• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
May

Glerhörð verkfallsátök framundan

Laga verður kjör fiskvinnslufólks svo um munar!Í gær var samningafundur með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og það er morgunljóst að himinn og haf er enn á milli samningsaðila.  Eins og staðan er í dag er fátt sem getur komið í veg fyrir að tveggja daga verkfallið sem á að hefjast 28 og standa til 29 verði að veruleika.

Það er hvellskýrt að Samtök atvinnulífsins verða að skipta um gír í þessum viðræðum og fara að hlusta á sanngjarnar kröfur verkfólks, kröfur sem byggjast á þeirri sanngjörnu kröfu að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út, en slíku er alls ekki til að dreifa í dag.

Íslenska þjóðin í heild sinni stendur með verkfólki og styður heilshugar kröfuna um að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára.  En það er morgunljóst og hvellskýrt að frá samningsborðinu verður ekki hægt að standa upp fyrr en gengið hefur verið að þeirri sanngjörnu kröfu. 

Það er líka mikilvægt að atvinnurekendur átti sig á því að hugmyndir þeirra um breytingu á yfirvinnuálagi og lengingu á dagvinnutímabilinu verður ekki gerð í þessum samningum.  Málið er að við erum fallinn á tíma og það liggur fyrir að það er ekki nokkur tími til að fara í slíkar breytingar, enda krefjast þær gríðarlegs undirbúnings og greiningu á hvað það þýðir fyrir okkar fólk að taka upp slíkar breytingar.

Það er því fátt sem getur komið í veg fyrir að glerhörð verkfallsátök hefjist að nýju 28. maí og í byrjun júní mun landið nánast lamast vegna verkfallsaðgerða ef ekki næst að semja fyrir þann tíma.  En það er óhætt að segja að formaður Verkalýðsfélags Akraness sé ekki ýkja vongóður um lausn á þessari deilu í bráð.

15
May

Opið fyrir umsóknir um styrk vegna launataps í verkfalli

Umsóknareyðublöð vegna styrks úr vinnudeilusjóði vegna launataps í verkfalli eru nú aðgengileg á heimasíðu VLFA undir Eyðublöð. Hægt er að senda útfylltar umsóknir í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., í pósti á Sunnubraut 13, 300 Akranes, eða koma þeim á skrifstofu félagsins á annan hátt.

Með umsókninni þurfa að fylgja gögn sem staðfesta starfshlutfall og að starfsmaður hafi átt að vinna á verkfallsdegi en lagt niður störf. Þónokkur fyrirtæki hafa nú þegar sent slíka staðfestingu fyrir alla sína starfsmenn í einu lagi til skrifstofu félagsins og þegar um er að ræða vinnustaði þar sem margir hafa lagt niður störf, þá er það líklega þægilegast.

Styrkir vegna launataps í verkfalli verða greiddir út um mánaðarmótin og sem betur fer hefur slíkt ekki gerst í áraraðir. Verkfallssjóður Verkalýðsfélags Akraness er sterkur og mun vel geta staðið undir greiðslum til félagsmanna komi til langtímaverkfalls.

15
May

Samstaða SGS órjúfanleg

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur ákveðið að fresta áður boðuðu verkfalli sem átti að vera 19. og 20. maí um rétt rúma viku eða nánar tiltekið til 28. og 29. maí. Einnig ákvað samninganefndin að fresta allsherjar ótímabundnu verkfalli frá 26. maí til 6. júní. 

Þessi ákvörðun var tekin af meirihluta samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands eftir ítarlegar umræður en með þessu vill samninganefnd SGS gera heiðarlega tilraun til að nota komandi viku til þess að reyna að klára kjarasamning til handa verkafólki. Til að til þess geti komið þurfa Samtök atvinnulífsins að mæta sanngjörnum, réttlátum og eðlilegum kröfum verkafólks. Kröfum sem byggjast á því að lágmarkslaun á Íslandi verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er morgunljóst að frá þessari kröfu verður ekki kvikað enda slær þjóðarpúlsinn algjörlega með íslensku verkafólki hvað þessa kröfu varðar. Það er mikilvægt að atvinnurekendur geri sér grein fyrir því að ef það á að vera hægt að ganga frá kjarasamningum þá þarf þessi krafa að verða að veruleika.

Formaður Stéttarfélags Vesturlands hefur ýjað að því að ekki sé eining og samstaða innan landsbyggðarfélaganna og hefur formaðurinn meðal annars gagnrýnt Verkalýðsfélag Akraness og fleiri aðildarfélög á landsbyggðinni fyrir að hafa gengið frá samningum við atvinnurekendur á grundvelli kröfugerðarinnar. Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill upplýsa að hann er búinn að vera í verkalýðsbaráttu í 11 ár og aldrei hefur hann fundið fyrir jafn góðri samstöðu innan SGS eins og núna. Það er því grátlegt og dapurlegt hvernig formaður Stéttarfélags Vesturlands hefur hagað sér þar sem hún hefur meðal annars gagnrýnt Verkalýðsfélag Akraness harðlega fyrir að hafa gert samninga við einstök fyrirtæki í þessari kjaradeilu. Samninga sem byggjast á því að gengið hefur verið að öllu leyti að okkar kröfugerð. Hverslags kjarabarátta er það ef atvinnurekandi kemur til forsvarsmanns í stéttarfélagi, býður honum launahækkanir fyrir félagsmenn hans sem nema að fullu þeirri kröfugerð sem liggur fyrir og formaðurinn svarar neitandi? 

Verkalýðsfélag Akraness hefur gert 14 slíka samninga og í tveimur tilfellum eru þeir samningar langt fyrir ofan þá kröfugerð sem SGS er með. Í öðru tilfellinu hafa starfsmenn hækkað um frá 117.000 upp í 136.000 kr. á mánuði og í hinu tilfellinu voru einstaka starfsmenn að hækka um 70-80.000 kr. En það eru tveir aðilar í íslenskri verkalýðsbaráttu sem gagnrýna þetta harðlega. Annar er forseti ASÍ og hinn er fyrrverandi varaforseti ASÍ og formaður Stéttarfélags Vesturlands. Enda eru þessir aðilar talsmenn samræmdrar láglaunastefnu sem Verkalýðsfélag Akraness vill ekki og ætlar ekki að taka þátt í. Það að fá gagnrýni fyrir að gera góða samninga frá svokölluðum "samherjum" er eitthvað sem er formanni og reyndar verkafólki almennt óskiljanlegt því það hljóta allir að gleðjast yfir því ef árangur næst í kjarasamningsgerð. Formaður Stéttarfélags Vesturlands hefur meðal annars gagnrýnt formann VLFA fyrir að skilja jafnvel konur eftir í sinni kjarasamningsgerð en það er greinilegt að hún hefur ekki fylgst með þeim samningum sem VLFA hefur gert og nægir að nefna í því samhengi bónussamninginn sem félagið gerði við HB Granda á dögunum sem tryggði fiskvinnslukonum allt að 51.000 kr. launahækkun. Það eru svona samningar sem forsetarnir tveir virðast vera á móti og því spyr maður sig að því hverslags verkalýðsbarátta sé rekin á þeim vígstöðvum. 

Það er sorglegt til þess að vita og er svosem engin nýlunda fyrir Verkalýðsfélag Akraness að þurfa að standa í að svara þeim sem eiga að teljast samherjar manns í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks. Því eðlilega er það skylda okkar að eyða kröftum okkar í að bæta kjör verkafólks en ekki að standa í innbyrðis deilum enda gerir slíkt ekkert annað en að skemmta atvinnurekendum eins og enginn sé morgundagurinn. Sumt er bara þannig að ekki verður hjá því komist að svara því og þá sérstaklega þegar fólk kemst upp með það dag eftir dag að halda því fram að ekki sé samstaða innan félaga SGS. En slíkt getur formaður staðfest, að samstaðan er þessa dagana órjúfanleg og mjög góð og vonandi verður hún það í komandi átökum því ekki veitir af.

15
May

Seðlabankastjóri góður bandamaður Samtaka atvinnulífsins

Það er óhætt að segja að það gangi mikið á í þeirri kjaradeilu sem íslenskt verkafólk á í um þessar mundir. Valdaelítan sprettur nú fram eins og ætíð þegar kemur að kjarasamningum verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og dregur upp dökka mynd af því hvað gerist ef verkafólk fær einhverjar kjarabætur sem orð er hafandi á. 

Svona hefur þetta ætíð verið og ef maður rifjar upp til dæmis kjarasamningana sem undirritaðir voru 17. febrúar 2008 þá spruttu fram greiningarstjórar bankanna og vöruðu við kröfugerð verkafólks og sögðu mjög ábyrgðarfullir að stöðugleiki í íslensku samfélagi byggðist á því hvernig samið yrði á hinum almenna vinnumarkaði. Þeir sögðu einnig að ef kröfur verkafólks myndu ná fram að ganga þá myndi verðbólgan rjúka upp og gengið falla og svo framvegis. Takið eftir, þetta var árið 2008, sama ár og var verið að ræna bankana innanfrá, beint fyrir framan nefið á greiningarstjórum bankanna. Þeir höfðu ekki áhyggjur af því en þeir höfðu meiri áhyggjur af því að verkafólk fengi leiðréttingu sinna kjara. Öll munum við hvernig fór í október 2008 en þá hrundi íslenskt efnahagslíf til grunna vegna þeirrar sjálftöku og glæpamennsku sem ástunduð var í íslensku bankakerfi. Þessi reikningur var allur sendur á íslenska alþýðu og því er vert að rifja upp áhyggjur greiningarstjóra bankanna sem þeir höfðu af kjarasamningum verkafólks í janúar 2008. 

Það eru ekki bara greiningarstjórar bankanna sem hafa sýnt af sér hræsni í garð verkafólks heldur er seðlabankastjórinn Már Guðmundsson þar mjög framarlega í flokki. Hann hefur ætíð varað stórlega við því að ef kjör verkafólks verði leiðrétt þá muni það hafa skelfilegar efnahagslegar afleiðingar. Þessi varnaðarorð seðlabankastjóra eiga ekki bara við um gerð þess samnings sem nú er undir heldur varaði hann einnig við því í kjarasamningunum 2011 að það yrði að semja um hófstilltar launahækkanir á hinum almenna vinnumarkaði. Þessi tiltekni seðlabankastjóri fór, eftir að hann hafði látið þessi orð falla um mikilvægi þess að stöðugleikinn væri á ábyrgð verkafólks, sjálfur og stefndi sínum banka og krafðist 300.000 kr. launaleiðréttingar á sínum launum. Þessi launahækkun átti að koma á einu bretti og það er kaldhæðnislegt að nú þegar verkafólk er að berjast fyrir því að dagvinnulaun nái 300.000 kr. innan 3 ára þá sé það sama upphæð og Már Guðmundsson fór fram á að laun sín skyldu hækka um árið 2012. 

Formaður veltir því fyrir sér að betri bandamann geti Samtök atvinnulífsins ekki fengið en seðlabankastjóra sem ætíð stendur á öllum torgum og öskrar hátt og skýrt að ef ekki verði samið um hófstilltar hækkanir handa verkafólki þá muni það leiða til efnahagslegra hamfara. Verðbólgan muni rjúka upp, gengið falla og atvinnuleysi stóraukast. Hvernig væri að seðlabankastjórinn og seðlabankinn í heild sinni myndu beita sér fyrir því að lækka þá okurvexti sem íslenskum almenningi og fyrirtækjum standa til boða. Skuldir íslenskra heimila nema í heildina um 2000 milljörðum eða sem nemur 90,5% af vergri landsframleiðslu og íslensk fyrirtæki skulda 122% af vergri landsframleiðslu eða sem nemur um 2.400 milljörðum. Að lækka vexti á slíkar ofurskuldir myndi klárlega koma heimilunum og fyrirtækjum svo sannarlega til góða og má áætla að ef vextir yrðu lækkaðir um 1% þá myndi það spara heimilum og fyrirtækjum um 50 milljarða á ári. Nei, seðlabankastjóri segir að ef kröfur verkafólks verði að veruleika þá þurfi að hækka vextina enn frekar. 

Eins og sjá má á þessu er hræsnin allsráðandi hjá þessum aðilum sem virðast fyrst og fremst horfa í eigin nafla en ekki á hagsmuni alþýðunnar enda heyrist hvorki hósti né stuna frá þessum aðilum þegar ofurlaunaelítan skammtar sér sínar hækkanir eins og enginn sé morgundagurinn. Nægir að nefna í því samhengi launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur en laun hans hækkuðu um 90% á síðustu 4 árum og það á sama tíma og gjaldskrár hafa hækkað um 50-60%. En þessar gjaldskrárhækkanir fóru beint inn í visitöluna og hækkuðu lán íslenskra heimila umtalsvert. Eða nýjustu fréttirnir að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna hafi hækkað í launum í fyrra um 172.000 kr. á mánuði og sé kominn með laun sem nema tæpum 3 milljónum. Ekki hósti né stuna vegna slíkra gjörninga, bara ef laun verkafólks verða orðin 300.000 kr. innan þriggja ára, það á að ríða íslensku samfélagi að fullu. Við slíkum málflutningi er ekki nema tvennt að segja - rugl og sveiattan! 

13
May

Staðan í kjaramálum grafalvarleg - himinn og haf á milli

Samningaráð Starfsgreinasambands Íslands, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness situr í, átti fund með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í gær og er það mat formanns að himinn og haf sé á milli deiluaðila. Það tilboð sem SA hefur lagt fram er með þeim hætti að alls ekki er hægt að ganga að því. Grundvallarkrafan sem nánast öll íslenska þjóðin styður er að lágmarkslaun á Íslandi verði skilyrðislaust orðin 300.000 kr. innan þriggja ára. Það er morgunljóst að þetta er grunnkrafa sem verður að nást í gegn til að hægt verði að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði fyrir verkafólk. 

Þessi krafa er sanngjörn, réttlát og eðlileg enda eru það mannréttindi að dagvinnulaun verkafólks séu með þeim hætti að hægt sé að halda mannlegri reisn og að þau dugi svona nokkurn veginn fyrir þeim nauðþurftum sem þarf til að reka heimili frá mánuði til mánaðar. Þessi hugmyndafræði Samtaka atvinnulífsins um að stytta dagvinnutímabil og lækka yfirvinnuprósentu jafnvel niður í 50% er óaðgengileg með öllu. Enda liggur fyrir samkvæmt útreikningum að verkafólkið sjálft væri að kaupa stóran hluta sinna launahækkana eða með öðrum orðum, að eftir 35 yfirvinnutíma á mánuði væri allur ávinningur af slíkum breytingum horfinn út í veður og vind. 

Þetta er grafalvarleg staða og Samtök atvinnulífsins verða að hlusta á þjóðarsálina og ganga að þessum sanngjörnu kröfum íslensku verkafólki til heilla enda á verkafólk það svo sannarlega skilið og mörg fyrirtæki hafa fulla getu og burði til þess að mæta þessum réttlátu kröfum. 

Það þarf ekkert að ræða sjávarútveginn sem skilar 50-60 milljarða hagnaði ár hvert, þar er nægt svigrúm. Ferðaþjónustan er eins og hún er, þar ríkir gullgrafaraævintýri enda er sú atvinnugrein farin að skila mestum gjaldeyristekjum fyrir íslenska þjóð og meira að segja bárust fréttir af því í gær að hagnaður Haga sem á og rekur fjölmargar verslanir eins og til dæmis Bónus og Hagkaup var 3,8 milljarðar og milljarða hagnaður verður greiddur til eigenda. Ætlar einhver að halda því fram að Hagar hafi ekki tækifæri til að lagfæra kjör afgreiðslufólksins sem starfar til dæmis á kassa í stórmörkuðum tengdum fyrirtækinu? Að sjálfsögðu er slíkt hægt og þessar launabreytingar þarf að sækja af fullum þunga enda er það siðferðisleg skylda verkalýðshreyfingarinnar að laga kjör þessa fólks sem og annarra sem eru að vinna á lökustu kjörunum á íslenskum vinnumarkaði. 

Allavega er staðan grafalvarleg því lítinn samningsvilja er að finna af hálfu Samtaka atvinnulífsins og þeir eru því miður ekki tilbúnir til þess að deila ávinningnum af góðri afkomu fyrirtækja eins og til dæmis í sjávarútvegi og hjá Högum með starfsfólkinu og er það þeim sem því ráða til ævarandi skammar.

13
May

Mikil reiði kraumar vegna uppsagna ræstingarkvenna í FVA

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness harðlega uppsagnir 7 ræstingarkvenna við Fjölbrautaskóla Vesturlands en þær uppsagnir voru að frumkvæði nýráðins skólameistara FVA og voru gerðar til að mæta hagræðingu og sparnaði í rekstri skólans. Eins og fram kom hér á heimasíðunni er dapurlegt og nöturlegt til þess að vita að á sama tíma og kennarar fengu 30% launahækkun sé krafist launalækkunar hjá ræstingarfólki skólans. Þær konur sem þarna um ræðir hafa starfað þarna í allt að 30 ár við góðan orðstír. 

Það er ánægjulegt til þess að vita að kennarar hafa staðið þétt við bakið á ræstingarkonunum og á fundi starfsmanna Fjölbrautaskóla Vesturlands var samþykkt ályktun þar sem meðal annars kom fram að starfsmenn mótmæli harðlega uppsögnum þessara 7 starfsmanna og skoraði fundurinn á skólameistara að draga uppsagnirnar tafarlaust til baka. Það kemur einnig fram í þessari ályktun að það sé fráleitt að gera starfsfólk í ræstingu ábyrgt fyrir þeim halla sem orðið hefur á rekstri stofnunarinnar á undanförnum árum og hér sé byrjað á öfugum enda. Því miður er það lenska hjá stjórnendum fyrirtækja og stofnana sem vilja láta til sín taka í hagræðingaráformum að leita ætíð þangað sem síst skyldi en það er í störf tengdum ræstingu, mötuneytum og þvottahúsum. Þar telja þessir hagræðingarsnillingar mestu möguleikana á sparnaði.

Verkalýðsfélag Akraness ítrekar áskorun sína og tekur undir með starfsmönnum Fjölbrautaskóla Vesturlands að þessar uppsagnir verði tafarlaust dregnar til baka og leitað verði annarra leiða til að mæta halla skólans en í vasa ræstingarkvenna.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image