• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Jun

Helstu atriði nýgerðs kjarasamnings á almennum vinnumarkaði

Eins og komið hefur fram skrifaði samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands undir nýjan kjarasamning síðastliðinn föstudag vegna starfa á almennum vinnumarkaði, og var það mat samninganefndarinnar að lengra yrði ekki komist í þetta skipti. Markmið um að ná lágmarkslaunum upp í kr. 300.000 á samningstímanum náðist og beinast hækkanir samningsins helst að þeim tekjulægstu og þótt flestir séu sammála um að hafa viljað ná meiru, þá ber að sjálfsögðu að fagna því. Samningurinn verður kynntur vel og rækilega á vinnustöðum og á opnum félagsfundum á næstunni og síðan lagður í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna. Fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar verður kynnt síðar.

Kjarasamninginn í heild sinni má lesa hér og eru félagsmenn hvattir til að kynna sér hann rækilega, en helstu atriði samningsins eru þessi:

  • Gildistími samnings er frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018
  • Taxtar hækka 1. maí 2015 um kr. 25.000
  • Taxtar hækka 1. maí 2016 um kr. 15.000
  • Taxtar hækka 1. maí 2017 um 4,5%
  • Taxtar hækka 1. maí 2015 um 3%
  • Byrjunarlaunaflokkar færðir upp í eins árs þrep og neðstu launaflokkar óvirkjaðir, svo launafólk getur auk áðurgreindra hækkana færst til í taxtakerfinu og hækkað í launum vegna þess, umfram það sem hækkanir taxta segja til um.
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2015 verða 3,2-7,2%, en prósentuhækkunin fer lækkandi eftir hærri tekjuþrepum.
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2016 5,5%
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2017 3%
  • Almennar launahækkanir 1. maí 2018 2%
  • Lágmarkstekjutrygging hækkar í fjórum þrepum, við undirritun samnings kr. 245.000. Árið 2016 kr. 260.000. Árið 2017 kr. 285.000. Árið 2018 verður hún komin upp í kr. 300.000.
  • Orlofs- og desemberuppbætur fara stighækkandi næstu 3 árin.
  • Sérstök hækkun fiskvinnslufólks, meðal annars tveggja launaflokka hækkun þeirra sem eru með 7 ára starfsaldur.


Sé nýgerður samningur um bónusmál fiskvinnslufólks á Akranesi tekinn með í reikninginn kemur í ljós að heildarlaun almenns fiskvinnslumanns hækka frá kr. 57.281 til 84.426 á fyrsta samningsári eftir starfsaldri og verða heildarlaun hans í lok samningstímans orðin kr. 389.869 eftir 7 ára starf. Sérhæfður fiskvinnslumaður hækkar frá kr. 105.844 til 141.223 kr. á mánuði eftir starfsaldri og verða heildarlaun hans í lok samningstímans orðin kr. 454.764 eftir 7 ára starf (Sjá mynd hér). Jafngildir það 45% hækkun á samningstímanum.

29
May

Kjarasamningar undirritaðir í húsakynnum ríkissáttasemjara - 300.000 kr. lágmarkslaun náðust!

Rétt í þessu voru undirritaðir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði en það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á við gerð þessa kjarasamnings. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness ásamt aðildarfélögum SGS nú þegar tekið 3 daga í verkfall en slíkt hefur ekki gerst í áratugi að verkafólk hafi þurft að beita verkfallsvopninu til að knýja fram sínar sanngjörnu kröfur um að lágmarkslaun hækki umtalsvert. Í dag er VLFA til dæmis að greiða út á 6. milljón króna í verkfallsbætur til félagsmanna sem sýnir svo ekki verður um villst hversu mikil harka var komin í þessa deilu. 

Innihald samningsins verður ítarlega kynnt eftir helgi en það má segja að meginkrafa verkalýðshreyfingarinnar hafi náðst fram sem var að lágmarkslaun á Íslandi myndu ná 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er alveg morgunljóst að þessi samningur er að koma tekjulægsta fólkinu hvað best þó það skuli fúslega viðurkennast að öll aðildarfélög SGS hefðu viljað ná meiru fram. En þannig er það í allri kjarasamningsgerð að það næst aldrei allt fram og baráttan fyrir bættum kjörum verkafólks er eilíf og er hvergi nærri lokið. 

Það liggur fyrir að taxtar verkafólks munu hækka um 25.000 kr. frá og með 1. maí næstkomandi ásamt því að skorinn verður einn launaflokkur af launatöflunni en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að langstærstur hluti félagsmanna VLFA sem tekur laun eftir þessum kjarasamningi er fiskvinnslufólk sem starfar hjá HB Granda á Akranesi en um er að ræða á þriðja hundrað manns. Í því samhengi er rétt að vekja athygli á að VLFA var búið að ganga frá bónussamningi við HB Granda sem var að skila fiskvinnslufólkinu allt að 51.000 kr. launahækkun þannig að þegar taxtahækkunin verður komin til viðbótar má segja að flest fiskvinnslufólk á Akranesi muni hækka strax á fyrsta ári með bónussamningnum um tæpar 80.000 kr. á mánuði . 

Orlofs- og desemberuppbætur munu líka hækka ásamt fjölmörgum atriðum sem tengjast kjarasamningnum. Sem dæmi náði SGS fram tveggja flokka launahækkun til handa fiskvinnslufólki sem starfað hefur í 7 ár hjá sama atvinnurekanda sem skilar því tæpum 4.000 kr. auka hækkun. En eins og áður sagði mun formaður fara ítarlega yfir samninginn hér á heimasíðunni og einnig verður boðið upp á víðtækar kynningar á kjarasamningnum í komandi viku. 

Rétt er að taka fram að aðkoma stjórnvalda til að liðka fyrir gerð kjarasamninga skiptir miklu máli. Þar má nefna fyrirhugaðar heildarlækkanir á tekjuskatti einstaklinga sem á að auka ráðstöfunartekjur um 50-100 þúsund á ári. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar tengjast skatta-, velferðar- og húsnæðismálum og eiga að stuðla að bættum kjörum almennings. 

En eins og áður sagði hefðu allir viljað ná enn lengra í þessum samningum en grundvallaratriðið er að 300.000 kr. markmiðið náðist. Það sorglega í þessu öllu var að Efling og VR sem leiddu þessar viðræður eftir að Samtök atvinnulífsins slitu viðræðum við landbyggðarfélögin innan SGS voru búin að ganga frá samkomulagi við SA um að einstaklingar sem eru 18 ára fái einungis 90% af fullum launataxta 20 ára og 19 ára einstaklingar fái 95%.  Þessi vinnubrögð voru gjörsamlega ótrúleg og kom formaður á framfæri hörðum mótmælum vegna þessa en því miður er erfitt fyrir minni félög á landsbyggðinni að standa fast á sínu eftir að stóru félögin hafa lagt blessun sína yfir þennan gjörning.  Eitt er víst að vinda þarf ofan af þessum vinnubrögðum enda engin rök fyrir því að 18 og 19 ára einstaklingar njóti ekki fullra launa. 

29
May

Verkalýðsfélag Akraness kveður Magnús Pétursson ríkissáttasemjara

Nú liggur fyrir að Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, er að láta af störfum og í tilefni þess ákvað formaður Verkalýðsfélags Akraness að afhenda ríkissáttasemjara smá gjöf frá félaginu. Meðal annars fékk hann veglegan blómvönd og Vilko vöffluduft ásamt smá drykk til að skola því niður með. Vöffluduftið getur Magnús notað þegar hann vill rifja upp góða tíma úr Karphúsinu en það er morgunljóst að Magnús hefur verið afar farsæll í starfi sem ríkissáttasemjari og munu margir sakna hans enda hefur hann staðið sig með afbrigðum vel í þessu mjög svo vandasama og erfiða starfi. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill fyrir hönd félagsmanna þakka Magnúsi kærlega fyrir farsælt og ánægjulegt samstarf á liðnum árum með ósk um góða tíma og velferð á komandi árum. 

27
May

Verkfalli frestað!

Nú stendur yfir samningafundur hjá fulltrúum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Viðræður eru hafnar af fullum þunga og gert hefur verið samkomulag milli viðræðuaðila að fresta fyrirhuguðum verkföllum um 6 daga. Verkföllin sem áttu að standa yfir næstu tvo sólarhringa (28. og 29. maí) hefur því verið frestað til 3. og 4. júní verði samningur ekki gerður fyrir þann tíma.

26
May

Ætlar verkalýðshreyfingin að klúðra vítaspyrnu?

Það er óhætt að segja að það sé komin upp alveg ótrúlega flókin og undarleg staða í kjaraviðræðum á hinum almenna vinnumarkaði. En nú berast fregnir af því að drög að nýjum samningi á milli Flóabandalagsins, VR og Samtaka atvinnulífsins liggi í loftinu en þessir aðilar hafa frestað boðuðu verkfalli um fimm daga en verkafallið átti að hefjast á miðnætti annað kvöld.

Rétt er að vekja strax athygli á því að landsbyggðarfélögin innan Starfsgreinasambands Íslands hafa ekki frestað boðuðu verkfalli sem mun hefjast á miðnætti á morgun. Ástæðan fyrir því er einföld, landsbyggðarfélögin hafa ekkert heyrt frá Samtökum atvinnulífsins og vita því ekkert um innihaldið í þessum samningsdrögum sem liggja fyrir á milli áðurnefndra aðila.

Formaður lýsir yfir fullkominni vanþóknun á þessum vinnubrögðum Samtaka atvinnulífsins í ljósi þess að landsbyggðarfélögin hafa nú þegar tekið þrjá daga í verkföll og næsta verkfallshrina hefst eftir einungis 36 klukkutíma. SA virðist líta landsbyggðarfyrirtækin allt öðrum augum en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og varla eru landsbyggðarfyrirtækin sem tilheyra SA ánægð með að ekki sé reynt að forða verkfallsaðgerðum á landsbyggðinni eins og gert er á höfuðborgarsvæðinu.

En hvað skyldi vera í þessum samningsdrögum sem Flóinn og VR eru að kokka upp?  Formenn innan SGS hafa því miður ekki fengið neinar upplýsingar aðrar en þær sem birst hafa í fjölmiðlum. En við fyrstu sýn virðist sem Flóinn og VR séu að semja á grundvelli kröfugerðar landsbyggðarfélaganna sem byggist á þriggja ára samningi en rétt er að vekja athygli á að Flóinn og VR voru búin að gefa út að þau vildu bara semja til eins árs því þau treystu ekki stjórnvöldum en það er greinilegt að traustið á stjórnvöld er komið til baka.

Einnig kom fram í fréttum í dag að krafa landsbyggðarfélaganna um að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára sé til umræðu á milli SA og Flóans og VR en þá kröfu hafa þessi félög ekki verið með hingað til enda viljað semja til eins árs eins og áður sagði.

En það er morgunljóst að æði margt á eftir að skýrast eins og t.d:

·         Hvað eiga launataxtar verkafólks að hækka mikið? 

·         Verða lágmarkslaunin orðin 300.000 kr. innan þriggja ára? 

·         Frá hvaða tíma á samningurinn að gilda? Nú eru að verða liðnir 3 mánuðir frá því samningurinn rann út. 

·         Verður greidd einsgreiðlsa vegna þess að samningurinn hefur dregist um tæpa þrjá mánuði?

·         Hvað með sérstakar hækkanir hjá þeim sem starfa í útflutningsgreinunum eins og t.d. ferðaþjónustunni og fiskvinnslunni?

Fyrirgefið en af fenginni reynslu hefur formaður VLFA gríðarlegar áhyggjur af því að verkalýðshreyfingin klúðri því dauðafæri sem nú hefur skapast til að lagfæra kjör verkafólks svo um munar. En stöðunni sem verkalýðshreyfingin er með núna má líkja við vítaspyrnu í knattspyrnuleik þar sem boltanum hefur verið stillt upp á vítapunkti og það er enginn í markinu. Formaður vonar að verkalýðshreyfingin ætli ekki að leika sér að því að skjóta himinhátt yfir og klúðra því gullna tækifæri sem hún hefur til þess að lagfæra kjör þeirra sem lökust kjörin hafa. 

Formaður vonar að það verði samið þannig að laun verkafólks dugi fyrir þeim lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og líka þannig að okkar félagsmenn geti haldið mannlegri reisn.  En eins og staðan er núna þá er ekkert sem bendir til annars en að verkfall á landsbyggðinni skelli á af fullum þunga á miðnætti annað kvöld. Allavega hafa landsbyggðarfélögin enga forsendu til að áætla annað eins og staðan er akkúrat núna.

21
May

Samningafundi lokið - staðan erfið, flókin og viðkvæm

Rétt í þessu lauk samningafundi samningaráðs Starfsgreinasambands Íslands með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins en formaður VLFA situr í samningaráði SGS. Það er óhætt að segja að staðan sé erfið, flókin og gríðarlega viðkvæm en Samtök atvinnulífsins hafa eins og fram hefur komið í fjölmiðlum óskað eftir að gerðar verði breytingar á kjarasamningnum. Breytingar sem tengjast lengingu á dagvinnutímabili, virkum vinnutíma og lækkun yfirvinnuálags. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur alfarið hafnað þessum hugmyndum á þeirri forsendu að alltof stuttur tími sé til að skoða, meta og yfirfara áhrif þessara breytinga á kjör okkar fólks. En við fyrstu sýn er æði margt sem bendir til þess að verkafólk væri að kaupa sína launahækkun að hluta til sjálft ef hugmyndir SA næðu fram að ganga. 

Samninganefnd SGS útilokar ekki að hægt verði að skoða þessar hugmyndir SA en til þess þarf mun lengri tíma til að vega og meta eins og áður sagði ávinning verkafólks af slíkri breytingu. Staðan er vandmeðfarin og ljóst að fátt getur komið í veg fyrir að verkfall skelli á 28. og 29. maí næstkomandi. Það er ánægjulegt til þess að vita að engan bilbug er að finna á íslensku verkafólki í þessum átökum enda er íslenskt verkafólk búið að fá upp í kok af þeirri misskiptingu og því óréttlæti sem ríkir í íslensku samfélagi. Daglega berast fréttir af miklum hagnaði íslenskra fyrirtækja og arðgreiðslur flæða yfir til eigenda þeirra eins og enginn sé morgundagurinn en á sama tíma er búið að ræsa út alla áróðursmeistara Samtaka atvinnulífsnis sem hafa það verk að vinna að hræða íslenskan almenning með því að verðbólga hér muni rjúka upp úr öllu valdi, gengið falla, atvinnuleysi stóraukast og verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreytast. 

Þessi hræðsluáróður á sér stað þrátt fyrir að kostnaðarmat kröfugerðar Starfsgreinasambands Íslands sé minna heldur en hagnaður Haga sem eiga og reka meðal annars Bónus og Hagkaup. Kostnaðarmatið nemur um 3,7 milljörðum á ári en hagnaður Haga var 3,8 milljarðar. Það er því magnað til þess að vita að hræðsluáróðursmeistararnir skuli spá hér dómsdegi ef kröfur SGS verði að veruleika, kröfur sem byggjast á þeim sjálfsögðu mannréttindum að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út en slíku er ekki til að dreifa í dag. 

Samningsaðilum ber siðferðisleg skylda til að ná saman áður en verkfall skellur á en til að það geti orðið þurfa Samtök atvinnulífsins að viðurkenna þá sjálfsögðu kröfu verkafólks að lágmarkslaun hækki jafnt og þétt á komandi árum og verði orðin 300.000 kr. innan 3 ára. En eins og staðan er í dag er fátt sem bendir til þess að sú verði raunin, allavega án verulegra átaka á íslenskum vinnumarkaði. En aldrei skal segja aldrei því vonandi fara forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins að átta sig á þeirri bláköldu staðreynd að íslenska þjóðin í heild sinni er sammála þessari eðlilegu, sanngjörnu og réttlátu kröfu um hækkun lægstu launa. 

Verkalýðsfélag Akraness er eitt fárra aðildarfélaga SGS sem ákvað að greiða verkfallsbætur strax eftir að fyrsta verkfallsdegi lauk og nú þegar hefur gríðarlegur fjöldi félagsmanna sótt um verkfallsbætur en félagið greiðir 10.000 kr. fyrir hvern verkfallsdag og því ljóst að kostnaður verkfallsjóðs VLFA er nú þegar orðinn milljónir króna vegna þeirra tveggja daga sem búnir eru af verkfallinu. Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að styðja og styrkja sína félagsmenn í þessum átökum enda eru þessir verkfallssjóðir til þess að mæta tekjutapi félagsmanna í hörðum vinnudeilum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image