• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Nov

Stefna gegn SALEK samkomulaginu þingfest fyrir Félagsdómi í dag

Í dag kl. 16 verður stefna Verkalýðsfélags Akraness vegna rammasamkomulags sem SALEK hópurinn gerði og meðal annars Samband íslenskra sveitarfélaga tengist, þingfest í Félagsdómi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá telur Verkalýðsfélag Akraness að rammasamkomulagið skerði umtalsvert samningsrétt frjálsra stéttarfélaga og sé því brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni á Verkalýðsfélag Akraness eftir að ganga frá einum samningi í þessari samningslotu en það er kjarasamningur félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna Akraneskaupstaðar.

Þegar formaður mætti á samningafund 4. nóvember var honum tjáð það að Samband íslenskra sveitarfélaga væri algjörlega skuldbundið því sem fram kæmi í rammasamkomulagi sem undirritað var 27. október en í því rammasamkomulagi var kveðið skýrt á um hverjar hámarkslaunahækkanir megi vera til ársins 2018. Eins og áður sagði er það mat félagsins að slíkt brjóti algjörlega í bága við lög um stéttarfélög og vinnudeilur enda getur vart verið um frjálsan samningsrétt að ræða þegar SALEK hópurinn er búinn að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingarnar megi vera.

Við þingfestingu í dag mun lögmaður félagsins óska eftir því að dómarar sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa skipað í Félagsdómi eins og lög kveða á um víki úr sæti einvörðungu vegna þess að bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ eru aðilar að umræddu rammasamkomulagi. Hugsunin á bakvið það að ASÍ og SA skipi sinn fulltrúa í dóminn er sú að skapa jafnvægi á milli hagsmunaaðila þegar um dómsmál á milli launþega og atvinnurekenda er að ræða. En í þessu tilfelli er það Verkalýðsfélag Akraness sem er að stefna Sambandi íslenskra sveitarfélaga en hinsvegar eru ASÍ og Samtök atvinnulífsins hluti af þessu rammasamkomulagi eins og áður sagði og því eðlileg krafa að þeir dómarar víki og skipaðir verði nýir.

Einnig mun lögmaður félagsins fara fram á að fá afhenta fundargerð frá fundinum þann 4. nóvember sem formaður VLFA átti með Sambandi íslenskra sveitarfélaga en á þeim fundi kom skýrt fram að Samband íslenskra sveitarfélaga væri skuldbundið til að fara eftir því sem kveðið væri á um í SALEK samkomulaginu. Og það kom líka fram á þeim fundi hver hámarkslaunahækkunin ætti að vera. En af óskiljanlegum ástæðum þá höfnuðu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögmanni félagsins um að fá aðgang að þessari fundargerð og því er félaginu nauðugur einn sá kostur að láta dómstólinn kalla eftir henni. Enda staðfestir hún með óyggjandi hætti að Samband íslenskra sveitarfélaga telji sig að fullu skuldbundið til að fara eftir því sem fram kemur í umræddu rammasamkomulagi.

Í stefnu félagsins gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga er þess aðallega krafist að viðurkennt verði með dómi að ákvæði rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 sé ólögmætt og óskuldbindandi bæði fyrir Verkalýðsfélag Akraness og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Í stefnunni sem félagið leggur fyrir Félagsdóm í dag segir meðal annars orðrétt:

"Svonefndur SALEK-hópur getur ekki samið með bindandi hætti um réttindi, skyldur og önnur atriði sem þeir hafa ekki umboð til að ráðstafa. Stefnandi hefur umboð til að gera kjarasamning fyrir sína félagsmenn og SALEK-hópurinn hefur ekkert umboð til þess að takmarka þau atriði sem samið verður um í kjarasamningi. Þannig getur SALEK-hópurinn ekki með bindandi hætti ákveðið hvert svigrúm er til kjarasamningsgerðar stefnanda.

SALEK-hópurinn getur ekki með þriðjamannslöggerningi ráðstafað réttindum sem stefnanda er rétt og skylt samkvæmt lögum að semja um við gagnaðila sinn í kjarasamningi. Allar tilraunir SALEK-hópsins til þess að gera samkomulag sín á milli til þess að skuldbinda stefnanda og/eða gagnaðila þess í kjarasamningi eru brot á lögum nr. 80/1938 og lögum nr. 94/1986. Slíkir löggerningar eru þannig ólögmætir."

Já það er ljóst að hagsmunir íslensks verkafólks eru gríðarlegir í þessu máli því í þessu rammasamkomulagi er einnig kveðið á um að sett verði á laggirnar svokallað þjóðhagsráð sem mun hafa það hlutverk eftir árið 2018 að ákvarða hvert svigrúm til launabreytinga megi vera og eins og formaður VLFA skilur þetta þá mun stéttarfélögum á Íslandi vera nánast skylt að fara eftir þeirri niðurstöðu sem þjóðhagsráð kemst að og það liggur fyrir að þessir aðilar hafa talað um að þetta svigrúm sé einungis 2-3,5% á ári.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image