• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jan

Viðurkennum að almennt verkafólk sat illilega eftir í síðustu kjarasamningum miðað við aðra hópa !

Verkalýðsfélag Akraness hefur að undanförnu verið að benda á hversu illa verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fór út úr sínum kjarasamningi, sé tekið mið af öðrum kjarasamningum. 

Í frétt sem birtist hér á heimasíðunni á þriðjudag undir fyrirsögninni af hverju gat Starfsgreinasambandið ekki samið fyrir verkafólk á almenna markaðinum... var sýndur samanburður á þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á íslenskum vinnumarkaði frá því að samningurinn á almenna markaðnum var gerður 7. mars 2004.  Þennan samanburð vann hagfræðingur ASÍ Ólafur Darri Andrason. 

Samanburðurinn vakti þó nokkra athygli þar sem hann sýndi svart á hvítu og staðfesti um leið hvernig kjarasamningurinn á almenna markaðnum var langtum lakari heldur en aðrir kjarasamningar sem gerðir voru. 

Fréttamaður af Blaðinu hafði samband við formann félagsins þar sem þeim á Blaðinu þótti þetta nokkuð athygli verðar upplýsingar um kostnaðaráhrif kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.  

Tekið var viðtal við formann félagsins um þennan samanburð sem hagfræðingur ASÍ hafði unnið og birtist fín frétt um málið í Blaðinu á þriðjudaginn var. 

Í Blaðinu í dag birtist hins vegar frétt við formann Starfsgreinasambands Íslands þar sem hann er spurður útí þennan samanburð sem birtist hér á heimasíðunni.

Formaður SGS sagði að ekki væri sanngjarnt að bera kjarasamninga saman með þessum hætti, það yrði að taka tillit til gildistíma samninganna annars væru menn að bera saman epli og appelsínur.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að hagfræðingur ASÍ tók akkúrat tillit til þess í þessum samanburði á kostnaðaráhrifum kjarasamninganna. 

Í samanburðinum miðaði hagfræðingurinn við 48 mánuði eins og gildistími samningsins á almenna markaðinum er. Hann umreiknaði þá kjarasamninga sem gilda í skemmri eða lengri tíma,  einmitt til að gera samanburðinn sambærilegan. 

Því miður er það bláköld staðreynd að verkafólk á hinum almenna markaði fékk langtum minna heldur en aðrir hópar og er það eitthvað sem við í Starfsgreinasambandi Íslands eigum viðurkenna og læra af.

Samanburðurinn frá hagfræðingi ASÍ lítur svona út eftir að tekið hefur verið tillit til gildistíma kjarasamninganna

Kostnaðaráhrif þeirra kjarasamninga sem Starfsgreinasamband Íslands gerði voru eftirfarandi:

Almenni markaðurinn.                   15.8%

Við ríkið.                                          24.0%

Við Sveitarfélögin                             23.9%   

 

Kostnaðaráhrif annarra kjarasamninga

BSRB félög við Sveitarfélögin             23.6%

BSRB við ríkið                                  20.8%

KÍ framhalds                                    25.8%

KÍ grunnskóli                                   30.0%

KÍ leikskóli                                      37.0%

Efling við Reykjavíkurborg                30.0%

Eins og sést á þessum launasamanburði hagfræðings ASÍ þá sitja þeir sem lægstu hafa launin enn og aftur eftir og er það sorglegt.

Það er líka undarlegt að við endurskoðun  á forsendum kjarasamninga var ekkert tillit tekið til þess að kjarasamningur á almenna markaðinum var langtum rýrari en aðrir samningar eins samanburðurinn sannar.  Að sjálfsögðu átti forsendunefnd ASÍ og SA að grípa til sérstakar leiðréttingar fyrir almennt verkafólk.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness mótmælti á formannafundi SGS harðlega þeirri niðurstöðunni sem kom frá forsendunefndinni á sínum tíma.   

Það eina sem hægt er að gera í þessu er að læra af þessu og láta þessu líkt aldrei gerast aftur.  Því er rétt að nota slagorð Starfsgreinasambandsins þegar gengið verður til kjarasamningagerðar í árslok 2007, Sameinuð til sóknar !

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image