• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jan

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með bæjarráði

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent bæjarráði Akranesskaupstaðar bréf þar sem óskað er eftir fundi.  Í bréfinu er óskað eftir viðbrögðum bæjarráðs vegna nýgerðs kjarasamnings Eflingar við Reykjavíkurborg. 

Kjarasamningurinn sem Efling undirritaði 4. des felur í sér mun hagstæðari tengingu við  við launatöflu fyrir starfsmenn borgarinnar en samningur sem Starfsgreinasamband Íslands gerði 29. maí við Launanefnd sveitarfélag gagnvart starfsmönnum annarra sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þeirri stefnu sem Reykjavíkurborg hefur tekið í að bæta kjör þeirra sem lægstu hafa launin.  Vonandi munu önnur sveitarfélög fylgja að fordæmi Reykjavíkurborgar og lagfæra kjör þeirra sem lægstu hafa launin.

Hér eru tvö dæmi um hvernig kjörin eru mismunandi eftir því hvort starfsmenn vinna eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga eða kjarasamningi Reykjavíkurborgar en um mjög sambærileg störf er um að ræða:

Almennur verkamaður hjá Reykjavíkurborg er með í byrjunarlaun 123.097 hjá Akraneskaupstað 112.661 mismunur 10.436 þúsund eða 9.2%

Skólaliði hjá Reykjavíkurborg er með í byrjunarlaun 134.599

hjá Akraneskaupstað eru byrjunarlaunin 119.575 mismunur 15.024 þúsund á mánuði eða 12.5%

Verkalýðsfélag Akraness gerir ráð fyrir, að það geti ekki verið vilji forsvarsmanna Akraneskaupstaðar að starfsmenn kaupstaðarins, hafi allt önnur og lakari launakjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna sambærilegum störfum.  Á þeirri forsendu er óskað eftir fundi með bæjarráði, til að ræða hvernig brugðist skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Félagið telur að verði tenging starfsmats við launatöflu og símenntunarflokka ekki samræmd milli þessara hópa, þá hafi öll vinnan við starfsmatið verið til einskis unnin.

Hægt er að lesa bréfið til bæjarráðs með því að smella á meira.

Bæjarráð Akraneskaupstaðar

Stillholti

300 Akranes                                                                           Akranesi 9. janúar 2005

 

Efni: Viðbrögð við nýgerðum kjarasamningi Eflingar og Reykjavíkurborgar

Efling Stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu kjarasamning 4. desember sl., sem færir þeim hópum starfsmanna borgarinnar sem hafa haft hvað lökust kjör, verulegar launahækkanir. Þessu ber að fagna og jafnframt því að með þessum samningi eru lagfærð laun þeirra sem starfa við umönnun barna og aldraðra. Oftast eru það konur sem þessum störfum sinna og löngu orðið tímabært að meta þeirra störf að verðleikum.

Starfsgreinasamband Íslands og Launanefnd sveitarfélaga undirrituð kjarasamning 29. maí sl. sem byggður er á sama starfsmatskerfi og samningur Eflingar og Reykjavíkurborgar og hefur mikil vinna verið lögð í að koma því kerfi á. Tilgangurinn hefur verið m.a. að þróa aðferðir til að greiða sömu laun fyrir jafn verðmæt störf, óháð kyni eða því hjá hvaða sveitarfélagi þau væru unnin. Við þessa vinnu hefur verið mjög gott samstarf milli aðila, bæði mismunandi stéttarfélaga, þ.e. ASÍ og BSRB félaga og launanefndar.

Kjarasamningurinn sem undirritaður var 4. des. felur í sér mun hagstæðari tengingu við  við launatöflu fyrir starfsmenn borgarinnar en samningurinn frá 29. maí gera gagnvart starfsmönnum annarra sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag Akraness gerir ráð fyrir, að það geti ekki verið vilji forsvarsmanna Akraneskaupstaðar að starfsmenn kaupstaðarins, hafi allt önnur og lakari launakjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna sambærilegum störfum. Hér með er óskað eftir fundi með bæjarráði, til að ræða hvernig brugðist skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Félagið telur að verði tenging starfsmats við launatöflu og símenntunarflokka ekki samræmd milli þessara hópa, þá hafi öll vinnan við starfsmatið verið til einskis unnin.

Einnig þarf að ræða um sérákvæði sem félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness voru með í sínum kjarasamningi og lítur að sumaruppbót og fermetragjaldi í flatarmældri ákvæðisvinnu.  En ekki var tekið tillit til þessara sérákvæða þegar gengið var frá nýjum kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga 29. maí 2005

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Birgisson

formaður

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image