• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Sep

Kynning fyrir nemendur um réttindi og skyldur

Í dag mun formaður félagsins kynna fyrir nemendum við Fjölbrautaskóla Vesturlands hin ýmsu atriði er lúta að réttindum og skyldum á hinum íslenska vinnumarkaði. Einnig mun formaðurinn fara yfir alla þá margvíslegu þjónustu sem félagið veitir félagsmönnum sínum en gríðarlega mikilvægt er að unga fólkið sé vel upplýst um réttindi sín og fyrir hvað stéttarfélögin standa.

Það liggur fyrir að leikurinn á milli launamannsins og vinnuveitandans getur oft á tíðum verið afar ójafn þegar kemur að hinum margvíslegu kjarasamningsbrotum og því getur það skipt sköpum fyrir launafólk að vera aðili að öflugu stéttarfélagi. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness  innheimt fyrir félagsmenn sína yfir 300 milljónir vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota á 15 árum. En á þessum tölum sést hversu gríðarlega mikilvægt það er að vera aðili að góðu og sterku stéttarfélagi.

Þessi kynning fyrir nemendur er einn liður í því að fræða og upplýsa þá um réttindi þeirra og þá þjónustu sem félagið veitir félagsmönnum sínum.  Síðar í þessari viku verður formaður síðan með kynningu vegna fiskvinnslunámskeiðs þar sem farið er mjög ítarlega yfir öll réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.

08
Sep

Íbúðir til leigu á Akureyri - hentugar fyrir skólafólk

Til leigu eru tvær íbúðir VLFA í Furulundi á Akureyri, fullbúnar húsgögnum og borðbúnaði. Leigutímabil er frá september 2015 til maí 2016 og henta þær því vel skólafólki eða öðrum sem þurfa tímabundið húsnæði á Akureyri. Tvö svefnherbergi, þvottavél á baði. Upplýsingar í síma 4309900 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

04
Sep

Dagsferð heldri deildar VLFA

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness félagsmönnum sínum 70 ára og eldri ásamt mökum í dagsferð um Reykjanes. Slíkar dagsferðir eru farnar árlega og eru ómissandi þáttur í starfsemi félagsins. Yfir 100 manns skráðu sig í ferðina í ár og eins og oft áður var leiðsögumaður í ferðinni Björn Ingi Finsen.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og verður ferðasagan sögð hér á heimasíðunni um leið og ritun hennar lýkur. Myndir úr ferðinni eru hins vegar komnar á sinn stað hér á heimasíðunni og er hægt að skoða þær með því að smella hér.

25
Aug

Orlofshús í Kjós laust 28. ágúst

Vegna forfalla er orlofshús félagsins í Kjós laust vikuna 28. ágúst til 4. september. Hægt er að bóka á skrifstofu félagsins, með tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 4309900.

19
Aug

Tryggja verður kjör í stóriðjum

GrundartangasvæðiðGrundartangasvæðiðEins og fram hefur komið í fréttum hafa stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Alcan í Straumsvík átt í harðvítugri kjaradeilu við eigendur fyrirtækisins en ein af kröfum eigenda fyrirtækisins er að fá að stórauka verktakavæðingu inni á svæðinu sem nemur allt að 100 störfum. Rétt er að geta þess að VLFA á ekki aðild að þessum kjarasamningi en fá stéttarfélög á Íslandi hafa fleiri félagsmenn sem starfa í stóriðjum heldur en Verkalýðsfélag Akraness. Á þeirri forsendu fylgist félagið grannt með því sem gerist í Straumsvík en það liggur fyrir að forsvarsmenn Alcan vilja auka verktöku inni á svæðinu með það að markmiði að ná niður rekstrarkostnaði með því að láta verktakana taka laun eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. Eins og allir vita þá eru kjör og réttindi í stóriðjum umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.

Sem betur fer hefur Verkalýðsfélag Akraness ekki þurft að hafa áhyggjur af þessu því í fyrsta lagi er ekki mikið um að verktakar sinni daglegum störfum í stóriðjunum á Grundartanga og í öðru lagi að í þeim tilfellum sem verktakar sinna daglegum störfum þá hefur VLFA gengið frá því að laun og réttindi séu þau sömu og kveðið er á um í stóriðjusamningunum. Nægir að nefna í þessu samhengi að VLFA gerði fyrir nokkrum mánuðum síðan kjarasamning við verktakafyrirtækið Snók þar sem öll laun og kjör kjarasamnings Elkem gilda fyrir starfsmenn Snóks. Þetta gerir það að verkum að VLFA gerir engar athugasemdir þegar Snókur sækir um verkefni inni á Grundartangasvæðinu vegna þeirrar staðreyndar að starfsmenn njóta sömu kjara og gilda inni á stóriðjusvæðinu.

Þetta er grundvallaratriðið þegar talað er um að auka verktakavæðingu. Það er að starfsmenn verktakafyrirtækisins njóti þeirra kjara og réttinda sem gilda í stóriðjunum en ekki kjara sem gilda á hinum almenna vinnumarkaði því í sumum tilfellum eru himinn og haf á milli launa og annarra réttinda. Félagið hefur átt í góðu samstarfi við verktakafyrirtækið Snók og sem dæmi þá eru grunnlaun þeirra sem hafa starfað hvað lengst hjá fyrirtækinu komin yfir 300.000 kr. á mánuði sem eru nákvæmlega sömu grunnlaun og hjá framleiðslumönnum Elkem Ísland.

Á þeirri forsendu þurfa stéttarfélögin að standa fast í lappirnar og tryggja að eigendum Alcan takist ekki að mylja undan þeim ávinningi sem náðst hefur í gerð stóriðjusamninga með því að verktakavæða fjölda starfa og krefjast þess að kjör á hinum almenna vinnumarkaði gildi þar. Það er allavega hægt að láta aukningu á verktakavæðingu átölulausa ef tryggt er að öll réttindi sem gilda í kjarasamningum stóriðjufyrirtækja haldi sér. Um það snýst þessi hagsmunabarátta og því verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum að kjör í stóriðjum verði ekki skert.

12
Aug

Lagfæra verður kjör starfsmanna sveitafélaganna

Kjör ófaglærðra til skammar hjá sveitafélögunumKjör ófaglærðra til skammar hjá sveitafélögunumÁ mánudaginn var átti Verkalýðsfélag Akraness sinn fyrsta samningafund með launanefnd sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem starfa hjá Akraneskaupstað en kjarasamningurinn við Akraneskaupstað rann út 1. maí síðastliðinn.  Á fundinum sem haldinn var í húskynnum ríkissáttasemjara lagði formaður fram kröfugerð félagsins sem byggist á því að dagvinnulaun starfsmanna sveitafélaga verði lagfærð svo um munar í komandi kjarasamningum.

Það er morgunljóst að dagvinnulaun hjá sveitarfélögunum eru alltof lág og léleg og það er langt í frá að þau nái þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.  Það er líka rétt að geta þess að jafnan hafa starfsmenn sveitarfélaga einungis dagvinnulaunin, því auka álagsgreiðslur eins bónusar og aðrar aukagreiðslur þekkjast nánast ekki hjá ófaglærðu starfsfólki sveitarfélaganna.

Öðru máli gegnir hins vegar með stjórnendur, forstöðumenn og aðra sem starfa í ráðhúsum sveitafélaganna, enda er það alþekkt að starfsmenn í efri lögum sveitarfélaganna fá jafnan greidda fasta óunna yfirvinnu, bifreiðastyrki og aðrar slíka aukagreiðslur.

Eins og áður sagði eru laun starfsmanna sveitarfélaga sorglega léleg og sem dæmi þá eru starfsmenn sem hefja störf á leikskóla með laun fyrir fullan mánuð kr. 242.057 og eftir 15 ára starf eru þessi laun komin uppí heilar 261.422 krónur.  Það sér hvert mannsbarn að á slíkum launum er alls ekki hægt að framfleyta sér og sínum.  Starfsmenn á leikskóla eru ekki þeir einu sem starfa á þessum sultarlaunum því sambærileg laun gilda einnig fyrir skólaliða og starfsmenn sundlauga. 

Öll vitum við að gríðarleg ábyrgð fylgir því að sinna og hafa eftirlit með börnunum okkar og ábyrgðin sem hvílir til að mynda á herðum sundlaugavarða er gríðarleg eins og fjölmörg dæmi sína þar sem snarræði sundlaugavarða hefur bjargað mannslífum.  Það er alveg ljóst að þessi ábyrgð og eftirlitsskylda endurspeglast alls ekki í launakjörum þessa fólks. En eins og áður sagði þá eru ekki neinar bónusgreiðslur eða aðrar aukagreiðslur til staðar hjá sveitarfélögunum eins og t.d. hjá fiskvinnslufólki HB Granda sem getur fengið auk sinna grunnlauna bónus allt að 112.664 á mánuði.

Formaður gagnrýndi á þessum samningafundi harðlega starfsmatið sem sveitarfélögin vinna eftir og í kröfugerðinni vill Verkalýðsfélag Akraness að umræða fari fram um starfsmatið, tilgang þess og markmið og hvort það sé að skila árangri.

Eins og áður sagði þá verður að lagfæra kjör starfsmanna sveitarfélaganna umtalsvert í komandi kjarasamningum og taka verður tillit til þess að engar aukagreiðslur eru til staðar hjá sveitarfélögunum eins og þekkjast á hinum almenna vinnumarkaði.  Alla vega gengur það ekki upp að einungis efri lögin hjá sveitarfélögunum fái hinar og þessar aukagreiðslur á meðan engar slíkar greiðslur eru til staðar hjá ófaglærðu starfsfólki sveitarfélaganna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image