• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
May

Sannleikurinn um tilboð SA

Samtök atvinnulífsins hafa á opinberum vettvangi sagt að það tilboð sem Starfsgreinasambandi Íslands hefur verið gert sé eitt það besta sem samtökin hafi lagt fram síðustu ár, ef ekki áratugi. Eðlilega fáum við spurningar frá okkar félagsmönnum um innihald tilboðsins, í ljósi þeirra frétta sem koma frá Samtökum atvinnulífsins um það hversu æðislegt þetta tilboð sé. Spurningarnar sem félagsmenn spyrja okkur snúa aðallega að því í hverju er þetta tilboð fólgið sem á að vera það besta sem samtökin laga lagt fyrir verkafólk?

Í ljósi þess að SA segir að þetta sé svo gríðarlega frábært tilboð, þá sér VLFA sig nauðbeygt til að upplýsa félagsmenn um það í hverju tilboðið er í raun og veru fólgið. Til upplýsingar, þá liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins hafa boðið verkafólki launahækkanir með eftirfarandi hætti:

- 1. maí 2015 - 6% almenn hækkun 
- 1. maí 2016 - 4,5% hækkun 
- 1. maí 2017 - 3% hækkun

Einnig bjóða samtökin prósentuhækkanir í skiptum fyrir lengingu á dagvinnutímabili og lækkun yfirvinnuprósentu sem er með eftirfarandi hætti:

- Frá 1. maí 2015 verði dagvinnutímabil yrði frá 6 að morgni til 18 að kveldi. Það yrði sem sagt lengt sem nemur tveimur klukkustundum og fyrir þetta kæmi 2% launahækkun til viðbótar áðurnefndum hækkunum. 
- Frá 1. maí 2016 yrði dagvinnutímabilið lengt aftur og yrði frá 6 að morgni til 19 að kveldi og samhliða því yrði yfirvinnuálag lækkað úr 80% niður í 60%. 
- Þann 1. maí 2017 yrði yfirvinnuálagið lækkað enn frekar, eða niður í 50% álag á dagvinnu og samhliða því kæmi þá 2% launahækkun.

En hvað þýðir þetta? Ef við byrjum á almennum launahækkunum, þá myndi lægsti taxti hækka úr 201.317 krónum í 213.396 krónur. Eða sem nemur 12.079 krónum. Árið 2016 kæmu 4,5% og þá myndi lægsti taxti hækka um 9.602 og væri þá kominn upp í 222.998. 1. maí 2017 kæmi 3% hækkun, sem er 6.689 króna hækkun og væri þá lægst taxti komin í 229.689 krónur. Samtals gerir þessi hækkun 28.372 eða 14,09%.

En til að gæta alls sanngirnis, þá eru þeir að bjóða áðurnefndar breytingar á yfirvinnuálagi og dagvinnutímabili og ef þær hækkanir eru teknar með, þá þýðir það að dagvinnulaun myndu á fyrsta ári fara upp í 217.422, en takið eftir að fyrir þessa hækkun kæmi lenging á dagvinnutímabilinu. Síðan árið 2016 kæmu 4%, og þá færi lægsti taxti upp í 235.903 krónur. Fyrir þá hækkun myndi yfirvinnuálagið lækka um 20%, eða niður í 60% af dagvinnukaupi. Og á lokaárinu 2017 kæmi 2% hækkun til viðbótar og þá yrði lægsti taxti kominn upp í 247.698, en þá væri yfirvinnuálagið líka komið niður í 50%. Heildarhækkun lægsta taxta á þessu þriggja ára tímabili væri því rétt rúmar 46 þúsund krónur, en með þessari kvöð sem er fólgið í því að yfirvinnuálag lækkar og dagvinnutímabil lengist umtalsvert. Þetta í raun og veru þýðir það að verkafólk sem er með 35 yfirvinnutíma á mánuði, kemur í raun og veru út á jöfnu þar sem fólk er að kaupa sína launahækkun með breytingu á yfirvinnuálagi og lengingu á dagvinnutímabili. 

Þetta er nú sannleikurinn um hið glæsilega tilboð Samtaka atvinnulífsins og því miður er alls ekki hægt á þessum grunni að ganga. En ugglaust er hægt að þróa og slípa til þá agnúa sem á þessu tilboði eru. En það er morgunljóst að frá samningsborðinu verður ekki staðið upp ef lágmarkslaun ná ekki 300.000 innan þriggja ára. Að sjálfsögðu má vel skoða aðkomu stjórnvalda til að liðka til við samningsgerðina, meðal annars með hækkun persónuafsláttar sem klárlega kemur þeim tekjulægstu hvað best. En að halda því fram að þetta tilboð sé ígildi 23% launahækkunar er glórulaus blekking, enda liggur fyrir að verkafólk á landsbyggðinni er að meðaltali með tæpa 11 fasta yfirvinnutíma á mánuði og bara það eitt og sér leiðir það af sér að hluti af þeirri hækkun sem boðin er, er verkafólk að kaupa sjálft.

07
May

Verkalýðsfélag Akraness semur við Faxaflóahafnir vegna hafnargæslumanna

Verkalýðsfélag Akraness gekk frá samningi við Faxaflóahafnir í fyrradag vegna hafnargæslumanna á Grundartanga. Samningurinn var aðallega fólginn í því að þeir starfsmenn sem sjá um hafnargæslu á Grundartangasvæðinu færðust frá Securitas sem sá um þessa gæslu og yfir til Faxaflóahafna en Securitas var undirverktaki hjá Faxaflóahöfnum og sá um gæsluna. Nú eru þessir hafnargæslumenn orðnir starfsmenn Faxaflóahafna eins og áður sagði. 

Formaður félagsins er afar ánægður með þennan samning og þá staðreynd að starfsmennirnir tilheyri núna Faxaflóahöfnum. Það er ljóst að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert marga góða samninga í gegnum tíðina en þessi samningur er einn af þeim eftirminnilegri sem félagið hefur gert enda nokkuð innihaldsríkur fyrir á sem eiga hlut að máli og það er jú það sem skiptir máli.

Umræddir hafnargæslumenn eru í raun og veru hjartað á  Grundartangasvæðinu því allt hráefni sem kemur frá verksmiðjunum og aðföng fara í gegnum þetta hlið og skráningar og því töldu forsvarsmenn Faxaflóahafna mikilvægt að engir hnökrar mættu verða á þessari starfsemi og vildu því yfirtaka starfsemina. Slíkt voru allir aðilar, bæði stéttarfélagið og starfsmenn, mjög ánægðir með.   

07
May

VLFA hefur gert á annan tug samninga við atvinnurekendur

Annar dagur allsherjarverkfalls stendur nú sem hæst á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness sem og annarra aðildarfélaga SGS á landsbyggðinni. Heilt yfir hefur verkfallið gengið vel fyrir sig þó nokkur dæmi séu um verkfallsbrot og eitt af þeim er að vegna tungumálaörðugleika var einn af leikskólum bæjarins ræstur fyrir misskilning en það er ræstingarfyrirtækið Hreint ehf sem um ræðir þar. Ábyrgðin liggur algjörlega hjá atvinnurekandanum að upplýsa sína erlendu starfsmenn um hvað er í gangi á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir. Ræstingarfyrirtækið Hreint ehf. hefur fengið lokaaðvörun um að virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði þegar um verkföll er að ræða og sjá til þess að slíkt komi ekki fyrir aftur.  

Það ánægjulega í þessu er að fjöldi atvinnurekenda hefur komið á skrifstofu félagsins og óskað eftir því að ganga frá samningi þar sem farið verður í hvívetna eftir þeirri kröfugerð sem fyrir liggur fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. Félagið hefur gert á annan tug slíkra samninga en í öllum tilfellum er um fyrirtæki að ræða sem ekki eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Félagið vill virða þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og hefur því bent þeim fyrirtækjum sem eru innan SA og hafa óskað eftir að ganga frá samningi um að sækja um leyfi hjá samtökunum og þrýsta á Samtök atvinnulífsins að ganga frá kjarasamningum á grundvelli þeirrar kröfugerðar sem fyrir liggur. Allir eiga þessir aðilar það sammerkt að finnast kröfugerð okkar sanngjörn, réttlát og eðlileg og segjast hafa fulla burði til að hækka laun sinna starfsmanna um sem nemur um 33.000-35.000 kr. á mánuði. 

Formaður situr í samningaráði SGS en næsti fundur hefur verið boðaður á morgun kl. 13:30 í húsakynnum ríkissáttasemjara. Því miður er fátt sem bendir til þess að það dragi til stórra tíðinda á þeim fundi. En það er mikilvægt að Samtök atvinnulifsins fari að nálgast þetta viðfangsefni af skynsemi og raunsæi og gangi frá kjarasamningi sem tryggir að lágmarkslaun verði orðin 300.000 kr. innan þriggja ára svo það sé möguleiki hjá íslensku verkafólki að geta haldið mannlegri reisn á sínum launum.

06
May

Fréttir af verkfalli

Nú hefur önnur lota verkfalls staðið yfir í 16 tíma og er áhrifa farið að gæta víða um félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness. Að sjálfsögðu bitnar þetta harkalega á ákveðnum atvinnugreinum, en vel á þriðja hundrað manns sem starfa hjá fiskvinnslufyrirtækjum vítt og breitt um bæinn hafa lagt niður störf. Sorphirðumenn hafa einnig lagt niður störf, svo og starfsmenn í mötuneyti Elkem Ísland á Grundartanga. Lokað er í öllum sjoppum og bensínafgreiðslustöðvum þar sem starfa félagsmenn VLFA. 

Ræstingar á leikskólum, bókasafni og fleiri stofnunum Akraneskaupstaðar liggja niðri vegna verkfallsins, sem gerir það að verkum að leikskólarnir verða lokaðir á föstudaginn þar sem ekki hefur verið ræst þar í tvo sólarhringa. Eðli málsins samkvæmt mun það hafa í för með sér erfiðleika fyrir foreldra að ekki verði hægt að koma börnunum fyrir á leikskólum. Innanbæjarstrætó gengur hvorki í dag né á morgun og heimaþjónusta Akraneskaupstaðar er skert. Ekki má gleyma verkfalli starfsmanna Spalar í gjaldskýli Hvalfjarðarganga. Það jákvæða í því er þó að vegfarendur fá frítt í göngin á meðan á verkfalli stendur.

Heilt yfir hafa atvinnurekendur virt verkfallið og sárafáar tilkynningar borist um verkfallsbrot, en félagið hvetur almenning til að hafa samband við skrifstofu félagsins ef það telur að verið sé að brjóta á lögvörðum rétti verkafólks í þessu verkfalli með því að láta það vinna eða ef verið er að ganga í störf verkafólks.

Skipulag aðgerða framundan er með þessum hætti:

6. maí 2015 - Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí) 

7. maí 2015 - Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí) 

19. maí 2015 - Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí) 

20. maí 2015 - Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí) 

26. maí 2015 - Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015

06
May

Endurúthlutun lokið - Hægt að bóka lausar vikur núna

Endurúthlutun er nú lokið, og er nú hægt að bóka sér viku af þeim sem eftir eru, annað hvort á Félagavefnum eða á skrifstofu félagsins. Lausar vikur eru flestar í byrjun júní og í lok ágúst, ekkert er laust í júlí. Fyrstur kemur fyrstur fær.

Í endurúthlutuninni í morgun urðu til 40 nýjar bókanir á félagsmenn sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun. Þeir sjá núna bókun inni á Félagavefnum (undir Orlofshús og Bókunarsaga) og geta greitt bókunina þar eða á skrifstofu félagsins. Eindagi er 13. maí.

Þann 14. maí verða ógreiddar bókanir felldar niður og geta þá aðrir félagsmenn bókað þær sýnist þeim svo.

05
May

Verkafólki boðið 28.000 á sama tíma og flugstjórar fengu 310.000!

Formaður félagsins, sem jafnframt situr í aðalsamningaráði Starfsgreinasambands Íslands, sat í morgun fund með Samtökum atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings SGS við SA. Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var algjörlega árangurslaus og næsti fundur hefur verið boðaður á föstudag. Því er ljóst að verkfall mun skella á á miðnætti og standa yfir næstu tvo sólarhringa.

Ljóst er að mikið ber á milli deiluaðila, en það sem hleypti illu blóði í okkur hjá SGS var bréf sem Samtök atvinnulífsins sendu til aðildarfyrirtækja sinna þar sem því var haldið fram að tilboð SA hljóðaði upp á 20% launahækkun og slíkri hækkun hefði verið hafnað af okkar hálfu. Þessu var að sjálfsögðu mótmælt harðlega vegna þess að í fyrirliggjandi tilboði SA liggur fyrir að í þriggja ára samningi er íslensku verkafólki boðin 28.000 króna hækkun og því til viðbótar var því boðið að breyta yfirvinnuálagi og lengja dagvinnutímabil. En eins og uppsetningin á tilboðinu var, þá liggur fyrir að verkafólk átti sjálft að greiða hlut af sinni launahækkun. Á þeirri forsendu var því komið rækilega á framfæri við forsvarsmenn SA að slíku væri algerlega hafnað.

Á fundinum í dag sagði formaður VLFA Þorsteini Víglundssyni, forstjóra Samtaka atvinnulífsins, að það væri dapurlegt að bjóða íslensku verkafólki 28.000 króna launahækkun á þremur árum, í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að Samtök atvinnulífsins hafi þann 9. desember síðastliðinn samið við flugstjóra um launahækkanir sem námu hvorki meira né minna en 310.000 krónur sem verður komin að fullu innan tveggja ára. Að hugsa sér að barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir því að lágmarkslaun verði 300.000 innan þriggja ára nemi lægri upphæð en flugstjórar fengu í launahækkun nánast á einu bretti.

Hvurslags hræsni er það að öskra hátt og skýrt á íslenskt verkafólk, að það þurfi að sýna ábyrgð og gæta hófsemi, á sama tíma og formaður Samtaka atvinnulífsins, sem jafnframt er forstjóri Icelandair Group, semur við hluta af sínu starfsfólki upp á 310.000 kr. launahækkun á mánuði? Reyndar hefur hann blessaður þrætt fyrir þetta eins og sönnum sprúttsala sæmir, en nú hefur formaður VLFA samninginn og launatöflur undir höndum sem sýna þessa hækkun svo ekki verður um villst. Fulltrúa SA reyndu ekki að þræta fyrir þennan samning á fundinum í dag, enda er slíkt ekki hægt þar sem sönnunin er nú komin upp á yfirborðið. Þessi samningur flugstjóra gefur 23,6%, og má lesa hann með því að smella hér.

Þetta gerir ekkert annað en að hleypa illu blóði í okkar fólk, því að misréttið og misskiptingin í íslensku samfélagi ríður ekki við einteyming. Þetta dæmi sýnir reyndar líka hvernig prósenturnar sem leggjast ofan á mjög há laun, eins og í þessu tilfelli flugstjóra, gefa gríðarlega háa krónutölu, svo háa að hún er hærri en krafa SGS um að dagvinnulaun verði orðin 300.000 innan þriggja ára.

Það er morgunljóst að deilan er í gríðarlegum hnút og það er ábyrgðarhlutur hjá Samtökum atvinnulífsins að fara að reyna að átta sig á þessari stöðu, að við verðum að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi þannig að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. En slíku er ekki til að dreifa í dag. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image