• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jun

Verkfalli iðnaðarmanna frestað!

Samiðn, sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að, hefur ásamt nokkrum öðrum iðnfélögum tekið ákvörðun um að fresta verkfalli sem áður hafði verið boðað þann 10. júní nk.

Þess er nú freistað að ljúka samningum með undirritun 12. júní nk. ef samkomulag næst um sérmál. Gangi það eftir verður nýr kjarasamningur undirritaður þann 12. júní og fer þá til félaganna til kynningar og afgreiðslu.

Nánari upplýsingar verða settar hér inn á heimasíðuna um leið og þær berast.

07
Jun

Sjómenn, til hamingju með daginn!

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag um allt land. Í hátíðarguðþjónustu í Akraneskirkju í morgun hlaut Hallgrímur Þór Hallgrímsson heiðursmerki fyrir vel unnin störf, en Hallgrímur sinnti sjómennsku allan sinn starfsaldur.

Að aflokinni guðsþjónustu var haldið að Akratorgi þar sem blómsveigur var lagður að minnismerki sem þar stendur um týnda sjómenn. Frekari upplýsingar um dagskrá sjómannadagsins á Akranesi má finna hér.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness færa sjómönnum landsins og fjölskyldum þeirra innilegar hamingjuóskir í tilefni sjómannadagsins.

05
Jun

Sjómannadagurinn 2015 - Sjómenn færa leikskólabörnum harðfisk

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt á sunnudaginn og af því tilefni fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness í morgun. Þar voru á ferðinni þeir Kristófer Jónsson, formaður sjómannadeildar og Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA sem heimsóttu alla leikskóla bæjarins og færðu yfir 400 börnum harðfisk. Hægt er að skoða myndir hér..

Í ár var ákveðið að Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður stæðu saman að dagskrá á sjálfan sjómannadaginn og verður hún á þessa leið:

Kl. 10 - Athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn í kirkjugarðinum

Kl. 11Sjómannadagsmessa. Blómsveigur lagður að sjómanninum á Akratorgi að lokinni athöfn.
Kl. 11 - Sjósund með Sjósundsfélaginu. Farið frá Jaðarsbakkalaug niður að sjó. Nýliðar sérstaklega velkomnir. Konfekt í potti að sundi loknu.
Kl. 12 - Skökkin við Akratorg og Garðakaffi á Safnasvæðinu verða með sjávarréttaþema í hádeginu.
Kl. 12 - Sundfélag Akraness heldur stakkasundkeppni í Jaðarsbakkalaug. Keppnin stendur til kl. 14, allir geta tekið þátt. Skráning og stakkar á staðnum. 
Kl. 13 - Eldsmiðakeppni á Safnasvæðinu. Keppnin stendur til kl. 16 og allir hjartanlega velkomnir að fylgjast með. 
Kl. 13:30 - Kaffisala í Jónsbúð á vegum Slysavarnafélagsins Líf. Opið til kl. 16:30 og allir hjartanlega velkomnir. 

Kl. 13:30 - Fiskmarkaður Íslands opnar fyrir almenning. Úrval fiska til sýnis!
Kl. 14 - Andlitsmálun í boði Verkalýðsfélags Akraness og Akraneskaupstaðar í Jónsbúð. Allir krakkar velkomnir!
Kl. 14 - Sirkus Íslands gefur blöðrur fyrir utan Jónsbúð í skemmtilegum útfærslum. Þau verða á staðnum til kl. 16.
Kl. 15 - Keppni í sjómanni í Jónsbúð undir styrkri stjórn Ólafs Adolfssonar. Verðlaun veitt fyrir ,,Sjómanninn 2015".
Kl. 16 - Bíósýning í Bíóhöllinni. Akraneskaupstaður og Verkalýðsfélag Akraness bjóða á myndina Pitch Perfect 2. Athugið, takmarkað sætapláss.

05
Jun

Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur til hafnar

Í dag kl. 16 kom til hafnar á Akranesi nýr Bjarni Ólafsson AK. Nýja skipið var keypt frá Noregi en Bjarni Ólafsson eldri var hinsvegar seldur til Rússlands. Sá eldri hafði reynst gríðarlega vel og í gegnum tíðina verið afar fengsæll.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness var viðstaddur komu skipsins og færði eigendum og áhöfn blómvönd í tilefni af þessum merku tímamótum. Er það einlæg von félagsins að hinn nýkomni Bjarni Ólafsson AK verði jafn fengsæll og forveri hans.  

04
Jun

Nokkuð góður árangur VLFA við kjarasamningsgerð

Það er óhætt að segja að mikið annríki hafi ríkt við gerð kjarasamninga á síðustu mánuðum. Hinsvegar er það mjög ánægjulegt að Verkalýðsfélag Akraness hefur náð einstaklega góðum árangri í mörgum samningum sem félagið hefur gert á liðnum misserum og nægir að nefna eftirfarandi samninga og samkomulög:

  •  Gerður var tímamótasamningur við Norðurál þar sem launahækkanir voru í fyrsta skipti tengdar hækkun launavísitölu en því til viðbótar hækka laun starfsmanna á 1. ári um rúm 10% auk þess sem hver starfsmaður fékk 300.000 kr. eingreiðslu. Eftir samninginn eru heildarlaun byrjanda í vaktavinnu hjá Norðuráli með öllu 500.000 kr. en á bakvið þá upphæð eru 182 vinnustundir á mánuði.
  • Gerður var kjarasamningur við verktakafyrirtækið Snók þar sem laun starfsmanna hækkuðu um 70-80.000 kr. á mánuði ásamt því að orlofs- og desemberuppbætur hækkuðu um rúmar 200.000 kr. á ári og einnig voru réttindi starfsmanna færð til samræmis kjarasamnings Elkem Ísland.
  • Gerður var bónussamningur við HB Granda sem tryggði fiskvinnslufólki launahækkun frá 26.000 upp í 51.000 kr. og með nýgerðum kjarasamningi er fiskvinnslufólkið hjá HB Granda, sem er uppundir 50% af félagsmönnum VLFA á hinum almenna vinnumarkaði, að hækka frá rúmum 50.000 kr. upp í allt að 88.000 kr. á mánuði frá og með 1. maí síðastliðnum.
  • Gerður var samningur við Faxaflóahafnir fyrir gæslumenn sem starfa á Grundartangasvæðinu og voru laun þeirra að hækka frá 106 þúsund krónum á mánuði upp í allt að 140.000 kr. frá og með 1. maí síðastliðnum.
  • Gerð voru 14 samkomulög við hin ýmsu fyrirtæki á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness sem tryggðu öllum hækkun sem nam um 35.000 kr. á mánuði og voru þessi samkomulög gerð til að forða fyrirtækjum frá þeim verkfallsaðgerðum sem félagið hafði boðað til.
  • Kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði er að gefa íslensku verkafólki sem starfar eftir taxtakerfinu eina bestu hækkun sem um hefur verið samið um alllanga hríð enda eru launataxtar að hækka að meðaltali um uppundir 27.000 kr. á mánuði en slík krónutöluhækkun hefur ekki náðst í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði um áratugaskeið.
  • Starfsmenn Síldarbræðslunnar munu fá launahækkun sem gildir frá 1. maí upp á 12,86%.

Á þessu sést að árangur Verkalýðsfélags Akraness í kjarasamningsmálum á liðnum misserum hefur verið mjög góður þó það sé alltaf þannig að menn vilji gera mun betur því kjarabarátta er einu sinni þannig að henni lýkur aldrei. Það er alltaf hægt að bæta kjör og réttindi félagsmanna enda er það hlutverk stéttarfélaga að tryggja sínum félagsmönnum góð réttindi og kjör og verja atvinnuöryggi þeirra.

02
Jun

Iðnaðarmenn sem starfa eftir kjarasamningi Samiðnar við SA samþykkja verkfall

Deildaskipt félag eins og Verkalýðsfélag Akraness á aðild að fjölmörgum kjarasamningum og eru flestir þeirra lausir um þessar mundir. Fyrir helgi var samið við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á almennum vinnumarkaði, en félagsmenn sem starfa eftir þeim samningi þurftu að beita verkfallsvopninu í apríl og maí til að knýja á um að eitthvað þokaðist í samningsátt. Sá samningur verður kynntur á næstunni og síðan borinn undir atkvæði félagsmanna.

Þeir iðnaðarmenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness hafa einnig setið við samningaborðið síðustu misseri, en upp úr viðræðum slitnaði í byrjun maí. Samstarf er um endurnýjun þess kjarasamning og fer Samiðn með samningsumboðið fyrir hönd VLFA, en VLFA á fulltrúa í samninganefndinni. Í gær lauk kosningu meðal iðnaðarmanna um heimild til verkfallsboðunar. Kosningarnar náðu til 10.499 félagsmanna í 25 stéttarfélögum og var kosningaþátttakan 44,6%. Kosið var um hvort boða ætti til tímabundins verkfalls sem hefst kl. 00:00 þann 10. júní og stendur til kl. 24:00 þann 16. júní nk. Þann 24. ágúst kl. 00:00 hefst síðan ótímabundið verkfall. Já sögðu 75,1%. Nei sögðu 22,1%. Þeir sem ekki tóku afstöðu voru 2,8%.

Heimild til verkfallsboðunar var því samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og náist ekki ásættanlegur árangur í viðræðum við atvinnurekendur á næstu dögum koma framangreind verkföll til framkvæmda. Athugið að þessi verkfallsboðun nær aðeins til iðnaðarmanna sem starfa eftir kjarasamningi Samiðnar við Samtök atvinnulífsins, en gildir ekki fyrir starfsmenn ríkis, sveitarfélaga eða stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga, þar gilda aðrir kjarasamningar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image