt en ekki framkvæmdastjóri fyrirtækisins.  Eitt er alveg víst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgja þessu máli eftir af fullum þunga.

21
Jul

Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt fram kæru á hendur Spútnikbátum ehf

Rétt í þessu var formaður Verkalýðsfélags Akraness að leggja fram kæru á hendur fyrirtækinu Spútnikbátar ehf. hjá Sýslumanninum á Akranesi.  Kæran er vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002.  Hægt er að lesa alla kæruna með því að smella á meira.

Sýslumaðurinn á Akranesi

Stillholti 16-18

300 Akranesi 

Akranesi 20. júlí 2005

Efni: Kæra vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002

Fram hefur komið að 5 Pólverjar starfa samkvæmt svokölluðum ,,þjónustusamningi” hjá slippfyrirtækinu Spútnik Bátar ehf. kt. 570205-0990, að Bakkatúni 26, hér í bæ. Um starfsmenn sem sendir eru hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja til að veita þjónustu er fjallað í lögum nr. 54/2001.

Í lögum nr. 97/2002 er aftur á móti fjallað um það með hvaða hætti útlendingar geti komið til starfa til íslenskra fyrirtækja sem launþegar.  Samkvæmt afriti af samningi Spútnik Báta ehf. og M K Trans & Service verður að telja að umræddir starfsmenn séu launþegar Spútnik Báta ehf. og lúti því lögum nr. 97/2002 en komi ekki hingað til lands til að sinna þjónustu á vegum erlenda fyrirtækisins sbr. lög nr. 54/2002.

Ekki liggur fyrir atvinnuleyfi viðkomandi atvinnurekenda til að hafa nefnda Pólverja í vinnu, en samkvæmt 7. gr. c. liðar laga 97/2002, þarf m.a. „að liggja fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.”

Hið tilvitnaða ákvæði er m.a. ætlað að  koma í veg fyrir undirboð á íslenskum vinnumarkaði, en ekki verður betur séð af afriti meðfylgjandi samnings að hver umræddur starfsmaður hafi kr. 77.000,- í mánaðarlaun fyrir mikla vinnu.  Þessi launakjör brjóta jafnt í bága c-lið 1. mgr.  7. gr. laga nr. 97/2002 og 3. gr. laga nr. 54/2002.

Þegar af þeirri ástæðu ber að stöðva vinnu viðkomandi manna hjá umræddu fyrirtæki og er hér með skorað á yður að grípa til viðeigandi aðgerða gegn fyrirtækinu.

Þá má geta þess að samkvæmt 15 gr. nefndra laga um atvinnuréttindi útlendinga eru tæmandi taldir þeir útlendingar sem undanþágur eru gerðar um varðandi veitingu atvinnuleyfa, í allt að fjórar vikur, hér á landi. Ekki verður séð að nefndir Pólverjar falli undir undanþáguákvæði þessi.

F.h. Verkalýðsfélags Akraness. 

___________________________________
Vilhjálmur Birgisson, formaður.

20
Jul

Pólverjar án atvinnuleyfis að störfum hjá Spútnik bátum ehf.

Haft var samband við skrifstofu félagsins í dag og óskað eftir því við stéttarfélagið að það kannaði kjör og aðbúnað fimm Pólverja sem væru að störfum hjá fyrirtækinu Spútnik bátar ehf.   Formaður félagsins fór á vinnustaðinn og hafði tal af forsvarsmönnum fyrirtækisins.  Kom í ljós í samtölum við eigendur fyrirtækisins að engin Pólverjana hafði  atvinnuleyfi hér á landi.  Það kom einnig fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir hefðu gert samning við starfsmannaleigu í Póllandi sem heitir MK Trans & Service.  Í þeim samningi kemur fram að Spútnik ehf greiðir starfsmannaleigunni 2.1 milljón fyrir þriggja mánaða vinnu fyrir fimm Pólverja.  Það kemur líka fram í þessum samningi að Pólverjarnir er skyldugir til að skila að minnsta kosti 10 vinnustundum á dag.  Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast ekki hafa hugmynd hvað starfsmannaleigan borgi Pólverjunum í laun það komi þeim ekkert við.   Pólverjarnir sjálfir hafa sagt starfsmönnum Þ & E að þeir séu með 77 þúsund krónur í  mánaðarlaun fyrir 240 klukkustundir á mánuði.  Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fara af fullri hörku í þetta mál því hér er grafalvarlegt mál á ferð ef satt reynist.  Starfsmenn í skipasmíðastöðinni Þorgeirs & Ellerts þar sem Pólverjarnir eru að störfum hafa sagt formanni félagsins að þeir séu verulega uggandi um sinn hag og sína afkomu.  Starfsmenn Þorgeirs & Ellerts hafa líka sagt, ef það er hægt að ráða erlenda starfsmenn með þessu móti eins og Spútnik gerði, er atvinnuöryggi þeirra verulega ógnað.  Rétt er að benda á í lokin að Pólverjarnir fimm borga hvorki skatta né aðrar skyldur til samfélagsins.  Því er það mat Verkalýðsfélags Akraness að hér sé um mikið samfélagslegt vandamál á ferð.   Verkalýðsfélag Akraness er að skoða hvort málið verði kært til Sýslumannsins á Akranesi vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image