• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
May

Samningafundi lokið - staðan erfið, flókin og viðkvæm

Rétt í þessu lauk samningafundi samningaráðs Starfsgreinasambands Íslands með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins en formaður VLFA situr í samningaráði SGS. Það er óhætt að segja að staðan sé erfið, flókin og gríðarlega viðkvæm en Samtök atvinnulífsins hafa eins og fram hefur komið í fjölmiðlum óskað eftir að gerðar verði breytingar á kjarasamningnum. Breytingar sem tengjast lengingu á dagvinnutímabili, virkum vinnutíma og lækkun yfirvinnuálags. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur alfarið hafnað þessum hugmyndum á þeirri forsendu að alltof stuttur tími sé til að skoða, meta og yfirfara áhrif þessara breytinga á kjör okkar fólks. En við fyrstu sýn er æði margt sem bendir til þess að verkafólk væri að kaupa sína launahækkun að hluta til sjálft ef hugmyndir SA næðu fram að ganga. 

Samninganefnd SGS útilokar ekki að hægt verði að skoða þessar hugmyndir SA en til þess þarf mun lengri tíma til að vega og meta eins og áður sagði ávinning verkafólks af slíkri breytingu. Staðan er vandmeðfarin og ljóst að fátt getur komið í veg fyrir að verkfall skelli á 28. og 29. maí næstkomandi. Það er ánægjulegt til þess að vita að engan bilbug er að finna á íslensku verkafólki í þessum átökum enda er íslenskt verkafólk búið að fá upp í kok af þeirri misskiptingu og því óréttlæti sem ríkir í íslensku samfélagi. Daglega berast fréttir af miklum hagnaði íslenskra fyrirtækja og arðgreiðslur flæða yfir til eigenda þeirra eins og enginn sé morgundagurinn en á sama tíma er búið að ræsa út alla áróðursmeistara Samtaka atvinnulífsnis sem hafa það verk að vinna að hræða íslenskan almenning með því að verðbólga hér muni rjúka upp úr öllu valdi, gengið falla, atvinnuleysi stóraukast og verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreytast. 

Þessi hræðsluáróður á sér stað þrátt fyrir að kostnaðarmat kröfugerðar Starfsgreinasambands Íslands sé minna heldur en hagnaður Haga sem eiga og reka meðal annars Bónus og Hagkaup. Kostnaðarmatið nemur um 3,7 milljörðum á ári en hagnaður Haga var 3,8 milljarðar. Það er því magnað til þess að vita að hræðsluáróðursmeistararnir skuli spá hér dómsdegi ef kröfur SGS verði að veruleika, kröfur sem byggjast á þeim sjálfsögðu mannréttindum að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út en slíku er ekki til að dreifa í dag. 

Samningsaðilum ber siðferðisleg skylda til að ná saman áður en verkfall skellur á en til að það geti orðið þurfa Samtök atvinnulífsins að viðurkenna þá sjálfsögðu kröfu verkafólks að lágmarkslaun hækki jafnt og þétt á komandi árum og verði orðin 300.000 kr. innan 3 ára. En eins og staðan er í dag er fátt sem bendir til þess að sú verði raunin, allavega án verulegra átaka á íslenskum vinnumarkaði. En aldrei skal segja aldrei því vonandi fara forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins að átta sig á þeirri bláköldu staðreynd að íslenska þjóðin í heild sinni er sammála þessari eðlilegu, sanngjörnu og réttlátu kröfu um hækkun lægstu launa. 

Verkalýðsfélag Akraness er eitt fárra aðildarfélaga SGS sem ákvað að greiða verkfallsbætur strax eftir að fyrsta verkfallsdegi lauk og nú þegar hefur gríðarlegur fjöldi félagsmanna sótt um verkfallsbætur en félagið greiðir 10.000 kr. fyrir hvern verkfallsdag og því ljóst að kostnaður verkfallsjóðs VLFA er nú þegar orðinn milljónir króna vegna þeirra tveggja daga sem búnir eru af verkfallinu. Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að styðja og styrkja sína félagsmenn í þessum átökum enda eru þessir verkfallssjóðir til þess að mæta tekjutapi félagsmanna í hörðum vinnudeilum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image