• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Aug

Fundur annað kvöld með starfsmönnum steypuskála Norðuráls

Annað kvöld, þriðjudaginn 26. ágúst, mun formaður Verkalýðsfélags Akraness funda með starfsmönnum steypuskála Norðuráls. Fundurinn hefst kl. 20:00 og verður haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Ástæða fundarins er það aukna álag sem starfsmenn steypuskála hafa fundið fyrir undanfarna mánuði en fjölmargir þeirra hafa leitað til félagsins og óskað eftir aðstoða vegna þess.

Á fundinum verður meðal annars farið yfir til hvaða aðgerða hægt er að grípa í aðstæðum sem þessum en gríðarlega mikilvægt er að öryggi og velferð starfsmanna sé ætíð í fyrsta sæti.

Verkalýðsfélag Akraness vonast til að sjá sem flesta starfsmenn steypuskálans á þessum áríðandi fundi. Auglýsingu um fundinn má sjá hér til hliðar.

25
Aug

Ferð eldri félagsmanna VLFA næstkomandi fimmtudag

Næstkomandi fimmtudag, 28. ágúst, er komið að hinni árlegu ferð Verkalýðsfélags Akraness með eldri félagsmönnum og mökum þeirra.

Að þessu sinni er ferðinni heitið í uppsveitir Borgarfjarðar og boðið verður upp á hádegisverð í Reykholti. Að því loknu verður haldið til Þingvalla um Kaldadal með viðkomu á ýmsum áhugaverðum stöðum. Ferðin verður farin undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen sem mun vafalaust fræða ferðalanga um ýmislegt áhugavert á leiðinni.

Þessar árlegu ferðir með eldri félagsmönnum hafa alltaf verið einstaklega ánægjulegar og mikið tilhlökkunarefni. Félagsmenn sem eru 70 ára og eldri hafa fengið sent bréf heim og skráning stendur yfir til hádegis á miðvikudaginn.

21
Aug

Til leigu fullbúin íbúð á Akureyri í vetur

Ein af íbúðum félagsins á Akureyri er laus til leigu í vetur, um er að ræða tímabundna leigu frá 1. september til 15. maí og hentar íbúðin því vel þeim sem til dæmis sækja skóla á Akureyri í vetur.  Íbúðin er 53 fm og leigð með öllum húsgögnum og húsbúnaði. Í henni eru tvö svefnherbergi, þvottavél inni á baði, rúmgóðar svalir.

Hægt er að skoða myndir úr íbúðinni með því að smella hér. Áhugasamir hafi samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Uppfært kl. 13:30 - Búið er að finna leigjanda í íbúðina, svo hún er ekki laus lengur.

06
Aug

Heiðursfélaginn og baráttukonan Bjarnfríður Leósdóttir níræð í dag

Í dag á baráttukonan og verkalýðsfrömuðurinn og heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Akraness Bjarnfríður Leósdóttir 90 ára afmæli. Bjarnfríður fæddist þann 6. ágúst 1924 sem er sama ár og Verkalýðsfélag Akraness var stofnað, en það var stofnað 14. október 1924 og verður því, eins og Bjarnfríður, nírætt á þessu ári.

Bjarnfríður hefur tilheyrt Verkalýðsfélagi Akraness allt frá árinu 1959 þegar hún fyrst tók þátt í baráttu fyrir bættum kjörum kvenna sem störfuðu við síldarvinnslu Haraldar Böðvarssonar. Þessi mikla baráttukona hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Akraness, en fyrst var hún kjörinn í aðalstjórn félagsins sem varagjaldkeri árið 1960. Hún hefur barist gríðarlega fyrir réttindum kvenna í gegnum kvennadeild Verkalýðsfélags Akraness, en þar var hún fyrst kjörin í stjórn 1966. Þær störfuðu náið saman, hún og Herdís Ólafsdóttir sem einnig tilheyrði Verkalýðsfélagi Akraness um alllanga hríð, en Herdís lést árið 2007. Formaður félagsins er ekki í neinum vafa um að sú elja og atorkusemi sem einkenndi störf og baráttu Bjarnfríðar Leósdóttur fyrir bættum kjörum íslenskrar alþýðu hefur svo sannarlega skilað sér í hinum ýmsu réttindum til handa íslensku verkafólki.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar Bjarnfríði innilega til hamingju með daginn, með þökk fyrir hennar framlag í þágu Verkalýðsfélags Akraness að bættum kjörum íslenskrar alþýðu.

28
Jul

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða samþykkja nýjan kjarasamning

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var þann 11. júlí síðastliðinn.

Á kjörskrá voru 149 manns. Greidd atkvæði voru 52 talsins eða tæp 35%. Já sögðu 50 eða 96,2%. Nei sögðu 2 eða 3,8%. Enginn seðill var auður eða ógildur.

Samningurinn telst því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og tekur því gildi frá 1. maí 2014.

25
Jul

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða - munið að skila atkvæðaseðlinum!

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða eru minntir á að koma atkvæðaseðli sínum til skila fyrir klukkan 14. næstkomandi mánudag, en allir félagsmenn sem eru að vinna eftir nýgerðum kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga að hafa fengið kjörgögn vegna póstatkvæðagreiðslunnar heimsend.

Póststimpill gildir ekki, atkvæðið þarf að komast í hús á Sunnubraut 13 fyrir klukkan 14 á mánudaginn. Atkvæði sem berast eftir þann tíma teljast ekki með. Hægt er að skila atkvæðaseðlum inn um póstlúgu bakdyramegin á Sunnubraut 13 um helgina, eða skila því á mánudaginn fyrir kl. 14.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image