• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Nov

Stefna vegna rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins komin til Félagsdóms

Lögmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa nú lagt fyrir Félagsdóm stefnu á hendur Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem svokallaður SALEK hópur undirritaði. Krafa Verkalýðsfélags Akraness er að viðurkennt verðir fyrir dómi að ákvæði rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 sé dæmt ólögmætt og óskuldbindandi bæði fyrir stefnanda og stefnda við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að þetta rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins þýðir að þeir hafi skuldbundið sig til að semja ekki um hærri kjarabætur heldur en ákveðið hefur verið í samkomulaginu. Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga tilkynntu þegar fundað var hjá ríkissáttasemjara um kjarasamning VLFA vegna starfsmanna hjá Akraneskaupstað að búið væri að ákveða fyrirfram samkvæmt rammasamkomulagi hverjar launahækkanir mættu vera. Nefnt var að svigrúmið frá nóvember 2013 væri 32% og þau tilkynntu einnig að því til frádráttar ættu að koma 11,4% sem og frádráttur upp á 1,5% vegna lífeyrissjóðsmála. Með öðrum orðum, SALEK hópurinn var búinn að ákveða fyrirfram hverjar launahækkanir gætu orðið hjá starfsmönnum Akraneskaupstaðar og er það mat lögmanna Verkalýðsfélags Akraness að slíkt sé brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og sé veruleg skerðing á samningsrétti félagsins enda búið að ákveða fyrirfram hverjar launabreytingarnar mega vera og það af aðilum sem hafa ekkert umboð til að ákveða slíkt.

Frelsi stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna hefur margoft verið staðfest í dómum Félagsdóms og Hæstaréttar. Hæstiréttur sagði til dæmis einu sinni í dómsorði: "Með vísan til viðtekinnar túlkunar á 1. og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans verður að túlka 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur verndi það einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi félaganna er leið að slíku marki og nýtur því sérstakrar verndar." Skýrara verður það ekki frá Hæstarétti Íslands! Því getur það ekki verið að það standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur að aðilar geti gert með sér rammasamkomulag sem ákvarði fyrirfram hverjar launabreytingar geta verið. Með slíku er klárlega verið að fótum troða frjálsan samningsrétt stéttarfélaga.

Það eru þónokkrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni nú þegar búnir að viðurkenna að þeir telji að SALEK samkomulagið sé skerðing á samningsfrelsi stéttarfélaganna. Nægir að nefna í því samhengi að á formannafundi ASÍ 28. október kom fram í máli formanna RSÍ, Byggiðnar og Framsýnar á Húsavík að þeir teldu að umrætt rammasamkomulag væri skerðing á samningsfrelsi. Einnig hefur formaður heyrt haft eftir fyrrverandi formanni Verkamannasambands Íslands að umrætt SALEK samkomulag væri klár skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga. Og fyrrverandi varaforseti ASÍ sagði inni á fésbókarsíðu sambandsins að SALEK samkomulagið væri lúmsk tilraun til að taka lögvarinn samningsrétt af stéttarfélögum.

Í þessu rammasamkomulagi er líka kveðið á um nýtt vinnumarkaðslíkan sem byggist á því að stofnað verði þjóðhagsráð aðila vinnumarkaðarins sem eigi að vega og meta hvert svigrúm til launahækkana er á hverjum tíma fyrir sig og allar líkur eru á því að öllum stéttarfélögum verði skylt að fara eftir því svigrúmi sem umrætt þjóðhagsráð mun ákvarða. Þetta mun hinsvegar ekki taka gildi fyrr en eftir árið 2018 en þetta á eftir að skýrast betur þegar líður að lokum samningstímans. Það er morgunljóst að ef þjóðhagsráð verður sett á laggirnar og það kæmist til dæmis að þeirri niðurstöðu að svigrúmið væri 2,5-3,5% og það ætti að vera það svigrúm sem félögin hefðu til að semja um þá væri slíkt einnig gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Og það er líka morgunljóst að VLFA mun láta á það mál reyna en það er seinni tíma vandamál. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan í þessu máli verður því það er mat félagsins að hér sé um að ræða eitt stærsta hagsmunamál íslensks launafólks því við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum glata þessum lögvarða rétti og gera kjarasamningsgerð á Íslandi miðstýrða. Það myndi leiða til þess að tilvist stéttarfélaganna yrði stefnt í hættu eins og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum enda er stéttarfélagsaðild í Noregi einungis 55% á móti 87% á Íslandi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image