• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Sep

Enn ráðist á íslenskt verkafólk

Þegar betur er rýnt í fjárlagafrumvarpið kemur í ljós að enn og aftur er ráðist á þá sem síst skyldi, semsagt íslenskt verkafólk. Í frumvarpinu kemur fram að hætta eigi greiðslum af hálfu hins opinbera til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða en skerða á þessar greiðslur um 20% á næsta ári og svo 20% næstu 5 árin þannig að árið 2019 muni greiðslur vegna jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða heyra sögunni til.

Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir hvað þetta þýðir. Jú, þetta þýðir á mannamáli að lífeyrisréttindi, sérstaklega verkafólks, munu 100% verða skert enn frekar en orðið er. Jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóðanna var sett á einfaldlega vegna þess að örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% upp í 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Á þessu sést hversu misjafnlega örorkubyrðin leggst á lífeyrissjóðina.

Þær bláköldu staðreyndir liggja fyrir, að örorkubyrðin er lang lang mest hjá lífeyrissjóðum sem íslenskt verkafólk á aðild að. Í dag eru yfir 18.000 öryrkjar sem fá greiðslur frá lífeyrissjóðunum og sem dæmi þá eru greiðslur vegna örorku í lífeyrissjóði sem félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness tilheyra um 32% af heildargreiðslum út úr sjóðnum. Já takið eftir, 32%.

Því miður er það bláköld staðreynd að öryrkjum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum og nægir að nefna í því samhengi að árið 2006 voru öryrkjar 13.000 en eru í dag komnir yfir 18.000 og hefur því fjölgað um 38% á þessum árum. Þetta er grafalvarleg þróun því aukning á örorkubyrði sjóðanna þýðir ekkert annað heldur en skerðingu fyrir þá sem eru greiðendur inn í lífeyrissjóðina. Jöfnun örorkubyrði var sett á vegna þess hversu misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóðina og þótti rétt á sínum tíma að jafna þennan aðstöðumun sem sjóðirnir búa við. En nú á semsagt að hverfa frá því og það mun klárlega bitna langharðast á ófaglærðu íslensku verkafólki þar sem örorkubyrðin er langmest.

Hvaða sanngirni er fólgin í því að íslenskt verkafólk þurfi sjálft að samtryggja sig í gegnum sína lífeyrissjóði eins og nú er gert? Í huga formanns VLFA er krafan skýr, örorkuþátturinn skal fara yfir til ríkisins enda hlýtur það að vera hlutverk samfélagsins alls að sjá um að tryggja sína þegna fyrir meðal annars örorku. Ekki er hægt að hafa þetta eins og er í dag þar sem örorkubyrðin er afar mismunandi eftir atvinnugreinum, menntun og öðru slíku sem leiðir klárlega til þess að skerða þarf réttindi hjá ófaglærðu fólki meira heldur en hjá öðrum vegna mikillar örorkubyrði. 

Það er óhætt að segja að árásum stjórnvalda á kjör verkafólks ætli seint að linna. Í fyrra var verkafólk með tekjur undir 250.000 kr. á mánuði skilið eftir þegar kom að skattalækkunum og nú stendur til að hækka matarskattinn sem klárlega mun bitna harðast á tekjulitlu verkafólki enda notar það hlutfallslega mest af sínum ráðstöfunartekjum til matarinnkaupa. Og svo bætast þessar árásir núna við þar sem jöfnun greiðsla vegna örorkubyrði lífeyrissjóðanna á að leggjast af í áföngum sem klárlega mun bitna hvað harðast á íslensku verkafólki. Nú er mál að linni.

11
Sep

6 stjórnendur Haga með laun og bónusa upp á 240 milljónir á árinu 2013

Nú liggur fyrir að einungis nokkrir mánuðir eru þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út en það verður í lok febrúar á næsta ári. Öll munum við hvernig síðustu kjarasamningar fóru þar sem verkafólki var gert skylt að taka laun eftir svokallaðri samræmdri launastefnu. Launastefnu sem kvað á um 2,8% hækkun þó að lágmarki 9.750 kr. Atvinnurekendur stóðu á öskrum og sögðu að það yrði að semja um hófstilltar launahækkanir sem myndu gilda fyrir allan íslenskan vinnumarkað. Þeir réðust í mikla auglýsingaherferð þar sem þessum skilaboðum var komið skýrt á framfæri og ef ekki yrði farið eftir þeim myndi stefna hér í óðaverðbólgu að þeirra sögn. Því miður tók forysta Alþýðusambandsins undir þessa hræðslutaktík Samtaka atvinnulífsins og því fór sem fór.

Hinsvegar kemur núna í ljós eins og nánast alltaf þegar kemur að því að semja um kjör handa íslensku verkafólki. Þá standa greiningadeildir bankanna, Seðlabankinn, stjórnmálamenn, Samtök atvinnulífsins og segja hófstilltar launahækkanir eru það sem til þarf til að viðhalda stöðugleika. En málið er að það eru alltaf þeir sömu sem þurfa að axla þessa ábyrgð, með öðrum orðum íslenskt verkafólk. Það liggur nefnilega fyrir að nánast allir sem sömdu á eftir almennu verkafólki fengu langtum hærri launahækkanir. Nýjasta dæmið er að 6 æðstu stjórnendur Haga fengu samanlagt í laun og bónusgreiðslur á árinu 2013 240 milljónir króna sem gerir að meðaltali í kringum 40 milljónir á hvern stjórnanda. Semsagt 3 milljónir á mánuði. Þetta var samræmda launastefnan hjá forsvarsmönnum Haga en rétt er að geta þess að íslenskir launþegar eiga Haga að stærstum hluta eða um 50% í gegnum sína lífeyrissjóði. 

Það kom líka fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar að millistjórnendur íslenskra fyrirtækja hækkuðu um 600.000 kr. á mánuði á síðasta ári. Á þessu sést hversu grimmileg misskiptingin og óréttlætið í íslensku samfélagi er. Og að er morgunljóst í huga formanns Verkalýðsfélags Akraness að nú verður látið sverfa til stáls í komandi kjarasamningum. Nú verða sóttar alvöru leiðréttingar til handa verkafólki því á sama tíma og stjórnendur fyrirtækja taka sér hundruð þúsunda hækkanir á mánuði var verkafólki gert skylt að þiggja einungis rúmar 9.000 kr. í hækkun á mánuði.

Formaður biðlar til íslensks verkafólks vítt og breitt um landið að standa nú þétt saman og mæta á fundi í sínu stéttarfélagi og krefjast þess að laun verkafólks verði leiðrétt svo um munar í komandi kjarasamningum enda liggur fyrir að fjöldi atvinnugreina hefur fulla burði til að skila ávinningnum til verkafólks. Nægir að nefna í því samhengi alla þá sem starfa hjá fyrirtækjum tengdum útflutningi enda er vöxtur til dæmis ferðaþjónustunnar gríðarlegur um þessar mundir að ógleymdri mjög góðri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja en nýlega skilaði Samherji 22 milljarða hagnaði eftir skatta. Nú skal látið sverfa til stáls, stöndum saman og leiðréttum launakjör íslensks verkafólks.  

08
Sep

Heiðursfélaginn Garðar Halldórsson níræður í dag

Í dag á heiðursfélaginn og verkalýðsfrömuðurinn Garðar Halldórsson 90 ára afmæli, en hann er fæddur þann 8. september 1924 og er því jafnaldri félagsins, en Verkalýðsfélag Akraness var stofnað þann 14. september 1924 og verður því einnig nírætt á árinu.

Garðar fluttist til Akraness árið 1968 og hóf stöf í sútunarverksmiðju þar sem hann komst fljótt í kynni við Skúla þórðarson, þáverandi formann Verkalýðsfélags Akraness. Garðar skráði sig strax í Verkalýðsfélagið, sótti fundi og fylgdist vel með starfinu og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn formaður Verkamannadeildarinnar og síðar tók hann sæti ritara í aðalstjórn félagsins. Garðar tók virkan þátt í starfi félagsins fram til 1990 og starfaði einnig hjá Lífeyrissjóði Vesturlands um langa hríð.

Garðar hefur ætíð verið iðinn við að semja ljóð og tækifærisvísur og þau verið birt í félagsblöðum og víðar. Í 50 ára afmælisriti Verkalýðsfélags Akraness birtist þetta fallega ljóð eftir Garðar:

Vorþrá

 

Ó, fagra vor, ég þrái komu þina,

ég þrái ilm frá blómum jarðar minnar,

sem endurvakin vegna komu þinnar,

varpa fegurð yfir götu mína.

 

Nú bíð ég þín og bráðum fer að hlýna,

bráðum munt þú koma yfir hafið

og lífið allt í arma þína vafið

á andartaki skynjar köllun sína.

 

Eitt andartak, - svo verður þú að víkja

og varmi þinn og birta er á förum.

hver dagur verður aðeins skuggaskil -

 

og vetrarmögn í veröld okkar ríkja.

Þó veitist létt að mæta bágum kjörum

ef hjartað geymir von um vorsins yl.


Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar Garðari innilega til hamingju með daginn, með þökk fyrir hans framlag í baráttunni fyrir bættum kjörum íslenskrar alþýðu.

04
Sep

Árangurslítill fundur í gær með stjórnendum Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa fjölmargir starfsmenn Norðuráls kvartað sáran yfir stórauknu vinnuálagi á liðnum misserum.  Starfsmönnum ber flestum saman um að þetta álag hafi verið að aukast jafn og þétt á síðastliðnum árum.

Félagið hélt t.d. fund fyrir rétt rúmri viku síðan með starfsmönnum steypuskála en þar hefur vinnuálagið að sögn starfsmanna verið ómanneskjulegt að undanförnu.  Það liggur fyrir að á 12 tíma vakt hafa starfsmenn þurft að nærast í sínum neysluhléum undir mikilli pressu og ná vart 30 mínútna matartíma á 12 tíma vakt.  Meira að segja hefur það komið fyrir að menn hafa vart komist í neysluhlé. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað komið á framfæri þessum umkvörtunum starfsmanna um aukið álag, en þetta aukna álag er ekki bara einskorðað við steypuskálann heldur teygir það anga sína víðar í verksmiðjunni m.a. inn í kerskálana.

Ugglaust eru margar ástæður fyrir þessu aukna álagi en það liggur m.a. fyrir að framleiðsla fyrirtækisins hefur aukist umtalsvert á liðnum árum og hvert framleiðslumetið hefur verið slegið á fætur öðru en núna er framleiðslan að verða komin upp í 300 þúsund tonn á ári. Á sama tíma og þessi framleiðsluaukning á sér stað hefur starfsfólki verið að fækka enda hefur launakostnaður fyrirtækisins lækkað á milli árana 2012 og 2013 um tæp 7%.

Að sjálfsögðu liggur fyrir að álag eykst á þá sem eftir verða þegar starfsfólki fækkar á sama tíma og framleiðslan er að aukast. 

Í gær áttu formaður og aðaltrúnaðarmaður fund með framkvæmdastjóra Norðuráls og einnig framkvæmdastjóra mannauðssvið.  Það er mat formanns að skilningur yfirstjórnar fyrirtækisins á þeim kvörtunum sem hafa borist um aukið álag sé því miður ekki til staðar enda kemur skýrt fram í máli stjórnenda að þetta aukna álag eigi vart stoð í raunverulekanum.  En framkvæmdastjórarnir viðurkenndu þó að það væri tímabundið álag í steypuskálanum vegna steypu á nýrri sérframleiðslu en tóku skýrt fram að við því hafi fyrirtækið brugðist með fjölgun starfsmanna í steypuskálanum.

Starfsmenn segja hins vegar að eðli málsins samkvæmt þurfi að fjölga vegna þessa sérframleiðslu en hún ein og sér kallar á allt að þrjú nú störf. En álagið í steypuskálanum er áfram nánast það sama og ennþá standa menn nánast samfleytt í 12 tíma með einu 30 mínútna neysluhléi sem starfsmenn þurfa að taka undir pressu eins og áður sagði.

Á fundinum í gær var rædd sú krafa sem upp er komin inni í steypuskálanum um að tekið verði upp 8 tíma vaktakerfi eins og er hjá Elkem en ekki var annað að heyra á framkvæmdastjóra Norðuráls að honum hugnaðist ekki slíkt kerfi, en benti þó á að vissulega sé allt undir þegar kjarasamningar losna um næstu áramót.

Það er morgunljóst að komandi kjaraviðræður vegna kjarasamnings Norðuráls verða erfiðar enda er mikilvægt að ef menn ætla að greiða úr að mínu mati réttmætum  umkvörtunum starfsmanna þá verði stjórnendur að hlusta og vera tilbúnir til að viðurkenna vandann en gera ekki eins og strútarnir þegar þeir skynja utanaðkomandi hættu með því að stinga hausnum í sandinn og halda að vandamálið og hættan hverfi við slíkt.

Verkalýðsfélag Akraness mun mjög fljótlega boða til fundar með öllum starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni þar sem þetta aukna álag verður til umræðu sem og hvaða áherslur starfsmenn vilji leggja upp með í komandi kjarasamningum.

29
Aug

Starfsmenn steypuskála Norðuráls vilja 8 tíma vaktakerfi

Verkalýðsfélag Akraness hélt fjölmennan fund með starfsmönnum steypuskála Norðuráls á þriðjudaginn síðastliðinn. Tilefni fundarins var umkvörtun starfsmanna yfir stórauknu álagi á undanförnum misserum. Óskuðu starfsmenn eftir aðstoð félagsins við að reyna að koma óánægju þeirra vel á framfæri.

Það liggur fyrir að álag á starfsmenn Norðuráls vítt og breitt um verksmiðjuna hefur aukist á liðnum árum og er það samróma álit þeirra sem þar starfa. Ástæðan er margþætt, meðal annars hefur framleiðsla fyrirtækisins aukist umtalsvert og sem dæmi þá er fyrirtækið að framleiða uppundir 300.000 tonn af áli ár hvert. Á sama tíma og það hefur verið að gerast hefur starfsmönnum á gólfi, ef þannig má að orði komast, fækkað töluvert. Það liggur til dæmis fyrir að launakostnaður Norðuráls vegna verkafólks lækkaði á milli áranna 2012 og 2013 um 3,1% og þegar tekið hefur verið tillit til kjarasamningsbundinna hækkana á tímabilinu þá nemur þessi lækkun 6,6%.

Þetta er einfaldlega vegna þess að starfsmönnum hefur fækkað þrátt fyrir þessa miklu framleiðsluaukningu fyrirtækisins sem síðan kemur fram sem stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Það var mikill hiti í starfsmönnum steypuskála á fundinum sem töluðu um að þeir væru að bugast undan auknu álagi og voru fundarmenn sammála um að þeir hræðast það að þetta álag muni ógna velferð og auka slysahættu starfsmanna.

Fundurinn samþykkti að fela formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma þessum umkvörtunum starfsmanna rækilega á framfæri við yfirstjórn fyrirtækisins og þeir kröfðust þess einnig að teknar verði án tafar upp viðræður um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Í dag eru starfsmenn Norðuráls að vinna á 12 tíma vöktum og undir því álagi sem starfsmenn eru tekur slíkt verulega á.

Formaður hefur sent forstjóra, framkvæmdastjóra og starfsmannastjóra fyrirtækisins erindi þar sem þessum áhyggjum og umkvörtunum starfsmanna er komið vel á framfæri og einnig ósk um að hafnar verði viðræður um manneskjulegt vinnufyrirkomulag sem byggist á rótgrónu vaktakerfi Elkem Ísland. Vaktakerfi sem er fjölskylduvænt og fer mun betur með starfsmenn í alla staði en 12 tímavaktakerfi. 

Formaður vonast til að fá jákvætt svar frá forsvarsmönnum fyrirtækisins og átti hann meðal annars gott samtal við forstjóra fyrirtækisins í gær sem lofaði að kynna sér þessi mál vel og rækilega enda kom fram í máli hans að það skipti Norðurál miklu máli að starfsmenn séu ánægðir í starfi og öll fyrirtæki þurfi að hafa jákvæða og ánægða starfsmenn til að ná árangri. Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls eru orðnir þreyttir á þessu álagi og það er mikilvægt fyrir Norðurál að átta sig á því að ef ekki verður tekið á þessu aukna álagi getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið þegar atvinnuástand á vinnumarkaði lagast.

Það er til að mynda morgunljóst í huga formanns að ef þetta mikla álag og 12 tíma vaktakerfi muni ekki lagast þá muni margir núverandi starfsmenn Norðuráls horfa hýru auga á nýjan 400 manna vinnustað sem hugsanlega rís við hliðina á Norðuráli á Grundartanga. En eins og flestir vita stefnir í að sólarkísilverksmiðjan Silicor hefji framkvæmdir á haustmánuðum sem skapa eins og áður sagði allt að 400 ný störf og því er mikilvægt að yfirstjórn Norðuráls hlusti af athygli á þessar sem og aðrar umkvartanir starfsmanna og bregðist við þeim því annars getur farið illa.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image