• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Nýr kjarasamningur við Norðurál samþykktur með 70% greiddum atkvæðum

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu starfsmanna Norðuráls um nýjan kjarasamning. Á kjörskrá voru 570 starfsmenn, og greiddu 444 þeirra atkvæði eða 77,9%.

- Já sögðu 311 eða 70%
- Nei sögðu 130 eða 29,3%
- Auð og ógild atkvæði voru 3

Það er því ljóst að sá kjarasamningur sem undirritaður var þann 17. mars síðastliðinn er samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. 

Þessi afgerandi kosning kemur formanni félagsins ekki á óvart, í ljósi þess að hér er um tímamótasamning að ræða enda aldrei verið gert áður að tengja launahækkanir verkafólks og iðnaðarmanna við hækkun launavísitölunnar.

23
Mar

Atkvæðagreiðsla um verkfall hafin!

Á slaginu 08:00 í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Rúmlega 10.000 manns eru á kjörskrá og fá þeir í dag eða á næstu dögum send kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og hafa samband við skrifstofu SGS eða sitt stéttarfélag ef einhverjar spurningar vakna. Þá er rétt að benda á vefsvæði SGS sem inniheldur mikið magn gagnlegra upplýsinga um verkfallsaðgerðirnar.

Eins og áður sagði þá er um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni, sem fer fram hér. Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið.

Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send kjörgögn þá getur viðkomandi kært sig inn á kjörskrá. Sá hinn sami þarf þá að hafa samband við stéttarfélagið sitt. Í framhaldinu er málið sent til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.

Að síðustu vill Starfsgreinasamband Ísland eindregið hvetja kosningabæra félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og greiða atkvæði um verkfallsboðunina. 

Nú er reynir á að íslenskt verkafólk standi saman sem eitt, berjist fyrir réttlátum kröfum og sendi Samtökum atvinnulífsins skýr skilaboð!

20
Mar

Kynning á kjarasamningi Norðuráls hefur gengið vel

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður tímamótasamningur fyrir starfsmenn Norðuráls þriðjudaginn 17. mars síðastliðinn. Tímamótasamningur sem byggist á því að laun starfsmanna Norðuráls munu taka þeim hækkunum sem launavísitala Hagstofunnar kveður á um. 

Formaður hefur verið að kynna þennan nýja kjarasamning fyrir starfsmönnum af miklum móð í gær og í dag. Sem dæmi var formaður mættur á Grundartangasvæðið kl. 7 í gærmorgun og lauk síðustu kynningunni kl. 22 um kvöldið og var síðan mættur aftur kl. 7 í morgun til að kynna samninginn fyrir starfsmönnum. Það er upplifun formanns miðað við þá fundi sem búnir eru að almennt séu starfsmenn nokkuð sáttir þrátt fyrir að ekki hafi náðst að breyta vaktakerfinu yfir í 8 tíma kerfi eins og að var stefnt. Formaður mun ljúka við að kynna samninginn á mánudaginn en eftir helgi og fram til fimmtudagsins 26. mars verður hægt að kjósa um samninginn. Þann dag mun niðurstaða liggja fyrir um hvort samningurinn hefur verið samþykktur eða ekki. 

Kjarasamningurinn er eins og áður sagði tengdur við launavísitölu sem ekki hefur áður verið gert á íslenskum vinnumarkaði fyrir íslenskt verkafólk og iðnaðarmenn og því um algjör tímamót að ræða. Laun starfsmanna hækka frá 1. janúar auk þess sem þeir fá 300.000 kr. eingreiðslu og síðan kemur önnur launahækkun 1. júlí næstkomandi. Sú hækkun verður tengd hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Það er skemmst frá því að segja að nú þegar eru komnar tvær mælingar frá Hagstofunni fyrir þetta tímabil. Önnur þeirra er 0,7% hækkun launavísitölunnar og í dag birtist hækkun launavísitölunnar fyrir febrúarmánuð og reyndist hún 0,5%. Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að hér er um algjöran tímamótasamning að ræða enda hefur starfsmönnum Norðuráls verið tryggt með afgerandi hætti að þeir njóti alls þess launaskriðs sem mun verða á íslenskum vinnumarkaði.  

18
Mar

Kjarasamningur undirritaður við Norðurál

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum þeim félögum sem aðild eiga að kjarasamningi við Norðurál, undir 5 ára kjarasamning við Norðurál. Það er ástæða til að tala um tímamótasamning, enda hefur það formanni vitanlega ekki verið gert áður að tengja launahækkanir verkafólks og iðnaðarmanna við launavísitölu.

Samningurinn gildir frá 1. janúar 2015 og frá þeim tíma tekur gildi umsamin upphafshækkun, auk 300.000 króna eingreiðslu til starfsmanna. Næsta launahækkun mun koma til framkvæmda 1. júlí á þessu ári, en sú hækkun mun taka mið af hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Síðan mun koma önnur launahækkun 1. janúar 2016, sem tekur mið af hækkun launavísitölunnar frá júní 2015 til desember 2015. Eftir það munu koma 1. janúar ár hvert launahækkun sem tekur mið af 12 mánaða hækkun vísitölunnar, en samningurinn rennur út í lok árs 2019.

Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr rúmlega 311.000 kr. á ári upp í kr. 340.000, sem er tæplega 30.000 kr. hækkun, en orlofs- og desemberuppbætur munu síðan taka sömu hækkunum og önnur laun, eða í samræmi við hækkun launavísitölunnar.

Eftir kjarasamning mun til dæmis verkamaður á byrjunarlaunum á vöktum í Norðuráli vera kominn upp í 492.000 kr. með öllu og eftir fimm ára starf er viðkomandi starfsmaður kominn upp tæplega 580.000 krónur. Starfsmaður með 10 ára starfsreynsla er þá kominn upp í rúmlega 591.000 krónur.

Kynningarfundir um kjarasamninginn verða auglýstir von bráðar, en þar mun formaður fara ítarlega yfir innihald samningsins og hvað hann þýðir í krónum og aurum og önnur atriði er lúta að hagsmunum starfsmanna. Kosning um samninginn mun fara fram að afloknum kynningarfundum, og hjá aðaltrúnaðarmanni allt til 26. mars, en kosningu á að vera lokið kl. 16 þann sama dag.

18
Mar

Hörkugóð ádeila frá fiskvinnslufólki HB Granda á Akranesi - Nýtt myndband

Það er óhætt að segja að starfsfólk í frystihúsi HB Granda á Akranesi hafi lagt hönd á plóg við að efla baráttuandann fyrir komandi átök, en þau gáfu út myndband við þekkt lag og ber lagið titilinn "Sveiattan". Textasmíði og söngur er í höndum fiskvinnslukonunnar Jónínu B. Magnúsdóttur, sem er félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness. Þetta er hörkugóð ádeila á þá bláköldu staðreynd að kjör fiskvinnslufólks eru eigendum sjávarútvegsfyrirtækja til ævarandi skammar í ljósi þeirra bláköldu staðreynda að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum nemur 40-60 milljörðum ár hvert og arðgreiðslur streyma til eigenda eins og enginn sé morgundagurinn. 

Að halda því fram að ekki sé hægt að lagfæra laun fiskvinnslufólks svo einhverju nemi er rakalaus þvæla eins og fram kemur í þessu myndbandi frá frystihússkonunum á Akranesi. Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir neðan, sjón er sögu ríkari.

 

13
Mar

Bjarnfríður Leósdóttir látin

Bjarnfríður Leósdóttir, baráttukona og heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness, lést þann 10. mars síðastliðinn, níræð að aldri. 

Bjarnfríður var fædd árið 1924, sama ár og Verkalýðsfélag Akraness var stofnað og má segja að hún hafi á margan hátt tengst sögu félagsins í gegnum áratugina og verið stór hluti af starfsemi þess enda var hún sjálf mikill verkalýðsfrömuður. Hún tók fyrst þátt í verkalýðsbaráttu tengdri félaginu árið 1959 en þá vann hún ásamt öðrum konum við síldarsöltun. Í afmælisblaði félagsins árið 2004 rifjaði hún þessa atburði upp og sagði meðal annars: „Við konurnar fórum að spjalla saman um kaup okkar og kjör sem við vorum engan veginn sáttar við – og okkur hitnaði svo í hamsi að ákveðið var að hefja ekki vinnu nema með því skilyrði að við okkur yrði gerður samningur.“ Þarna sést vel sá baráttuandi sem Bjarnfríður bjó yfir og átti eftir að nýtast vel á komandi áratugum í starfi hennar fyrir félagið. Í kjölfar óánægju kvennanna með laun sín fóru þær Bjarnfríður og Herdís Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar Verkalýðsfélags Akraness, til fundar við atvinnurekendur til að semja. Þetta var einnig upphafið að farsælu samstarfi Bjarnfríðar og Herdísar sem unnu lengi saman að ýmsum málefnum á vegum félagsins.

Í gegnum tíðina gegndi Bjarnfríður ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Akraness og leysti hún þau vel af hendi. Hún var fyrst kjörin í aðalstjórn félagsins árið 1960 og sinnti þá starfi varagjaldkera. Hún lagði einnig mikið af mörkum til baráttu kvennadeildarinnar en þar var hún fyrst kjörin í stjórn árið 1966 og vann þá eins og áður sagði náið með Herdísi. Það leikur enginn vafi á því að það starf sem unnið var á þessum árum og áratugum skipti gríðarlega miklu máli og með því hafa náðst ýmis réttindi sem verkafólk býr að í dag. 

Eftir að formlegu starfi Bjarnfríðar lauk fyrir félagið var hún þó hvergi nærri hætt að taka þátt í starfsemi þess og mæta á viðburði. Hún lét sig aldrei vanta í kröfugönguna 1. maí og jafnframt mætti hún alltaf í árlega ferð sem félagið býður eldri félagsmönnum sínum í og naut þess vel að ferðast um landið í góðra vina hópi. 

Bjarnfríður missti aldrei sjónar á því hvað það er sem skiptir máli þegar kemur að baráttu verkafólks og hvað forystumenn verkalýðshreyfingarinnar þurfa að hafa í huga. Það er því við hæfi að vitna í orð hennar frá árinu 2004 í áðurnefndu afmælisblaði félagsins þar sem hún lýsti þeirri von sem hún bar í brjósti varðandi baráttu verkalýðshreyfingarinnar:

„Það er von mín að verkalýðshreyfingin gæti réttar síns eins og hún er kölluð til. Ég hef enn trú á að henni takist að leggja sitt af mörkum til að byggja upp réttlátt þjóðfélag þar sem ríkir frelsi, jafnrétti og bræðralag.“

Verkalýðshreyfingin má sannarlega hafa þessa trú Bjarnfríðar að leiðarljósi, ekki síst núna þegar stefnir í hörð átök verkafólks í baráttu þess við að ná fram mannsæmandi launum.  

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness minnist Bjarnfríðar Leósdóttur með mikilli hlýju og þakklæti fyrir vel unnin störf hennar í þágu félagsins. Það er morgunljóst að hin ýmsu kjör verkamanna og –kvenna væru lakari en þau eru í dag ef hennar baráttuanda hefði ekki notið við.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image