• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Apr

Ræstingarfólki í Fjölbrautaskóla Vesturlands sagt upp störfum vegna hagræðingar!

Í gær gekk sumarið í garð með blóm í haga. En sumarið tók ekki vel á móti ræstingarkonunum í Fjölbrautaskóla Vesturlands, því í morgun var þeim afhent uppsagnarbréf þar sem fram kemur að vegna hagræðingar í rekstri og endurskipulagningar á ræstingarmálum skólans sé þeim sagt upp störfum. 

Það er óhætt að segja að það hafi skollið á suðvestan stórhríð í fangið á þessum mætu konum sem hafa séð um að ræsta skólann í tugi ára en sú sem er með lengstan starfsaldur er búin að starfa við ræstingarnar í uppundir 30 ár. Flestar eru þær með starfsaldur frá 10 árum og upp í 20 ár. 

Enn og aftur ríða snillingar hagræðingar fram og í þessu tilfelli er það nýráðinn skólameistari skólans. Hún telur eins og svo margir aðrir stjórnendur í íslensku atvinnulífi og stofnunum að mestu sparnaðarmöguleikarnir liggi í kjörum ræstingafólks. Þessum harðneskjulegu aðgerðum verður ekki lýst í fáum orðum - að enn og aftur sé ráðist að kjörum þeirra sem síst skyldi. 

Það er alveg magnað að á sama tíma og samið hefur verið við kennara um umtalsverðar kjarabætur þá skuli ráðist að kjörum ræstingarfólks og kvartað yfir að launakostnaður stofnunarinnar hafi hækkað mikið. Maður spyr sig því, ekki á að lækka launakostnað Fjölbrautaskóla Vesturlands með því að skerða launakjör þeirra sem á lökustu kjörunum eru? 

Verkalýðsfélag Akraness mótmælir þessari aðför að kjörum þessara starfsmanna harðlega og þetta sýnir svo ekki verður um villst að svona miskunnarlaust ofbeldi þurfa mörg kvenna- og lágtekjustörf að þola og því verður að mæta af fullri hörku.

Það liggur meira að segja fyrir að þessar umræddu konur hafa í tvígang verið tilbúnar til að gefa eftir af sínum kjörum til að mæta hagræðingarþörf skólans. Núna bregður hinsvegar svo við að nýráðinn skólameistari segir þeim öllum upp og félagið hefur vitneskju um að leitað hafi verið til ræstingarfyrirtækja til að taka verkið að sér. Sú saga sem er í kringum þessi blessuðu ræstingafyrirtæki er þyrnum stráð enda liggur fyrir að kjörin rýrna gríðarlega og álagið eykst þegar ræstingarfyrirtækin taka störfin að sér eins og frægt dæmi á Landsspítalanum sannar. 

Verkalýðsfélag Akraness mun skoða hvað er hægt að gera varðandi þetta mál en siðferðislega liggur ábyrgðin hjá skólameistaranum og það að hafa brjóst í sér til að ráðast á kjör þessara kvenna er formanni algjörlega óskiljanlegt. Eins og áður sagði er það lenska hjá stjórnendum þegar kemur að því að leita hagræðingar að líta til ræstingar, mötuneytis, þvottahúss og slíkra láglaunastarfa en þessu sama fólki dettur ekki í hug að kíkja á æðstu stjórnendur til að leita hagræðingar. Hafi skólameistarinn skömm fyrir þessa framgöngu og skorar formaður á hann að draga þessar uppsagnir tafarlaust til baka og leita annarra leiða en að fara í vasa íslensks lágtekjufólks til hagræðingar.     

22
Apr

Hin sanna atburðarás við gerð nýs bónussamnings HB Granda

Hún ríður ekki við einteyming vitleysan sem fylgir því að standa í kjarabaráttu. Eins og fram hefur komið í fréttum þá undirritaði Verkalýðsfélag Akraness í morgun glæsilegan bónussamning við HB Granda sem er að skila starfsmönnum gríðarlegum ávinningi, en í stað þess að gleðjast vegna góðs samnings, þá sá Efling stéttarfélag í Reykjavík ástæðu til að ýja að því að þeir hafi gengið frá þessum bónussamningi, en ekki Verkalýðsfélag Akraness!

Það kemur formanni VLFA ekkert orðið á óvart í þessari baráttu, enda hefur félagið ítrekað þurft að glíma við þá sem heita eiga samherjar í baráttunni, auk glímunnar við atvinnurekendur. VLFA hefur ætíð talað fyrir því að atvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn eigi að skila meira til starfsfólks síns en þær hafa verið að gera. Féalgið hefur einnig bent á að við eigum að sækja meira til handa starfsfólki í útflutningsgreinum, en sum félög innan verkalýðshreyfingarinnar hafa ekki verið því sammála eins og sagan sannar. Nægir að nefna kjarasamningana 2011 og 2013 sem voru rammaðir inn af hinni alræmdu samræmdu launastefnu.

Nú bregður svo við að Efling gefur í skyn að þeir hafi gengið frá þessum bónussamningi við HB Granda! En sannleikurinn er hins vegar sá að Verkalýðsfélag Akraness vann þennan samning frá A-Ö, sendi forstjóra fyrirtækisins hugmyndir að nýjum samningi og til eru gögn sem staðfesta þessi samskipti milli formanns VLFA og forstjóra HB Granda. Einnig er til staðfesting á því þegar forstjóra HB Granda samþykkir að lokum tillögu VLFA að nýjum bónusi. Þessi samningur var síðan undirritaður í húsakynnum HB Granda á Akranesi kl. hálftíu í morgun af forstjóra HB Granda, trúnaðarmönnum og formanni VLFA. Það var svo klukkan 13 í dag að Efling undirritaði samning í Norðurgarði í Reykjavík, væntanlega copy-paste af þeim samningi sem VLFA var búið að ganga frá.

Þetta er sannleikurinn í kringum þetta bónusmál. Það má vel vera að forsvarsmenn Eflingar hafi fundað með forsvarsmönnum HB Granda síðasta föstudag og sagt að lagfæra þyrfti kjör starfsmanna. En það er nú eitthvað sem við erum að gera hvern einasta dag í samskiptum okkar við fyrirtæki. En það er ekki nóg að tala, það þarf að framkvæma hlutina. Og það kom í hlut Verkalýðsfélags Akraness að láta verkin tala og það var gert með þeim bónussamningi sem nú liggur fyrir, öllum starfsmönnum HB Granda til heilla. Nær væri að gleðjast yfir því að verið er að bæta kjör starfsmanna umtalsvert, en að standa í svona gjörningum.

22
Apr

Samningur um bónusgreiðslur HB Granda formlega undirritaður

Nú rétt í þessu var skrifað formlega undir samning um bónusmál milli Verkalýðsfélags Akraness og HB Granda, en samningurinn var kynnt hér á heimasíðunni í gær og var unnið af Verkalýðsfélagi Akraness og trúnaðarmönnum þess. 

Ljóst þykir að þetta samkomulag kemur til með að skila starfsmönnum HB Granda verulegum ávinningi, en eins og kom fram í gær er hækkun bónussins tengd starfsaldri þannig að hann hækkar meira eftir því sem starfsaldurinn er lengri. Áður höfðu allir starfsmenn jafnháan bónus, óháð starfsaldri. Bónus byrjanda hækkar úr 356 kr. á hvern unninn tíma í 500 kr. eða um 40,45%. Bónus hjá starfsmanni með 7 ára starfsaldur hækkar úr 356 kr. í 650 kr. eða um 82,58%. Þessi breyting hefur þau áhrif á hækkun heildarlauna að laun byrjanda hækka um kr. 24.960 á mánuði eða um 9%. Laun starfsmanns með 7 ára starfsaldur hækka um kr. 50.960 á mánuði eða um 18%. Á ársgrundvelli skilar þessi hækkun 7 ára starfsmanni 611.520 krónum, sem  jafngildir tveggja mánaða launum.

Hækkunin tekur gildi frá og með 23. apríl og munu starfsmenn því sjá hækkunina á launaseðli maí-mánaðar.

Við undirritunina áðan kynnti formaður VLFA samkomulagið fyrir starfsmönnum Hb Granda og þykir ljóst á viðbrögðum þeirra að mikil ánægja ríkir með samkomulagið, enda klöppuðu starfsmenn vel og innilega fyrir þessari launahækkun. Þessi niðurstaða sýnir svo ekki verður um villst að með samstöðu og vilja fyrirtækisins er hægt að bæta kjör fólksins.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sagði við undirritunina að þetta samkomulag myndi einnig gilda fyrir starfsmenn fyrirtækisins við Norðurgarð í Reykjavík, en það var kynnt fyrir trúnaðarmönnum og forsvarmönnum Eflingar í gær. Verður samkomulagið undirritað þar kl. 13 í dag. Sagði forstjórinn að mikil ánægja hafi ríkt meðal trúnaðarmanna í Norðurgarði í Reykjavík með samkomulagið.

Það er því ljóst að þetta samkomulag sem Verkalýðsfélag Akraness gerði við HB Granda mun hafa víðtæk áhrif þar sem það mun gilda fyrir aðra starfsmenn í Reykjavík og fyrir austan, og er það fagnaðarefni.

Myndir frá undirritun samningsins má finna með því að smella hér.

22
Apr

Samtök atvinnulífsins banna fyrirtækjum að semja beint við stéttarfélögin

Forsvarsmenn ónefnds fyrirtækis höfðu samband við Verkalýðsfélag Akraness og vildu gera samning við félagið fyrir sína starfsmenn. Þeir voru hinsvegar búnir að fá tölvupóst frá Samtökum atvinnulífsins þar sem samtökin kröfðust þess að fyrirtæki innan þeirra gangi alls ekki frá einstökum samningum því slíkt sé verkfallsbrot. 

Það er alveg ljóst að það eru komnir brestir innan Samtaka atvinnulífsins enda hafa forsvarsmenn fjölmargra fyrirtækja nú haft samband og óskað eftir að ganga frá samningum, nánast undantekningalaust í anda þeirrar kröfugerðar sem SGS hefur lagt fram. Nú er greinilega farin að færast harka í málin af hálfu Samtaka atvinnulífsins sem eru byrjuð að slá á fingur aðildarfyrirtækja sinna. 

Það er greinilegt að þeir sem standa að fyrirtækjunum hræðast eðiliega það ástand sem upp er komið á íslenskum vinnumarkaði og það ánægjulega í þessu er það að flest fyrirtækin sem hafa haft samband hafa burði og getu til að ganga að þeim kröfum sem Starfsgreinasambandið hefur lagt fram en þær byggjast á því að dagvinnulaun verði innan þriggja ára orðin 300.000 kr. sem er ígildi 35.000 kr. hækkunar á ári. 

Það má heyra á forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að þau vilji þrátt fyrir þessa ábendingu Samtaka atvinnulífsins ganga frá samningum til að forða sinni starfsemi frá verkföllum og að sjálfsögðu er Verkaýðsfélag Akraness reiðubúið til að ganga frá samningum við einstök fyrirtæki áfram til að leysa þann ágreining sem nú er uppi á borði.  

21
Apr

Verkalýðsfélag Akraness semur við HB Granda um bónusmál!

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmenn HB Granda á Akranesi funduðu í gær með forstjóra HB Granda hér á Akranesi. Til umræðu var að taka upp nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn HB Granda. Var niðurstaða þess fundar að Verkalýðsfélag Akraness gerði forstjóra HB Granda tilboð sem fyrirtækið gekk að nánast óbreyttu.

Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða fyrir starfsmenn HB Granda, en rétt er að ítreka að hér er bara um breytingu á bónuskerfi starfsmanna að ræða og hefur ekkert með þær kjaraviðræður sem félagið á í við Samtök atvinnulífsins og eru þessar breytingar á bónuskerfinu því hrein viðbót við það sem um mun semjast á því samningsborði.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð gagnrýnt fyrirtæki harðlega þegar þau hafa ekki staðið sig sem skyldi, en félagið er svo sannarlega tilbúið að fagna því sem vel er gert og í þessu tilfelli er full ástæða til að fagna því að fyrirtækið hafi verið tilbúið að deila góðri afkomu sinni með starfsmönnum með nokkuð myndarlegum hætti í formi hækkunar á bónuskerfinu.

Þessi hækkun skilar starfsmönnum HB Granda frá 9% upp í 18% launahækkun, en launahækkunin miðast við að bónusinn taki mið af starfsaldurshækkunum. Taflan hér að neðan sýnir hvaða áhrif þessi hækkun bónuss hefur á starfsmann í launaflokki 9, sem er sérhæfður fiskvinnslumaður. Eins og á töflunni sést þá er fiskvinnslukona eftir 7 ár að hækka í bónus um tæpa 51 þúsund krónur á mánuði, eða um 611.000 kr. á ársgrundvelli.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar að mikil ánægja ríkir með að þetta samkomulag hafi náðst og fagnar enn og aftur því að forsvarsmenn HB Granda hafi verið tilbúnir til að leyfa sínu góða starfsfólki að njóta góðrar afkomu, en sem dæmi þá nær þessi hækkun einnig yfir dótturfyrirtæki HB Granda á Akranesi, sem eru auk frystihúss HB Granda, Laugafiskur, Norðanfiskur og Vignir G. Jónsson. Má áætla að þessi launahækkun nái til allt að 250 starfsmanna í fiskvinnslu á Akranesi, auk þess mun þessi bónushækkun væntanlega gilda líka fyrir öll önnur fiskvinnslufyrirtæki sem HB Granda á, eins og í Reykjavík og Vopnafirði og jafnvel víðar.

Verkalýðsfélag vill ítreka enn og aftur að þetta hefur ekkert með kjarasamningsgerðina að gera hvað varðar hækkun almennra launataxta. Þetta útspil fyrirtækisins lýtur bara að bónusliðnum. Viðræður um önnur kjaraatriði munu fara fram á sameiginlegu borði með Samtökum atvinnulífsins.

21
Apr

Fyrirtækjasamningur við Snók skilar starfsmönnum gríðarlegum ávinningi

GrundartangasvæðiðVerkalýðsfélag Akraness gekk frá fyrirtækjasamningi við verktakafyrirtækið Snók þann 10. apríl en umrætt fyrirtæki starfar á Grundartangasvæðinu. Um árabil hafði staðið deila milli Snóks og félagsins þar sem VLFA vildi að starfsmenn Snóks tækju laun sín eftir stóriðjusamningi Elkem Ísland á Grundartanga enda er sá samningur langt um betri en kjarasamingurinn á hinum almenna vinnumarkaði. 

Samkomulag um þetta náðist semsagt og mun það skila starfsmönnum gríðarlegum réttindaauka, ekki bara í formi launahækkana heldur margvíslegra annarra réttinda eins og til dæmis veikinda- og slysaréttar, hækkun á orlofs- og desemberuppbótum og því til viðbótar er dagvinnutímabilið samkvæmt þessum nýja fyrirtækjasamningi ekki 173,33 tímar eins og á hinum almenna vinnumarkaði heldur 156 tímar. 

Það er ljóst að sumir starfsmenn munu hækka í launum um allt að 70-80.000 kr. á mánuði, orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr 112.000 kr. samtals í 327.288 kr. eða sem nemur 215.288 kr. Það er ljóst að þessi fyrirtækjasamningur er gríðarlega mikilvægur enda er núna búið að tryggja að verktakafyrirtækið Snókur sem starfar inni á Grundartangasvæðinu greiðir sömu laun og stóriðjusamningur Elkem Ísland. Með þessu er eins og áður sagði áralangri deilu lokið og gerir Verkalýðsfélag Akraness eðli málsins samkvæmt ekki neinar athugasemdir lengur við þau verkefni sem þetta ágæta fyrirtæki innir af hendi á Grundartangasvæðinu enda búið að tryggja starfsmönnum þau laun sem stóriðjan er að greiða á svæðinu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image