• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Dec

Gríðarleg vonbrigði með tilboð Norðuráls

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi með forsvarsmönnum Norðuráls vegna kjarasamnings starfsmanna en eldri samningur rennur út nú um áramótin. Fyrir nokkrum vikum lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram ítarlega og vel rökstudda kröfugerð sem byggðist á því að laun starfsmanna Norðuráls myndu verða lagfærð allverulega. Ein af grunnkröfunum var einnig sú að tekið yrði upp nýtt fjölskylduvænt vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Með öðrum orðum að horfið yrði frá 12 tíma vöktum og farið yfir í 8 tíma vaktakerfi. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var það ríkur meirihluti vaktavinnufólks sem vildi taka upp slíkt kerfi. 

Því verður að segja að það er þyngra en tárum taki að hafa tekið við því tilboði sem barst frá forsvarsmönnum Norðuráls í dag. Í fyrsta lagi var 8 tíma vaktakerfi algjörlega hafnað og í öðru lagi hljóðaði tilboðið einungis upp á skitin 2,5% ásamt hugmynd að eingreiðslu til handa starfsmönnum. Það þarf svosem ekki að fara neitt ítarlega yfir þetta tilboð ef tilboð skyldi kalla. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og það er morgunljóst að það ber himinn og haf á milli samningsaðila. Formaður fór yfir það með forsvarsmönnum fyrirtækisins að það væri hans mat og reyndar annarra í samninganefndinni að menn væru að leika sér að eldinum með því að leggja svona tilboð fram. Því það er alveg hvellskýrt að þetta tilboð mun valda mikilli úlfúð og gremju á meðal starfsmanna.

Á grundvelli þessa mikla ágreinings var samninganefnd stéttarfélaganna algjörlega einróma í því að þetta tilboð væri alls ekki grundvöllur til frekari viðræðna. Á þeirri forsendu var forsvarsmönnum fyrirtækisins gerð grein fyrir því að viðræður á þessum grunni væru tilgangslausar og samþykkti samninganefndin að deilunni skyldi vísað til ríkissáttasemjara vegna þess hversu gríðarlega langt er á milli deiluaðila.

Það liggur algjörlega fyrir að væntingar starfsmanna Norðuráls vegna komandi kjarasamnings eru miklar. Fyrirtækinu hefur gengið mjög vel í gegnum árin og hefur ætíð skilað góðri afkomu til sinna eigenda. Nú er komið að því að starfsmenn vilji fá hlutdeild í þessari góðu afkomu enda hafa allflest útflutningsfyrirtæki notið þess þegar krónan féll allverulega í kjölfar hrunsins.

Það er einnig skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness að það eigi að skapa íslenskum fyrirtækjum góð rekstarskilyrði til að laða hér að öflug og stór fyrirtæki og þessum góðu rekstarskilyrðum á síðan að skila til þeirra sem starfa hjá þessum fyrirtækjum. Því er það óþolandi þegar fyrirtækjum eru sköpuð góð rekstarskilyrði af hálfu hins opinbera að það skuli ekki skila sér í betri launakjörum til handa þeim sem starfa í þeim greinum. Við vitum til dæmis að álfyrirtæki hafa fengið í gegnum tíðina jákvæða orkusamninga þó vissulega séu blikur á lofti með framhald á því en í ljósi þessara jákvæðu samninga þarf það að skila sér til starfsmanna í auknum launahækkunum enda skila launahækkanir starsfmanna sér beint til sveitarfélaga og ríkis í formi aukinna skattgreiðslna starfsmanna.

Við forystumenn Norðuráls vill formaður segja: Þið tókuð mikla áhættu með þessu tilboði ykkar og eins og kom fram á fundinum í dag var beðið eftir að einhver myndi spretta fram og segja "þetta er falin myndavél, djók!" Því miður er margt sem bendir til að þetta sé ekki djók en það liggur alveg fyrir að samstaða og einhugur er ríkjandi í samninganefndinni og ekki spillir fyrir að starfsmenn Norðuráls standa þétt á bakvið samninganefndina því það liggur fyrir að menn ætla að landa góðum samningi til handa starfsmönnum Norðuráls og það verður gert með góðu eða illu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image