• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
May

Verkalýðsfélag Akraness gefur öllum leikskólabörnum harðfisk í tilefni Sjómannadagsins

Rétt í þessu lauk formaður félagsins við að heimsækja alla leikskólana á Akranesi sem eru Akrasel, Garðasel, Teigasel og Vallarsel. Tilefni heimsóknanna var Sjómannadagurinn sem er næstkomandi sunnudag en það er hefð hjá Verkalýðsfélagi Akraness að heimsækja öll leikskólabörn og gefa þeim harðfisk í tilefni dagsins.

Stjórn félagsins er það mikill heiður að geta glatt leikskólabörn á Akranesi með þessum hætti og minnt þau á mikilvægi sjómannsstarfsins. Það skein mikil gleði úr hverju andliti og kunnu börnin svo sannarlega að þakka fyrir sig því sum þeirra tóku lagið fyrir formanninn sem honum leiddist svo sannarlega ekki. Myndir frá deginum má sjá hér.

28
May

Stefnir í 420 ný störf á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness

Formaður félagsins var nú í hádeginu viðstaddur þegar þau stórtíðindi gerðust að undirrituð var viljayfirlýsing á milli bandaríska sólarkísilfyrirtækisins Silicor materials og Faxaflóahafna um að fá úthlutað lóð undir verksmiðjuhús fyrirtækisins á Grundartanga.

Þetta eru gríðarlega jákvæð tíðindi fyrir atvinnulífið hér á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit enda er hér um að ræða fyrirtæki sem mun veita allt að 420 manns atvinnu og þar af uppundir 150 sérmenntuð störf. Þessi verksmiðja flokkast sem umhverfisvæn enda er sáralítil ef nokkur mengun af þessari starfsemi. Með öðrum orðum hér er um græna og vistvæna stóriðju að ræða. Það er morgunljóst að þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið hér í kring enda skiptir höfuðmáli fyrir íslenskt samfélag að til verði vel launuð gjaldeyrisskapandi störf. Með gjaldeyrisskapandi störfum náum við að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í.

Stefnt er að því ef engin ljón verða í veginum að framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar hefjist strax í október á þessu ári og verði lokið um mitt ár 2016. Síðari áfangi verði síðan tilbúinn síðari hluta árs 2017. Ef allar áætlanir um uppbyggingu ganga eftir mun framleiðsla vera komin í fullan gang um mitt ár 2017. Hér er um fjárfestingu að ræða við byggingu verksmiðjunnar og tækjakaup sem nemur allt að 80 milljörðum íslenskra króna.

Á þessu sést að hér er um alvöru verkefni að ræða og þetta mun skipta íslenskt verkafólk gríðarlega miklu máli enda liggur fyrir að störf í stóriðjum hafa sem betur fer verið betur launuð heldur en almenn verkamannastörf á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta mun ugglaust líka leiða til þess að þegar svona stór vinnustaður kemur inn á atvinnusvæðið okkar þá mun myndast samkeppni um gott vinnuafl og til að vera samkeppnishæf þurfa fyrirtæki að greiða viðunandi laun.

Formaður félagsins fagnar þessum tímamótum innilega enda er þetta merki og vísbending um enn bjartari tíma fyrir okkur Akurnesinga og íbúa Hvalfjarðarsveitar því það skiptir höfuðmáli fyrir öll sveitarfélög að hafa styrkar og sterkar stoðir þegar kemur að atvinnutækifærum. Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta fyrirtæki uppfylli öll þau skilyrði.

Formaður félagsins getur einnig ekki annað en hrósað Gísla Gíslasyni, hafnarstjóra Faxaflóahafna, fyrir hans þátttöku í þessu máli enda hefur hann lagt sig allan fram við að láta þetta verkefni verða að veruleika á Grundartanga. Það var ekkert sjálfgefið að Grundartangi yrði fyrir valinu, þess vegna skiptir máli að menn vinni ötullega að því að fá góð, öflug og vistvæn fyrirtæki á Grundartanga og allt bendir til þess að hafnarstjóranum hafi tekist vel til í þeim efnum núna. Hér má sjá myndir frá því að viljayfirlýsingin var undirrituð í dag.

27
May

Dagskrá Sjómannadagsins á Akranesi

Næstkomandi sunnudag verður Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um allt land. Eins og undanfarin ár verður boðið upp á hefðbundna hátíðardagskrá sem kostuð er af Verkalýðsfélagi Akraness, en því til viðbótar mun Björgunarfélag Akraness sjá um fjölskylduskemmtun sem er í boði Akraneskaupstaðar og Verkalýðsfélags Akraness. Eru sjómenn, fjölskyldur þeirra og bæjarbúar allir hvattir til að taka þátt í hátíðarhöldunum og njóta dagskrárinnar sem verður á þessa leið:

-Kl 10:00 - Athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn í kirkjugarðinum að Görðum.

-Kl. 11:00 - Hátíðarguðsþjónusta í Akraneskirkju þar sem sjómaður verður heiðraður fyrir ævistarf sitt.

-Kl. 13:00 til 16:00 - Akranesviti verður opinn gestum. Vert að vekja athygli á því að Sigurbjörg Þrastardóttir, bæjarlistamaður Akraness, opnar sýningu í Akranesvita laugardaginn 31. maí sem opin verður að hluta til sumarlangt. Sigurbjörg sýnir  ljóð um hafið og fleira í vitanum.

-Kl. 13:30 til 17:00 - Hið hefðbundna sjómannadagskaffi í Jónsbúð í umsjón Slysavarnardeildarinnar Lífar.
-Kl. 13.00 – 17.00 - Fjölskylduskemmtun á og við Akraborgarbryggjuna. Boðið verður upp á hoppukastala, koddaslag yfir sjó, kassaklifur og fleira. Þyrla kemur í heimsókn um klukkan 16.00 til að sýna björgun úr sjó með fyrirvara um að hún sé ekki upptekin í björgunarverkefni. Sérstök keppni verður fyrir ofurhuga, en hún felst í því að hoppa í sjóinn fram af Akraborgarbryggjunni. Dómnefnd fylgist með og verðlaun verða veitt. Hægt verður að fara í siglingu auk þess sem það verður kynning á kajökum og allir bátar Björgunarfélagsins verða til sýnis; Margrét Guðbrandsdóttir, Axel S. og Jón M.
-Vert er að geta þess að frítt er í sund í Bjarnarlaug alla helgina vegna 70 ára afmælis laugarinnar þann 4. júní og verður boðið upp á akstur á milli Bjarnalaugar og hafnarinnar á björgunarsveitarbíl. Opnunartími Bjarnalaugar laugardaginn 31. maí og 1. júní er kl. 09:00-17:00.
26
May

Formaður með kynningu á fiskvinnslunámskeiði

Þessa dagana stendur yfir fiskvinnslunámskeið hjá þeim starfsmönnum HB Granda sem áttu eftir að taka námskeiðið en þessi námskeið veita starfsmönnum tveggja flokka launahækkun. Í morgun hélt formaður erindi á þessu námskeiði þar sem hann fór yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði og öll þau réttindi og þjónustu sem Verkalýðsfélag Akraness veitir sínum félagsmönnum. Uppundir 20 manns sátu á þessu námskeiði og á morgun mun formaður einnig vera með sambærilega kynningu. Í heildina eru þetta á milli 40 og 50 manns sem nú sitja fiskvinnslunámskeið á vegum HB Granda.

Það er einn liður í starfsemi félagsins að halda kynningar af þessu tagi. Sem dæmi þá hélt formaður sambærilega kynningu fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands í byrjun maí þar sem hann fór yfir starfsemi félagsins og hin ýmsu réttindi sem starfsmenn eiga á hinum íslenska vinnumarkaði.

Það er gríðarlega mikilvægt að launafólk sé meðvitað um öll þau réttindi og reyndar skyldur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og kynni sér ávalt vel öll þau réttindi sem þeim standa til boða hjá sínu stéttarfélagi.  

14
May

Laus orlofshús í sumar

Enn er hægt að fá leigða viku í orlofshúsi í sumar, en þegar þetta er skrifað er um 26 lausar vikur að ræða. Mest eru þetta vikur í byrjun sumars og í lok ágúst, ekkert er laust í júlímánuði. Lista yfir lausar vikur er að finna hér og geta áhugasamir bókað á Félagavefnum, eða haft samband við skrifstofu félagsins.

Uppfært 15. maí kl. 14:00 - Enn eru 19 vikur lausar, nýjan listi yfir lausar vikur er að finna hér.

Uppfært 19. maí kl. 08:00 - Nýjan lista yfir lausar vikur er að finna hér.

07
May

Félagsmenn VLFA fá afslátt af ársmiðum á heimaleiki ÍA

Félagsskírteini VLFA veitir félagsmönnum þess ýmis sérkjör og afslætti eins og sjá má hér á heimasíðunni. Meðal þeira sérkjara sem félagsmönnum bjóðast eru kaup á  ársmiðum sem gilda á alla heimaleiki Skagamanna í fyrstu deildinni í sumar. Hægt er að velja um þrennskonar ársmiða - Brons, Silfur og Gull. Ársmiðarnir gilda allir á alla heimaleiki en misjafnt er hvað er innifalið þess utan. Innifalinn í öllum ársmiðunum er stuðningsmannafundur með þjálfara liðsins, leikmönnum og stjórn. Þegar komið er yfir í Silfurmiðann bætist til dæmis við kaffi og meðlæti í öllum hálfleikjum en með Gullmiðanum fylgir einnig aðgangur að VIP fundum fyrir leiki þar sem þjálfari liðsins fer yfir leikinn og tölfræðina og núverandi og fyrrverandi leikmenn mæta á svæðið.

Félagsmenn VLFA geta fengið afslátt af ársmiðunum gegn framvísun félagsskírteinis og eru miðarnir til sölu á skrifstofu KFÍA sem og í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 4331109.

Afsláttur fyrir félagsmenn er sem hér segir:

 

Brons

Silfur

Gull

Pepsideild kvenna

Félagsmenn VLFA

9.000

16.000

30.000

5.000

Almennt verð

11.000

20.000

40.000

7.000

VLFA hvetur félagsmenn sína til að mæta á völlinn í sumar og styðja við bakið á Skagamönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image