• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Mar

Formaður VLFA á fundi velferðarnefndar

Húsnæði nefndasviðs AlþingisFormaður Verkalýðsfélags Akraness var boðaður á fund hjá velferðarnefnd Alþingis í morgun. Ástæðan var umsögn um tillögu til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

Formaður fór og hitti nefndina og fagnaði innilega þessari tillögu til þingsályktunar því það er gríðarlega mikilvægt að gert verði framfærsluviðmið sem kveður skýrt á um hvað einstaklingur þurfi að lágmarki í ráðstöfunartekjur til að geta framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. En því miður eru þau neysluviðmið sem nú eru í umferð ekki með þeim hætti enda er til dæmis húsnæðisliðurinn ekki inni í þeim neysluviðmiðum sem bæði velferðarráðuneytið og Umboðsmaður skuldara notast við. 

Það skiptir miklu máli fyrir til dæmis verkalýðshreyfinguna að fá lágmarksframfærsluviðmið sem yrði hafið yfir allan vafa upp á yfirborðið en slíkt lágmarksviðmið gæti orðið gott og þarft tæki í baráttunni til að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Það liggur fyrir að lágmarkslaun á Íslandi duga á engan hátt fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og ekki ríkir full sátt um. 

Verkalýðsfélag Akraness skorar á Alþingi Íslendinga að vanda vel til við útreikning nýrra neysluviðmiða og horfa fyrst og fremst á þörfina, ekki neysluna, og tryggja að fram komi lágmarksframfærsluviðmið sem kveður algjörlega á um hvað einstaklingur þarf að lágmarki til að geta lifað frá mánuði til mánaðar.  

04
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er föstudagurinn 20. mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 31. mars.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

03
Mar

Er tæplega 80% launahækkun forstjóra OR með samþykki...

Formaður félagsins var í umræðuþættinum Eyjunni hjá Birni Inga Hrafnssyni á föstudaginn þar sem kjaramálin, vaxtamál bankanna og önnur hagsmunamál íslensks verkafólks voru til umræðu. Þar kom skýrt fram hjá formanni að krafa verkafólks í komandi kjarasamningum sé sanngjörn, eðlileg og réttlát enda byggist hún á því að stigin verið jöfn, þétt og ákveðin skref í átt til þess að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að verkafólk geti haldið mannlegri reisn. 

Formaður kom inn á okurvexti bankanna og nefndi hann að bankarnir hefðu fengið lánasöfn heimilanna með miklum afslætti úr gömlu bönkunum á sínum tíma og væru nú að rukka heimilin upp í topp og enn héldu bankarnir áfram að níðast á neytendum í formi okurvaxta. Hann nefndi að hagnaður bankanna frá hruni sé 370 milljarðar en á síðasta ári nam hagnaðurinn 80 milljörðum. Hagnaður bankanna einungis vegna þjónustugjalda nam 30,6 milljörðum sem er  meiri hagnaður heldur en hagnaður þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna á Íslandi. 

Formaður vék einnig að þeirri gríðarlegu launahækkun sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hefur fengið á síðustu 4 árum en laun hans hafa hækkað um 1 milljón króna á þessum tíma eða að meðaltali um 250.000 kr. á ári. Eins og allir vita greip Orkuveita Reykjavíkur til gríðarlegra aðhaldsaðgerða og gjaldskrárhækkana í kjölfar hrunsins enda kom fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að verið væri að berjast fyrir að halda fyrirtækinu lifandi og að herða þyrfti ólina allhressilega eins og fram kom hjá núverandi forstjóra fyrirtækisins þegar hann tók við. 

Allir muna þegar að 65 starfsmönnum Orkuveitunnar var sagt upp í október 2010 og viðskiptavinir Orkuveitunnar hafa svo svannarlega fengið að finna fyrir gjaldskrárhækkunum enda liggur fyrir að gjaldskrár fyrirtækisins hafa hækkað um 50-60% eins og til dæmis rafmagn og heita vatnið. Það er greinilegt að forstjórinn hefur hert ólina vel að starfsmönnum og viðskiptavinum Orkuveitunnar en sleppt sjálfum sér svo um munar. Formaður spyr sig reyndar að því í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að Orkuveita Reykjavíkur er í eigu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar og að þessi sveitarfélög lögðu til ábyrgð upp á 10-12 milljarða til að bjarga fyrirtækinu á sínum tíma hvort að þessi 80% launahækkun forstjórans sé gerð með samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar.  

03
Mar

Samningafundur hjá Norðuráli í dag

Í dag verður haldinn samningafundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Nú eru liðnir heilir 2 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út og þrátt fyrir umtalsverðar tilraunir til að ná fram viðunandi nýjum samningi þá hefur það ekki tekist til þessa. Enn ber töluvert á milli deiluaðila og ekki er útilokað að það muni draga til tíðinda á fundinum í dag því væntanlega munu forsvarsmenn fyrirtækisins leggja fram tilboð til lausnar þessari deilu. 

Forsvarsmenn Norðuráls hafa nýverið opnað á að miða launahækkanir við launavísitölu heildarlauna sem birtist einu sinni á ári.  Formaður félagsins hefur verið að skoða þennan möguleika en hefur hafnað því að miða við þessa launavísitölu enda birtist hún einungis einu sinni á ári og því til viðbótar er hún að gefa mun minna en launavísitala launa sem Hagstofan birtir í hverjum mánuði.  Formaður hefur komið þeim skilaboðum til forsvarsmanna Norðuráls að ef það á að miðja við launavísitölu þá verði það að vera sú sem birtist í hverjum mánuði en alls ekki þessi sem birtist einu sinni á ári.  Núna er því boltinn hjá forsvarsmönnum Norðuráls en þeir hafa ekki tekið vel í að miða við launavísitölu launa sem birtist í hverjum mánuði og hafa sagt að ef það yrði gert þyrfti að miða við ca 80% af launavísitölunni því inní launavísitölu launa sem birtist í hverjum mánuði séu starfsaldurshækkanir og annað slíkt þeir geta því ekki sætt sig við að miða við 100% af launavísitölunni.  Formaður hefur hafnað að miða einungis við 80% því það sé ljóst að starfsaldurshækkanir séu alls ekki 20% af launavísitölunni.  Með öðrum orðum þá hefur VLFA hafnað því að miða við þessa launavísitölu heildarlauna enda gefur hún minna og einnig hefur félagið hafnað að miða við 80% af launavístölu launa sem birtist í hverjum mánuði, en vonandi náum við að komast í gegnum þennan ágreining en eins og staðan er núna getur brugðið til beggja vona.  En VLFA mun standa fast fyrir nú sem hingað til.

27
Feb

Aðalfundir deilda VLFA haldnir á miðvikudag

Á miðvikudaginn var haldinn aðalfundur allra deilda Verkalýðsfélags Akraness að undanskilinni sjómanandeildinni en þær deildir sem um ræðir eru matvæladeild, almenn deild, stóriðjudeild, iðnsveinadeild og opinber deild. 

Mætingin á fundinn var bara nokkuð góð, uppundir 30 manns, en þessi háttur hefur verið hafður á í nokkur ár að halda aðalfundi sameiginlega. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa fór formaður yfir rekstur félagsins á liðnu ári og komandi kjarasamninga. 

Fram kom í máli formanns að reksturinn gengur mjög vel, það fjölgar jafnt og þétt í félaginu og félagið er það lánsamt að hafa eitt besta atvinnustig á landinu. Skiptir þar mestu máli Grundartangasvæðið og sú mikla uppbygging sem þar er og einnig hafa orðið algjör straumhvörf hjá HB Granda en þar hefur störfum í fiskvinnslu fjölgað gríðarlega á liðnum misserum. 

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga og það var afar ánægjulegt að heyra þann tón og þá samstöðu sem ríkti á meðal fundarmanna um að kjör verkafólks verði að lagfæra í komandi kjarasamningum þannig að þau dugi í það minnsta fyrir lágmarksframfærslu og að það verði að gerast með góðu eða illu.  

27
Feb

Mikil uppbygging HB Granda á Akranesi

Það er gríðarlega jákvætt að sjá þá miklu uppbyggingu og fjölgun starfa  sem orðið hefur hjá HB Granda hér á Akranesi en algjör viðsnúningur hefur orðið á liðnum árum hvað það varðar. Fyrst eftir sameininguna árið 2004 dró töluvert úr starfseminni en nú á liðnum misserum hefur störfum fjölgað jafnt og þétt. Sem dæmi er núna unnið allan sólarhringinn í loðnufrystingunni. Einnig er unnið myrkranna á milli í frystihúsi fyrirtækisins sem og í loðnubræðslunni. 

Það er einnig mjög jákvætt að sjá að HB Granda gengur gríðarlega vel. Skilaði fyrirtækið 5,6 milljörðum í hagnað á síðasta ári, ákveðið hefur verið að greiða til hluthafa 2,7 milljarða í arðgreiðslur og fyrirhuguð er frekari uppbygging fyrirtækisins hér á Akranesi. Það ber hinsvegar einn skugga á þetta allt saman og það lýtur að því að lagfæra verður kjör þeirra sem starfa í fiskvinnslunni. Ekki bara hjá HB Granda heldur allsstaðar. Það liggur algjörlega fyrir að fyrirtæki sem skilar svona gríðarlegum hagnaði geta greitt sínu fólki mun betri laun heldur en gert er í dag og það er hlutverk okkar í verkalýðshreyfingunni að sjá til þess að fiskvinnslufólk fái stærri hlutdeild í þessum mikla hagnaði sem sjávarútvegurinn er að skila. 

Það græða allir á því að laun verkafólks verði hækkuð, til dæmis ríki og sveitarfélög en verslun og þjónusta myndu einnig fá hlutdeild í slíku. Það verður að gerast að laun fiskvinnslufólks og annars verkafólks taki verulegum hækkunum í komandi kjarasamningum enda er afkoma til dæmis í fiskvinnslunni svo ævintýraleg að annað eins hefur ekki sést á liðnum árum. Þetta eru algjörir smáaurar sem um er að ræða í þessu samhengi og sem dæmi þá starfa um 600 manns í fiskvinnslunni hjá HB Granda vítt og breitt um landið og ef kjör þessa fólks yrðu hækkuð um 50.000 kr. á mánuði myndi launakostnaður einungis hækka um 360 milljónir á ári fyrir utan launatengd gjöld. Já, takið eftir þessu, einungis 360 milljónir og það er sáralítið í ljósi 5,6 milljarða hagnaðar. 

En aðalmálið er að fyrirtækinu gengur vel, störfum fjölgar og þegar búið verður að lagfæra kjör þessa fólks þá munu allir græða eins og áður sagði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image