• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Aug

Lagfæra verður kjör starfsmanna sveitafélaganna

Kjör ófaglærðra til skammar hjá sveitafélögunumKjör ófaglærðra til skammar hjá sveitafélögunumÁ mánudaginn var átti Verkalýðsfélag Akraness sinn fyrsta samningafund með launanefnd sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem starfa hjá Akraneskaupstað en kjarasamningurinn við Akraneskaupstað rann út 1. maí síðastliðinn.  Á fundinum sem haldinn var í húskynnum ríkissáttasemjara lagði formaður fram kröfugerð félagsins sem byggist á því að dagvinnulaun starfsmanna sveitafélaga verði lagfærð svo um munar í komandi kjarasamningum.

Það er morgunljóst að dagvinnulaun hjá sveitarfélögunum eru alltof lág og léleg og það er langt í frá að þau nái þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.  Það er líka rétt að geta þess að jafnan hafa starfsmenn sveitarfélaga einungis dagvinnulaunin, því auka álagsgreiðslur eins bónusar og aðrar aukagreiðslur þekkjast nánast ekki hjá ófaglærðu starfsfólki sveitarfélaganna.

Öðru máli gegnir hins vegar með stjórnendur, forstöðumenn og aðra sem starfa í ráðhúsum sveitafélaganna, enda er það alþekkt að starfsmenn í efri lögum sveitarfélaganna fá jafnan greidda fasta óunna yfirvinnu, bifreiðastyrki og aðrar slíka aukagreiðslur.

Eins og áður sagði eru laun starfsmanna sveitarfélaga sorglega léleg og sem dæmi þá eru starfsmenn sem hefja störf á leikskóla með laun fyrir fullan mánuð kr. 242.057 og eftir 15 ára starf eru þessi laun komin uppí heilar 261.422 krónur.  Það sér hvert mannsbarn að á slíkum launum er alls ekki hægt að framfleyta sér og sínum.  Starfsmenn á leikskóla eru ekki þeir einu sem starfa á þessum sultarlaunum því sambærileg laun gilda einnig fyrir skólaliða og starfsmenn sundlauga. 

Öll vitum við að gríðarleg ábyrgð fylgir því að sinna og hafa eftirlit með börnunum okkar og ábyrgðin sem hvílir til að mynda á herðum sundlaugavarða er gríðarleg eins og fjölmörg dæmi sína þar sem snarræði sundlaugavarða hefur bjargað mannslífum.  Það er alveg ljóst að þessi ábyrgð og eftirlitsskylda endurspeglast alls ekki í launakjörum þessa fólks. En eins og áður sagði þá eru ekki neinar bónusgreiðslur eða aðrar aukagreiðslur til staðar hjá sveitarfélögunum eins og t.d. hjá fiskvinnslufólki HB Granda sem getur fengið auk sinna grunnlauna bónus allt að 112.664 á mánuði.

Formaður gagnrýndi á þessum samningafundi harðlega starfsmatið sem sveitarfélögin vinna eftir og í kröfugerðinni vill Verkalýðsfélag Akraness að umræða fari fram um starfsmatið, tilgang þess og markmið og hvort það sé að skila árangri.

Eins og áður sagði þá verður að lagfæra kjör starfsmanna sveitarfélaganna umtalsvert í komandi kjarasamningum og taka verður tillit til þess að engar aukagreiðslur eru til staðar hjá sveitarfélögunum eins og þekkjast á hinum almenna vinnumarkaði.  Alla vega gengur það ekki upp að einungis efri lögin hjá sveitarfélögunum fái hinar og þessar aukagreiðslur á meðan engar slíkar greiðslur eru til staðar hjá ófaglærðu starfsfólki sveitarfélaganna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image