• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jan

Góður fundur með félagsmálaráðherra

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá óskaði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og fór sá fundur fram í velferðarráðuneytinu í morgun. Er óhætt að segja að á þessum fundi hafi verið farið yfir mörg mál er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks, meðal annars sem tengjast húsnæðismálum, kjaramálum og öðrum hagsmunamálum.

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga með ráðherranum og þótti afar ánægjulegt að heyra og finna að hún telur vera svigrúm til að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá sérstaklega hjá útfluningsfyrirtækjum af ýmsum toga. Eygló var einnig sammála formanni um mikilvægi þess að samið verði í formi krónutöluhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að krónutöluhækkanir koma verkafólki og millitekjufólki hvað best.

Það var ánægjulegt að heyra að Eygló telur að fyrirtæki sem eru sköpuð góð rekstrarskilyrði á íslenskum vinnumarkaði eins og til dæmis í stóriðju og ekki síður í sjávarútvegi sem hafa fengið lækkun á auðlindagjöldum sem nemur milljörðum, skili því í formi hærri launa til þeirra sem starfa í greininni. Enda er morgunljóst að slíkt skilar sér með jákvæðum hætti út í samfélagið, jafnt til sveitarfélaga og til ríkis í formi hærri skatttekna.

Ráðherrann var líka sammála formanni í því að of lág laun íslensks verkafólks geti leitt til mikils samfélagslegs kostnaðar því ef að laun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu þá veldur það verri lýðheilsu sem endurspeglast síðan í hærri kostnaði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Hún tók undir með formanni um mikilvægi þess að lagfæra kjör íslensks verkafólks, þó með þeirri undantekningu að það hríslist ekki upp allan launastigann til þeirra allra tekjuhæstu.

Þetta var flottur fundur og gott að finna jákvætt viðhorf félagsmálaráðherra til mikilvægis þess að lagfæra hér þann ójöfnuð og þá misskiptingu sem ríkir í íslensku samfélagi.

22
Jan

Kröfugerð SGS mótuð

Rétt í þessu lauk hörkufundi hjá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands en það er landssamband verkafólks á landsbyggðinni. Á þessum fundi var kröfugerð sambandsins endanlega mótuð og samþykkt og það var gjörsamlega frábært að finna þá gríðarlegu samstöðu og einhug sem ríkir innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands við mótun þessarar kröfugerðar. Það er morgunljóst að aðildarfélög SGS ætla sér að lagfæra og leiðrétta kjör íslensks verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum.

Kröfugerðin verður afhent forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins á mánudaginn og verður hún ekki gerð opinber fyrr en eftir að Samtök atvinnulífsins hafa fengið hana í hendur. Það kom skýrt fram á þessum fundi að aðildarfélög SGS á landsbyggðinni eru tilbúin til að standa þétt saman í því að bæta kjör okkar félagsmanna og verður það gert með góðu eða illu. Var samninganefndin sammála því að aðildarfélögin þyrftu að búa sig undir verkfallsátök ef þurfa þykir og ríkti algjör einhugur um það að standa saman í því ef til verkfallsátaka kæmi í komandi kjaraviðræðum.  

21
Jan

Formaður fundar með félags- og velferðarráðherra

Formaður félagsins mun funda með Eygló Harðardóttur, félags- og velferðarráðherra, á morgun og hefst fundurinn kl. 10. Það verða næg umræðuefni við ráðherrann enda er málaflokkur félagsmálaráðherra afar víðtækur og tengist ýmsum hagsmunum íslensks verkafólks og þeirra sem minna mega sín í íslensku samfélagi.

Það var afar ánægjulegt að heyra haft eftir Eygló um daginn að hún teldi vera nægt svigrúm til frekari launahækkana til handa íslensku verkafólki. Nefndi hún, eins og formaður hefur margoft bent á, það mikla svigrúm sem er til staðar hjá fyrirtækjum í útflutningsgreinunum. Formaður mun fara yfir hin ýmsu mál með ráðherranum er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks og reyna að koma áherslunum vel á framfæri.

21
Jan

Ekkert þokast áfram í kjaradeilu við Norðurál

Í gær var fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Norðuráls og er skemmst frá því að segja að lítið þokast áfram í þeirri deilu. Enda ber gjörsamlega himinn og haf á milli deiluaðila í þessari deilu. Formaður hefur sagt í gegnum árin að fyrirtæki eins og Norðurál sem býr við góð rekstrarskilyrði, hefur ætíð skilað góðri afkomu og er með hvað lægstu launagreiðslur af heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði á og ber skylda til að skila slíkum ávinningi til starfsmanna fyrirtækisins.

Eins og áður sagði hefur Norðurál ætíð gengið vel. Álverð er í þokkalegu ástandi en það eru yfir 1800 dollarar í dag fyrir tonnið. Hinsvegar er dollarinn afar hagstæður fyrirtækinu um þessar mundir en hann stendur í 132 krónum í dag en var í upphafi síðasta árs í kringum 111 krónur. Þetta skiptir Norðurál miklu máli enda selur það allar afurðir út í dollurum en greiðir allan launakostnað í íslenskum krónum.

Á morgun verður fundur með starfsmönnum Norðuráls en hann verður haldinn í Tónbergi, sal tónlistarskólans á Akranesi, og hefst kl. 20. Á þeim fundi mun formaður fara ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu. Það er morgunljóst að ef ekki verður alvarleg hugarfarsbreyting hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins hvað þessa deilu varðar þá mun stefna hér í grjótharða kjarabaráttu þegar starfsmenn munu hafa tækifæri til að sýna vald sitt. Tíminn mun vinna með starfsmönnum og þessari deilu má líkja við knattspyrnuleik þar sem þolinmæði getur verið dyggð. Það er búið að ganga frá kjarasamningum vítt og breitt í samfélaginu, samningum sem hafa verið að gefa um og yfir 30% í 3 ára samningum og það er algjörlega hvellskýrt að ekki verður gengið frá kjarasamningi við forsvarsmenn Norðuráls með öðrum hætti heldur en þar hefur verið gert. Enda engar forsendur fyrir slíku vegna áðurnefndrar góðrar afkomu fyrirtækisins. 

Á fundinum á morgun munu starfsmenn sem mæta á fundinn taka ákvörðun um hvert framhald þessara kjaraviðræðna verður enda er það starfsmanna að ákveða hvað gera skuli þar sem þetta er þeirra lífsviðurværi. En miðað við þann gríðarlega fjölda sem hefur haft samband við formann þá skynjar hann mikla reiði og hryggð yfir því að forsvarsmenn fyrirtækisins séu ekki tilbúnir í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoman sé góð og stórir hópar hafi gert góða samninga, að gera slíkt hið sama. Og það má heyra á starfsmönnum að slíkt verður alls ekki látið átölulaust.   

16
Jan

Dagbækur 2015 komnar í hús

Dagbækur 2015 eru komnar í hús hér á Sunnubraut 13, með eilítið breyttu sniði en fyrri ár. Það er kjörið að næla sér í eina slíka og nota til að halda utan um tímaskriftir, vaktatöfluna, sumarfríið, afmælisdaga eða hvar sem skipulags er þörf.

Félagsmenn utan Akraness geta haft samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og fengið dagbók senda í pósti.
 

16
Jan

Grunnlaun sorphirðumanna til skammar

Þessir vösku sorphirðumenn gáfu sér smástund til að líta upp frá vinnu sinni og þiggja kaffibolla á kaffistofu félagsins áður en þeir drifu sig aftur út í frost og snjó að sinna sínu mikilvæga starfi.

Í morgun voru starfsmenn Íslenska Gámafélagsins önnum kafnir við að tæma ruslatunnur á Sunnubrautinni. Formaður greip tækifærið, kallaði í þá og bauð þeim kaffi og kleinur, enda er það mat formanns að starf sorphirðumanna sé eitt það erfiðasta líkamlega og á það kannski sérstaklega við þegar veðurskilyrði eru eins og við þekkjum hér á landi, mikið fannfergi og svæðið erfitt yfirferðar.

Þessi vinnuskilyrði endurspeglast svo sannarlega ekki í launakjörum þessara manna, enda eru grunnlaun sorphirðumanna hlægilega lág miðað við áðurnefnd vinnuskilyrði og erfiði. Það liggur fyrir að sorphirðumenn eru að ganga eða hlaupa 30 til 40 kílómetra á einum vinnudegi og því greinilegt þetta starf er gríðarlega annasamt og erfitt.

Grunnlaunin eru eins og áður sagði til skammar, en grunnlaun almenns sorphirðumanns eru 206.500 krónur sem svo sannarlega endurspegla ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og vinnuskilyrði þeirra, eins og áður var lýst. Þetta er eitt af því sem svo sannarlega þarf að lagfæra í komandi kjarasamningum, það eru kjör sorphirðumanna sem og annarra verkamanna á íslenskum vinnumarkaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image