• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Dec

Sólarkísilverksmiðjan á fleygiferð

Þessa dagana berast afar jákvæðar fréttir af Silicor materials sólarkísilverksmiðjunni sem til stendur að reisa á Grundartanga. Hvalfjarðarsveit sem fer með aðalskipulag svæðisins lét óháða aðila gera umhverfismat á þessari nýju verksmiðju og það er skemmst frá því að segja að í niðurlagi þeirrar skýrslu kemur fram að þessi nýja sólarkísilverksmiðja verði umhverfisvænasta stóriðjan til þessa.

Í gær samþykkti Hvalfjarðarsveit breytingu á aðalskipulagi og eftir upplýsingum formanns ganga aðrir þættir mjög vel hjá forsvarsmönnum Silicor eins og til dæmis fjármögnun og samningar við orkufyrirtæki. Því er æði margt sem bendir til þess í ljósi þess að ýmsum ljónum á veginum hefur verið rutt úr vegi að framkvæmdir gætu jafnvel hafist í byrjun næsta árs. En það er eins og með allar framkvæmdir, ekki er hægt að fagna endanlega fyrr en allir samningar hafa verið undirritaðir og skóflustungan hefur verið tekin.

Það er morgunljóst að hér er um gríðarlega jákvæða uppbyggingu að ræða sem mun skipta sköpum fyrir Akurnesinga og Hvalfjarðarsveit sem og reyndar landið allt, einfaldlega vegna þess að hér er um 440 vel launuð gjaldeyrisskapandi störf að ræða enda þarf íslenskt þjóðarbú á gjaldeyrisskapandi störfum að halda til að geta rekið menntakerfi, heilsugæslu, löggæslu og önnur mikilvæg innviði samfélagsins.  

05
Dec

Fundað um kjarasamning Norðuráls

Eftir miklar uppákomur í samninganefnd Norðuráls óskuðu trúnaðarmenn allra félaga eindregið eftir því við formann Verkalýðsfélags Akraness á fundi í síðustu viku að hann kæmi aftur inn í samninganefndina og myndi leiða þessar viðræður ásamt aðaltrúnaðarmanni. Fram kom hjá formanni á þessum fundi að trúnaður á milli félaganna sem eiga aðild að stóriðjusamningunum á Grundartanga væri alls ekki til staðar en hinsvegar samþykkti formaður að gera lokatilraun til að eiga samstarf við áðurnefnd félög við gerð þessa kjarasamnings.

Haldnir hafa verið þrír fundir í húsakynnum sáttasemjara. Eins og staðan er í dag er lítið að frétta, búið er að fara ítarlega yfir alla kröfugerðina og útskýra alla liðina er lúta að henni. Næsti fundur hefur verið boðaður á mánudaginn kemur. Má vænta einhverra viðbragða af hálfu forsvarsmanna Norðuráls hvað kröfugerðina sjálfa varðar á þeim fundi.

28
Nov

Flottur fundur í Bíóhöllinni á Akranesi með starfsmönnum Norðuráls

Fjölmennur fundur var haldinn í Bíóhöllinni á Akranesi í gær með starfsmönnum Norðuráls. Á fundinum fór formaður félagsins yfir þá ótrúlegu atburðarás sem átti sér stað á fyrsta samningafundi með forsvarsmönnum Norðuráls. Sú atburðarás hefur þegar verið rakin í frétt hér á síðunni.

Það fór ekkert á milli mála að stuðningurinn, samstaðan og einhugurinn sem ríkir á meðal starfsmanna var gríðarlegur á fundinum. Fram kom í máli fundarmanna að þessum skemmdarverkum sem ástunduð hafa verið í kjarasamningsgerð á Grundartangasvæðinu skuli ljúka í eitt skipti fyrir öll. Það voru skýr fyrirmæli um að starfsmenn Norðuráls muni ekki og ætli sér aldrei að taka þátt í einhverju sem heitir samræmd láglaunastefna eins og tíðkast hefur á undanförnum árum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fékk mikinn stuðning og hvatningu frá fundarmönnum um að halda áfram á þeirri braut sem félagið hefur verið á í að bæta og efla réttindi starfsmanna Norðuráls. Það komu fram skýr fyrirmæli á fundinum um að starfsmenn muni ekki undir nokkrum kringumstæðum sætta sig við að ekki verði hlustað á kröfuna um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Þetta var mjög hávær krafa á fundinum. 

Formaður fór yfir það með fundarmönnum að framundan séu erfiðar og krefjandi kjaraviðræður og því skiptir samstaða starfsmanna lykilmáli ef nást á viðunandi og góður árangur til handa starfsmönnum Norðuráls. Formaður fór einnig yfir það að rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið vel sem skiptir miklu máli og er jákvætt fyrir alla. Einnig benti formaður á að álverð fari nú hækkandi á heimsmarkaði og sé nú að nálgast 2.100 dollara og hafi ekki verið hærra um alllanga hríð. Þessu til viðbótar liggur fyrir að allt stefnir í að í byrjun næsta árs verði hafnar framkvæmdir á stóru og öflugu stóriðjufyrirtæki, Silicor sólarkísilverksmiðju, á Grundartanga sem mun þurfa uppundir 440 manns í vinnu. Samkeppni um vinnuafl hefur jákvæð áhrif því öll samkeppni er af hinu jákvæða sem gerir það að verkum að fyrirtæki þurfa að vera vel samkeppnishæf í launum, aðbúnaði og öðru slíku.

Núna klukkan 10 mun hefjast fundur með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara og væntanlega mun samninganefndin fá einhver viðbrögð við kröfugerðinni sem lögð var fram á fyrsta fundinum.

25
Nov

Starfsmenn Norðuráls - fundur í Bíóhöllinni á fimmtudaginn

Starfsmenn Norðuráls hafa hingað til mætt vel á fundi VLFA í BíóhöllinniStarfsmenn Norðuráls hafa hingað til mætt vel á fundi VLFA í BíóhöllinniFimmtudaginn 27. nóvember næstkomandi hefur Verkalýðsfélag Akraness boðað starfsmenn Norðuráls á fund í Bíóhöllinni Akranesi og hefst hann kl. 20:00.

Efni fundarins er óvænt uppákoma sem varð á fyrsta fundi samninganefndarinnar þann 20. nóvember síðastliðinn, en hægt er að lesa frétt um þá uppákomu með því að smella hér.. Einnig verður farið verður yfir kröfugerð þá sem mótuð hefur verið.

Nauðsynlegt er að sem allra flestir sjái sér fært að mæta því framundan er ströng barátta og nauðsynlegt að starfsmenn láti vilja sinn í ljós og sýni samstöðu

25
Nov

Sigur í EFTA málinu - rétt skal vera rétt

Í gærmorgun skilaði EFTA dómstóllinn loks frá sér álitinu sem lengi hefur verið beðið eftir og svaraði þar með þeirri mikilvægu spurningu um hvort fjármálastofnunum hafi verið heimilt að miða við 0% verðbólgu í greiðsluáætlunum og lánasamningum. Niðurstaðan var nákvæmlega sú sem vænst var, þegar greiðsluáætlun er gerð þá er óheimilt að gera ráð fyrir 0% verðbólgu, enda skekkir slíkt það mat sem lántaki getur lagt á raunverulegan kostnaði við verðtryggt lán. Í álitinu er þetta orðað svo: "Þegar láns­samn­ing­ur er bund­inn við vísi­tölu neyslu­verðs, sam­rým­ist það ekki til­skip­un 87/​102/​EBE að miðað sé við 0% verðbólgu við út­reikn­ing á heild­ar­lán­töku­kostnaði og ár­legri hlut­fallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgu­stig á lán­töku­degi er ekki 0%".

Það er óhætt að segja að fjármálaelítan nötri af hræðslu yfir þessu ráðgefandi áliti og reynir að gera eins lítið úr því eins og kostur er. Álitið er þó hvellskýrt og dómstólar hafa aldrei farið gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. En hvað þýðir það þegar fjármálastofnanir miða við 0% verðbólgu á 20 milljóna króna verðtryggðu láni til 40 ára með 3,85% vöxtum í greiðsluáætlun? Jú, lánið lítur alls ekki illa út á pappírum, það á strax að byrja að lækka og heildarkostnaðurinn við þetta 20 milljóna króna lán á þessum 40 árum á að vera samkvæmt greiðsluáætluninni 35 milljónir. En ef miðað er við 5,6% verðbólgu í greiðsluáætluninni, sem er meðaltalsverðbólga frá því mælingar á henni hófust, þá væri heildarkostnaðurinn vegna þessa 20 milljóna króna láns 109 milljónir! Sú blekking að miða við 0% verðbólgu eins fjármálastofnanir hafa gert í gegnum tíðina felur í þessu dæmi í sér kostnað upp á 74 milljónir sem hvergi kom fram á greiðsluáætlun og líklegt að lántakandi hefði hugsað sig tvisvar um hefðu upplýsingar um þann heildarlántökukostnaði legið fyrir.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar íslenskum neytendum til hamingju með þessa niðurstöðu og er stolt af því að hafa farið með þetta mál alla leið, en nú tekur við áframhaldandi meðferð málsins í íslenska dómskerfinu.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni með því að smella hér.
Hægt er að lesa fréttatilkynningu frá EFTA dómsstólnum með því að smella hér.

20
Nov

Skemmdarverkin halda áfram

Í dag var haldinn fyrsti samningafundur með forsvarsmönnum Norðuráls vegna komandi kjarasamnings en eldri samningurinn rennur út nú um áramótin. Það er óhætt að segja að samstarf þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls hafi byrjað með nákvæmlega sama hætti eins og ætíð þegar kemur að því að semja um kaup og kjör á Grundartangasvæðinu. Með öðrum orðum, skemmdarverkastarfsemin heldur áfram.

Samninganefndin, sem samanstendur af fulltrúum stéttarfélaganna, meðal annars formönnum þeirra og trúnaðarmönnum, kom saman til fundar til að stilla saman strengi sína áður en farið yrði í að hitta forsvarsmenn fyrirtækisins. 80% allra starfsmanna sem starfa hjá Norðuráli greiða til Verkalýðsfélags Akraness og á þeirri forsendu gerir félagið að sjálfsögðu þá kröfu að formaður VLFA sé einnig formaður samninganefndarinnar en hann hefur verið formaður í öllum stóriðjusamningunum á Grundartanga frá árinu 2004.

Nú gerðist það hinsvegar að trúnaðarmaður RSÍ, Guðjón V. Guðjónsson, gerði kröfu um að formaður VLFA myndi ekki gegna formannsstöðu samninganefndar heldur yrði það aðaltrúnaðarmaðurinn. Slíkt kom ekki til greina af hálfu fulltrúa VLFA í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi og reyndar einnig í ljósi sögunnar um gerð kjarasamninga á stóriðjusvæðunum enda hafa stéttarfélögin sem eiga aðild með VLFA að stóriðjusamningunum ítrekað unnið stórfelld skemmdarverk þegar kemur að kjarasamningsgerð stóriðjunnar.

Við þessa kröfu Guðjóns kættust fulltrúar hinna stéttarfélaganna sem hafa í gegnum árin reynt að skaða kjarasamningsgerð á stóriðjusvæðinu. Aðaltrúnaðarmaður lýsti hinsvegar yfir fullum stuðningi við formann VLFA sem formann samninganefndarinnar og kvaðst ekki ætla að gefa kost á sér í slíkt enda treysti hann formanni VLFA fullkomlega til að sinna því verkefni. Sagði hann meðal annars að samband hans við formann VLFA við undirbúning kjaraviðræðna hafi ávallt verið mjög gott. Guðjón, trúnaðarmaður RSÍ, ákvað í kjölfarið að bjóða sig sjálfur fram sem formann samninganefndarinnar þrátt fyrir að aðaltrúnaðarmaður og trúnaðarmenn VLFA sem og trúnaðarmaður FIT stéttarfélags hefðu viljað hafa formann Verkalýðsfélags Akraness í því hlutverki. Að sjálfsögðu studdu formenn og starfsmenn Stéttarfélags Vesturlands, VR, FIT og RSÍ Guðjón þrátt fyrir vilja meirihluta trúnaðarmannanna og var hann því kosinn formaður samninganefndar.

Fram kom hjá þessum fulltrúum og þá sérstaklega hjá formanni Stéttarfélags Vesturlands að Verkalýðsfélag Akraness tæki aldrei tillit til hinna stéttarfélaganna þegar kæmi að gerð kjarasamninga á Grundartanga. Þegar þessi orð féllu þráspurði formaður VLFA hvað það væri sem Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki tekið tillit til sem hin stéttarfélögin hefðu lagt til þegar kemur að kjarasamningsgerð. Að sjálfsögðu var fátt um svör hvað það varðar. Hinsvegar er rétt að upplýsa að það er eitt sem Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki tekið tillit til hjá hinum stéttarfélögunum. Það er til dæmis þegar samið var við Norðurál og Elkem árið 2011, þá gerðu þessi félög kröfu um að farin yrði leið samræmdrar launastefnu sem hefði gefið starfsmönnum einungis 11,4% hækkun. Niðurstaðan varð hinsvegar sú að það var samið um yfir 20% á báðum stöðum. Að sjálfsögðu kalla hin félögin þetta ekki góð vinnubrögð, að hafa ekki viljað fara leið samræmdrar láglaunastefnu eins og þau höfðu barist fyrir.

Þetta gerðist aftur núna í kjarasamningunum hjá Elkem þar sem þau kröfðust þess að farin yrði aftur leið samræmdrar láglaunastefnu upp á 2,8% en niðurstaðan varð hinsvegar sú að Verkalýðsfélag Akraness og trúnaðarmenn náðu fram rúmum 9%. Já, það er von að þetta ágæta fólk treysti ekki fulltrúa Verkalýðsfélags Akraness til að leiða komandi kjaraviðræður!

Það má segja að samstarf við þessa aðila sé þyrnum stráð. Þetta ágæta fólk hefur ítrekað reynt að leggja stein í götu kjaraviðræðna á Grundartanga og það hefur farið gríðarlega í taugarnar á þeim sá árangur sem náðst hefur umfram það sem samið hefur verið um á hinum almenna vinnumarkaði. Það er algjörlega magnað að forystumenn í stéttarfélögum skuli haga sér með þessum hætti. Þessi sömu félög neituðu til að mynda að taka þátt í yfirvinnubanni sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness boðuðu í síðustu samningum og þau meira að segja reyndu að leggja stein í götu verkfallsboðunar í kjölfar yfirvinnubannsins.

Þessi uppákoma er eins og áður sagði ótrúleg og þetta ágæta fólk er greinilega ekki að horfa til hagsmuna starfsmanna þegar það hagar sér með þeim hætti sem það hefur gert. Þetta er alvanalegt, þessar árásir sem formaður verður fyrir og er greinilega orðin einhver persónuleg óvild enda er þessi atburðarás ekki skýrð með öðrum hætti. Formaður er til dæmis ekki búinn að gleyma uppákomunni sem varð árið 2011 þegar hin félögin neituðu að lýsa því yfir að trúnaðarmenn þeirra eigin félaga væru í þeirra umboði (sjá hér).

Það er allavega morgunljóst að samstarf við þessi stéttarfélög við gerð kjarasamnings á Grundartanga verður aldrei aftur. Mun félagið einbeita sér að því að reyna að ná viðunandi samningi fyrir félagsmenn en það er líka morgunljóst að þessi skemmdarverk gera ekkert annað en að skemmta atvinnurekandanum innilega. Þetta veikir kjarasamningsstöðu okkar og það veit þetta ágæta fólk en formaður veltir því fyrir sér hvort það sé kannski hinn raunverulegi tilgangur. Formaður mun boða til fundar í Bíóhöllinni strax í næstu viku þar sem hann mun fara ítarlega yfir þessi mál því þessi uppákoma er eitthvað sem er ekki hægt að líða og verður ekki liðið. Þáttur trúnaðarmanns RSÍ er þar stærstur í ljósi þess að hann fer gegn meirihluta trúnaðarráðs með framkomu sinni.

Af kjaraviðræðunum sjálfum er það að frétta að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness áttu síðan 2 tíma langan fund með samninganefnd Norðuráls þar sem ítarleg kröfugerð var lögð fram og var hún rökstudd ítarlega fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins. Á þessu stigi var lítið um viðbrögð af hálfu fyrirtækisins að ræða enda ætlar fyrirtækið að gefa sér tíma til að skoða kröfugerðina en þó mátti vera ljóst að það ríkti ekki mikil kátína með margt sem í kröfugerðinni kom fram. En við skulum vona það besta og fáum væntanlega viðbrögð frá forsvarsmönnum fyrirtækisins von bráðar. Það er alveg ljóst að framundan eru mjög erfiðar kjaraviðræður sem kalla fyrst og fremst á samstöðu á meðal starfsmanna í þeirri vinnu sem framundan er því án hennar næst enginn árangur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image