• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Ætlar Spölur ekki að fara eftir viðbragðs- og neyðaráætlun Hvalfjarðarganga í verkfalli? Frá kynningu á viðbragðsáætluninni
28
Apr

Ætlar Spölur ekki að fara eftir viðbragðs- og neyðaráætlun Hvalfjarðarganga í verkfalli?

Nú eru verkfallsátökin byrjuð að harðna en fyrsta verkfall skellur á á hádegi næsta fimmtudag. Forsvarsmenn Spalar hafa tekið þá ákvörðun að hafa gjaldskýlið mannlaust og gefa frítt í göngin sem er að mínu mati grafalvarlegt. 

Þessu skal fyrst svara með því að í neyðar- og viðbragðsáætlun sem gildir fyrir Spöl í Hvalfjarðargöngum kemur skýrt fram að það sé ófrávíkjanleg krafa að starfsmenn Spalar hafi tetra talstöð og að gjaldskýlið sé aldrei skilið eftir mannlaust. Maður hlýtur að spyrja sig hvað Vegagerðin og ríkislögreglustjóri segi við því ef að Spölur ætlar ekki að uppfylla þá neyðaráætlun sem gildir fyrir Hvalfjarðargöng. Það hlýtur að kalla á skjót viðbrögð af hálfu Vegagerðarinnar því ef ekki er hægt að uppfylla viðbragðsáætlunina er ekkert annað að gera en að loka göngunum á meðan á verkfalli stendur.

Það er alveg ljóst að þessi aðgerð forsvarsmanna Spalar er á gráu svæði hvað varðar lög um stéttarfélög og vinnudeilur og því til viðbótar er það grafalvarlegt mál að skilja gjaldskýlið eftir mannlaust enda hefur sagan sýnt að það getur skipt sköpum að starfsmenn grípi til skjótra viðbragða þegar óhöpp eiga sér stað í göngunum. Hver mínúta getur skipt máli hvað það varðar. Nánast í hverri einustu viku þurfa starfsmenn Spalar að aðstoða vegfarendur vegna óhappa sem verða í göngunum, meðal annars að draga bilaðar bifreiðar upp og annað slíkt. 

Það kemur líka fyrir að starfsmenn Spalar þurfi að bregðast hratt við fyrir sjúkraflutningabíla í neyðarakstri og er þá göngunum lokað til að sjúkrabifreiðar hafi greiðan aðgang í gegn en það er ljóst að þegar enginn verður í gjaldskýlinu verður slíkri þjónustu ekki til að dreifa. 

Formaður félagsins talar af reynslu fyrir mikilvægi þess að öryggismál séu í lagi í göngunum enda vann hann hjá Speli í 6 ár áður en hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness. Það er morgunljóst að það er mikið öryggisatriði að starfsmenn séu til staðar til að bregðast við hinum ýmsu óhöppum sem upp kunna að koma í göngunum. Hér er til dæmis ein gömul frétt þar sem kviknaði í bíl við göngin og formaður tók þátt í að slökkva þann eld á sínum tíma. Það er eins gott að svona atvik komi ekki upp í ljósi þess að forsvarsmenn Spalar ætla að afgreiða verkfallið með áðurnefndum hætti. 

Það er í raun og veru grátlegt til þess að vita að starfsmenn hafi verið tilbúnir til að ganga frá samningi við Spöl til að forða fyrirtækinu frá verkfallsaðgerðum en nú liggur fyrir að Spölur bregst við með þeim hætti að gefa frítt í göngin. Að mati formanns er þetta á gráu svæði hvað varðar lög um stéttarfélög og vinnudeildur eins og áður hefur komið fram. En allavega er mikilvægt að vegfarendur átti sig á því að öryggisþáttur ganganna verður ekki svipur hjá sjón á meðan á verkfalli stendur.  

Verkalýðsfélag Akraness hefur sett sig í samband við Magnús Norðdahl, yfirlögfræðing ASÍ, til að kanna lögmæti þessarar aðgerðar Spalarmanna að gefa frítt í göngin og hafa þau opin. Einnig er félagið að kanna hjá Vegagerðinni hvort þetta standist öryggissjónarmið og á grundvelli þeirra niðurstaðna verður tekin ákvörðun um hvernig brugðist verður við.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image