• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Nov

Stefnan gegn SALEK hópnum að verða klár

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness ákveðið í samráði við lögmenn félagsins að stefna öllum aðilum SALEK samkomulagsins, sem undirritað var 27. október síðastliðinn. Það er mat félagsins að þetta SALEK samkomulag sé skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaganna enda kemur fram í samkomulaginu að fyrirfram sé búið að ákveða hverjar launabreytingar eigi að vera í þeim frjálsu samningum sem félagið er að gera og á eftir að gera. 

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að á formannafundi ASÍ þann 28. október síðastliðinn kom fram hjá nokkrum formönnum, meðal annars Aðalsteini Baldurssyni formanni Framsýnar á Húsavík, Finnbirni Hermannssyni formanni Byggiðnar og einnig Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni formanni RSÍ, að klárt mál væri að SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins væri skerðing á samningsrétti stéttarfélaganna. Hinsvegar heldur forseti Alþýðusambandsins því fram að samkomulagið innihaldi ekki skerðingu á samningsrétti en það er mat formanns VLFA að þar sé hann að tala gegn betri vitund því flestum ber saman um að hér sé um skerðingu á samningsrétti frjálsra stéttarfélaga að ræða. Hvernig má líka annað vera þegar búið er að ákveða fyrirfram nákvæmlega samkvæmt rammasamkomulaginu sem undirritað var 27. október, hverjar kostnaðarbreytingarnar mega vera? Og ekki bara það heldur kemur skýrt fram í rammasamkomulaginu að allir aðilar að samkomulaginu séu skuldbundnir til að fylgja því eftir í hvívetna. Og því til viðbótar hafa aðilar rammasamkomulagsins skuldbundið sig til að láta það einnig gilda fyrir alla þá sem standa utan samkomulagsins. Hugsið ykkur að það sé búið að skuldbinda aðila sem eru ekki einu sinni aðilar að þessu samkomulagi til að taka þeim launabreytingum sem þessir tilteknu aðilar hafa ákveðið. Að sjálfsögðu getur slíkt ekki staðist frjálsan rétt stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Það liggur líka fyrir að það eru veruleg áhöld um hvaða umboð forseti ASÍ hafði til að ganga frá umræddu rammasamkomulagi því nánast engin lýðræðisleg umræða fór fram hjá aðildarfélögum ASÍ hvað þetta samkomulag varðar, hvað þá kosningar eða annað slíkt. Til dæmis var samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands tilkynnt um að forsetinn væri að fara að undirrita þetta samkomulag nánast 5 mínútum áður en undirskriftin átti að eiga sér stað.

Núna eru lögmenn félagsins að leggja lokahönd á stefnuna en hún verður klár til birtingar á mánudaginn og það er morgunljóst að hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir allt íslenskt launafólk og öll stéttarfélög í landinu enda er með þessu rammasamkomulagi verið að fótum troða frjálsan rétt stéttarfélaganna til kjarasamningsgerðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image