• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Mar

Laun flugstjóra hækka um 214.000 kr. á mánuði

Nú er komið að íslensku verkafólki.Það er óhætt að segja að nú dragi til stórra tíðinda hjá íslensku verkafólki. Á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær höfnuðu Samtök atvinnulífsins algjörlega þeirri hugmyndafræði Starfsgreinasambands Íslands um að stigin verði jöfn og ákveðin skref í átt til þess að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að launataxtar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru frá 201.000 kr. upp í 238.000 kr. Það sér hvert einasta mannsbarn að á slíkum launum er ekki fræðilegur möguleiki að framfleyta sér eða sínum og halda þeim sjálfsögðu mannréttindum sem eru fólgin í að geta það. 

Starfsgreinasambandið leggur áherslu á að launataxtarnir hækki í kringum 35.000 til 40.000 kr. á ári sem er afar hófstillt og sanngjörn krafa, sérstaklega í ljósi þess að stór hluti félagsmanna SGS starfar meðal annars hjá fyrirtækjum tengdum útflutningi, til dæmis í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þar sem hagnaður er gríðarlegur um þessar mundir. Með öðrum orðum, það er nægt svigrúm til þess að leiðrétta kjör félagsmanna SGS. 

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sem margir hverjir eru með um eða yfir 3 milljónir á mánuði hafa engan skilning á kjörum lágtekjufólks enda birtist afstaða þeirra og hroki bersýnilega þegar fjallað er um kjör þessa fólks. Samtök atvinnulífsins segja að ef gengið verði að kröfum SGS muni hér verða allt að 27% verðbólga, gengið muni falla, verðtryggðar skuldir heimilanna muni stökkbreytast og heimurinn muni nánast hrynja. Já, svo slæmt verður það ef íslenskt verkafólk fær 35-40.000 kr. hækkun á sínum mánaðarlaunum á ári. 

Það skrautlega í þessu öllu saman er eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær að Samtök atvinnulífsins sömdu við flugstjóra hjá Icelandair Group, ekki upp á 35.000 kr. hækkun, nei, heldur munu laun flugstjóra í heildina hækka á þessu ári um sem nemur 214.000 kr. Laun þeirra munu aftur hækka 1. október 2016 og þá um 119.000 kr. Þannig að samtals munu laun þeirra hækka um ca 333.000 kr. á mánuði í þriggja ára samningi og flugstjóri í efsta þrepi verður þá kominn upp í 1,8 milljón á mánuði. Rétt er að vekja líka athygli á því að Samtök atvinnulífsins sömdu einnig við flugstjóra um mitt síðasta ár sem gaf þeim um eða yfir 100.000 kr. hækkun á mánuði. Á sama tíma og það var að gerast fékk almennt verkafólk 9.750 kr. 

Rétt er að ítreka það að formaður Samtaka atvinnulífsins er jafnframt forstjóri Icelandair Group sem semur við sitt starfsfólk um miklar launahækkanir til að forða sínu fyrirtæki frá verkfallsaðgerðum en kemur svo og segir við íslenskt verkafólk: Ætlið þið að rústa íslensku samfélagi með því að fara fram á 35.000 til 40.000 kr. launahækkun á mánuði. Hræsnin og tilllitsleysið hjá þessum ágætu mönnum er með ólíkindum. 

Nú mun reyna á íslenskt verkafólk í eitt skipti fyrir öll því við verðum að standa saman og brjóta á bak aftur þetta óréttlæti sem hefur fengið að viðgangast á íslenskum vinnumarkaði um alllanga hríð þar sem níðst hefur verið á íslensku verkafólki á meðan tilteknir hópar í íslensku samfélagi hafa rakað til sín stórum hluta af þjóðarkökunni. Það er svo grátbroslegt þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins umbreyta krónutöluhækkun Starfsgreinasambandsins yfir í prósentur og fá út að 90.000 kr. hækkun og takið eftir á 3 árum, sé um 44% launahækkun. Það er jú alveg rétt vegna þess að þegar krónutala er lögð ofan á lág grunnlaun verður prósentan há. En skoðum hvað þetta myndi þýða ef þessi prósentutala yrði lögð ofan á meðallaun forstjóra í íslenskum fyrirtækjum. Meðallaun þeirra eru 2,6 milljónir í dag og þetta myndi þýða að þeir myndu ekki fá 90.000 kr. launahækkun á 3 árum ef þeir fengju sömu prósentuhækkun heldur tæpar 1,2 milljónir í hækkun á mánuði. Og laun þeirra yrðu því komin upp í 3,7 milljónir á mánuði. 

Nei, forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins vilja ekki sjá neitt sem heitir krónutöluhækkanir, þeir vilja bara prósentur því það kemur þeim sjálfum og þeim sem eru í efri lögum samfélagsins gríðarlega vel eins og sést á þessu, verkamaðurinn fengi 90.000 kr. og nota bene að mati SA myndi slík hækkun leggja íslenskt samfélag í rúst! En forstjórar með meðallaun upp á 2,6 milljónir myndu fá 1,2 milljónir í hækkun. Og ruglið ríður ekki við einteyming, báðir áttu að hafa fengið sömu launahækkun og það þrátt fyrir að annar hafi fengið 90.000 kr. hækkun á mánuði í 3 ára samningi en hinn 1,2 milljónir. Jú, báðir fengu sömu prósentuhækkun. 

Prósentur blekkja, prósentur eru rugl og nú er komið að því að íslenskt verkafólk láti sverfa til stáls.  

10
Mar

Flugstjórar fengu rúm 15% á fyrsta ári!

Formanni Verkalýðsfélags Akraness hefur borist vitneskja með óyggjandi hætti um að Samtök atvinnulífsins með Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group og formann Samtaka atvinnulífsins í broddi fylkingar, hafi samið við flugstjóra Icelandair í lok síðasta árs upp á rúm 25% og þar af koma rétt rúm 15% á fyrsta ári. Þetta er til viðbótar þeim tæpu 9% sem samið var um við flugstjóra í maí í fyrra í 3 mánaða samningi. Formaður vill byrja á því að óska flugstjórum til hamingju með þennan frábæra samning sem þeir hafa náð við Samtök atvinnulífsins. 

Það er með ólíkindum að hlusta á Samtök atvinnulífsins sem sömdu við verkafólk upp á 2,8% í fyrra á sama tíma og samið var við flugstjóra upp á tæp 9% og það er líka ótrúlegt að hlusta á Samtök atvinnulífsins segja að það séu 3,5% til skiptanna til handa verkafólki á sama tíma og það er samið við flugstjóra upp á rúm 15% sem komu í tvennu lagi á fyrsta ári og síðan fá þeir 7,36% 1. október 2016. 

Þetta er með ólíkindum vegna þess að sá sem er formaður Samtaka atvinnulífsins er eins og áður sagði einnig forstjóri Icelandair Group. Þessir aðilar eru búnir að teikna upp sviðsmyndir sem eru fólgnar í því að ef gengið verði að kröfum verkafólks þá muni útflutningsfyrirtæki nánast verða gjaldþrota, verðbólga fara upp í 27% og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 500 milljarða. En þeim virðist algjörlega hafa láðst að teikna upp sviðsmynd hvað varðar hækkun flugstjóra. Var hún ekki reiknuð út af hendi Samtaka atvinnulífsins? Nei, hræðsluáróðurinn og óréttlætið sem dynur á íslensku verkafólki í hvert sinn sem það gerir þá lágmarkskröfu að fara fram á að laun þeirra dugi fyrir lágmarksframfærslu ríður ekki við einteyming. 

Það er reyndar líka nöturlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins þar sem stjórnvöldum er kennt um að hafa rofið samningsfriðinn með kjarasamningum við lækna í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins við flugstjórana er síst lakari heldur en kjarasamningur lækna. Sem dæmi þá liggur fyrir að flugstjóri í efsta þrepi er kominn með föst laun upp á 1.622 þúsund samkvæmt launatöflu. 

Þessar nýjustu upplýsingar um samning sem að formaður Samtaka atvinnulífsins hefur gert við flugstjóra Icelandair mun ekki gera neitt annað en að blása gríðarlegum baráttuanda í íslenskt verkafólk því óréttlætinu á íslenskum vinnumarkaði skal lokið í eitt skipti fyrir öll.

Það er í raun og veru með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins og formaður Icelandair Group hafi komist upp með það að svara ekki fjölmiðlum um hvað var samið við flugstjórana og því spyr formaður VLFA núna: Eru Samtök atvinnulífsins ekkert hrædd um að þessi samningur muni nú hríslast niður launastigann? Eða voru þau að vonast til þess að þau kæmust upp með þennan gjörning án þess að það yrði upplýst á opinberum vettvangi?

09
Mar

Líklegt að það styttist í verkfallsaðgerðir

Það er óhætt að segja að lítið sé að frétta af kjarasamningsviðræðum á hinum almenna vinnumarkaði en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði Starfsgreinasamband Íslands fram kröfugerð sem lýtur að því að stigin verði jöfn og þétt skref í átt til þess að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu. Krafan gengur út á það að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára. 

Á morgun verður haldinn fundur hjá ríkissáttasemjara og það er æði margt sem bendir til þess að ef ekki fást nein svör frá Samtökum atvinnulífsins hvað kröfugerð SGS varðar þá séu meiri en minni líkur á að viðræðum verði slitið eða að lýst verði yfir árangurslausum viðræðum hjá sáttasemjara. Slíkt er forsenda fyrir því að hægt sé að hefja kosningu varðandi verkfallsaðgerðir. 

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að fátt geti komið í veg fyrir að verkfall skelli á í byrjun aprílmánaðar enda er enga viðleitni af hálfu Samtaka atvinnulífsins að finna þar sem þeir hafa alfarið hafnað kröfugerð SGS. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fundurinn fer á morgun en eins og áður sagði mun sá fundur skýra hvort hafinn verði undirbúningur að kosningu um verkfall eða ekki.  

09
Mar

Skattframtalsaðstoð hafin

Þjónusta Verkalýðsfélags Akraness við félagsmenn sína er margvísleg og sem dæmi stendur hin árlega skattframtalsaðstoð yfir þessa dagana. Í gegnum árin hefur félagið boðið upp á þessa þjónustu fyrir sína félagsmenn og hefur hún svo sannarlega sannað gildi sitt en á annað hundrað manns nýta sér þessa þjónustu árlega. 

Það er mjög jákvætt fyrir stéttarfélag að geta boðið upp á þessa þjónustu enda sést að hún fellur í góðan jarðveg á meðal félagsmanna þó vissulega sé mikið annríki þá daga sem hún stendur yfir. 

Hægt er að panta tíma í framtalsaðstoð á skrifstofu félagsins eða í síma 430-9900.  

04
Mar

Formaður VLFA á fundi velferðarnefndar

Húsnæði nefndasviðs AlþingisFormaður Verkalýðsfélags Akraness var boðaður á fund hjá velferðarnefnd Alþingis í morgun. Ástæðan var umsögn um tillögu til þingsályktunar um útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili.

Formaður fór og hitti nefndina og fagnaði innilega þessari tillögu til þingsályktunar því það er gríðarlega mikilvægt að gert verði framfærsluviðmið sem kveður skýrt á um hvað einstaklingur þurfi að lágmarki í ráðstöfunartekjur til að geta framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn. En því miður eru þau neysluviðmið sem nú eru í umferð ekki með þeim hætti enda er til dæmis húsnæðisliðurinn ekki inni í þeim neysluviðmiðum sem bæði velferðarráðuneytið og Umboðsmaður skuldara notast við. 

Það skiptir miklu máli fyrir til dæmis verkalýðshreyfinguna að fá lágmarksframfærsluviðmið sem yrði hafið yfir allan vafa upp á yfirborðið en slíkt lágmarksviðmið gæti orðið gott og þarft tæki í baráttunni til að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Það liggur fyrir að lágmarkslaun á Íslandi duga á engan hátt fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og ekki ríkir full sátt um. 

Verkalýðsfélag Akraness skorar á Alþingi Íslendinga að vanda vel til við útreikning nýrra neysluviðmiða og horfa fyrst og fremst á þörfina, ekki neysluna, og tryggja að fram komi lágmarksframfærsluviðmið sem kveður algjörlega á um hvað einstaklingur þarf að lágmarki til að geta lifað frá mánuði til mánaðar.  

04
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er föstudagurinn 20. mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 31. mars.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image