• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Feb

Formannafundur SGS ályktar um okurvexti fjármálakerfisins

Á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem lauk rétt áðan var samþykkt með smávægilegum breytingum ályktun sem formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður Drífanda í Vestmannaeyjum lögðu fram en ályktunin lýtur að okurvöxtum bankanna. Það liggur fyrir að hér er um eitt mesta hagsmunamál íslenskrar alþýðu að ræða enda eru okurvextir fjármálakerfisins að leggjast afar þungt á skuldsetta alþýðu þessa lands. 

Ályktunin hljóðar á eftirfarandi hátt:

Formannafundur SGS tekur undir gagnrýni um mikinn og ólíðandi vaxtamun viðskiptabankanna á Íslandi. Það liggur fyrir að mörg heimili og fyrirtæki hérlendis berjast í bökkum vegna þeirra okurvaxta sem þeim standa til boða.

Það liggur líka fyrir að sá vaxtamunur sem hér ríkir þekkist varla í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þessi mikli vaxtamunur og okurvextir leggjast þungt á skuldsetta alþýðu þessa lands.

Bankakerfið á Íslandi olli íslensku samfélagi gríðarlegum skaða og það er algerlega ótækt  að bönkunum, sem yfirtóku lánasöfn almennings og fyrirtækja með miklum afslætti eftir hrun, skuli í skjóli fákeppninnar leyfast að níðast áfram á almenningi með okurvöxtum og gjaldskrárhækkunum.

Fundurinn fagnar því að forsætisráðherra skuli standa með launafólki í þessu mikla hagsmunamáli  sem vaxtakjör fjármálakerfisins er, ásamt því að taka undir kröfur SGS vegna komandi kjarasamninga,  enda eru hér um brýnustu hagsmunamál alþýðunnar að ræða.

Fundurinn skorar á ríkisstjórnina, Alþingi og fjármálakerfið í heild sinni að taka höndum saman um að skapa hér eðlilegt og sanngjarnt lánaumhverfi þar sem vextir og önnur kjör fjármálakerfisins verði eins og í siðmenntuðum löndum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image