• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Aug

Laun starfsmanna Elkem Ísland hækka um 6,5%

Síðastliðinn föstudag gekk formaður félagsins, ásamt aðaltrúnaðarmanni Elkem Ísland frá launahækkun sem gildir fyrir starfsmenn Elkem fyrir árin 2015 og 2016. Forsaga málsins er sú að þann 21. mars 2014 gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Elkem Ísland og gilti hann frá 1. janúar 2014 til 31. janúar 2017, eða í rétt rúm 3 ár. Í samningnum fólst meðal annars að laun skyldu hækka um rúm 9% á fyrsta ári, en launahækkanir fyrir 2015 og 2016 skyldu taka hlutfallslega mið af launahækkunum sem um semdist á hinum almenna vinnumarkaði.

Á fundi samningsaðila á föstudaginn var tekist á um hver sú hækkun ætti að vera, en vildu fulltrúar SA og forsvarsmenn Elkem meina að hún ætti að vera mun lægri en niðurstaðan náðist um. En samstaða náðist að lokum um niðurstöðuna milli samningsaðila og nú liggur það semsagt fyrir að laun starfsmanna Elkem ísland munu hækka um 6,5% afturvirkt frá 1. janúar síðastliðnum. Rétt er að geta þess að starfsmenn voru búnir að fá 2% sem komu til framkvæmda 1. janúar síðastliðinn þannig að laun starfsmanna munu hækka afturvirkt um 4,5%. Þetta þýðir að starfsmenn munu fá greiðslu vegna afturvirkni sem nemur 150-200 þúsund krónum. Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka samtals um kr. 20.856 og munu hvor um sig nema kr. 170.864, eða samtals kr. 341.728.

Síðan mun önnur hækkun koma til framkvæmda 1. janúar 2016 upp á 5,5%. Þessar hækkanir gera það að verkum að kjarasamningur Elkem ísland sem undirritaður var 21. mars 2014 er að gefa yfir 22% í heildina, eða sem nemur að meðaltali 7,6% á ári. Þegar kjarasamningurinn var kynntur fyrir starfsmönnum árið 2014 reiknaði formaður með því að launahækkanir vegna áranna 2015 og 2016 yrðu á bilinu 3,5-4%, en nú hefur komið í ljós að sú hækkun varð töluvert meiri, eða eins og áður sagði 6,5% og 5,5%.

Byrjandataxti verður 242.775 og starfsmaður sem hefur starfað í 10 ár hjá Elkem verður með grunnlaun upp á 285.884. Heildarlaun starfsmanns í efsta þrepi eru komin upp í tæp 500.000 á mánuði, en rétt er að geta þess að á bak við þessi laun er vinnutími upp á 145,6 tíma á mánuði, en ekki 173,33 eins og er á hinum almenna vinnumarkaði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image